131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:25]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Í upphafi má minna á að megnið af þessum ströngu reglum heyra ekki undir þann sem hér stendur. Það eru lög sett af Alþingi sem eru síðan hjá öðrum ráðherrum en þeim sem hér stendur. Þess vegna er þetta samstarfsverkefni sem þarf að fara í og mun verða gert. Tími framkvæmdanna er hafinn.

Ég verð að segja hér út af spurningu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um hvort ég hafi fengið léttvín í sveitinni. Ég hef fengið vín sem ég hef orðið léttur af. Ég veit ekki hvort það var léttvín. En ég skil vel fyrirrennara minn Jón Helgason, sem var heiðarlegur bindindismaður og ber að virða það að hann var það, að hann hefur áreiðanlega ekki viljað að menn drykkju fíflavín. Það er ekki alltaf eins og Salómon sagði, að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. Menn fara misjafnlega út úr því. Við skulum hafa það í huga.

Hv. þm. Jón Bjarnason leyfir sér hér alltaf að tala eins og hann sé maður aðgerðanna. Í mínum huga er hv. þingmaður hinn eini sanni íhaldsmaður þessa þings. Hann berst gegn öllu. Sannleikurinn er sá að það hefur kannski verið ánægjuleg gæfa þess sem hér stendur að mikil nýsköpun er í íslenskum sveitum. Það er mikil þróun. Auðvitað eru margar breytingar sárar. En það eru margir stórir hlutir að gerast þar og það hefur verið gaman að vera þátttakandi í því. Svona ræða eins og hv. þingmaður leyfir sér að flytja er náttúrlega — ég veit ekki við hvað ég á að líkja henni. Hv. þingmaður var góður skólamaður. En það fer ekki alltaf saman að menn heppnist sem stjórnmálamenn þó svo sé.

Ég vil samt sem áður þakka góðar ræður og mikinn áhuga á þessu máli sem ég finn í þjóðfélaginu öllu og ekki síst á meðal bænda og ferðaþjónustu bænda að þeir sjá í þessu tækifæri til þess að efla sveitina (Forseti hringir.) og gera hana vinsælli, enda er sveitin vinsæl í dag og jafnvel er það tíska að vera bóndi í náttúru þessa lands.