131. löggjafarþing — 11. fundur
 19. október 2004.
varnir gegn mengun hafs og stranda, 1. umræða.
frv. umhvn., 206. mál (mengunarlögsaga). — Þskj. 206.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:35]

Of skammt var liðið frá útbýtingu — Afbrigði samþ. með 45 shlj. atkv.

[13:35]
Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda. Þar er ekki um stórvægilegar breytingar að ræða.

1. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að orðin „í landhelgi“ í 1. mgr. 2. gr. laganna falli brott.

2. gr. gerir ráð fyrir að 10. töluliður 3. gr. orðist svo: Mengunarlögsaga Íslands: Hafsvæðið sem nær yfir innsævi að meðtalinni strönd að efstu flóðmörkum á stórstraumsflóði, landhelgi og efnahagslögsögu, landgrunn Íslands og efstu jarðlög, samanber lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

3. gr. gerir ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi.

Frumvarpið skýrir sig sjálft en í örstuttu máli fór svo í meðförum þingsins síðastliðið vor að þá varð ákveðin skilgreining til þess að heimildir íslenskra stjórnvalda samkvæmt lögunum eru takmarkaðri innan landhelgi en utan. Það var að sjálfsögðu ekki ætlunin og því er þetta frumvarp lagt fram og afskaplega mikilvægt að við náum þessari breytingu fram eins hratt og mögulegt er því að hver maður sér að við það verður ekki unað að heimildir íslenskra stjórnvalda í þessu máli séu takmakaðri innan landhelgi en utan.

Góð sátt var um málið í umhverfisnefndinni og stendur hún öll að frumvarpinu.