135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[12:27]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrt og gott svar. Ég er mjög sáttur við afstöðu hennar. Margir hafa dregið þá ályktun, vegna þess að það hefur fækkað í þjóðkirkjunni, að kristnu fólki hafi fækkað í landinu. En það er ekki endilega svo. Fjöldi fólks hefur flust til landsins og þó að það gangi ekki beint inn í þjóðkirkju Íslands þá er ekki þar með sagt að það sé ekki kristið. Ég held að langsamlega stærsti hluti þjóðarinnar sé kristinn, örugglega hátt í 90%. Ég vona að ég fari rétt með hlutföllin en þau eru nálægt þessu. Þess vegna hnaut ég um þetta.

En ef Evrópudómstólar og sáttmálar gera ráð fyrir að þetta megi ekki vera svona þá verðum við sjálfsagt að beygja okkur undir það. Ég vil þó árétta þá skoðun mína að orðið kærleikur eigi að koma þarna inn. Ég held að ekkert orð í íslenskri tungu nái betur yfir þau hugtök sem verið er að tjá hér, sem eiga að sýna elsku, vináttu og virðingu fyrir manngildi. Ég mundi jafnvel orða það mannhelgi, í þessu tilviki, að taka þau orð inn.

Þetta langaði mig til að nefna í andsvari. Mér finnst þetta vera mikið mál og hef líka heyrt mjög marga úti í samfélaginu, sem ég hef hitt að máli, tala um að fyrir þeim sé kristið siðgæði eitt það háleitasta sem þeir þekki.