138. löggjafarþing — 107. fundur
 16. apríl 2010.
varamaður tekur þingsæti.

[12:00]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Borist hefur svofellt bréf frá Björgvini G. Sigurðssyni, 1. þm. Suðurk.:

„Fyrir Alþingi liggur það vandasama verk að vinna úr skýrslu rannsóknarnefndar þingsins um aðdraganda og orsakir efnahagshrunsins haustið 2008. Meðal þess sem sérstök þingmannanefnd um skýrsluna þarf að vinna úr eru mál sem snúa að ábyrgð ráðherra. Slík úrvinnsla á sér engin fordæmi og brýnt er að til hennar sé vandað svo sem mest má verða og ekkert verði til þess að draga úr trúverðugleika þeirrar vinnu. Ég tel að vera mín í þinginu á þeim tíma gæti truflað þessa vandasömu vinnu og tel því rétt við þessar aðstæður að víkja tímabundið sæti á Alþingi á meðan þingmenn komast að niðurstöðu í þessu mikilvæga máli.“

Samkvæmt þessari ósk þingmannsins tekur 1. varamaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, Anna Margrét Guðjónsdóttir forstöðumaður, sæti á Alþingi í dag sem varamaður Björgvins G. Sigurðssonar. Anna Margrét Guðjónsdóttir hefur áður tekið sæti á Alþingi og er boðin velkomin til starfa á ný.