132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Æfingasvæði fyrir torfæruhjól.

291. mál
[18:53]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir þessa ágætu umræðu. Það er alveg skýrt að þingmenn hafa áhuga á því að bæta hér úr. Ég tek undir með þeim og hef þess vegna verið að ýta á um úrbætur. Í mínum huga eru sveitarfélögin algjörir lykilaðilar í þessum efnum því að það eru þau sem geta í raun og veru lagt fram slík æfingasvæði. Ég nefndi t.d. sveitarfélagið Ölfus áðan en það er líka æfingasvæði á Snæfellsnesinu, í Snæfellsbæ, sem er mjög áhugavert svæði og síðan nefndi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir réttilega Álfsnesið og líka Grindavík, svæði í nálægð við Grindavík.

Ég tel því að lausna sé fyrst og fremst að vænta hjá sveitarfélögunum sem mundu duga til framtíðar og þau taki þessi mál inn í skipulagsvinnu sína. Ég tel það vera mjög mikilvægt atriði. Brýnt er að þarna fáist úrlausn og mér hefur fundist að þau sveitarfélög sem hafa tekið undir það hafi brugðist rausnarlega við.