Einar Arnórsson

Einar Arnórsson

Þingseta

Alþingismaður Árnesinga 1914–1919 (Sjálfstæðisflokkurinn eldri, Sjálfstæðisflokkurinn langsum), alþingismaður Reykvíkinga 1931–1932 (Sjálfstæðisflokkur).

Ráðherra Íslands 1915–1917, dóms- og menntamálaráðherra 1942–1944.

Minningarorð

Æviágrip

Fæddur á Minna-Mosfelli í Grímsnesi 24. febrúar 1880, dáinn 29. mars 1955. Foreldrar: Arnór Jónsson (fæddur 25. júlí 1839, dáinn 14. febrúar 1926) bóndi þar og kona hans Guðrún Þorgilsdóttir (fædd 15. maí 1837, dáin 16. apríl 1897) húsmóðir. Maki (5. október 1907): Sigríður Þorláksdóttir Johnson (fædd 22. mars 1877, dáin 11. ágúst 1960) húsmóðir. Foreldrar: Þorlákur Ó. Johnson, sonur Ólafs Johnsens þjóðfundarmanns, og Ingibjörg Bjarnadóttir Johnson. Börn: Ingibjörg (1908), Guðrún (1909), Áslaug (1911), Ásgerður (1913), Hrafnhildur (1915), Logi (1917).

Stúdentspróf Lsk. 1901. Lagði fyrst stund á norræna málfræði við Hafnarháskóla, en hvarf frá því. Lögfræðipróf Hafnarháskóla 1906. Yfirréttarmálaflutningsmaður 1907. Heiðursdoktor í lögum Háskóla Íslands 1936. Hrl. 1945.

Ritstjóri Fjallkonunnar 1907. Kennari við Lagaskólann í Reykjavík 1908–1911. Prófessor í lögum við Háskóla Íslands 1911–1915. Skipaður 4. maí 1915 ráðherra Íslands, lausn 4. janúar 1917. Varð þá að nýju prófessor í lögum og gegndi því embætti til 1932, enda þótt hann fengi lausn í október 1919 og væri stjórnmálaritstjóri Morgunblaðsins og Ísafoldar veturinn 1919–1920. Rektor Háskóla Íslands 1918–1919 og 1929–1930. Jafnframt var hann skattstjóri í Reykjavík 1922–1928 og formaður niðurjöfnunarnefndar, sat í nefndinni til 1932. Hæstaréttardómari 1932–1942. Skipaður 16. desember 1942 dóms- og menntamálaráðherra, lausn 16. september 1944, en falið að gegna störfum áfram um stundarsakir, fékk lausn 21. september. Hæstaréttardómari 1944–1945.

Kosinn í velferðarnefnd 1914. Átti sæti í fullveldisnefnd Alþingis 1917–1918. Átti og sæti í sambandslaganefnd 1918 og síðan dansk-íslenskri ráðgjafarnefnd til 1934. Skipaður 1927 í matsnefnd á Landsbankann. Vann 1925 ásamt Hannesi Þorsteinssyni að rannsókn íslenskra skjala í ríkisskjalasafni Dana og samningum um afhendingu þeirra til Íslands. Í bæjarstjórn Reykjavíkur 1930–1932. Skipaður 1934 í nefnd til þess að undirbúa nýja réttarfarslöggjöf. Forseti Sögufélagsins 1935–1955. Átti sæti í Árnasafnsnefnd 1936–1942.

Alþingismaður Árnesinga 1914–1919 (Sjálfstæðisflokkurinn eldri, Sjálfstæðisflokkurinn langsum), alþingismaður Reykvíkinga 1931–1932 (Sjálfstæðisflokkur).

Ráðherra Íslands 1915–1917, dóms- og menntamálaráðherra 1942–1944.

Afkastamikill rithöfundur og samdi fjölda rita og greina um lögfræði, sögu Íslendinga o. fl. Heiti nokkurra bókanna eru: Réttarstaða Íslands. Meðferð opinberra mála. Þjóðréttarsamband Íslands og Danmerkur. Réttarsaga Alþingis. Þjóðabandalagið. Alþingi og frelsisbaráttan 1845–1874. Árnesþing á landnáms- og söguöld. Annaðist útgáfu Alþingisbóka og fleiri merkra heimildarrita um íslensk lög og dóma o. fl.

Ritstjóri: Fjallkonan (1907). Ísafold (1919–1920). Morgunblaðið (1919–1920). Skírnir (1930). Blanda (1936–1939). Saga (1950–1954). Tímarit lögfræðinga (1951–1953).

Æviágripi síðast breytt 13. apríl 2015.

Áskriftir