136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp frá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og fleirum varðandi fækkun nefnda hjá Alþingi, frumvarp sem má líta á sem rökrétt framhald af breytingu á þingsköpum sem hv. þm. og fyrrverandi forseti Alþingis hafði beitt sér fyrir og náð verulegum árangri í því að bæta starfsskilyrðin á þinginu og mikilvægt innlegg í umræðuna.

Gríðarleg vakning hefur orðið á þeim stutta tíma sem ég hef verið í þinginu. Ég hef orðið var við það að menn krefjast þess sífellt meira og meira að þingið verði eflt og styrkt, það verði sjálfstæðara og óháðara framkvæmdarvaldinu og um leið hafa menn verið að berjast fyrir því að starfsskilyrði í þinginu verði bætt. Ég held að ástæða sé til að taka undir alla þessa þætti, þetta er allt saman mikilvægt og nauðsynlegt að vinna að því. Samtímis má þó segja að auðvitað verða menn að skoða leiðirnar hvernig þetta er best gert.

Í þeim tillögum sem liggja fyrir á að fækka nefndum niður í sjö. Það er hugmyndin sem kemur fram í greinargerðinni, þ.e. að efla starf nefndanna, gera það skilvirkara og minnka árekstrana, sem er mjög mikilvægt. Nefndarfundir eru gjarnan settir á sama tíma og rekast því á. Einstakir nefndarmenn sem margir hverjir sitja í tveimur til þremur eða þremur til fjórum nefndum verða að velja á milli og kalla þá inn varamenn. Breytingin ætti að bæta skipulagið, það yrði auðveldara að koma á nefndarfundum og skipuleggja nefndavinnuna. Í greinargerðinni kemur líka fram að hægt sé að auka sérfræðiaðstoð og skerpa fókusinn á þeim málum sem verið er að vinna að.

Ég ætla þó í byrjun að segja að ég sem nýr þingmaður fékk tækifæri til að starfa sem formaður í einni nefnd, félags- og tryggingamálanefnd, og sat jafnframt í menntamálanefnd og fjárlaganefnd. Ég verð að viðurkenna að það var ómetanlegt tækifæri til þess að kynnast einmitt mörgum málaflokkum í þinginu. Ég hafði getað séð fyrir mér að maður hefði setið í einni nefnd, t.d. menntamálanefnd eða einhverri slíkri, sem í sjálfu sér hefði skerpt fókusinn en það sem gæti gerst og er ákveðin hætta á þegar menn fækka nefndum og menn verða í sérhæfðari málaflokkum — að vísu eru þessar nefndir með býsna stór mál undir — verði þetta þannig að í svipaðri umfjöllun og er í dag verði menn sérfræðingar í ákveðnum málum, fjalli eingöngu um þau og greiði síðan atkvæði í öðrum málum eftir því sem talsmaður viðkomandi flokks segir eftir að hafa setið í nefndinni.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hafi breiða skírskotun og hafi góða yfirsýn í nefndunum og í mörgum málaflokkum. Það er því ákveðinn galli þegar fækka á nefndum, þjappa málum saman og menn verða að fjalla um takmarkaðri málaflokka.

Það hefur stundum borið við þegar verið er að gagnrýna þingið að menn hafi ekki þekkingu í hinu og þessu. Spurningin er þá ef maður situr uppi t.d. með allsherjarnefnd: Eiga þar eingöngu að vera lögfræðingar sem fjalla um málin? Verða þá sérhópar sem fjalla um dómsmálin og málin sem þar eru? Eiga kennarar fyrst og fremst að vera í menntamálanefnd? Að vísu er gerð tillaga um að þessar tvær nefndir verði sameinaðar og spurningin er þá hvort það sé lausn til að brjóta sig út úr þessu eða hvort þarna verði of ólíkum málaflokkum blandað saman.

Ég tel að umræðan sé afar mikilvæg og ég held að tillögurnar séu mjög góðar í heildina en krefjast auðvitað mikillar umræðu áfram og þurfa að skoðast miklu betur. Við vitum hvert markmiðið er, við vitum í meginatriðum hverju við viljum ná fram sem breytingum og það verður að vera leiðarljósið í þeirri vinnu sem fram undan er.

Ég geri ráð fyrir að forsætisnefnd taki málið til umræðu og velti vöngum yfir því með hvaða hætti slík tillaga geti best fengið framgang einmitt með tilliti til þess með hvaða hætti auðveldast er að reka þingið og þar vita fáir betur en hv. þm. Sturla Böðvarsson hvað er skilvirkast í vinnunni hérna.

Mig langar aðeins að blanda mér í umræðu sem hefur komið fram hjá öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði um meirihlutastjórnmálin, ég hef stundum kallað þetta átakastjórnmál, sem ég hef verið afar ósáttur við þegar þau koma inn í þingið. Mér finnst að menn hafi einmitt dottið í þá gryfju að keppast um að flytja mál til þess að geta merkt sér þau og hafa þá í sjálfu sér oft gleymt því að gæta þess að ná breiðari skírskotun og öflugri stuðningi. Síðan hafa menn gjarnan stillt þessu upp þannig að málið er flutt af minni hlutanum eða af stjórninni og skipað sér í flokka eftir því.

Ég held að ef við hugsum til hagsmuna heildarinnar og til lengri tíma sé meginverkefni þingsins að leita að bestu lausnum, ég kalla þetta lausnastjórnmál, í staðinn fyrir meirihlutastjórnmál eða átakastjórnmál, þar sem við leggjum öll okkar af mörkum til að reyna að ná fram bestu lausn. Verði ágreiningur um þá lausn eða menn hafi skoðanir á ákveðnum þáttum skila þeir séráliti en allir leggi það til sem þeir kunna og geta til þess að vinna málinu sem bestan framgang.

Ég get ekki verið sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að það að semja lög eigi endilega að vera þingmanna. Aftur á móti get ég tekið undir að ég held að afar mikilvægt sé að eftir kosningar leggi menn inn í þingið strax hvaða mál þeir vilja að sé unnið að. Það sé síðan reynt í viðkomandi nefndum að forgangsraða því sem menn vilja láta vinna, semja þar þá þætti sem þeir vilja að komi fram með viðkomandi lögum, búa til umhverfi þess hverju menn vilja ná fram. Ég tel að engin vandkvæði séu á því að menn fái þá aðstoð við að semja lögin og vinna þau fyrir okkur því að það er ljóst að við verðum ekki öll sérfræðingar í því að semja textann sem slíkan.

Í rauninni er þetta gert að hluta til svona núna og ég hef stundum furðað mig á þeirri gagnrýni að þingið sé áhrifalaust. Ef við tökum t.d. síðustu ríkisstjórn þá koma þar tveir stórir flokkar inn með öfluga málefnaskrá, leggja saman um að gera stjórnarsáttmála, síðan er farið í vinnu við að semja lagafrumvörp sem framfylgja þeim stjórnarsáttmála. Við getum tekið dæmi um mál sem voru lögð fram eins og verkefnaskrá eða tillögu í sambandi við málefni barna, við getum tekið dæmi um málefni innflytjenda eða barnaverndarmál. Þar eru settir inn málaflokkar, markmið sett fram og hverju við ætlum að ná fram. Þingið afgreiðir það og í framhaldi er farið í það að koma því í framkvæmd af þar til hæfum aðilum og í mörgum tilfellum er það fjöldi manna sem kemur að því, t.d. hagsmunasamtök. Það eru allt upp í 10–20 aðilar sem koma að hverju lagafrumvarpi og ég verð að segja það einlæglega að ég er ekki viss um að ég sé hæfari en þessi 10 manna hópur til þess að draga allt fram í málinu og búa til hvað besta mál. Eftir sem áður er ábyrgðin okkar þingmanna bæði að setja málið í gang og að taka síðan afstöðu til þess hver niðurstaðan verður í lokin.

Þannig sé ég fyrir mér að vinnan verði frekar en að öll vinnan verði á höndum þingmanna jafnvel þó að þeir njóti aðstoðar. Það sérfræðingaveldi sem oft er í ráðuneytunum getur hæglega orðið eins í þinginu, þingmenn koma og fara. Það verði ákveðinn sérfræðingahópur sem er flinkur í því að semja lagafrumvörp og það hafi meiri áhrif en allt annað í sambandi við meðferð mála.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt, ég fagna því að þessar tillögur eru komnar fram. Ég tel mikilvægt að þær verði ræddar og hljóti umfjöllun bæði í allsherjarnefnd og að einhverju leyti hlýtur forsætisnefnd að skoða málið vegna þess að þetta varðar stjórn þingsins og það skiptir miklu máli að við vöndum okkur við slíkar breytingar. Við höfum verið að ræða ýmsa aðra hluti sem tengjast lýðræðisumræðunni. Komið hafa fram tillögur um stjórnlagaþing og þar er verið að ræða um stjórnarskrárbreytingar eins og þegar hafa komið fram í umræðunni. Ég held að mjög mikilvægt sé að við skoðum það og þar verði farið einmitt í gegnum þetta lýðræðisferli allt saman, áhrif almennings, gagnsæið í allri umfjöllun og eitt af því sem m.a. gæti styrkst við þá breytingu að fækka nefndum er sú tillaga sem kom fram á síðasta þingi, þ.e. að halda opna nefndarfundi þar sem útsendingar eru þar sem fólk á kost á að fylgjast með því hvað er að gerast í nefndum vegna þess að sjónvarpsskjáirnir eru á þingsalnum en ekki í nefndunum en þar er obbinn af umræðunni og langmestur tími er í vinnunni í nefndunum. Þess vegna er mjög gott mál að reyna að opna nefndarfundi og hleypa fólki að umræðunni þar og leyfa því að fylgjast með hvernig hún fer fram og auðvitað verður það auðveldara eftir því sem nefndirnar eru færri og sérhæfðari.

Styrkjum lýðræðið, gagnsæið, réttlætið í allri umfjöllun og almannahagsmunina og reynum að auka upplýsingar til almennings. Með því held ég að við getum styrkt þingið og aukið tiltrú á þinginu sem er afar mikilvægt, og ég held að við deilum öll þeirri ósk sem hér höfum starfað.