133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

húsaleigubætur.

108. mál
[14:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin en þau valda mér vonbrigðum. Ég taldi að hæstv. félagsmálaráðherra mundi vinda sér í það í samvinnu við sveitarfélögin að skoða hækkun á þessum grunnbótum. Ég get sjálf svarað þeirri spurningu sem hæstv. ráðherra svaraði ekki, hve mikið fjárhæðirnar hefðu hækkað ef þær hefðu fylgt vísitölu. Í staðinn fyrir 8 þús. kr. væru þær í dag 12.800 kr. og ég fullvissa ráðherrann um að fátækt fólk sem varla á fyrir mat út mánuðinn, m.a. vegna hárrar húsaleigu sem hefur tvöfaldast á stuttum tíma, munar um þennan tæpa 5 þúsund kall. Ég held að það liggi nokkurn veginn á borðinu að sveitarfélögin voru plötuð á sínum tíma af ríkisvaldinu þegar þau gerðu þennan samning við ríkisvaldið sem hæstv. ráðherra vitnaði í. Ég geri ráð fyrir að fjárhæðin sem fer í greiðslu húsaleigubóta hafi a.m.k. þrefaldast frá því að þetta samkomulag var gert. Ef ég man rétt er hún núna um 1.500 millj. kr. Ég hygg að hún hafi ekki verið nema 500 millj. þegar ríkið gerði þetta samkomulag. Mér finnst það engin afsökun og réttlæti það að þetta taki ekki mið af vísitölubreytingum að húsaleigubætur séu undanþegnar tekjuskatti. Það var auðvitað mikil búbót fyrir fólk, ég er alveg sammála því. Og að sveitarfélög hafi tekið upp sérstaka greiðslu húsaleigubóta til að greiða niður greiðslur á almennum markaði er vitaskuld mjög gott, en við verðum að hafa í huga að við erum að tala um fátækasta fólkið og það munar um þessa fjárhæð. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að leita strax samvinnu við sveitarfélögin um það hvort ekki sé hægt að hækka þessar greiðslur vegna þess að fólk munar verulega um það.

Núna eru rúmlega 1.600 manns á biðlista eftir leiguíbúðum í Reykjavík. Það á einungis að fjölga slíkum íbúðum um rúmlega 600 á næstu fjórum árum, ef marka má ummæli borgarstjóra sem fram koma í Morgunblaðinu í dag. Það er auðvitað nauðsynlegt að breyta þessu viðmiði eins og ég hef hér lýst.