132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Gleraugnakostnaður barna.

95. mál
[13:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um gleraugnakostnað barna. Ég hef margsinnis flutt frumvarp um þetta mál á þinginu og hæstv. ráðherra hefur a.m.k. tvívegis tekið mjög jákvætt undir það og vildi setja í forgang að auka þátttöku hins opinbera í gleraugnakostnaði. Ræddum við síðast saman um það fyrir einu til tveimur árum í þinginu. Í kjölfar þess skipaði ráðherra starfshóp sem gera átti tillögur um úrbætur og endurskoða lög og reglur um endurgreiðslu á gleraugnakostnaði barna 18 ára og yngri, en starfshópurinn átti að skila niðurstöðu til ráðherra í maí 2005.

Um það er nú spurt hvort þessar tillögur starfshópsins liggi fyrir og hvort ráðherra muni þá ráðast í það að auka þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði barna. Það er mikill mismunur gerður á þátttöku hins opinbera í kostnaði vegna heyrnarskerðingar annars vegar og sjónskerðingar hins vegar. Í því felst að mínu viti mikið óréttlæti enda hefur það komið fram hjá Augnlæknafélagi Íslands að vandamál tengd sjón og heyrn séu jafnmikilvæg í læknisfræðilegum skilningi og að öll heilsuskerðing varðandi sjón og heyrn er jafnlíkleg til að valda þeim einstaklingum sem í hlut eiga erfiðleikum, óþægindum og kostnaði. Ekki er gengið svo langt í því frumvarpi sem ég hef ítrekað lagt fram á þingi að setja eigi sambærilegar reglur um sjónskerðingu og heyrnarskerðingu að því er varðar framlög frá ríkinu, heldur er einungis um að ræða fyrsta skrefið í þá átt að jafna aðstöðu heyrnar- og sjónskertra og einungis miðað við þátttöku ríkisins í gleraugnakostnaði barna en ekki allra eins og gildir um tæki vegna heyrnarskerðingar. Sú litla þátttaka sem nú er hjá ríkinu er sú að núgildandi lög taka einungis til þeirra sem hafa verri sjón en sem nemur einum þriðja af venjulegri sjón með aðstoð bestu mögulegu hjálpartækja og miða þar við skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á því hverjir teljast sjónskertir. Frá þessu er síðan ein undantekning sem ekki hefur lagastoð en fjárveiting hefur verið veitt á fjárlögum til að taka þátt í kostnaði ákveðinna einstaklinga sem hafa þurft á gleraugum að halda í lækningaskyni. Í lækningaskyni hefur verið túlkað þröngt og hafa nærsýnir t.d. algjörlega fallið utan þess flokks.

Það er óskiljanlegt að gert sé upp á milli gleraugnanotenda eftir því af hvaða völdum sjónskerðingin er. Talið er að 12–15% barna yngri en 18 ára þurfi að nota gleraugu, það eru um 12 þúsund börn. Þau börn sem nú fá einhverja aðstoð frá ríkinu í gegnum þá þröngu skilgreiningu sem er fyrir hendi í lögum, þá fjárveitingu sem veitt er á fjárlögum sem ekki hefur lagastoð í endurgreiðslu af læknisfræðilegum orsökum, eru samtals 1.600–1.700 af um 12 þúsund börnum sem þurfa á gleraugum að halda.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að sjón barna breytist ört og þau þurfa því oft að skipta um gleraugu ólíkt því sem gildir um fullorðna. Það hvílir auðvitað skólaskylda á börnum og þeim börnum sem er nauðsyn á gleraugum en fá þau ekki er hættara en öðrum að lenda í erfiðleikum í námi og jafnvel einelti. Því er nú spurt: Hvað líður framkvæmd þessa máls sem hæstv. ráðherra hefur ítrekað boðað í þinginu að hann hafi skilning á og sé að láta skoða?