30.10.2007

Forsetar þjóðþinga Norðurlanda funda í Ósló

Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, sótti 30. október fund norrænna þingforseta sem haldinn er í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Ósló. Á fundi sínum ræddu forsetar starfshætti og stjórnskipulag hinna norrænu þjóðþinga og samstarf þeirra á milli. Jafnframt ræddu þingforsetar ýmis sameiginleg verkefni hinna norrænu þjóðþinga og forseta þeirra. Ferð forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja til Georgíu, sem farin var í september síðastliðinn, kom til umræðu og ræddu þingforsetar um hvernig megi fylgja eftir því starfi sem þar var unnið og miðaði að því að styðja við lýðræðisþróunina í landinu.

Forsetar_Oslo

Hér að ofan má sjá, frá vinstri, Sauli Niinistö, forseta finnska þjóðþingsins, Per Westerberg, forseta sænska þjóðþingsins, Thorbjørn Jagland, forseta norska þjóðþingsins, Sturlu Böðvarsson, forseta Alþingis, og Christian Mejdahl, forseta danska þjóðþingsins.

Síðar í dag mun forseti Alþingis vera viðstaddur setningu 59. Norðurlandaráðsþings og í kvöld verður fundur forseta þjóðþinga Norðurlanda með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þar mun forsætisnefndin gera grein fyrir starfsáætlun næsta árs og fjárhagsáætlun ársins 2009. Þessir fundir eru samskiptavettvangur þjóðþinga og Norðurlandaráðs, þar sem farið er yfir áherslumál og gefst tækifæri til að fara yfir þau mál sem hæst ber hverju sinni.