144. löggjafarþing — 91. fundur
 20. apríl 2015.
nýtt vegstæði yfir há-Holtavörðuheiði.
fsp. KLM, 623. mál. — Þskj. 1078.

[16:28]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og forseti hefur kynnt er ég hér með fyrirspurn um Holtavörðuheiði. Ég sé að ég hef gleymt sjálfri fyrirspurninni hjá mér en það má eiginlega syngja eins og Stuðmenn, þó að þeir hafi sungið á vesturleiðinni, ég er á háheiðinni og á norðurleiðinni þótt ég segi nú ekki að ég sé á 110 og megi ekki verða of seinn.

Fyrirspurn mín snýr án gamans að Holtavörðuheiðinni og því ástandi sem þar hefur verið, ekki bara á þessum vetri heldur oft undanfarna vetur, vegna breyttra veðuraðstæðna. Holtavörðuheiðin hefur lokast nokkrum sinnum í vetur í átta klukkustundir og jafnvel lengur, en ég minni á að hún er mjög erfið yfirferðar og mjög blind þegar veður eru válynd þannig að oft er hún ekki lokuð en stórhættulegt að fara um hana vegna blindu.

Núverandi vegur var lagður fyrir um 30 árum og þá var tekið dálítið mikið tillit til þess að hafa veginn yfir háheiðina til að mikill vindur feykti snjó af vegi og skafrenningur og éljagangur mundi ekki tefja för. Heiðin er í 407 metra hæð þar sem hún er hæst og hefur eins og ég segi verið erfiður farartálmi undanfarna vetur og líka sérstaklega erfið vegna þess að veður hafa mikið breyst.

Þess vegna lagði ég fram þessa fyrirspurn eftir einn slæman kafla í vetur þar sem allt var lokað og rifjaði upp gömul gögn sem mikill eldhugi, verkstjóri Vegagerðarinnar á Hvammstanga, sendi mér um þetta mál þegar ég var samgönguráðherra. Þar gat að líta hugmyndir hans og annarra hjá Vegagerðinni, eins og umdæmisstjórans á norðvestursvæðinu, að nýju vegstæði á 10 kílómetra leið sem mundi lækka veginn um 50–80 metra, þ.e. að þegar komið er upp svonefnda Biskupsbrekku við upphaf Holtavörðuheiðarinnar Borgarfjarðarmegin mundi vegurinn liggja til vesturs um Dalahvilft til norðurs við Holtavörðuheiðina í kringum 300 metra hæð.

Þess vegna set ég fram þessar spurningar sem eru fjórar talsins og hljóða svo, með leyfi forseta:

1. Hvaða athuganir hefur Vegagerðin látið gera á nýju vegstæði yfir há-Holtavörðuheiði?

2. Hversu miklu neðar, í metrum talið, gæti nýtt vegstæði legið?

3. Hver er hugsanlegur kostnaður við slíka framkvæmd?

4. Kemur til greina af hálfu ráðherra að veita fé til slíkrar framkvæmdar í næstu fjögurra ára samgönguáætlun?



[16:31]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir þessa fyrirspurn. Ég ætla að vinda mér í að svara þeim spurningum sem hann hefur lagt hér fyrir mig.

Í fyrsta lagi: Hvaða athuganir hefur Vegagerðin látið gera á nýju vegstæði yfir há-Holtavörðuheiði?

Veturinn 2006–2007 ákvað Vegagerðin að kanna mögulega nýja veglínu sem lægi nokkru neðar um Holtavörðuheiði. Unnin voru svokölluð frumdrög að veglínu austan Holtavörðuvatns en neðan Bláhæðar þar sem vegurinn liggur nú hæst. Nú væri gaman að hafa kort til að geta bent nánar á það nákvæmlega hvaða svæði hér er um að tefla, en þessi breyting á veglínunni mundi byrja norðan Norðurár og taka við af Biskupsbeygju, sem við þekkjum vel og Hæðasteinsbrekku. Síðan færi hún austan Holtavörðuvatns neðan Bláhæðar þar sem núverandi hæsti punktur Holtavörðuheiðarinnar er og kæmi þá inn á gamla veginn 10 kílómetrum norðan Norðurár, með öðrum orðum um 4 kílómetrum norðan Bláhæðar.

Í frumdrögum að hönnun vegar felst grófhönnuð veglína en ofan á landlíkan sem unnið er út frá loftmyndum. Jafnframt var gerð gróf kostnaðaráætlun. Með hléum hefur verið unnið nánar að ýmsum athugunum við þessa leið, m.a. könnuð önnur veglína vestan Holtavörðuvatns. Það hefur verið farið í vettvangsferðir að vori til að kanna snjóalög og færanleg sjálfvirk veðurstöð hefur verið sett upp á þremur stöðum. Lítið hefur verið unnið úr gögnum frá veðurmælingum þessum. Þá er ljóst að bæði meðal- og mesti vindur er mun minni á þessari nýju leið en á háheiðinni þar sem núverandi vegur liggur.

Hversu miklu neðar, í metrum talið, gæti nýtt vegstæði legið? er spurt.

Vegur samkvæmt þessum nýju veglínum mun færast um 350 metra og vera nokkru norðar Holtavörðuvatns. Núverandi vegur liggur hæst í 407 metrum, mesti hæðarmunur yrði því 50–60 metrar.

Hver er hugsanlegur kostnaður við slíka framkvæmd?

Það má gera ráð fyrir því að nýr vegur á þessari leið, sem er 7,5 kílómetrar að lengd, muni kosta á bilinu 850–950 millj. kr.

Kemur til greina af hálfu ráðherra að veita fé til slíkrar framkvæmdar í næstu fjögurra ára samgönguáætlun?

Þessi framkvæmd er ekki á fjögurra ára áætlun og raunar ekki á 12 ára samgönguáætlun. Ég ætla ekki að leggja mat á þessa framkvæmd í þessari stuttu fyrirspurn en mér þykir hins vegar áhugavert að ræða þær leiðir og bætur á þjóðvegakerfinu sem bæði stytta leiðir og draga úr hæð vega og gera þannig samgöngur greiðari. Það er mín almenna skoðun. Það á eflaust við um þetta svæði, án þess að ég vilji ganga lengra í þeim efnum, en líka víðar á landinu þar sem hægt er að fara í verulegar styttingar. Við þekkjum þessa umræðu um Húnavatnssýsluna þar sem hugsanlega væri hægt að stytta mjög verulega. Við vitum líka að þar eru heimamenn ekki allir á einu máli um þá hugmynd, en það er enginn vafi að slík framkvæmd mundi hafa veruleg áhrif á tímalengd, ferðahraða, öryggi o.s.frv. á vegum.

Mér finnst að við þurfum að líta til þess um leið og við lítum til nýframkvæmda, styttingar o.s.frv. hvar við getum farið í framkvæmdir sem eru hreint til þess fallnar að lækka veghæð, draga úr lokunartímum vegna veðurs, stytta vegalengdir og auka öryggi. Engir fjármunir eru ráðgerðir í þetta á þessu stigi málsins og engar frekari ákvarðanir hafa verið teknar hvað þessa framkvæmd varðar.



[16:35]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins í þessu samhengi að minna á umræðuna sem er um Teigsskóg vegna þess að þar hefur krafan um láglendisveg verið mjög hávær á síðustu árum. Það er mjög þarft fyrir okkur sem fjöllum um samgöngumál í þinginu að hafa í huga að þegar einmitt um er að ræða veglínur eins og yfir Holtavörðuheiði, Hellisheiði, Bröttubrekku og fjölmarga aðra vegi sem mjög stór hluti almennings fer um og eru mjög þungar umferðaræðar er um að ræða vegi sem eru tugum og jafnvel hundruðum metrum hærri en Hjallaháls sem vegurinn um Teigsskóg á að leysa af. Ég vil bara geta þessa í þessu samhengi vegna þess að það á að vera keppikefli okkar að reyna eftir fremsta megni að lækka vegina, en vilji menn gera það eru mjög margir aðrir umferðarþyngri vegir en Teigsskógur sem þurfa að koma þar fremst í röðina.



[16:36]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún veitti mér og þinginu við þessari spurningu um há-Holtavörðuheiðina og hugsanlega nýtt vegstæði þar, sömuleiðis hv. þm. Róberti Marshall fyrir innlegg hans um aðra vegi sem við þurfum að ræða um.

Ég hef alltaf vitað að Vegagerðin sem stofnun vinnur mjög faglega og oft og tíðum langt fram í tímann. Það heyrist mér vera gert hér því að árin 2006–2007 var farið að skoða nýja veglínu og unnin frumdrög og gróf kostnaðaráætlun, eins og hæstv. ráðherra getur hér um, á 7,5 kílómetra kafla sem kostar 850–950 millj. kr. og lækkun um 50–60 metra eins og hér hefur komið fram og er svipuð tala og ég var með áðan.

Jafnframt kom fram að Vegagerðin væri að skoða aðra línu en þessa sem ég er ekki alveg viss um hvernig er og get ekki tjáð mig um hér.

Eins og ég segi þakka ég fyrir þetta svar en vil jafnframt geta þess að Holtavörðuheiðin er tengingin milli Norðurlands og höfuðborgarsvæðisins og ákaflega fjölfarin leið, margir einstaklingar og miklir flutningar fara um hana og þess vegna er mér til efs að nokkurt verkefni gæti skilað jafn mikilli arðsemi og þarna, ekki bara hvað varðar það að vegurinn verður opinn oftar heldur er þetta kannski að stærstum hluta til umferðaröryggismál, þ.e. ef Vegagerðin kemst að þeirri niðurstöðu að akstur í blindbyl og skafrenningi á þessari leið þar sem lítið sést fram fyrir rúðuþurrkurnar á bílum gæti orðið öruggari held ég að það sé alveg einnar messu virði að skoða málið frekar.

Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að beita sér fyrir því, ekki núna í fjögurra ára áætlun heldur í 12 ára (Forseti hringir.) áætlun sem mér skilst að eigi að koma í haust, að leggja til fé inn á rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar þannig að Vegagerðin geti farið í meiri og betri athugun og kortlagningu á þessum möguleika (Forseti hringir.) þar þannig að það megi áætla fyrir því fljótlega eftir að þeirri vinnu lýkur.

Ég ítreka þakkir til hæstv. ráðherra fyrir svörin.



[16:39]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einmitt afar brýnt þegar við lítum til 12 ára samgönguáætlunar og ráðstöfunar fjár í samgöngumálum á næstu árum og áratugum að við veitum fé til rannsókna. Þá er ég að tala um bæði vegna þjóðvegarins, styttingar á þjóðvegi nr. 1, annarra framkvæmda sem eru þá tengivegir og slíkir þættir, að við setjum fé í rannsóknir þannig að við getum skipulagt fjármagn til þessara vegamála af eins mikilli skynsemi og völ er á. Þá þarf líka að líta til annarra samgönguframkvæmda eins og hafnarframkvæmda. Við sjáum núna vandann sem blasir við okkur í Landeyjahöfn þar sem við þurfum stöðugt að vera að dýpka höfnina af því að menn sáu aðstæður ekki fyrir þegar menn fóru í þá framkvæmd. Það er mjög mikilvægt að við veitum almennilegt fé til að geta rannsakað þessi mál eins vel og hægt er þannig að þær ákvarðanir sem við tökum, hvort sem varðar nýstórframkvæmdir, jarðgöng, vegi um óbyggð svæði eða hvað sem er, séu að minnsta kosti teknar eftir nákvæma skoðun, bæði út frá öryggissjónarmiðum sem eru gríðarlega mikilvæg, fjárhagslegum sjónarmiðum og síðan með tilliti til styttingar ferðatíma.