133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:06]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka utanríkisráðherra fyrir ræðu hennar hér í dag. Ræðan er um margt ágæt og byggir á ýmsum hugmyndum, m.a. sem lagðar voru fram á fundi utanríkismálanefndar í gær og lúta að stefnumótun í mannréttindamálum, stefnumótun varðandi þróunaraðstoð, friðargæslu o.fl. Það er því margt ágætt í ræðunni og verið að vinna að ágætum hlutum í utanríkisráðuneytinu þessa dagana eins og kom fram í ræðu utanríkisráðherrans.

Ég verð hins vegar að vekja athygli á því að þessi ræða og sú vinna sem nú er í gangi af hálfu utanríkisráðherra ber nokkurn keim af því að utanríkisráðherra sé nú að freista þess að bæta ímynd ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem undir utanríkisráðuneytið heyra. Á elleftu stundu er reynt að bæta fyrir ellefu ára vanrækslusyndir því þó að sá utanríkisráðherra sem nú situr í stólnum sé nýr í því embætti hefur ríkisstjórnin setið í tólf ár og allir þeir ráðherrar sem í henni sitja og þeir þingmenn sem hana styðja bera auðvitað jafna ábyrgð á þeirri vinnu sem fram hefur farið í ríkisstjórninni á undanförnum árum. En á elleftu stundu er nú reynt að bæta fyrir ellefu ára vanrækslusyndir og það er auðvitað alltaf gott þegar menn sjá villu síns vegar en það er hins vegar of seint að iðrast eftir dauðann. Ríkisstjórnin er í andarslitrunum og eins og þar segir: feigum verður ekki forðað.

Það er dálítið merkilegt þessa dagana að fylgjast með ráðherrunum, einum af öðrum, gera út á skammtímaminni fólks. Þeir gera það í trausti þess að enginn muni eftir misgjörðum eða vanrækslusyndum undangenginna ellefu ára. Þeir lofa bót og betrun og ávísa nú á framtíðina. Það er skemmst að minnast þess þegar heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra gáfu öldruðum fyrirheit um miklar úrbætur í þeirra málum og ríkisstjórnin næsta á að efna það. Á dögunum var gerður samningur við kvikmyndagerðarmenn um aukin framlög til kvikmyndagerðar og það er næsta ríkisstjórn sem á að greiða fyrir þann samning.

Nú eru gefin fyrirheit um stefnumótun í utanríkismálum, stefnumótun í mannréttindamálum, stefnumótun í þróunaraðstoð, stefnumótun í friðargæslunni, og það er næsta ríkisstjórn sem mun vinna þá stefnumótun. Það færist sem sagt bleik slikja yfir ríkisstjórnina í aðdraganda kosninga. Þetta höfum við svo sem séð fyrr, þetta sáum við hjá Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Þetta eru auðvitað hyggindi en þetta er hentistefna.

Utanríkisráðherra leggur í ræðu sinni áherslu á umhverfisvernd og mannréttindi. Ég geri alveg fastlega ráð fyrir því að ráðherrann sé vel meinandi í þeim efnum en ég vildi að ég gæti trúað því að þar væri talað af heilindum. Tvennt gerir það að verkum að ég verð að gjalda varhuga við því sem ráðherrann segir. Í fyrsta lagi vegna umhverfismálanna þá sé ég ekki að við séum til sérstakrar fyrirmyndar í umhverfismálum. Ráðherrann sagði í ræðu sinni að þar hefðum við margt að kenna öðrum þjóðum. Við stöndum að vísu þokkalega í samanburði við aðrar þjóðir eins og sakir standa, m.a. hvað varðar útblástur gróðurhúsalofttegunda en við stefnum hraðbyri fram úr Kyoto-bókuninni ef fram heldur sem horfir. Aukning í útstreymi koltvíoxíðs vegna nýrra álvera stefnir í um 2.000 tonn. Íslenska undanþágan sem við fengum síðast var um 1.600 þúsund tonn. Við stefnum hraðbyri fram úr því og það er ekkert sem bendir til þess að þjóðir heims geti sótt sér auknar undanþágur næst þegar samið verður.

Í því sambandi ætla ég að vísa í skýrslu fyrrverandi aðalhagfræðings Alþjóðabankans, Sir Nicholas Stern, skýrslu sem hann samdi fyrir bresku ríkisstjórnina, en þar setur hann fram þá skoðun að Evrópuþjóðir verði að draga úr útblæstri sínum um 30% fram til ársins 2020 og um 60% fram til ársins 2050. Að öðrum kosti sé mikil vá fyrir dyrum. Hann bendir á það í skýrslu sinni að verði ekkert að gert strax — ekki seinna, heldur strax — megi búast við því að um 100 milljónir manna verði á flótta vegna flóða víðs vegar um heiminn, að bráðnun jökla muni valda því að einn af hverjum sex íbúum heimsins muni ekki hafa neysluvatn, að dýralífinu verði verulega ógnað og að þurrkar muni hrekja jafnvel hundruð milljóna íbúa jarðar á flótta, gera þá flóttamenn. Það verði því að takast á við þessi mál strax.

Þegar ég tala um að við séum ekkert sérstaklega til fyrirmyndar í umhverfismálum, en sá utanríkisráðherra sem nú situr leggur sérstaka áherslu á þau mál í ræðu sinni núna, fer auðvitað ekki hjá því að það hlýtur að verða að minna á að hér talar fyrrverandi iðnaðarráðherra sem hefur staðið að undirbúningi allra þeirra framkvæmda sem munu, ef fram heldur sem horfir, valda því að við förum fram úr þeim heimildum sem við höfum samkvæmt Kyoto-bókuninni.

Staðan í loftslagsmálum er pólitískt og siðferðilegt verkefni sem við verðum að takast á við af fullri alvöru sem auðug þjóð og við verðum að stefna að því að draga úr útblæstri en ekki auka hann, og við getum ekki búist við því að sækja um frekari undanþágur þegar næsta samningalota hefst.

Í öðru lagi, virðulegur forseti, erum við ekkert til sérstakrar fyrirmyndar í mannréttindamálum meðan við sem þjóð berum pólitíska og siðferðilega ábyrgð á þeim voðaverkum og þeirri óöld sem nú geisar í Írak. Það er svartur blettur á þessari ríkisstjórn að hún skyldi ljá máls á því að styðja innrásina í Írak og það er blettur sem þjóðin sem heild situr uppi með. Ríkisstjórnin hefur aldrei gert upp við stuðning sinn við innrásina í Írak. Og ég tók eftir því þegar frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins voru spurðir um afstöðu sína til innrásarinnar í Írak þá fóru þeir eins og kettir í kringum heitan graut. Flestir hverjir svöruðu að innrásin hefði verið röng í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir. En innrásin í Írak var röng í ljósi þeirra upplýsinga sem lágu fyrir þegar innrásin var gerð, gleymum því ekki.

Hans Blix, sem var í forsvari fyrir þeirri leit sem fram fór í Írak að gereyðingarvopnum, kom m.a. hingað til lands og hélt um þetta erindi, fleiri en eitt og fleiri en tvö. Hans Blix fann engin gereyðingarvopn. Hann bað þjóðir heims að bíða, hann bað um lengri tíma, bara örlítinn tíma í viðbót til þess að staðfesta að þarna væru ekki gereyðingarvopn.

Hvað var gert? Hann var hæddur og smáður af Bandaríkjastjórn og af þeim sem fylgdu henni að málum. Auðvitað berum við sem þjóð fulla ábyrgð á að hafa tekið þátt í þessu. Við berum þar af leiðandi siðferðilega og pólitíska ábyrgð á þeirri ógnaröld sem nú er í Írak.

Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin lét glepjast til þess að styðja við innrásina í Írak, það er ekki hægt að líta öðruvísi á en að þessi siðlausa ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli skammsýnna eiginhagsmunasjónarmiða. Ríkisstjórnin hélt að hún gæti komið sér undan því að takast á við nýjan veruleika í öryggis- og varnarmálum ef hún veitti Bandaríkjastjórn pólitískan og siðferðilegan stuðning í innrásinni í Írak, hún gæti með öðrum orðum verslað í málinu. Ég hygg að aldrei hafi íslensk stjórnvöld lagst jafnlágt.

Varðandi mannréttindamálin er sú áhersla sem lögð er á mannréttindi í þessari ræðu heldur ekki trúverðug þegar þess er gætt hvernig ríkisstjórnin hefur m.a. meðhöndlað Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég veit að núverandi utanríkisráðherra vill gera bót og betrun í því og leggja nokkurt fé til Mannréttindaskrifstofunnar, ég veit það, utanríkisráðherrann kynnti það á fundi utanríkismálanefndar í gær og ég fagna því að það skuli gert og ráðherrann skuli nú sjá að sér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. En það breytir ekki því að það var reynt að svelta Mannréttindaskrifstofu Íslands til hlýðni af núverandi ríkisstjórn af fyrrverandi utanríkisráðherra meðal annars, Davíð Oddssyni, og núverandi dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni.

Ég vil aðeins, virðulegi forseti, leyfa mér að koma hér inn á mannréttindamálin sérstaklega, vegna þess að ég held að það séu gríðarlega mikilvæg mál og ég sakna þess og ég kalla eftir því eina ferðina enn og ég hef gert það áður hér í ræðustól Alþingis, að utanríkisráðuneytið láti þær hugmyndir um mannöryggi sem nú eru að ryðja sér til rúms á alþjóðavettvangi til sín taka. Hugmyndir um mannöryggi eru gríðarlega mikilvægar, þetta eru hugmyndir sem Sameinuðu þjóðirnar eru m.a. að taka upp á sína arma og gerðu að vissu leyti á alheimsleiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna 2005.

Hugmyndin um mannöryggi kallar á alveg nýtt skipulag og ný vinnubrögð í varnar- og öryggismálum. Hún byggir á þeirri hugsun að menn reyni að leggja raunsætt mat á það hverjir eru í mestri hættu og hvað ógnar þeim mest. Almennt má segja að í heiminum steðji mest ógn að þeim þegnum samfélagsins sem minnst völd hafa, þeim sem búa við stöðuga fátækt, hungur, ofbeldi og sjúkdóma. Það er mjög mikilvægt líka að voldugum ríkjum sem freistast til þess að ráðast til atlögu við önnur ríki undir formerkjum verndarskyldu séu sett ákveðin mörk.

Það hefur verið lögð talsverð vinna í það á undanförnum árum að skilgreina þær forsendur sem þurfa að liggja að baki ákvörðun um að fullveldi ríkja víki fyrir verndarskyldu alþjóðasamfélagsins. Verndarskylda alþjóðasamfélagsins er gríðarlega mikilvæg en menn verða líka að umgangast hana af ákveðinni varúð. Kanadastjórn stofnaði starfshóp árið 2000 undir forustu Gareth Evans, fyrrverandi utanríkisráðherra Ástralíu. Þessi hópur skilaði skýrslu undir heitinu „The responsibility to protect“. Finnsk stjórnvöld hafa m.a. tekið þá hugmynd upp á sína arma og settu árið 2002 af stað hið svokallaða Helsinki-ferli, m.a. til að ræða þessar hugmyndir og framhald þeirra.

Í þessari skýrslu eru settar fram grundvallarreglur sem hlíta verður ef hernaðaríhlutun á að teljast réttlætanleg. Þær eru í fyrsta lagi skilgreining á réttlætanlegu tilefni sem byggir á því að fyrirsjáanlegt sé mikið mannfall eða þjóðernishreinsanir. Þetta var ekki til staðar í Írak þegar innrásin var gerð þar.

Í öðru lagi varúðarreglur um framkvæmd sem byggi á því að sannanlega sé tilefnið að koma í veg fyrir mannlegar þjáningar, aðrar leiðir hafi verið reyndar til þrautar, aðgerðirnar séu afmarkaðar og líkur bendi til að þær leiði til varanlegrar lausnar. Þetta var ekki til staðar í Írak.

Í þriðja lagi lögmæti alþjóðasamfélagsins, þ.e. að skýrt sé kveðið á um umboð og stöðu Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar norrænu jafnaðarmannaflokkanna hafa m.a. sett fram þá afstöðu að samþykki öryggisráðsins þurfi til og aðeins aðalritari Sameinuðu þjóðanna hafi rétt til að leggja fram tillögu um hernaðaríhlutun á grundvelli mannöryggis. Þetta var heldur ekki til staðar við innrásina í Írak.

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta nýja öryggishugtak sé mjög mikilvægt og ég hef lesið yfir skýrslur utanríkisráðherra, hvers á fætur öðrum, og ég hef aldrei rekist á þetta hugtak í þeim skýrslum og heldur ekki núna í ræðu utanríkisráðherra. Ég hef aldrei heyrt nokkurn utanríkisráðherra segja frá frumkvæði Kanadamanna og Finna í þessum efnum.

Helsinki-ferlið um hnattvæðingu og lýðræði er að mínu mati mjög merkileg tilraun til að leita lausna sem geta hjálpað alþjóðasamfélaginu að standa við þúsaldarmarkmið sín um þróun. Þetta ferli er lausnamiðað, það leiðir saman vitneskju og fólk úr ýmsum áttum og það er þarna sem við Íslendingar eigum að leita fanga þegar við mótum stefnu framboðs okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þarna eigum við að taka okkur stöðu.

Það sem heimurinn þarf núna er skapandi, víðtækt og framsækið samstarf fjölmargra aðila vegna þess að hefðbundnir alþjóðlegir vinnuferlar ráða ekki lengur við þau vandamál sem hafa fylgt hnattvæðingunni. Við Íslendingar eigum að vera frjálshuga (Forseti hringir.) borgarar nýrra hugmynda en ekki láta fyrirberast áttavillt í þoku eftirstríðsáranna.