Jónína Rós Guðmundsdóttir

Jónína Rós Guðmundsdóttir

Þingseta

Alþingismaður Norðausturkjördæmis 2009–2013 (Samfylkingin).

Æviágrip

Fædd í Hafnarfirði 6. júlí 1958. Foreldrar: Guðmundur Guðmundsson (fæddur 5. júní 1930, dáinn 21. mars 1984) kaupmaður og Anna Helene Christensen (fædd 29. apríl 1935) verslunarmaður og starfsstúlka á Sólvangi. Maki (28. desember 1985): Bergur Jónsson (fæddur 17. október 1960) hrossaræktandi, tamningamaður og reiðkennari. Þau skildu. Foreldrar: Jón Bergsson og Elsa Guðbjörg Þorsteinsdóttir. Börn: Guðbjörg Anna (1984), Guðmundur Þorsteinn (1988), Berglind Rós (1995). Stjúpsonur, sonur Bergs: Jón Matthías (1980).

Stúdentspróf Flensborg 1978. B.Ed.-próf KHÍ 1982. BA-próf í sérkennslufræðum KHÍ 1993.

Vann í sumarbúðum KFUM og KFUK á mennta- og háskólaárum og einnig við verslunarstörf á sumrin og með námi. Kennari við Hallormsstaðaskóla 1982–2001. Kennari við Menntaskólann á Egilsstöðum 2001–2009.

Í barnaverndarnefnd Héraðs og Borgarfjarðar eystri 1994–1998. Í stjórn Soroptimistaklúbbs Austurlands 2004–2006. Formaður Samfylkingarfélags Héraðs og Borgarfjarðar 2004–2006. Í fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs 2004–2006. Í stjórn kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi 2005–2008. Í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs 2006–2009. Formaður skipulags- og bygginganefndar Fljótsdalshéraðs 2006. Formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs 2007–2009. Formaður svæðisráðs um málefni fatlaðra 2007–2010. Í Umferðarráði frá 2008. Formaður Fjárafls, atvinnu- og þróunarsjóðs Fljótsdalshéraðs, 2006–2009. Formaður stjórnar Vísindagarðsins ehf., Egilsstöðum, 2008–2010. Formaður samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks frá 2011.

Alþingismaður Norðausturkjördæmis 2009–2013 (Samfylkingin).

Iðnaðarnefnd 2009–2010, menntamálanefnd 2009–2010 og 2010–2011, viðskiptanefnd 2009–2010, félags- og tryggingamálanefnd 2010–2011, heilbrigðisnefnd 2010–2011, saksóknarnefnd 2010–2012, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2011–2012, velferðarnefnd 2011–2013, allsherjar- og menntamálanefnd 2012, atvinnuveganefnd 2012–2013.

Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA 2009–2011, Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál 2011–2013, Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2012–2013.

Æviágripi síðast breytt 2. febrúar 2015.

Áskriftir