131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:13]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum um breytingu á lögum um fjarskipti, sem er að mörgu leyti gott mál fyrir utan 7., 8. og 9. gr. Í 7. og 8. gr. er fjallað um geymslu gagna og eru báðar lagaðar í meðförum hv. nefndar svo ég hef svo sem ekkert um það að segja. En ég er á móti 9. gr. sem fjallar um afnot lögreglu af þeim gögnum.

Herra forseti. Reglulega berast fréttir af voðaverkum og glæpum ýmiss konar. Þá kemur skiljanlega upp sú krafa í þjóðfélaginu að gerðar verði ráðstafanir til að vernda borgarann með öllum tiltækum ráðum. Krafist er ráðstafana sem oftar en ekki gera ráð fyrir að gengið sé á rétt borgarans, einstaklingsins. Þannig má segja að glæpamenn stjórni þjóðunum með því að kalla fram viðbrögð og aðgerðir sem skerða frelsi einstaklingsins. Þetta frumvarp er gott dæmi um þann vanda.

Glæpamenn finna alltaf leiðir til að komast hjá aðgerðum yfirvalda. Forstjóri fyrirtækisins sem ætlar t.d. að brjóta samkeppnislög geymir að sjálfsögðu ekki sönnunargögnin heima hjá ömmu sinni ef heimilt er að gera húsleit hjá gömlu konunni, heldur geymir hann gögnin hjá óskyldum aðila sem hann borgar leiguna fyrir niðri í bæ. Eftir situr að réttindi ömmunnar eru skert. Þannig eru þó lögin ekki sem betur fer. Glæpamenn munu, ef þetta frumvarp verður gert að lögum, hætta að nota skráðu símanúmerin. Þeir munu brengla tölvusamskiptin, t.d. IP-tölur, smygla kortum frá útlöndum eða stela farsímum. Eftir sitja skert réttindi almennra borgara.

Herra forseti. Auðvitað mætti hindra öll innbrot, heimilisofbeldi og flesta aðra glæpi með því að koma upp eftirlitsmyndavélum á öllum heimilum og fyrirtækjum þannig að aðeins klósettið yrði undanskilið því sem lögreglan fylgdist með. En viljum við það? Viljum við slíkt lögregluríki? Viljum við taka áhættuna á því? Það held ég ekki.

Eftir voðaverkin í New York 11. september 2001 hefur verið gripið til gífurlegra ráðstafana um allan heim með feiknarlegum tilkostnaði. Frelsi einstaklinganna hefur verið skert og takmarkað á margan hátt. Við getum t.d. ekki gengið frjáls um höfnina í Reykjavík. Þetta er einmitt það sem illvirkjarnir vildu. Þeir voru á móti vestrænum hugmyndum um frelsi einstaklinga og lýðræði. Skyldu þeir á endanum hafa náð markmiði sínu? Þau ákvæði sem við ræðum hér eru einmitt dæmi um slík viðbrögð. Alltaf er gengið dálítið á rétt einstaklinga með góðum ásetningi í baráttu gegn glæpum. Ég vara við því og ég mun greiða atkvæði gegn 9. gr. frumvarpsins.