132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:24]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Vísindi eru undirstaða farsællar auðlindanýtingar. Það hlýtur að vera í þágu framsóknar vísindanna að menn reyni að skoða allar hliðar á þeim málum sem varða hana. Ég tel því að þessi tillaga sé ákaflega jákvæð, ég tel farsælt fyrir okkur að skoða sem flestar hliðar og flesta möguleika á nýtingu auðlinda og skoða þau stjórnkerfi sem aðrar þjóðir hafa tekið upp. Að vísu hefur verið deilt nokkuð á árangurinn sem menn vilja eigna færeyska kerfinu. Ég tel hins vegar að ákveðin rök hafi komið fram og ég tel líka að málsmetandi menn hafi talað þannig um það kerfi sem Færeyingar hafa notað að það sé a.m.k. einnar messu virði að skoða það.

Í öllu falli er ég þeirrar skoðunar að ekkert mæli á móti því að tillagan verði samþykkt. Við getum væntanlega lært eitthvað af frændum okkar, Færeyingum. Ég tel til dæmis að það væri ákaflega farsælt að skoða sérstaklega með hvaða hætti veiðifrelsið sem smábátarnir hafa haft við Færeyjar hefur lukkast hjá þeim. Mér finnst mestu máli skipta að við leyfum hundrað blómum að blómstra. Við eigum að etja saman hugmyndum á þessu sviði eins og öðrum vísindasviðum og reyna að fá fram kosti og galla þeirra aðferða sem við erum að nota. Það hefur komið fram fyrr í umræðunni að það stjórnkerfi sem við búum við er að mörgu leyti gallað. Það hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem við það voru bundnar. Ég rifjaði upp fyrr í dag í þessari umræðu að núverandi kerfi hefði ekki verið sett upp fyrst og fremst til að deila út til útgerða landsins því magni sem má veiða. Fiskvernd var fyrst og fremst markmið núverandi stjórnkerfis. Það var sett upp árið 1984 eftir að ítrekað hafði komið í ljós að staða þorskstofnsins var slæm og menn sáu að hún var á niðurleið. Þess vegna gripu menn til þessa kerfis. Síðan hefur það verið þættað inn í undirstöðuskiptingar auðlindarinnar milli útgerða í landinu. Það breytir ekki hinu að nú er komin áratuga reynsla á kerfið og það liggur alveg ljóst fyrir að þetta stjórnkerfi og þær hugmyndir sem að baki því liggja hafa ekki reynst eins og við töldum.

Það eru ekki mörg ár síðan, ætli það sé ekki áratugur, að ég hélt hér miklar ræður um gagnsemi þessarar aðferðar við að vernda þorskinn í hafinu. Ég taldi þá að þessi vísindi væru miklu nákvæmari en reynslan hefur svo sýnt. Við höfum hins vegar horft upp á það á síðustu árum að stöðugt eru að koma fram nýjar upplýsingar sem benda til þess að þær aðferðir sem við höfum notað séu ekki nægilega traustar. Við höfum horft framan í ár þar sem tapast hefur nánast helmingurinn af áætluðum stofni í hafinu. Við höfum séð fram á það að upplýsingar sem hafa komið fram úr t.d. veiðiröllum hafa ekki reynst réttar. Ég minnist þess sérstaklega þegar ég skrifaði á árum fyrr grein í Morgunblaðið og benti á að ósamræmi væri milli þess sem Hafrannsóknastofnun gaf út í lok þess árs sem æskilegt aflamark og þeirrar niðurstöðu sem kom fram í rallinu. Ég fékk aldrei skýringar á þessu misræmi, mér var einungis sagt að ákveðin aðlögun hefði átt sér stað.

Þetta er ekki traustvekjandi og það er heldur ekki traustvekjandi þegar Hafrannsóknastofnunin slær um sig þéttan varnarmúr og hleypir ekki að þeim aðilum sem gagnrýna kerfið. Ef menn geta fundið eitthvað að þeim aðferðum sem Hafró beitir á það að koma fram. Það hlýtur að vera í þágu vísindanna og þágu greinarinnar að einmitt gagnrýnendunum sé lyft. Við höfum hins vegar séð það aftur og aftur að þeim er kerfisbundið bægt frá.

Margt af því sem hefur komið fram í umræðunni, eins og t.d. hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni áðan um nýjar upplýsingar um eðli þorsksins hér við land, eru hlutir sem menn vissu ekki fyrir 20 árum. Ég minnist þess t.d. að þegar ég var í háskóla og lærði um fiskifræði undir handleiðslu Jakobs Jakobssonar var hann að velta fyrir sér hvort þorskurinn við landið væri samsettur úr mörgum smærri staðbundnum stofnum. Menn töldu svo ekki vera þá.

Nú eru alltaf að koma fram sterkari og sterkari vísbendingar um að víða séu staðbundnir stofnar, og þó erum við rétt að byrja að rannsaka þetta. Eins og hv. þingmaður benti hins vegar á grundvölluðust aðferðirnar sem Hafró byggir á, a.m.k. í árdaga, á því að hér væri einn stór stofn. Maður hlýtur að spyrja: Ef þessi undirstaða er ekki lengur fyrir hendi hefur það ekki gagnger áhrif á aðferðirnar allar? Þessarar spurningar hefur stundum verið spurt í þessum sal og við höfum aldrei fengið svör við henni frá vísindamönnunum eða Hafró sjálfri.

Ég er þeirrar skoðunar að innan Hafrannsóknastofnunarinnar ríki kreddur. Alls staðar skapast kreddubundið andrúmsloft þar sem frjálsir vindar rökræðu og gagnrýni fá ekki að leika um. Ég er þeirrar skoðunar að með einhverjum hætti verði að skapa umhverfi þar sem samkeppni hugmynda á þessu sviði ríkir. Ég er þeirrar skoðunar að það væri ákaflega farsælt í fyrsta lagi að brjóta upp þetta kerfi sem við höfum í dag, þ.e. að á sömu hendi í sama ráðuneyti séu bæði eftirlit og rannsóknir með auðlindinni og hins vegar ákvörðunartaka um hversu mikið megi taka af henni. Þetta eru andstæðir hagsmunir sem vegast á og það er ekki farsælt.

Ég verð líka að segja, frú forseti, fyrst ég er byrjaður á þessu að mér finnst til mikillar hneisu fyrir þessa stofnun og fyrir stjórnkerfið að við skulum hafa í stjórn stofnunarinnar fulltrúa þeirra sem hafa hag af því að nýta auðlindina. Það einfaldlega rímar ekki. Þessu þarf að breyta.

Ég er þeirrar skoðunar að það væri líka farsælt ef töluverður hluti af þeim merku rannsóknum sem eru unnar við stofnunina væri færður t.d. yfir til háskólastofnana. Ég hef lengi verið þessarar skoðunar og ég tel að það mundi leysa mikinn þrótt úr læðingi innan greinarinnar.

Í þriðja lagi tel ég að það eigi að afnema þá rannsóknareinokun sem Hafró hefur haft á vísindum sem tengjast lífríki í hafinu. Ég tel að við eigum að hlúa að því að hér komi upp sjálfstæðir vísindamenn sem hafi tök á því að sinna rannsóknum á stofnum og lífríki í hafinu, þess vegna í samkeppni við Hafrannsóknastofnun. Ég er einfaldlega kominn á þá skoðun að þetta sé eitt af því sem er nauðsynlegt.

Frú forseti. Aðeins að lokum, til þess að taka þetta saman. Þessi tillaga gengur út á það að skoða öðruvísi stjórnkerfi en við búum við. Í því felst að sjálfsögðu dulin gagnrýni á núverandi stjórnvöld og það er gott. Gagnrýni leiðir alltaf til framþróunar innan vísinda.