133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ummæli formanns Framsóknarflokksins um stuðning við innrásina í Írak.

[10:36]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta var nokkuð sérkennileg ræða af hálfu formanns Framsóknarflokksins. Hann talaði eins og þetta væri einungis mál sem hann ætti við Framsóknarflokkinn og það væri bara spurning hvernig Framsóknarflokkurinn tæki á þessu máli á sínum miðstjórnarfundi.

Þetta er mál sem formaður Framsóknarflokksins og formaður Sjálfstæðisflokksins eiga við þjóðina og þetta snýst ekki bara um eitthvert lögmæti. Þetta snýst um siðferðilega ranga ákvörðun sem tekin var upphaflega af tveimur mönnum og studd af ríkisstjórninni allri og af þingmeirihlutanum öllum. Það eru þessir ráðamenn, þessir formenn þessara flokka, ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn sem bera siðferðilega ábyrgð á því að hafa tekið þessa ákvörðun sem var röng. Hún var röng þá, hún byggði á röngum forsendum þá og hún er röng núna. Þessir menn komu fram í þinginu — og Morgunblaðið skrifaði t.d. um Samfylkinguna á þeim tíma að þeirri skoðun minni sem ég setti fram í mars 2003 um að það ætti að taka okkur af þessum lista var lýst sem ístöðuleysi Samfylkingarinnar, að vilja ekki vera á lista hinna staðföstu þjóða.

En hverjir voru ístöðulausir? Hverjir voru ístöðulausir og afvegaleiddu þjóðina? Það var ríkisstjórnin, þessir ráðamenn sem gerðu það og þeir skulda okkur afsökun sem sitjum hér í minni hluta á þingi, stjórnarandstöðunni, þeir skulda þjóðinni afsökun og þeir skulda alþjóðasamfélaginu það að gera grein fyrir þeirri afstöðu sinni að ákvörðunin á sínum tíma hafi verið röng.

Hún byggði á röngum forsendum, og hún var röng siðferðilega og lagalega.