136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

gjaldfrjáls göng.

304. mál
[14:39]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að rætt skuli um gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng og þakka framsögumanni, hv. þm. Ragnheiði Ólafsdóttur, að vekja athygli á baráttu Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir gjaldfrjálsum göngum. Ég fagna því líka að hv. þingmaður skuli hafa þá óþolinmæði að ætlast til að það yrði klárað á fyrsta eina og hálfu árinu sem ríkisstjórnin sat. Hún náði ekki lengri tíma áður en bankakerfi og fjármálakerfi landsins hrundi.

Verkefnið er enn óleyst og það hefur margt breyst síðan þær kröfur komu fram sem mæla með því að gjaldfrjáls göng verði tekin upp sem fyrst en jafnframt, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, erfiðleikana við að fjármagna þá 4–6 milljarða sem það mundi kosta á næstu árum. Málið er einfaldlega það að þetta er mikið réttlætismál og gjaldið er á hluta þjóðvegar 1 en hvergi annars staðar. Ég held að það sé klárt mál að við þurfum að stefna að því að afnema þetta gjald og þurfum (Forseti hringir.) að finna því leið í sambandi við endurskoðun á gjaldtökum á vegum almennt, því fyrr því betra.