Undirbúningur undir ársfund Vestnorræna ráðsins

(1708012)
Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins

Nefndarfundir

Dagsetning Fundur Bókun
18.08.2017 8. fundur Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins Undirbúningur undir ársfund Vestnorræna ráðsins
Formaður stýrði fundinum gegnum síma.
Einnig var viðstödd Inga Dóra Markussen framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins.

Fundargerðir síðustu tveggja funda voru lagðar fyrir og samþykktar og ræddar voru ályktanirnar þrjár sem landsdeildirnar leggja fyrir ársfundinn.

Ekki náðist að fara yfir öll umræðuefnin eins og stefnt hafði verið að heldur ákveðið að halda annan fund í lok þessarar viku. Á þeim fundi munu þeir þingmenn sem verða með innlegg undir viðkomandi umræðuefni kynna það fyrir öðrum þingmönnum og svo mun landsdeildin taka afstöðu til lifandi ályktana, ef einhverjar slíkar eru undir liðnum.
14.08.2017 7. fundur Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins Undirbúningur undir ársfund Vestnorræna ráðsins
Ákveðið var að fresta samþykkt fundargerðar frá fundi 6 þar til á næsta fundi Íslandsdeildar.

Inga Dóra Markussen sýndi deildarmeðlimum heimasíðu Vestnorræna ráðsins og fór með þeim í gegnum dagskrá ársfundarins sem haldinn verður í lok mánaðarins. Bryndís, formaður Íslandsdeildar, sagði fundarmönnum að verkefni fundarins væri að skipta með sér verkum varðandi framsögur á ársfundinum. Hver og einn meðlimur deildarinnar þyrfti að taka til máls í 2-3 umræðuefnum. Vinnumál fundarins yrði sem fyrr danska en á ráðherrafundinum yrði leyfilegt að tala ensku.

Rætt var um menningarkvöldið og að Íslandsdeild þyrfti að vera með skemmtiatriði. Bryndís stakk upp á að ráða fagfólk í það og hlaut það góðan hljómgrunn. Í umræðum um hefðbundinn mat á borð við þorrmat á menningarkvöldinu kom Eygló með uppástungu um að hafa einnig á boðstólnum nútímalegri mat og hlaut það góðar undirtektir. Inga Dóra ætlaði að athuga með það.

Á fundinum mun Bryndís lesa skýrslu Vestnorræna ráðsins sem starfandi formaður og ákveðið var að Lilja Rafney skyldi lesa skýrslu Íslandsdeildar. Farið var yfir umræðuefnin undir almennum umræðum og þau rædd stuttlega, nokkrir lýstu áhuga á að tjá sig við einhver þeirra og ákveðið var að ritari myndi koma með tillögu að skiptingu þeirr sem eftir stæðu. Bryndís tilkynnti að hún muni missa af síðari degi ársfundar og mun þá Páll Magnússon koma inn sem varamaður hennar og Lilja Rafney varaformaður taka við formennskunni.

Ræddar voru hugmyndir um tillögur að ályktun fyrir ársfundinn og komu tvær tillögur fram: annars vegar að biðja ríkisstjórnir landanna að skoða möguleika á samvinnu í menntun í sjávarútvegi og hins vegar að skoða möguleikann á að deila þekkingu og reynslu af ferðmennsku á svæðinu. Ákveðið var að bíða með síðari ályktunina þar til eftir þemaráðstefnuna um ferðaþjónustu í janúar 2018. Íslandsdeild ákvað að leggja fram ályktun um samvinnu varðandi menntun í sjávarútvegi á ársfundinum og vinna formaður og ritari að henni.