133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

tæknifrjóvgun.

530. mál
[20:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu umræður sem orðið hafa um þetta mikilvæga mál en því tengjast mörg álitamál eins og hér hefur komið fram. Til mín hefur verið beint spurningum auk þess sem ég vil koma eilítið inn á þessi álitamál sem fram hafa komið í starfi nefndarinnar.

Varðandi það hvort farið hafi verið skipulega yfir kosti og galla og það hvort leggja þurfi sérstaka greinargerð hvað það varðar fyrir þingið, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um áðan, þá fór nefndin að eigin mati vel yfir siðferðileg álitamál. Það kemur mjög vel fram í greinargerðinni með frumvarpinu í kafla V. á bls. 10–12 og að hluta til á bls. 13. Þar er sérstakur kafli sem heitir Siðferðileg álitaefni, sem varðar kjarnaflutning og notkun fósturvísa til að búa stofnfrumulínur. Þetta er mjög ítarlegur kafli þar siðfræðilegum álitamálum er velt upp þannig að nefndin fór skipulega yfir það.

Nefndin fékk líka umsagnir frá aðilum sem gefa sig út fyrir að vera sérfræðingar á þessu sviði og fór yfir þær umsagnir. Þar voru umsagnir frá Siðmennt, frá vísindasiðanefnd og frá Siðfræðistofnun. Einnig komu athugasemdir frá trúarlegum samtökum sem velta þessu fyrir sér varðandi siðfræðina. Um þetta er ítarlega fjallað í greinargerðinni eins og fram kom hjá hv. þm. Pétri Blöndal og hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur. Ég tel að þessum siðfræðilegu álitamálum hafi verið gerð góð skil á báða bóga. Þetta eru álitamál og það skal viðurkennt en þetta er niðurstaðan.

Varðandi fjármunina þá kemur fram í kostnaðarmatinu að ekki er talið að frumvarpið hafi í för með sér aukinn kostnað eins og það kemur fyrir augu þingmanna. Það er gert ráð fyrir því að vísindasiðanefnd geti gefið út leyfi til að stunda þessar rannsóknir. Erfitt er að áætla hve mörg slík leyfi verða gefin út. Þau verða líklega ekki mörg en þó er erfitt að áætla það. Því er ekki séð að telja þurfi þau útgjöld til í kostnaðarmatinu þannig að ég tel kostnaðarmatið eðlilegt.

Varðandi rannsóknirnar sjálfar verða þær fjármagnaðar með þeim hætti sem rannsóknir eru fjármagnaðar í dag. Menn sækja sér styrki á margvíslegan hátt, bæði erlendis og innan lands. Þannig er ekki tekið á því beint í þessu frumvarpi.

Varðandi ræðuna sem hv. þm. Pétur Blöndal hélt áðan þá vil ég fagna henni sérstaklega. Að vísu fannst mér sumt í henni svolítið óskýrt, eins og þetta með glasafrjóvgunina, að velja þyrfti úr fósturvísunum sem væru margir, að maður veldi suma og aðra ekki … (PHB: Þetta er gert.) Þetta er gert.

Ég held, þó að ég viti það ekki, að hv. þingmaður sé ekki á móti glasafrjóvgunum. Glasafrjóvganir bara bera þetta með sér eðli málsins samkvæmt. Menn telja rétt að bjóða upp á glasafrjóvganir og eðli málsins samkvæmt felst það í að menn velja einhverja fósturvísa úr í upphafi og geta síðan notað síðar þá sem eftir eru, ef þeir vilja og þurfa. Þetta eru staðreyndir sem þeir sem styðja glasafrjóvgun hljóta að samþykkja.

Hv. þingmaður kom einnig inn í umræðuna um hvenær maðurinn yrði til. Um það hafa borist athugasemdir frá ýmsum trúarsamtökum sem hafa sent inn umsagnir. Er það við samruna eggs og sæðisfrumu eða er það þegar fósturvísir festist i legi? Hv. þingmaður gerði nú ekki grein fyrir því hvort hann teldi vera rétt en alla vega, ef hv. þingmaður telur að það verði þegar fósturvísir festist í legi, þá mætti faktískt gera þessar rannsóknir. Þá hlýtur viðkomandi þingmaður að styðja að rannsóknirnar séu gerðar af því að þær eru gerðar á fósturvísum utan legs. Meira að segja væri hægt að rökstyðja það að viðkomandi þingmaður mundi þá vilja að fósturvísar yrðu framleiddir til að gera rannsóknir, þeir færu hvort eð er aldrei í leg konu og væru því ekki maður. En þetta eru kannski meira vangaveltur.

Ég tek undir að búið er að fara ítarlega yfir kosti og galla. Mig langar að stikla á stóru út af umræðunni um siðferðileg álitamál til að taka þá póla sem virðast takast á í umræðunni. Í greinargerð frá Hvítasunnukirkjunni segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Hvítasunnukirkjan telur að líf einstaklings hefjist við getnað og eigi því rétt á að líf hans sé verndað. Fósturvísir er í þeim skilningi einstaklingur, manneskja sem á rétt á því að líf hennar sé verndað á sama hátt og fóstur eða nýfætt barn enda er ljóst að líffræðileg og siðferðileg rök eru til staðar sem styðja slíkt.“

Þetta er þeirra skoðun, að líf verði til við getnað og síðar í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Hvítasunnukirkjan getur ekki samþykkt að fósturvísar séu nýttir í rannsóknir, hverju nafni sem þær kunna að nefnast. Eins og fram kemur að framan eru fósturvísar einstaklingar, manneskjur. Fósturvísar eiga ekki að fá minni rétt á að líf þeirra sé verndað en fóstur eða nýfætt barn. Tilraunir á fósturvísum jafngilda tilraunum á fóstrum, nýfæddum börnum eða manneskjum sem síðan eru afgreidd að tilraun lokinni með aflífun.“

Þessi hópur er greinilega algjörlega á móti frumvarpinu. Hið sama kemur fram í Kirkju Jesú Krists, hinna síðari daga heilögu, Reykjavíkurgrein. Þar kemur fram sama sjónarmið, að afstaða þeirra er í stuttu máli sú að í veigamiklum atriðum eru þau andvíg þeim breytingum sem lagðar eru til á núgildandi lögum. Hér segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Eins og fram kemur í greinargerðinni veita núgildandi lög heimild til þess að búa til fósturvísa með glasafrjóvgunaraðferð, einungis sé það gert í æxlunartilgangi. Löggjafinn hefur til þessa talið að af siðferðisástæðum ætti að láta þar við sitja og ekki leyft þá hluti sem í frumvarpsdrögunum er lagt til að leyfðir verði. Við teljum þá afstöðu rétta og að ekki megi víkja frá henni.“

Þetta eru sjónarmiðin sem koma frá þessum aðilum en þá vil ég draga fram sjónarmið frá öðrum og grípa niður í greinargerð hér frá Siðmennt, sem er félag siðrænna húmanista á Íslandi. Þar segir að Siðmennt styðji það sem heimilað er í umræddu lagafrumvarpi á grundvelli upplýsts samþykkis þátttakenda og þess að það hafi ekki í för með sér óþarfaþjáningar.

Í umsögn þeirra kemur einnig fram, þetta er allt aðgengilegt fyrir þingið:

„Siðmennt telur að sú afstaða margra að stofnfrumur eða fósturvísar hafi sérstakt siðferðilegt gildi umfram flest annað sé af persónulegum og oft trúarlegum toga. Um leið og Siðmennt telur afar mikilvægt að borin sé virðing fyrir rétti ólíkra félaga til að koma skoðunum sínum á framfæri í þessu máli telur félagið enn mikilvægara að komist sé að niðurstöðu sem byggð er á raunsæi og nútímalegu siðferðismati á því hvað sé leyfilegt í vísindarannsóknum. Nútímalegt siðferðismat byggir m.a. á því að vega og meta hin ólíku siðferðislegu verðmæti sem finna má í hverju máli og láta þann kost ráða sem skilar mestum verðmætum eða hamingju til sem flestra án þess að valda óásættanlegum skaða. Nútímalegt siðferði byggist einnig á því að gæta samræmis í siðareglum í hvívetna.“

Hér er hvatt til að vega jákvæða hagsmuni þyngra en þessi siðferðilegu gildi gagnvart fósturvísi. Í umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Siðfræðistofnun fagnar því að starfshópur hafi verið settur á laggirnar til að fjalla um það hvort leyfa eigi stofnfrumurannsóknir hér á landi og hve langt megi ganga í þeim efnum. Ljóst er að mjög faglega hefur verið staðið að samningu þessara laga. Með þeim fylgir ítarleg greinargerð þar sem er að finna góðan rökstuðning fyrir fyrirhuguðum breytingum auk þess að vera mjög upplýsandi fyrir stöðu þessara mála í heiminum.“

Siðfræðistofnun skilar því áliti að greinargerðin sem fylgir sé ítarleg og rökstuðningur góður. Að lokum, virðulegur forseti, vil ég taka upp úr umsögn vísindasiðanefndar, úr almennum athugasemdum hjá þeim, með leyfi forseta:

„Vísindasiðanefnd fagnar því að heimildir til stofnfrumurannsókna verði skilgreindar í íslenskum lögum. Stofnfrumurannsóknir eru vaxandi rannsóknarsvið. Vegna sérstöðu þessara rannsókna er mikilvægt að skýrar reglur gildi um þær án þess að skerða frelsi til að stunda rannsóknir þar sem viðurkenndur er siðfræðilegur grundvöllur vísindarannsókna á heilbrigðissviði. Vísindasiðanefnd gerir ekki efnislegar athugasemdir við þær heimildir sem veittar verða til stofnfrumurannsókna.

Í athugasemdum við drögin er í ítarlegu máli gerð grein fyrir markmiðum lagabreytinganna og þær bornar saman við lög og reglur annars staðar í heiminum, einkum á Norðurlöndunum. Enn fremur eru rakin vísindaleg sjónarmið er liggja að baki frumvarpsdrögunum. Loks er gerð grein fyrir siðfræðilegum álitaefnum. Gerð er grein fyrir áliti siðanefndar Evrópusambandsins þar sem m.a. eru áréttuð þau grundvallargildi sem hafa ber að leiðarljósi við stofnfrumurannsóknir.“

Ég tel að nefndin hafi vandað vel til verka og farið yfir þessi siðferðilegu álitamál sem þingmenn hafa talsvert gert að umræðuefni. Ég skil það mjög vel. Þetta eru flókin mál, þau eru viðkvæm. Menn eiga að ganga varlega um þennan málaflokk en menn einnig að hafa í huga hve mörgum er hugsanlega hægt að hjálpa þessum rannsóknum, hvað þær geta linað þjáningar þeirra sem fá sjúkdóma. Það ber að vega þá hagsmuni á móti.

Niðurstaðan er sú að leyfa að nota svokallaða umframfósturvísa í rannsóknir í stað þess að farga þeim og nýta ekki í neitt. Það er annar meginstólpinn í þessu frumvarpi. Hinn stólpinn er að leyfa kjarnaflutning undir mjög ströngum skilyrðum.

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil sérstaklega fagna ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals sem ég heyrði að hefur velt þessu mikið fyrir sér. Hann telur að hér sé búið að gera vel grein fyrir kostunum og líka göllunum, þ.e. siðfræðilegum álitamálum sem hljóta að koma uppi í málum af þessu tagi. Ég er mjög bjartsýn á að þetta mál nái fram að ganga og tel það brýnt og eðlilegt.