139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[15:04]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Það er gott að fá hana upp á yfirborðið en ég verð að viðurkenna að mér hefur þótt óhugnanlegt að heyra hversu langt mér finnst margir þingmenn sem hafa talað á undan mér vera tilbúnir að ganga þegar um er að ræða forvirkar rannsóknarheimildir.

Ég er ekki að gera lítið úr hættunni á skipulögðum glæpasamtökum en ég vara við því að við bregðumst þannig við að við gerum Ísland að lögregluríki. Mikilvægt er að nota ekki hræðsluáróður um Vítisengla eða önnur slík samtök til að rýmka þessar heimildir lögreglunnar. Ég hef heimildir um að lögreglan beiti þeim þegar í einhverjum tilfellum án heimilda og þá á ég t.d. við hleranir án dómsúrskurðar.

Eins finnst mér mikilvægt að hér fari fram umræða um það hvaða hópa við teljum skipulagða glæpahópa. Erum við t.d. að tala um mótmælendur? Geta þeir í einhverjum tilfellum talist skipulagðir glæpahópar? Hver á að fylgjast með því að slíkum heimildum sé ekki misbeitt? Þetta finnst mér vera spurningarnar sem við þurfum að svara áður en lengra er haldið í þessum efnum.