142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

breytingar á útlánareglum LÍN.

[15:17]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að vera hér í dag og fá tækifæri til að ávarpa þingið í fyrsta sinn með fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um fyrirhugaðar breytingar hjá LÍN. Ég vil byrja á að útskýra málið aðeins.

Vegna kröfu á Lánasjóð íslenskra námsmanna um niðurskurð hefur stjórn hans ákveðið að hækka einingafjölda með þeim hætti að háskólanemar verði að ljúka 22 einingum á önn í stað 18 til að vera taldir lánshæfir. Ef skoðað er undanþáguákvæði í reglugerð LÍN er ljóst að ákveðnir hópar sem geta átt í miklum erfiðleikum með að ljúka þessum einingafjölda falla ekki undir þetta undanþáguákvæði.

Hóparnir sem áhyggjur mínar beinast helst að eru einstæðir foreldrar barna sem eru eldri en 12 mánaða, einkum mæður, sem þurfa auk þess að stunda nám og sinna barnauppeldi, að vinna með skóla til að ná endum saman. Jafnframt beinast áhyggjur mínar að foreldrum langveikra og/eða fatlaðra barna en foreldragreiðslur til þeirra vegna umönnunar barnanna falla niður við upphaf náms.

Einn annar hópur sem ég lít svo á að þessi breyting geti komið illa við er fatlað fólk sem ekki flokkast sem 75% öryrkjar en á í erfiðleikum með að ljúka fjölda eininga, oft vegna skorts á einstaklingsmiðuðu námi og viðeigandi aðstoð. Ef umræddar breytingar LÍN taka gildi munu þessir nemendur þurfa að bæta við sig umtalsverðum fjölda af einingum þar sem fjórðungur af námskeiðum, t.d. í Háskóla Íslands, er til 10 eininga. Getur það haft þær afleiðingar að sumir nemendur munu eiga í frekari hættu vegna álags á að falla og uppfylla þar með ekki skilyrði til námslána eða geta ekki stundað nám yfir höfuð.

Vil ég því spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, í ljósi áherslu ríkisstjórnarinnar á að efla menntakerfið með fjölbreyttum hætti, með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar að leiðarljósi, hvernig hann telji að hægt sé að koma í veg fyrir mismunun þessara hópa hvað varðar tækifæri til háskólanáms, ef þessi breyting LÍN á fram að ganga.