131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[18:53]

Jakob Frímann Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrsta ræða sérhvers þingmanns er jafnan nefnd jómfrúrræða. Það er líkingamál, vísbending um að þar standi hreinn og óspjallaður maður sem vilji mæla í fyrsta sinn við þingið og í mínu tilfelli, svo að ég noti myndmálið áfram, er þetta mér erfitt því mér líður hreint ekki eins og jómfrú eða hreinum sveini. Mér líður eins og manni sem hefur flekkast, verið flekkaður, tekið þátt í flekkun, manni sem hefur, svo að ég noti sterkt orðalag, verið þátttakandi í hópnauðgun. Það er ekkert annað en nauðgun að ráðast með valdi inn á aðra þjóð, inn í helgustu vé hennar með grímulausum hætti og seilast eftir auðlindum hennar undir formerkjum sem öllum má vera ljóst að eru fölsk. Ég bið hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. forseta að leyfa mér að halda áfram á þeim nótum.

Þetta mál snýst að stórum hluta um samvisku okkar sem þjóðar, samvisku okkar sem einstaklinga og ég bið hæstv. forsætisráðherra sérstaklega að taka tillit til þess að fjórir af hverjum fimm Íslendingum þjást vegna þessa í sálu sinni. Þeir óska eftir að hér verði viðurkennd mannleg mistök. Forsendur innrásarinnar voru uppgefnar með þeim hætti að forsendur efndanna þurfa að vera með öðrum hætti en til stóð.

Við teljum okkur vinaþjóð Bandaríkjanna til margra ára. Ég get sagt örstutta sögu af þeirri vinaþjóð sem ég bjó með um árabil. Ég fór í heimsókn til hennar fyrir fjórum missirum um þetta leyti og var þá stöðvaður í hliðinu ásamt sambýliskonu minni fyrir þær sakir einar að hún hafði í fjórðu heimsókn sinni komið upp í nýju tölvukerfi vegna þess að hún hafði dvalið tveimur dögum of lengi í Bandaríkjunum í fyrstu heimsókn sinni. Í annarri og þriðju hafði ekkert komið fram en nýtt og fullkomið tölvukerfi sýndi fram á þetta. Hún átti tvo kosti í stöðunni, og við þar með, að fara beinustu leið í fangelsi með vopnuðum vörðum eða láta vopnaða verði leiða sig beint út í sömu flugvél og við höfðum setið í í sjö klukkustundir og fara beint aftur til Íslands. Það urðum við að gera. 150 þús. kr. farmiði út um gluggann, jólafríið okkar ónýtt. Þegar heim til Íslands var komið voru viðbrögðin hjá vinaþjóðinni í bandaríska sendiráðinu á þann veg að á föstudagsmorgni var sagt: Ja, við getum ekkert litið á þetta núna. Þetta tekur u.þ.b. tvær mínútur að afgreiðast. Komið bara eftir helgi.

Þetta opnaði á vissan hátt augu mín fyrir því að þessi vinaþjóð okkar Íslendinga er ekki sú sama og ég bjó með fyrir 20 árum, hér eru ný viðmið, nýtt viðmót, og þjóð sem á svona þjóð að vini þarf að endurskilgreina með hvaða hætti hún kýs að tengjast henni, umgangast hana og hlýða henni þegar kallið berst. Þegar kallið barst skil ég mætavel að litlum manni í litlu hvítu húsi við Lækjartorg í Reykjavík yrði bilt við að fá kall úr stóru hvítu húsi á Höfuðborgarhæðum í Washington og að hann segi í flýti: Já og amen, við verðum með. Sá maður verður þó aðeins stór þegar hann viðurkennir að forsendurnar voru rangar, upplognar og að það sem á eftir fylgdi varð honum og okkur öllum, sem erum spyrt við þetta með einum eða öðrum hætti, til mikillar skammar, niðurlægingar og viðvarandi hugarangurs.

Það er mikill ábyrgðarhluti, að valda heilli þjóð hugarangri með þeim hætti sem þetta mál hefur gert. Ég tel að við eigum að horfa mjög alvarlega á að slík mannleg mistök í nútímasamfélagi okkar eru viðurkennd af öðrum þjóðarleiðtogum svo langt sem það nær. Tony Blair hefur gengið svo langt að segjast geta viðurkennt mistök sín upp að vissu marki. Ég tel að íslenskir hæstv. ráðherrar eigi að ganga skrefinu lengra og segja: Okkur var sagt ósatt til um þessa hluti. Við getum ekki verið á lista hinna staðföstu og viljugu þjóða við slíkar aðstæður. Við biðjumst forláts og við drögum okkur af þeim lista. Við tökum þátt í hjálpar- og uppbyggingarstarfinu. Með þeim hætti mundu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra endurreisa nöfn sín og virðingu með þjóð okkar. Ég er sannfærður um að bæði þjóð og þing mundu fyrirgefa hin mannlegu mistök og íslenska þjóðin mundi endurheimta sómakennd sína á alþjóðavettvangi.