133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.

[13:57]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er átakanlegt að heyra hvernig viðskiptaráðherra stillir sér með bönkunum en ekki neytendum. Það liggur fyrir að vextir hér og bankakostnaður er glæpsamlega hár. Það liggur fyrir að það hefur verið okrað á neytendum, það liggur fyrir að þjónustutekjur hafi hækkað um 600% á fjórum árum, það liggur fyrir að vextir hafi hækkað um 435% og ráðherrann hefur ekkert annað að segja við þetta fólk en að hann ætli að fylgjast með álengdar meðan neytendur eru blóðmjólkaðir.

Þetta gengur auðvitað ekki og ég kalla eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra svari því hvort hann sé ekki sammála mér um að það þurfi að fara fram rannsókn á þessu bankaokri sem hér hefur verið lýst og ráðherrann hefur ekki neitað. Það liggur fyrir í skýrslu Samkeppniseftirlitsins, sem ráðherrann vísaði í, frá ágúst sl., að tilmælum er beint til ríkisstjórnarinnar — til ríkisstjórnarinnar — ekki bara aðila á markaði að taka á þessum málum, m.a. vegna þess að staðan eins og hún er nú skaðar neytendur, hún skaðar neytendur, segir Samkeppniseftirlitið. Það liggur fyrir að bankarnir hafa ekkert gert með tilmæli og tillögur Samkeppniseftirlitsins. Þess vegna á hæstv. ráðherra að grípa inn í. Þess vegna á hann að beina því til bankanna að þeir fari að tillögum Samkeppniseftirlitsins og þess vegna á ráðherrann að setja löggjöf sem kemur í veg fyrir sameiginlegt eignarhald bankanna á greiðslukerfum bankanna og Reiknistofnun bankanna. Hún á að heyra undir Seðlabankann. Það mundi tryggja betri þjónustu við neytendur.

En ráðherrann ætlar ekkert að gera. Ég lýsi fullri ábyrgð á ráðherrann ef hann ætlar ekkert að gera í þessu máli meðan neytendur hafa verið blóðmjólkaðir svo árum skiptir frá því að einkavæðingin kom á. Einkavæðingin átti að tryggja betri hag neytenda, hún átti ekki bara að tryggja hag einkavina ríkisstjórnarinnar heldur neytenda allra og það hefur hún ekki gert. (Forseti hringir.) Ég segi við ráðherrann: Komdu í lið með okkur í Samfylkingunni. (Forseti hringir.) Burt með þetta bankaokur.