135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[12:23]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með að hafa lagt fram glæsilegt frumvarp til laga um grunnskóla. Það er margt gott og glæsilegt sem kemur fram í því og undirstrikað að öll börn landsins hafi frían aðgang að menntun sem er náttúrlega grundvallaratriði í lýðræðis- og velferðarþjóðfélagi.

Ég hnýt reyndar um eitt atriði í 2. gr. frumvarpsins sem er breyting frá 2. gr. núgildandi laga. Í þeim segir, með leyfi forseta:

„Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.“

Í nýja frumvarpinu, í frumvarpinu sem nú er lagt fram eru orðin „kristilegt siðgæði“ felld út en í staðinn eru taldir upp aðrir þættir eins og: jafnrétti, ábyrgð, umhyggja, sáttfýsi og virðing fyrir manngildi.

Ég tel, frú forseti, að ef fella á þetta út, „kristilegt siðgæði“, þá verði a.m.k. að standa þarna kærleikur því að náttúrlega er ekkert æðra og meira þegar við tölum um samskipti manna en að fólk sýni hvert öðru kærleika. Það tjáir í raun dýpstu jákvæðu samskipti sem fólk getur átt sín á milli, milli einstaklinga, milli hópa og hvernig við eigum að koma fram hvert við annað. Ég er hins vegar ósáttur við að orðin „kristilegt siðgæði“ skuli tekin út.