Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 1997.  Útgáfa 121b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um þjóðfána Íslendinga

1944 nr. 34 17. júní1. gr. Hinn almenni þjóðfáni Íslendinga er heiðblár með mjallhvítum krossi og eldrauðum krossi innan í hvíta krossinum. Armar krossanna ná alveg út í jaðra fánans, og er breidd þeirra 2/ 9, en rauða krossins 1/ 9 af fánabreiddinni. Bláu reitirnir eru rétthyrndir ferhyrningar: stangarreitirnir jafnhliða og ytri reitirnir jafnbreiðir þeim, en helmingi lengri. Hlutfallið milli breiddar fánans og lengdar er 18:25.
2. gr. Ríkisstjórn, Alþingi og aðrar opinberar stofnanir svo og fulltrúar utanríkisráðuneytis Íslands erlendis skulu nota þjóðfánann klofinn að framan: tjúgufána.
Tjúgufáninn er að því leyti frábrugðinn hinum almenna þjóðfána, að ytri reitir hans eru þrefalt lengri en stangarreitirnir og klauf upp í hann að framan, skorin eftir beinum línum, dregnum frá ytri hornum fánans inn að miðlínu hans. Línur þessar skera innjaðra ytri reitanna, þar sem saman koma 4/ 7 ytri og 3/ 7 innri hlutar lengdar þeirra. Þar, sem línur þessar nema við arm rauða krossins, er hann þverskorinn.
Póst- og símafáni svo og tollgæslufáni eru tjúgufánar með merki í efra stangarreit miðjum: póst- og símafáninn með póstlúðri hringuðum utan um stjörnu og út frá stjörnunni eldingarleiftur, en tollfáninn með upphafstéi (T). Merki þessi eru silfurlit.
3. gr. Fáni hafnsögumanns er hinn almenni þjóðfáni með hvítum jöðrum á alla vegu, jafnbreiðum krossunum, þ.e. 4/ 7 af breidd bláu reitanna.
4. gr. Engin önnur merki en þau, er greinir í 2. og 3. gr., má nota í þjóðfánanum.
5. gr. Tjúgufánann má aðeins nota á húsum og við hús, sem notuð eru að öllu eða mestu leyti í þágu ríkis eða ríkisstofnana, nema um sé að ræða heimili eða embættisskrifstofu fulltrúa utanríkisráðuneytis Íslands erlendis. Þótt hús sé eign ríkis eða ríkisstofnana, má ekki nota tjúgufánann á því, ef leigt er að mestu eða öllu einstökum mönnum eða einkastofnunum. Hins vegar má nota tjúgufánann á húsi, sem er í eign einstakra manna eða einkastofnana, ef ríkið eða ríkisstofnanir hafa húsið á leigu og nota það að öllu eða mestu leyti til sinna þarfa.
Tjúgufánann má aðeins nota á skipum, sem eru í eign ríkis eða ríkisstofnana og notuð í þeirra þarfir, með þeim undantekningum, sem hér segir:
    Ef ríkið tekur skip á leigu til embættisþarfa (strandgæslu, tollgæslu, póstflutnings, vitaeftirlits, hafnsögu o.s.frv.), má það nota tjúgufánann af þeirri gerð, sem við á samkvæmt 2. gr.
    Skip, sem annast póstflutning eftir samkomulagi eða samningi við ríkisstjórnina, mega nota póstfánann á umsömdum póstleiðum, enda hafi þau rétt til að sigla undir íslenskum fána.

6. gr. Þjóðfánann skal draga að hún á þar til gerðri stöng. Á húsum getur stöngin verið annaðhvort beint upp af þaki hússins eða gengið út frá hlið þess, enda sé stönginni í báðum tilfellum komið fyrir á smekklegan hátt. Enn fremur má nota stöng, sem reist er á jörðu. Á skipum skal stönginni komið fyrir í skut eða á ásenda aftur af því siglutré, sem aftast er. Ef um smáskip eða báta er að ræða, má draga fánann að hún á siglutré, eða aftasta siglutré, ef fleiri eru en eitt.
7. gr. Með forsetaúrskurði skal kveða á um fánadaga og hve lengi dags fánanum megi halda við hún. 1)
    1)Forsetaúrsk. 5/1991.
8. gr. Nú rís ágreiningur um rétta notkun þjóðfánans, og sker þá dómsmálaráðuneytið úr.
9. gr. Sýnishorn af réttum litum og hlutföllum þjóðfánans skal vera til á vissum stöðum, sem dómsmálaráðuneytið ákveður og auglýsir, svo og hjá öllum lögreglustjórum. Bannað er að hafa á boðstólum, selja eða leigja aðra fána en þá, sem gerðir eru með réttum litum og réttum hlutföllum reita og krossa.
10. gr. Lögreglan skal hafa eftirlit með því, að enginn noti þjóðfána, sem er ekki í samræmi við sýnishorn þau, er greinir í 9. gr., eða svo upplitaður eða slitinn, að verulega frábrugðinn sé réttum fána um lit og stærðarhlutföll reita. Má gera slíka fána upptæka, ef notaðir eru á stöng eða sýndir úti eða inni, þar sem almenningur getur séð þá.
11. gr. Lög þessi ná til allra þjóðfána, sem notaðir eru á venjulegan hátt, svo að almenningur eigi kost á að sjá þá úti eða inni, en ekki til skrautfána, borðfána eða því um líkra fána, sem þó skulu jafnan vera gerðir þannig, að réttir séu litir og stærðarhlutföll reita og krossa.
12. gr. Enginn má óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki.
Óheimilt er að nota þjóðfánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar.
Óheimilt er einstökum stjórnmálaflokkum að nota þjóðfánann í áróðursskyni við kosningaundirbúning eða kosningar.
Óheimilt er að nota fánann í firmamerki, vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vörum.
Nú hefur verið skrásett af misgáningi vörumerki, þar sem notaður er þjóðfáninn án heimildar, og skal þá afmá það úr vörumerkjaskrá samkvæmt kröfu dómsmálaráðuneytisins.
Nú setur maður þjóðfánann á söluvarning eða umbúðir hans, og skal þá fenginn dómsúrskurður um, að honum sé óheimilt að nota fánamerkið eða hafa vörur til sölu, sem auðkenndar eru með því. Auk þess má skylda hann til þess, ef nauðsyn krefur, að ónýta vörurnar eða umbúðir þeirra, svo framarlega sem þær eru þá í vörslum hans eða hann á annan hátt hefur umráð yfir þeim.
13. gr. Dómsmálaráðuneytið getur, ef þörf þykir, sett með reglugerð sérstök ákvæði til skýringar ákvæðum laga þessara. 1)
    1) Leiðbeiningar 222/1966. Augl. 221/1991.
14. gr. Brot gegn 4. og 5. gr. og 1. mgr. 12. gr. varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári.
Brot gegn öðrum ákvæðum laga þessara og gegn forsetaúrskurðum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum.
Mál út af brotum þessum fara að hætti opinberra mála.