135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[14:19]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni Steingrími J. Sigfússyni að ég held að það sé vel til fundið að hefja þing núna í september með umræðu um efnahagsmál og fagna því að forsætisráðherra flytur hér skýrslu um stöðu mála.

Það er auðvitað um fátt meira rætt þessa dagana og hefur verið raunar í allt sumar en einmitt stöðuna í efnahagsmálum og alveg sjálfgefið að þegar þingmenn mæta til starfa núna í byrjun september ræði þeir þessi mál.

En ég verð að játa að eftir að hafa hlustað á formann Vinstri grænna áðan fara yfir það í hverju væri hald og í hverju ekki, verð ég að segja að lítið hald er í hávaðanum sem frá honum kemur. Fátt var um lausnir en meira um upphrópanir í því sem hann sagði.

Við horfumst auðvitað öll í augu við að talsvert mikill viðsnúningur hefur orðið í íslensku efnahagslífi á undanförnum mánuðum. Hér var þensluskeið í nokkur ár en núna eru blikur á lofti. Við sjáum verðbólguna, háa stýrivexti og takmarkaðan aðgang að erlendu lánsfé, að það er allt saman farið að hafa áhrif á kaupmátt almennings, á greiðslubyrði almennings af lánum, og á fjárfestingu og rekstur fyrirtækja. Um þetta þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð. Við horfumst öll í augu við þessa staðreynd. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessari stöðu en við eigum líka að nálgast hana af raunsæi og ábyrgð. Skilningurinn og samúðin sem menn hafa — ég geri ráð fyrir að formaður Vinstri grænna hafi samúð með þeirri stöðu sem upp er komin — (Gripið fram í.)ég geri ráð fyrir því að formaðurinn hafi bæði skilning og samúð en það má ekki snúast upp í blekkingar og hræsni, að hrópað sé eftir lausnum, patentlausnum, sem ekki eru fyrir hendi. Þegar erfiðleikar steðja að, hvort sem það er í lífi samfélaga eða einstaklinga, eru engar einfaldar lausnir til. Eina lausnin sem til er er að vinna sig í gegnum erfiðleikana jafnt og þétt með margvíslegum hætti og það er það sem verið er að vinna að núna. Það er engin einföld lausn til.

Formaðurinn dró hér upp fyrirsögn úr Viðskiptablaðinu þar sem ég segi að það sé ekki kreppa á Íslandi. Það eru váboðar. Það eru blikur á lofti en það er ekki óveður á Íslandi núna. (Gripið fram í.) Vonandi getum við komið í veg fyrir að það verði. Það eru váboðar og við eigum að taka mark á þeim en það er ekki skollið á neitt óveður.

Það er margt sem við verðum að hafa í huga í þessu sambandi. Verðbólga og háir stýrivextir eru ekki til marks um kreppu. Það getur verið til marks um allt annað. Atvinnuleysið er enn þá sem betur fer lítið eða 1,2% þó að uppsagnir hafi sannarlega aukist. Það er enn þá mikil neysla í samfélaginu. Það er t.d. ekki samdráttur í dagvöruverslun og viðskiptahallinn er um 17%. Eins og ég sagði eru blikur á lofti og auðvitað má búast við því að atvinnuleysi aukist þegar líður á veturinn. Það má búast við því að gjaldþrotum fjölgi í ýmsum atvinnugreinum. Við skulum horfast í augu við þessar staðreyndir af alvöru og takast á við þær af ábyrgð.

Ég lít svo á að við stöndum nú andspænis þríþættu verkefni: Það er í fyrsta lagi lausafjárvandi bankanna sem þarf að takast á við. Það er í öðru lagi há verðbólga og enn eru til staðar umtalsverðar verðbólguvæntingar. Í þriðja lagi þurfum við auðvitað, þrátt fyrir alla þessa erfiðleika og kannski einmitt vegna þeirra, að vinna að efnahagslegum stöðugleika og langtímahagvexti, hvernig við ætlum að tryggja hann.

Ef við horfum aðeins á lausafjárvanda bankanna þá stafar hann fyrst og fremst af skorti á lánsfé á alþjóðlegum mörkuðum. Vandi bankanna er ekki eiginfjárvandi. Bankarnir eiga tiltölulega góðar eignir og nýtt álagspróf frá Fjármálaeftirlitinu sýndi að þeir eru nokkuð vel í stakk búnir til að takast á við vandann. Eins og fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra er vandi bankanna ekki einskorðaður við íslenska fjármálakerfið. Þetta er alþjóðlegur vandi. Ef ég man rétt líkti seðlabankastjóri Bandaríkjanna nú nýverið stöðunni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum við náttúruhamfarir. Það er þetta sem við erum að glíma við núna, hér eins og annars staðar. Bankarnir og ríkisvaldið verða að glíma sameiginlega við þennan vanda. Ég tel að þetta sé eitt stærsta málið sem takast þarf á við núna. Hvað er þá til ráða? Jú, bankarnir þurfa auðvitað sjálfir að halda áfram að afla sér erlends lausafjár og þeir hafa til þess ýmsar leiðir. Þeir geta líka losað um ýmsar eignir og þeir þurfa að gera það þar sem ekki of mikil afföll eru því samfara. Þeir geta haldið áfram að afla sér innlána á erlendum mörkuðum og svo þurfa þeir líka að hætta að skerða starfsfé sitt með óhóflegum bónus- og arðgreiðslum. Hafi þær óhóflegu greiðslur verið gagnrýniverðar, þ.e. bónusgreiðslur í fjármálakerfinu, þegar vel áraði er engin réttlæting fyrir þeim núna. Það er auðvitað eitt af því sem bankarnir þurfa að gera til þess að fá almenning í landinu með sér til þess að hann skilji hvað við er að eiga.

En ríkisvaldið þarf auðvitað að vinna að því að efla gjaldeyrisforðann með erlendri lántöku eftir því sem færi gefast. Eins og fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra hefur verið unnið í því og varð 12% aukning á gjaldeyrisforðanum í lok júní. Hann var 200 milljarðar í lok júní en hann er nú kominn upp í 500 milljarða kr. Það hefur því sannarlega verið unnið að þessu verkefni. Seðlabankinn getur haldið áfram að leita eftir gjaldmiðlaskiptasamningum eins og hann hefur þegar gert upp á 1,5 milljarða evra og var gert í maí. Allir þessir aðilar, ríkisstjórn, Seðlabanki og bankarnir, þurfa auðvitað að stilla saman strengi sína eftir því sem hægt er varðandi erlenda lausafjáröflun. Þetta er mikilvægt verkefni sem þarf að takast á við.

Varðandi háu verðbólguna og verðbólguvæntingarnar stafar verðbólgan fyrst og fremst af þeirri gengislækkun sem orðið hefur sem og hækkandi innflutningsverði á eldsneyti og matvælum. Hvað er þá til ráða varðandi verðbólguna og verðbólguvæntingarnar? Meðan verðbólgan er í tveggja stafa tölu og kjaramál eru í ákveðinni óvissu eins og þau eru núna er ekki líklegt að Seðlabankinn lækki stýrivexti.

Það sem við verðum að horfast í augu við er að ákveðið hjöðnunarferli í okkar ofþanda hagkerfi var og er óumflýjanlegt. Þenslan sem verið hefur hér og hagvöxturinn á undanförnum árum hafa ekki verið drifin áfram af aukinni framleiðni heldur fyrst og fremst af skuldsetningu og innflutningi á erlendu vinnuafli. Það er ekkert sem getur komið okkur út úr þessum vanda annað en samstillt átak um að halda aftur af verðhækkunum eins og kostur er.

Það sem skiptir kannski mestu máli núna í þessu sambandi og við þessar aðstæður og gæti skapað aðstæður fyrir því að vaxtalækkunarferli gæti hafist, er að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld komi að einu borði til að sammælast um hvernig takast eigi á við þá staðreynd að forsendur kjarasamninga virðast brostnar. Sú staðreynd blasir við og á meðan málið er óleyst og menn hafa ekki komið sér saman um hvernig þeir ætla að takast á við þennan veruleika er mjög líklegt að verðbólguvæntingar verði áfram miklar og vaxtalækkunarferli geti ekki hafist.

Þeir eru ýmsir sem kalla nú á fráhvarf frá núverandi peningastefnu við þær aðstæður sem uppi eru og vilja að Seðlabankanum séu sett ný markmið. Kallað er á að menn hverfi frá markaðri stefnu. Það gerir m.a. formaður Vinstri grænna. Hann gerði það á fundi sem vinstri grænir héldu nú nýverið. Að kalla á að menn hverfi frá þessari mörkuðu stefnu er ekkert annað en ábyrgðarleysi og ávísun á meiri óstöðugleika. Það er auðvelt að hafa samúð með erfiðum rekstraraðstæðum fyrirtækja en atvinnulífið verður engu bættara ef gengið fellur frekar en orðið er og tveggja stafa verðbólga verður viðvarandi. Sterkt samband vaxta, gengis og verðlags verður ekki umflúið með óskhyggjuna eina að vopni.

Þriðja sem ég nefndi hér áðan var að vinna að efnahagslegum stöðugleika til lengri tíma og langtímahagvexti. Sveiflur í íslensku hagkerfi eru allt of miklar og þær skapa meiri óvissu í rekstri heimila og fyrirtækja en eðlilegt er. Þetta á að hluta til rót sína að rekja til gjaldmiðilsins sem nýtur ekki trausts og hefur ekki gert lengi. Við erum með verðtryggingu vegna þess að krónan okkar hefur ekki notið trausts. Það birtist bara með öðrum hætti nú en það hefur áður gert. Verðið á gjaldmiðlinum okkar sveiflast einfaldlega of mikið og þar af leiðandi eru það ekki margir sem vilja undirgangast fjárhagslegar skuldbindingar til lengri tíma án verðtryggingar. Hvað er þá til ráða í því sambandi? Jú, ég tel að það verði að móta til lengri tíma stefnu í gengismálum og stjórn peningamála. Það eru sterkar vísbendingar um að núverandi fyrirkomulag sé ekki það ákjósanlegasta og ég tel að fara þurfi fram ítarleg og vönduð úttekt á framtíðarfyrirkomulagi peningamála við fyrsta tækifæri rétt eins og forsætisráðherra boðaði á aðalfundi Seðlabankans. Það þýðir ekki að menn ætli að hlaupa á brott frá því markmiði sem fjármálastefnan hefur núna bara si svona. Að undangenginni vandaðri úttekt geta menn tekið ákvarðanir um hvernig stefnu í peningamálum eigi að marka þegar til framtíðar er litið.

Það hafa margir sagt að laga þurfi verðbólgumarkmiðið að svokölluðum íslenskum veruleika. Það þýðir á mannamáli að verðbólgumarkmiðinu verði annaðhvort vikið til hliðar tímabundið eða að Seðlabankinn fái fleiri markmið eins og hátt atvinnustig, viðskiptajöfnuð, gengisstöðugleika og svo á hann að vega þetta allt saman með þessu eina tæki sem hann hefur sem eru vextirnir. Að eiga að uppfylla mörg mismunandi markmið með einu tæki getur ekki verið ávísun á árangur. Reynsla okkar Íslendinga af fljótandi gengi með verðbólgumarkmiði getur ekki talist góð og þess vegna er full ástæða til að vinna að ítarlegri úttekt á reynslu undanfarinna ára af færustu sérfræðingum.

Varðandi hitt málið, sem er líka mikilvægt þegar til lengri tíma litið varðandi langtímahagvöxt og -stöðugleika, er að móta stefnu til framtíðar um nýtingu orkuauðlinda og orkufrekan iðnað. Okkar verðmætustu auðlindir eru vatnsaflið og jarðhitinn. Auðvitað verðum við að nýta þær en það er ekki sama hvernig það er gert. Stefnan til framtíðar um nýtingu orkuauðlinda og orkufrekan iðnað á m.a., eins og kemur fram í stjórnarsáttmálanum, að byggjast á rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða.

Endurskoðun peningamálastefnunnar, gengismálanna og stjórn peningamála er ekki skammtímaaðgerð, það er langtímaaðgerð. Það sama á við um nýtingu auðlindanna okkar. Það er ekki hagstjórnarákvörðun til skamms tíma. Það eru miklir hagsmunir í húfi og við megum ekki láta stjórnast af skammtímahagsmunum í þessu. Auðlindirnar okkar eru þarna. Þær hlaupa ekki frá okkur. Verðmæti þeirra mun aukast ef eitthvað er og þess vegna þurfum við alltaf að tryggja að við nýtum þær með besta mögulega hætti og að besta verðið fáist sem fáanlegt er á hverjum tíma.

Virðulegur forseti. Við tölum hér um aðgerðir til skemmri tíma og unnið hefur verið mjög ötullega að þeim málum af hálfu ríkisstjórnarinnar en ekki með neinum stórum aðgerðum, ekki með neinum boðaföllum, enda er það ekki hægt. Það er engin slík lausn í sjónmáli og það getur enginn boðið upp á slíka lausn við þær aðstæður sem nú eru. Við þurfum að vinna okkur í gegnum vandann en samhliða því þurfum við að móta stefnu til framtíðar, bæði varðandi orkuauðlindirnar okkar og gengismálin.