Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.


Lög um stjórn og starfrækslu póst- og símamála

1977 nr. 36 13. maí


1. gr.
     [Samgönguráðherra fer með yfirstjórn póst-, síma- og annarra fjarskiptamála.]1)

1)L. 34/1987, 1. gr.


2. gr.
     [Póst- og símamálastofnun er sjálfstæð stofnun sem fer með framkvæmd póst- og símamála samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum og reglum sem gilda um póstmál og fjarskipti.]1)

1)L. 34/1987, 2. gr.


3. gr.
     Starfsemi póst- og símamálastofnunar skal beinast að því að tryggja sem best, að hér á landi sé kostur á hagkvæmri og fullkominni póst- og símaþjónustu.
     Póst- og símamálastofnun hefur einkarétt á að stofna til og starfrækja hvers konar póst-, síma- og aðra fjarskiptaþjónustu, bæði innan hins íslenska ríkis og í samskiptum við önnur ríki, svo og hafa eftirlit með innflutningi og viðurkenningu á búnaði í því sambandi. Nánar skal kveðið á um framkvæmd einkaréttar stofnunarinnar í póstlögum og lögum um fjarskipti, svo og í reglugerðum, sem ráðherra setur, og í fjölþjóðlegum samningum, sem Ísland er aðili að.

4. gr.
     Forseti Íslands skipar póst- og símamálastjóra, sem veitir póst- og símamálastofnun forstöðu.
     Samgönguráðherra skipar annað starfsfólk stofnunarinnar, að fengnum tillögum póst- og símamálastjóra og starfsmannaráðs póst- og símamálastofnunar, sbr. 10. gr. Ráðherra getur þó falið póst- og símamálastjóra að auglýsa lausar stöður og ganga frá skipunarbréfum í stöður hjá póst- og símamálastofnun.

5. gr.
     [Starfsemi Póst- og símamálastofnunar greinist í meginatriðum í stjórnunarhluta og rekstrarhluta.
     Stjórnunarhluti stofnunarinnar skiptist í aðalsvið.
     Rekstrarhluti stofnunarinnar skiptist í póst- og símaumdæmi.
     Hverju aðalsviði stjórnar framkvæmdastjóri, en umdæmisstjóri hverju umdæmi.]1)

1)L. 34/1987, 3. gr.


6. gr.
     [Framkvæmdastjórar aðalsviða vinna að stefnumörkun í störfum stofnunarinnar, áætlanagerð, eftirliti, almennum fyrirmælum og öðrum heildarstefnumálum.
     Umdæmisstjórar annast rekstur póst- og símastöðva, verkstæða, birgðastöðva og annan þann rekstur á vegum Póst- og símamálastofnunar í umdæminu sem þeim er falinn samkvæmt rekstraráætlunum og öðrum fyrirmælum er gilda um stofnunina.]1)

1)L. 34/1987, 4. gr.


7. gr.
     ...1)

1)L. 34/1987, 5. gr.


8. gr.
     [Póst- og símamálastjóri skal eigi sjaldnar en ársfjórðungslega kalla saman fund með framkvæmdastjórum aðalsviða og umdæmisstjórum stofnunarinnar.]1) Á þeim fundum skal póst- og símamálastjóri leggja fram rekstrar- og framkvæmdaáætlanir, sbr. 9. gr., til umræðu, ásamt öðrum þeim málum, sem á dagskrá eru hverju sinni, og skulu þar rædd meginstefnumál og verkefni stofnunarinnar. Ár hvert skal a.m.k. einn þessara funda vera sameiginlegur með starfsmannaráði póst- og símamálastofnunar, sbr. 10. gr.

1)L. 34/1987, 6. gr.


9. gr.
     Póst- og símamálastjóri lætur gera, til fjögurra ára í senn, áætlun um framkvæmdir stofnunarinnar. Skal áætlunin taka mið af 1. mgr. 3. gr. laga þessara, byggja á raunhæfum fjárhagsforsendum og skal framkvæmdum raðað eftir forgangsröð.
     Áætlun þessa skal endurskoða árlega, þannig að ávallt liggi fyrir áætlun til fjögurra ára.
     Áætlunin skal greina markmið stofnunarinnar á einstökum þjónustusviðum og hafa að geyma yfirlit um æskilegar þjónustubreytingar á áætlunartímanum. Þá skal áætlunin innihalda rekstraráætlun í meginatriðum og fjármögnunaráætlun fyrir sama tímabil.
     Póst- og símamálastofnun skal senda samgönguráðuneytinu framkvæmdaáætlunina eigi síðar en 31. maí á undan fyrsta ári áætlunartímabilsins. Samgönguráðherra leggur framkvæmdaáætlunina fyrir Alþingi og skal hún höfð til hliðsjónar við afgreiðslu fjárlaga. Endurskoðaða áætlunin skal lögð fyrir Alþingi á sama hátt, en árleg töluleg endurreiknun skal fylgja fjárlagatillögum stofnunarinnar.

10. gr.
     [Í stofnuninni skal starfa starfsmannaráð skipað fulltrúum samtaka starfsmanna stofnunarinnar og forstöðumönnum tiltekinna þátta í stofnuninni.]1)
     Ráðherra setur reglur2) um skipan og starfssvið starfsmannaráðs, þar sem leitast skal við að tryggja gott samstarf og samheldni milli starfsfólksins og stjórnenda stofnunarinnar.

1)L. 34/1987, 7. gr.2)Rg. 88/1991, sbr. 178/1991. Rg. 356/1995


11. gr.
     Ráðherra ákveður í gjaldskrá gjöld þau, sem greiða ber póst- og símamálastofnun fyrir þjónustu þá, sem hún veitir, þ. á m. fyrir póstgíró og uppsetningu, leigu og viðhald hvers konar fjarskiptatækja.
     Stefnt verði að því við gjaldskrárgerð, að sömu gjöld gildi innan hvers svæðisnúmers, og skal ákveðið í reglugerð, hvenær framkvæmd þessa ákvæðis kemst á.
     Ráðherra er heimilt að ákveða, að sama gjald skuli krafið fyrir símtal við helstu stjórnsýslustofnanir ríkisins í Reykjavík, hvaðan sem talað er af landinu.
     [Tekjur samkvæmt gjaldskrá skulu nægja til að rekstrarjöfnuður náist, miðað við að rekstur og fjárfestingar fari eftir meginstefnu 1. mgr. 3. gr. og fyllsta aðhalds sé gætt.]1)

1)L. 34/1987, 8. gr.


12. gr.
     Starfsmaður sá, sem skipaður hefur verið í stöðu hjá póst- og símamálastjórn samkvæmt eldri lögum, skal við gildistöku laga þessara talinn skipaður til hliðstæðs starfs hjá póst- og símamálastofnun, en þó skal honum skylt að hlíta breyttri starfstilhögun og verkaskiptingu, sem leiða kann af lögum þessum eða reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim.

13. gr.
     Ráðherra er rétt að setja nánari ákvæði um stjórn og starfrækslu póst- og símamála.1)

1)Rg. 98/1995. Rg. 419/1992, sbr. 312/1994.


14. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     ...

Ákvæði til bráðabirgða.
     ...