132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tryggingavernd torfæruhjóla.

302. mál
[12:49]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Samkvæmt 91. gr. umferðarlaga skal greiðsla bótakröfu vegna tjóns er hlýst af notkun skráningarskylds, vélknúins ökutækis vera tryggð með ábyrgðartryggingu. Að auki skal skv. 92. gr. umferðarlaga hver ökumaður sem ökutækinu stjórnar vera tryggður með sérstakri slysatryggingu. Torfærutæki, þar á meðal torfærubifhjól, falla undir framangreinda vátryggingarskyldu enda eru þau skráningarskyld, vélknúin ökutæki.

Hvað varðar tryggingar torfærubifhjóla í keppni mælir reglugerð nr. 257/2000 um akstursíþróttir og aksturskeppni fyrir um að í keppni skuli þau ökutæki er taka þátt tryggð sérstaklega vegna þeirrar áhættu sem í keppni felst. Með vísan til þess sem nú var sagt er það mat ráðuneytisins að lög og reglur er varða tryggingavernd torfærubifhjóla séu skýr, þessi tæki beri að tryggja og sé vátryggingaskyldunni sinnt er tryggingaverndin til staðar. Endurskoðun laga og reglna sem ná til tryggingaverndar torfærubifhjóla er því ekki á döfinni sem stendur.

Ef umræður gefa tilefni til má láta þess getið að ráðuneytinu er kunnugt um að töluverður misbrestur er á að torfærubifhjól séu tryggð. Sú ástæða sem oftast er nefnd sem orsök þessa er að iðgjöld vátryggingafélaganna séu of há. Ráðuneytið hefur ekki forsendur til að meta iðgjaldsútreikninga vátryggingafélaganna en benda má á að skylduvátryggingin er tvíþætt. Annars vegar tryggir hún gegn tjóni sem hjólið getur valdið og hins vegar er ökumaðurinn tryggður gegn líkamstjóni. Jafnvel þótt akstur torfærubifhjóla takmarkist við afmörkuð svæði verður ekki litið fram hjá hættunni á því að ökumaður bifhjólsins slasist við notkun þess. Gera má ráð fyrir að stærstur hluti iðgjalds vátryggingafélaganna sé til kominn vegna persónutryggingar ökumannsins en hver ökumaður er tryggður fyrir allt að 75 millj. kr. vegna einstaks tjónsatburðar.