135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

réttindi samkynhneigðra.

18. mál
[18:27]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það er nú þannig að ég hef kynnt mér þetta frumvarp og hlustað hér á umræður og velti því fyrir mér hvort allir geri sér ekki grein fyrir því þegar því er haldið fram að það megi ekki mismuna fólki eftir kynhneigð eða að það megi ekki flokka fólk eftir kynhneigð að þá erum við að gera það að ýmsu leyti í okkar þjóðfélagi. Þar kemur ekkert við spurning eða sjónarmið hvort um gagnkynhneigða eða samkynhneigða er að ræða. Það er hins vegar margs konar kynhneigð sem er til þar sem við flokkum fólk og gerum hana jafnvel refsiverða. Þess vegna eigum við að nota rétt orð þegar við erum að tala um það og ekki koma með sjónarmið eins og þau að það megi ekki í neinum tilvikum eða neins konar tilvikum mismuna fólki eftir kynhneigð því að við gerum það. Við höfum það í okkar hegningarlögum og ég reikna ekki með því að þeir sem eru hér aðstandendur eða flutningsmenn þessa frumvarps vilji afnema þau lagaákvæði sem þar eru. Það kemur því máli í sjálfu sér ekkert við sem hér er um að ræða. Ég er eingöngu að vekja athygli á þessu til þess að fólk og virðulegir alþingismenn gæti að orðavali sínu hvað þetta varðar.

Hvað frumvarpið varðar að öðru leyti vil ég segja þetta: Hjúskaparlögin sem slík hafa reynst vel. Þau hafa gengið í gegnum ýmsar breytingar og þau hafa verið ákveðin þjóðfélagsleg umgjörð um hjónabandið sem hefur gefist vel. Þau eru almenn lög um þær almennu reglur út frá þeim almennu sjónarmiðum sem hafa gilt og gilda í þjóðfélaginu.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði hér áðan eða var með vangaveltur um það hver fjöldi samkynhneigðra væri og það kann vel að vera að hún hafi þar nefnt rétta tölu og ég skal ekkert vefengja það og í sjálfu sér get ég tekið undir þau sjónarmið sem komu fram hjá flutningsmanni og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og þeim sem hér hafa talað í umræðunni að að sjálfsögðu ber að sjá til þess að þjóðfélagshópar sem eru viðurkenndir eins og samkynhneigðir njóti þjóðfélagslegra réttinda, njóti almennra mannréttinda. Það er grundvallaratriði. Síðan komum við hins vegar að spurningunni um það hvernig við tryggjum það þannig að við gætum að því að sýna sjónarmiðum og viðhorfum eðlilegt umburðarlyndi. Það er þar sem ég hygg að þetta frumvarp verði að töluverðum ásteytingarsteini þar sem þarna er verið að tala um og leggja til breytingu frá því meginviðhorfi sem gilt hefur.

Hv. 1. flutningsmaður þessa frumvarps, Kolbrún Halldórsdóttir, sagði í framsöguræðu sinni að það þyrfti að ná öllum réttindum fyrir samkynhneigða og þá vænti ég þess og tel að það hafi verið átt við almenn mannréttindi. Þá spyr ég: Hvaða almennu mannréttindum í þjóðfélaginu hafa samkynhneigðir ekki náð? Þau kunna einhver að vera og við skulum þá fara í gegnum það og þá erum við að skilgreina hluti út frá spurningunni um mannréttindi. Eru það einhver atriði varðandi samvist eða sambúð samkynhneigðra, erfðarétt eða annað, þar sem ekki má koma því fyrir að gildandi lögum að þessi minnihlutahópur sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um geti notið fullra mannréttinda? Ég fæ ekki séð annað en að um það geti verið að ræða óháð því hvort við hróflum við því sem segir í hjúskaparlögunum eins og hér stendur þannig að við breytum ekki þeim kynbundnu sjónarmiðum sem byggju að baki hjúskaparlögunum heldur tökum þá frekar upp í sérlög þau ákvæði sem við teljum að eigi frekar við þannig að við virðum og sýnum umburðarlyndi þeim sjónarmiðum sem í gildi eru og marka umgjörð um hjónabandið þar sem mikill meiri hluti eða um eða yfir 90% þeirra sem eru í hjónabandi búa við og hafa búið við. Spurningin er því að viðurkenna og virða mörkin á sama tíma og við skoðum hvernig við getum gætt þess að öll almenn mannréttindi séu í heiðri höfð. Ég skal svo sannarlega styðja það en ég tel að við séum ekki endilega á réttri leið með því að samþykkja það frumvarp sem hér er lagt til.