Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. mars 2004.  Útgáfa 130a.  Prenta í tveimur dálkum.


Hjúkrunarlög

1974 nr. 8 13. mars


Tóku gildi 19. mars 1974. Breytt með l. 32/1975 (tóku gildi 11. júní 1975), l. 73/1989 (tóku gildi 14. júní 1989), l. 116/1993 (tóku gildi 1. jan. 1994; EES-samningurinn: VII. viðauki tilskipun 77/452/EBE og 77/453/EBE), l. 76/2002 (tóku gildi 17. maí 2002) og l. 72/2003 (tóku gildi 10. apríl 2003).


1. gr. [Rétt til þess að stunda hjúkrun hér á landi og kalla sig hjúkrunarfræðing hefur:
    1. sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. gr.,
    2. [sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á hjúkrunarleyfi í landi sem er aðili að samningi um Evrópskt efnahagssvæði eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu]. 1)
Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um þá sem stunda mega hjúkrun hér á landi skv. 2. tölul. 1. mgr.] 2)
    1)L. 72/2003, 22. gr. 2)L. 116/1993, 4. gr.
2. gr. [Leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi í hjúkrunarfræðum frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.
Ráðherra getur og veitt hjúkrunarleyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. þeim sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr. í landi utan hins Evrópska efnahagssvæðis [og í Sviss], 1) enda teljist umsækjandi að öðru leyti hæfur að dómi hjúkrunarráðs.
Hjúkrunarráð skal skipað þremur mönnum til fjögurra ára og skal einn tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, einn af menntamálaráðuneyti og einn af Hjúkrunarfélagi Íslands.
Útlendingar, sem sækja um leyfisveitingu skv. 2. mgr., skulu hafa næga kunnáttu í töluðu og rituðu íslensku máli.] 2)
    1)L. 76/2002, 5. gr. 2)L. 116/1993, 4. gr.
3. gr. Enginn má kalla sig sérfræðing í hjúkrun, nema hann hafi fengið til þess leyfi ráðherra.
Ráðherra setur reglugerð 1) um skilyrði til að öðlast sérfræðileyfi að fengnum tillögum hjúkrunarráðs. Hjúkrunarfélag Íslands skal tilnefna [tvo sérfróða hjúkrunarfræðinga] 2) til þátttöku með ráðinu í meðferð einstakra mála, er varða sérgrein þeirra, og fá [þeir] 2) þá atkvæðisrétt í ráðinu.
Hjúkrunarráð skal einnig fjalla um veitingu sérfræðileyfa.
    1)Rg. 124/2003. 2)L. 32/1975, 2. gr.
4. gr. Ekki má ráða aðra en [hjúkrunarfræðinga] 1) skv. 1. gr. til sjálfstæðra hjúkrunarstarfa við sjúkrastofnanir, elliheimili, heilsuvernd eða hjúkrun í heimahúsum.
    1)L. 32/1975, 2. gr.
5. gr. [Hjúkrunarfræðingi] 1) ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér þær nýjungar, er varða hjúkrun.
Ráðherra getur sett reglur um viðhaldsmenntun.
    1)L. 32/1975, 2. gr.
6. gr. [Hjúkrunarfræðingum] 1) er skylt að gæta fyllstu þagmælsku um öll einkamál, er [þeir] 1) fá vitneskju um í starfi sínu, nema lög bjóði annað, og helst þagnarskyldan, þótt [þeir] 1) láti af starfi.
Skylda til þess að bera vitni fyrir rétti er takmörkuð í samræmi við þetta og ákvæði réttarfarslaga um vitnaskyldu embættis- og sýslunarmanna og sérákvæði slíkra laga um lækna.
    1)L. 32/1975, 2. gr.
7. gr. Ef [hjúkrunarfræðingur] 1) vanrækir skyldur sínar eða brýtur gegn heilbrigðislöggjöf landsins að dómi landlæknis, skal landlæknir áminna [hann]. 1) Komi áminningin ekki að haldi, leggur landlæknir málið fyrir ráðherra. Getur þá ráðherra úrskurðað, að hlutaðeigandi skuli sviptur hjúkrunarleyfi, en skjóta má hann þeim úrskurði til dómstóla.
Nú hefur [hjúkrunarfræðingur] 1) verið [sviptur] 1) hjúkrunarleyfi skv. 1. mgr., og er þá ráðherra heimilt að veita [honum] 1) leyfið aftur, enda liggi fyrir meðmæli landlæknis.
[Ákvæðum 1. og 2. mgr. skal eftir því sem við á beitt gagnvart þeim sem hlotið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr.
Nú er einstaklingur, sem hér starfar á grundvelli leyfis skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr., sviptur því leyfi og fellur þá niður heimild hans til að starfa hér á landi.] 2)
    1)L. 32/1975, 2. gr. 2)L. 116/1993, 4. gr.
8. gr.1)
    1)L. 73/1989, 2. gr.
9. gr. Heilbrigðismálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um efni laga þessara.
10. gr. Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.
Með mál út af brotum á löggjöfinni skal fara að hætti opinberra mála.
Sektir samkvæmt löggjöfinni renna í ríkissjóð.