133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

skattlagning lífeyrisgreiðslna.

382. mál
[17:49]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að dagurinn í dag hafi sýnt það vel hverjir í þessum sal, hvaða flokkar, vilja setja málefni lífeyrisþega í forgang og hverjir láta lífeyrisþega mæta afgangi. Það var ömurlegt að sjá í morgun hvernig stjórnarflokkarnir stráfelldu allar tillögur stjórnarandstöðunnar um að bæta kjör lífeyrisþega og skapa þeim meira svigrúm til að afla sér atvinnutekna án þess að slíkar tekjur skertu greiðslur almannatrygginga.

Stór hópur lífeyrisþega býr við hreina fátækt hér á landi og hefur ekki annað sér til framfærslu en lífeyri almannatrygginga og kannski lítilræði úr lífeyrissjóðum. Það er ekki annað að sjá á stjórnarflokkunum en þeir vilji halda þessum hópi lífeyrisþega áfram í fjötrum fátæktar og halda þeim frá vinnu, þótt þeir gætu fengið vinnu til að bæta við framfærslutekjur sínar. Það er ömurlegt, virðulegi forseti.

En nú undir kvöld á þessum degi er mælt fyrir máli sem mun hafa afgerandi áhrif á kjör lífeyrisþega nái það fram að ganga. Þetta er stórmál, baráttumál Landssamtaka eldri borgara og lífeyrisþega um langan tíma sem ekki hefur náð fram að ganga. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni þess, hv. þm. Ellerti B. Schram, fyrir góða forustu í þessu máli og vandaða greinargerð með þessari tillögu til þingsályktunar.

Ég er meðflutningsmaður að þessari tillögu og þarf út af fyrir sig ekki að hafa langt mál um hana. Rökstuðningurinn er góður og maður bara veltir fyrir sér sanngirninni og réttlætinu í því í þessu þjóðfélagi, að auðmenn sem að verulegu leyti lifa af fjármagnstekjum sínum skuli einungis þurfa að borga 10% fjármagnstekjuskatt meðan lífeyrisþegar, hvort sem það eru aldraðir eða öryrkjar sem rétt hafa tekjur sér til framfærslu sem losa 100 þús. kr., þurfa að borga 37% skatt. Það þarf út af fyrir sig ekki að tefla fram fleiri röksemdum til að sýna fram á hve mikið sanngirnismál er á ferðinni.

Við í Samfylkingunni höfum nokkur sett fram þingmál um endurskipulagningu á skattkerfinu. Þar rekjum við óréttlætið í skattlagningunni í tíð þessarar ríkisstjórnar þar sem skattbyrði á 90% landsmanna hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar þrefaldast til fjórfaldast meðan 10% þjóðarinnar, þeir sem mest hafa milli handanna, auðmennirnir sem hafa rakað til sín peningum, hafa fengið skattalækkanir. Þar er dregið fram, sem kom t.d. fram við síðustu skattálagningu, hvernig efnað fólk greiðar hlutfallslega lægri skatta en almennir launþegar þar sem verulegur hluti teknanna ber einungis 10% fjármagnstekjuskatt. Í álagningarskránni á þessu ári, vegna tekna 2005, kom fram að 6.600 framteljendur eru með hærri fjármagnstekjur en aðrar tekjur og að 2.200 manns greiða einungis fjármagnstekjuskatt. En á sama tíma greiða almennir launþegar og lífeyrisþegar tæplega 37% skatt. Þar kemur einnig fram að 1% skattgreiðenda eða 600 fjölskyldur eru með 60% allra fjármagnstekna. Að meðaltali eru þessar fjölskyldur með 95 millj. kr. í fjármagnstekjur á ári. Eins er athyglisvert að 10% hjóna, um 6 þúsund talsins, eru með 83% allra fjármagnstekna. Þetta þýðir í raun að 90% skattgreiðenda hafa litlar eða engar fjármagnstekjur. Þessi hópur, það fólk sem hefur það best í þjóðfélaginu, efnafólkið í landinu, þarf einungis þarf að greiða 10% fjármagnstekjur af stórum hluta framfærslutekna sinna. Í þessu býr óréttlætið.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki síst óréttlátt þegar horft er til þess að þegar lífeyrisþegar, sem lagt hafa til hliðar lögum samkvæmt inn í lífeyrissjóði, taka út sinn lífeyri og hafa náð til þess aldri þá þurfa þeir að greiða 37% skatt. Þó eru um tveir þriðju af lífeyrisgreiðslunum sem fólk fær út úr lífeyrissjóðunum ekkert annað en vextir og verðtrygging, ekkert annað en fjármagnstekjur. Eðli málsins samkvæmt ætti lífeyrir því einungis að bera fjármagnstekjuskatt. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, virðulegi forseti, hvað slík breyting sem hér er á ferðinni mundi bæta kjör þessa fólks.

Við höfum heyrt fréttir um það á síðustu dögum hvernig viðbótarlífeyrissparnaður skerðir lífeyrisgreiðslur almannatrygginga ef fólk þarf á honum að halda og leysir hann út. Það er til skammar hvernig það er, virðulegi forseti. Það er sérstakt mál sem þarf að taka alveg sérstaklega fyrir, að fólk skuli sæta svona mikilli skerðingu á almannatryggingagreiðslum ef tekinn er út viðbótarlífeyrissparnaður. Það þarf að huga að því að það skerði ekki greiðslur almannatrygginga þegar viðbótarlífeyrissparnaður er tekinn út. Það hlýtur líka að þurfa að huga að því að lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðunum, a.m.k. að einhverjum hluta, skerði ekki greiðslur almannatrygginga. Hvort tveggja þetta er mikið ranglæti sem þarf að leiðrétta og auðvitað þarf að taka skattkerfið allt til rækilegrar endurskoðunar. Það er ekki hægt, virðulegi forseti, að fólk sem býr við rétt rúmlega 100 þús. kr. tekjur þurfi að borga af því skatt.

Áður en þessi ríkisstjórn tók við borgaði fólk sem einungis lifði af greiðslum almannatrygginga engan skatt. Það þurfti ekki að greiða skatt af sinni litlu framfærslu. En nú er það þannig að t.d. fólk sem þarf fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum þarf líka að borga skatt af þeim greiðslum. Allt þetta segir okkur hve mikilvægt er að fara í að endurskoða skattkerfið með það að markmiði að lækka skattbyrði fólks með lágar og meðaltekjur. Sú leið sem hér er mælt fyrir er sannarlega skref í þá átt að koma á meiri sanngirni í skattkerfinu.