132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Æfingasvæði fyrir torfæruhjól.

291. mál
[18:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér spyr ég hæstv. umhverfisráðherra hvort ráðherra telji æskilegt að fjölga æfingasvæðum fyrir torfæruhjól, af umhverfisástæðum og með tilliti til vaxandi hóps þeirra sem aka torfæruhjólum. Ef svo er, hyggst ráðherra beita sér fyrir fjölgun svæðanna í samstarfi við sveitarfélög og hagsmunaaðila?

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þessi hópur hefur stækkað mjög ört. Hann hefur farið mjög vaxandi. Fjöldi fólks keyrir torfæruhjól sér til ánægju. Þessi hópur mun vaxa meira í framtíðinni að mínu mati. Hann mun ekki hverfa. Það er alveg ljóst að þessi hópur á sinn rétt eins aðrir, alveg eins og bíleigendur, hestamenn, fótboltamenn og aðrir hópar í samfélaginu. Við höfum séð núna, á þeim árum sem þessi hópur hefur vaxið, að ekki hefur verið komið til móts við hann gagnvart lagaumgjörðinni og aðstöðu og allri umgjörð í þessu sporti. Nú geta menn kallað torfæruaksturinn sport. Þetta er ekki samgöngutæki lengur. Þetta er orðið meira sport. Ég tel því eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún líti ekki á þetta sem umhverfismál að vissu leyti vegna þess að það þarf að byggja upp svæði svo þessi hópur geti stundað íþrótt sína innan ákveðinna marka. Enginn vill utanvegaakstur. Til eru samtök torfærubifhjólamanna sem heita VÍK, Vélhjólaíþróttaklúbburinn. Þar innan dyra eru um 600 manns. Hjólin eru um 3.000. Þetta er því stór hópur. Í VÍK eru menn mjög ákveðnir í að standa sig vel gagnvart umhverfinu. Hrafnkell Sigtryggsson sem er formaður VÍK — ég sé reyndar að hann er hér á pöllunum til að fylgjast með þessari umræðu — hann og forusta VÍK hefur beitt sér fyrir því að þessi hópur haldi sig innan ákveðinna svæða og sé ekki í utanvegaakstri. En það vantar mjög tilfinnanlega svæði. Það er búið að útvega nokkur svæði. Á suðvesturhorninu má nefna Álfsnes sem var útvegað í samstarfi við Reykjavíkurborg og fleiri og það er nýbúið að opna svæði við Litlu kaffistofuna. Það er svæði í Grindavík og á landsbyggðinni eru svæði við Ólafsfjörð, Ólafsvík og Akureyri. En það sárvantar fleiri svæði. Það þarf líka að byggja upp þau svæði sem komin eru. VÍK reynir að standa sig í þessu og mun verða með starfsmann í hlutastarfi sem þeir ætla að reka bara á styrkjum frá fyrirtækjum. Ég tel því mjög brýnt að umhverfisráðherra beiti sér í samstarfi við aðra hlutaðeigandi ráðherra því það eru fleiri mál sem þarf að laga gagnvart þessum hópum. Þar eru það sérstaklega samgönguráðherra og viðskiptaráðherra sem þurfa að koma að. Ég spyr því: Vill ráðherra beita sér í þessu?