132. löggjafarþing — 106. fundur,  21. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[18:43]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að bera fram nokkrar spurningar til hæstv. félagsmálaráðherra. Eru þær upplýsingar réttar að hægt sé að fresta því um þrjú ár til viðbótar að þetta lagafrumvarp öðlist gildistöku? Ef svo er, hvers vegna í ósköpunum liggur þá á því að draga frumvarpið inn í þingið á síðustu metrunum áður en við ljúkum þingstörfum í vor? Hvers vegna er ekki hægt að fresta þessu?

Ég hef heyrt mjög alvarlegar aðvörunarraddir innan úr verkalýðshreyfingunni gegn því að þetta frumvarp verði samþykkt. Ég get til að mynda minnt á grein sem Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifaði á vef félagsins þann 4. apríl sl. undir fyrirsögninni „Svartur dagur hjá íslensku launafólki“. Þar sagði hann, með leyfi forseta:

„Það er einnig alveg ljóst að frjálst flæði erlends vinnuafls mun stórskaða það markaðslaunakerfi sem viðgengist hefur á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum.“

Þetta sagði formaður Verkalýðsfélags Akraness. Hann spyr þeirrar eðlilegu spurningar: Hvers vegna í ósköpunum gerir ríkisstjórnin þetta núna þegar við sjáum það til að mynda að fleiri hundruð manns eru að missa vinnuna suður á Keflavíkurflugvelli á þeim tíma þegar við erum mjög líklega að sigla inn í djúpa efnahagslægð, hugsanlega kreppu? Það er himinhátt eldsneytisverð, hækkandi vextir, gengi krónunnar fellur og það er allt sem bendir til þess að lífskjör almennings í landinu muni versna mjög verulega á næstu mánuðum.

Þess vegna kem ég hér upp, virðulegi forseti, til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvers vegna í ósköpunum liggi á því að gera þetta núna.