132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tryggingavernd torfæruhjóla.

302. mál
[12:54]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það má vel vera að þetta sé með öðrum hætti hjá okkur Íslendingum en hjá öðrum þjóðum. Mér finnst full ástæða til þess að fara yfir það og skoða það. Eins nefnir hv. þingmaður mikilvægi þess að samráð sé haft við hagsmunaaðila og það er allt rétt. Hins vegar hvað varðar afstöðu sýslumanna til þessa máls þá eru það hlutir sem ég get ekki haft áhrif á.

Ég geri mér grein fyrir því um hvað hv. þingmaður er að tala og hef reyndar heyrt eitthvað áþekkt því sem hún sagði heima í mínu kjördæmi þar sem um er að ræða ungt fólk sem hefur áhuga á þessari íþróttagrein og er ekkert nema gott um það að segja. Ég lít á þetta sem íþróttagrein og keppnisgrein. Auðvitað þurfa tryggingar að vera með ákveðnu formi og það þarf að vera festa hvað það varðar en ég segi náttúrlega ekki tryggingafélögum fyrir verkum. Mér finnst það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi hér alveg þess virði að skoða það frekar og mun kynna mér málið.