133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

símhleranir.

[14:29]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er ekki óeðlilegt að fólk velti fyrir sér hlerunum vegna öryggis ríkisins og íhugi þær, hvernig að þeim hefur verið staðið og hvernig þær komu til.

Sjálfvirki síminn var varla kominn í notkun í Reykjavík á fjórða áratugnum fyrr en farið var að hlera og þá strax samkvæmt dómsúrskurði og talið byggt á gildum lagaheimildum þar um. (Gripið fram í: Gegn hörðum mótmælum Sjálfstæðisflokksins?) En þegar kemur að öryggi ríkisins þá er þar eitt sem vekur athygli mína og það er hve þessi tilvik eru fá og hvað þau eru afmörkuð og þá sérstaklega afmörkuð við heimsóknir erlendra aðila og samskipti við erlend ríki. Það vekur líka athygli að við þær rannsóknir sem birtar hafa verið hafa engar heimildir komið fram um hleranir án dómsúrskurðar eða þá upplýsingar um að það hafi verið um pólitískar hleranir að ræða í anda verkamannaflokksins í Noregi.

Mér finnst hins vegar merkilegt hve hv. þingmaður og reyndar fleiri sem hafa tekið þátt í umræðunni vilja gera hlut Sjálfstæðisflokksins mikinn. Það er vissulega rétt að Sjálfstæðisflokknum er umhugað um öryggi ríkisins og hefur alltaf verið en það verður auðvitað að láta aðra njóta sannmælis í þessum efnum, og ég held að á engan sé hallað þótt fyrstur sé nefndur fyrrverandi forsætisráðherra, Hermann Jónasson, en margt af því sem fjallað er um í umræðunni um öryggi ríkisins og þá tiltölulega takmörkuðu starfsemi sem lögreglan hefur unnið í þeim efnum, má rekja til hans og ríkisstjórna hans, þar með talið ríkisstjórna hans í samvinnu við Alþýðuflokkinn. Einnig eru ummæli fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Einars Ágústssonar, og fyrrverandi forseta Íslands, Kristjáns Eldjárns, athyglisverð í þessu samhengi, hvernig þeir fjalla um sína afstöðu og þá gagnvart afstöðu lögreglunnar til þessara mála. Síðan er auðvitað hlutur fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Steingríms Hermannssonar, ekki lítill í þessum efnum. Af þessu má því ljóst vera að yfirvöld á öllum tímum hafa vitað nákvæmlega hvað var að gerast. (Gripið fram í: Var það Framsóknarflokkurinn?)

Alþýðuflokkurinn tók þátt í þeim ríkisstjórnum sem hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Hermann Jónasson, fór fyrir, þannig að við skulum ekki heldur vanmeta hlut Alþýðuflokksins í því að hafa áhuga á að vernda öryggi ríkisins. (Gripið fram í: Hann var hleraður, var það ekki?) Það er hins vegar nauðsynlegt að allar upplýsingar liggi fyrir og allar upplýsingar komi upp á borðið. Þess vegna hefur verið skipuð nefnd, undir forustu Páls Hreinssonar, sem á að gera þessi gögn aðgengileg fyrir fræðimenn og leggja drög að frumvarpi þannig að það sé skilgreint hvaða fræðimenn hafi aðgang að þessum gögnum. Þetta á allt að liggja fyrir fyrir áramótin. Ég held að það fari miklu betur á því að það sé hlutverk fræðimanna að rannsaka þessi mál og fjalla um þau á sagnfræðilegan hátt frekar en að það séu stjórnmálamenn eða nefndir á þeirra vegum sem fari í gegnum þessi mál og marki einhverja sérstaka ríkissögu í þessum efnum. Ég held að fræðimennirnir séu betur í stakk búnir til að takast á við þetta verkefni og til þess að þeir geti það þurfum að að veita þeim aðgang að gögnunum og ég vil gjarnan stuðla að því að það geti verið í sem ríkustum mæli.

Ég held hins vegar að við eigum að fara varlega í það, þegar við fjöllum um þessi mál og metum hvað var rétt og hvað var rangt á hverjum tíma, að fella dóma yfir þeim dómurum sem ákváðu að heimila hleranir hjá viðkomandi aðilum. Eins og fram hefur komið hefur þetta allt saman verið gert samkvæmt dómsúrskurði og samkvæmt þeim reglum sem um þessi mál giltu á hverjum tíma og því er ekki um það að ræða og á engan hátt hægt að halda því fram að ríkisvaldinu hafi verið misbeitt í þessum efnum. Það voru dómarar sem ákváðu þetta og við eigum síðan að láta fræðimennina um að rannsaka málin.