131. löggjafarþing — 111. fundur.
umræður utan dagskrár.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:31]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mönnum á að vera það í sæmilega fersku minni að faglegt yfirvald umhverfismála í landinu, Skipulagsstofnun, hafnaði Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma vegna mikilla neikvæðra og óafturkræfra umhverfisáhrifa. Ríkisstjórnin beitti pólitísku valdi gegnum þáverandi umhverfisráðherra og sneri niðurstöðunni við. Kárahnjúkavirkjun er ekki bara stærsta einstaka framkvæmd Íslandssögunnar, hún er líka einhver mesta pólitíska handaflsaðgerð og mestu ríkisafskipti sem um getur í atvinnusögu landsins. Undirbúningur verksins var knúinn áfram og fjármagnaður af ríkisstjórn, beitt var pólitísku handafli til að leyfa framkvæmd sem fagleg umhverfisyfirvöld höfnuðu. Virkjunin er byggð af opinberu fyrirtæki, og sérstök ríkisábyrgð og eigendaábyrgð opinberra aðila er á fjárfestingunni. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er því algjör á umhverfisspjöllunum, á hinum neikvæðu efnahagsáhrifum sem nú leika hagkerfið grátt og á því sem er að koma í ljós um óvönduð vinnubrögð við undirbúning framkvæmdarinnar.

Í matsskýrslunni um umhverfisáhrif frá því í maí 2001 stendur m.a. eftirfarandi um jarðfræðirannsóknir og aðstæður fyrir undirstöðu stíflunnar eða stíflnanna, með leyfi forseta:

„Jarðfræðirannsóknir skipa jafnan veglegan sess við undirbúning vatnsaflsvirkjana. Mikið er í húfi því grundvöllur framkvæmdarinnar byggist í mörgu tilliti á jarðfræðilegum aðstæðum. Slíkar rannsóknir á virkjanasvæðinu norðan Vatnajökuls hófust fyrir um 30 árum og telja verður að svæðið sé vel rannsakað og kortlagt.“

Síðan segir um fyrirhugaðar stíflur við Kárahnjúka og undirstöðu þeirra:

„Að mati tæknimanna hentar bergið á stíflustæðunum vel sem grunnur fyrir þær.“

Annað hefur heldur betur komið á daginn. Þessi orð eru hrein öfugmæli. Gögn sem lágu til grundvallar umhverfismati hafa í veigamiklum atriðum reynst röng eða rangtúlkuð. Iðnaðarráðherra lagði frumvarpið um Kárahnjúkavirkjun fyrir þingið og því var troðið í gegn á röngum forsendum. Menn hafa þegar ratað í mikla erfiðleika í upphafi framkvæmdanna, einkum við gerð undirstöðunnar undir stífluna miklu efst í gljúfrunum. Um 8–10 m dýpra reyndist á fast í gljúfurbotninum. Undirstaðan er mun sprungnari, og virkni þar meiri en gert var ráð fyrir. Þetta hefur tafið verkið um mánuði og valdið milljarða viðbótarkostnaði.

Langalvarlegast er þó að áhættan sem tekin er, eða verður ef haldið verður áfram, er til mikilla muna meiri en látið var í veðri vaka þegar verkinu var þröngvað af stað. Höfðu menn þó fyrir sér varnaðarorð manna eins og Guðmundar heitins Sigvaldasonar, Gríms Björnssonar og fleiri jarðvísindamanna. Er kapítuli út af fyrir sig hvernig reynt var að þagga slíkt niður og gera ekkert með, eins og lesa má um í Morgunblaðinu í dag. Það hefur gætt ískyggilegrar tilhneigingar til skoðanakúgunar og til að tortryggja alla þá, þar með talið jafnvel virtustu, vísindamenn sem ekki makka rétt með stóriðjurétttrúnaðarstefnunni. Ef því er svo fylgt eftir með einhvers konar „Berufsverbot“ er ekki von á góðu í okkar litla landi. (Iðnrrh.: Nýyrði?) Um þessar nýju aðstæður og aukna vá sem … Nei, hæstv. iðnaðarráðherra er greinilega ekki vel að sér í sögu aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku úr því að hún kannast ekki við orðið Berufsverbot. Þessar nýju aðstæður og aukna vá sem fylgir byggingu Kárahnjúkastíflu hafa nú loksins komist til skoðunar og hefur sérfræðingahópur undir forustu Freysteins Sigmundssonar m.a. nýlega skilað frá sér niðurstöðum í skýrslu um það efni. Þar kemur fram að a.m.k. af þrem mismunandi ástæðum geta jarðfræðilega varhugaverðar aðstæður skapast við Kárahnjúkastíflu og hreyfing orðið á svæðinu sem skapi hættu á leka og jafnvel stíflurofi. Þetta er einfaldlega vegna þrýstings þegar lónið sjálft verður fyllt, þetta getur gerst vegna jarðskjálfta bæði nær og fjær og þetta getur gerst ef eldvirkni tekur sig upp á nálægum svæðum. Af þessum ástæðum hef ég leyft mér að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra eftirtalinna spurninga en auðvitað verður þetta mál hvorki tæmt né fullrætt hér:

1. Telur ráðherra að fyrirtækinu Landsvirkjun sé treystandi til að halda þessu verki áfram í ljósi þess sem komið hefur fram um óvandaðan undirbúning framkvæmdarinnar?

2. Kemur til álita að mati ráðherra að hætta við gerð Kárahnjúkastíflu og myndun Hálslóns eða a.m.k. endurskoða umfang og hönnun framkvæmdanna?

3. Mun ríkisstjórnin sjá til þess að gert verði vandað og trúverðugt áhættumat?

4. Hefur lánveitendum verið gerð grein fyrir breyttri stöðu og aukinni áhættu? (Forseti hringir.)

5. Telur ráðherra ekki ástæðu til að fram fari opinber rannsókn á máli þessu öllu?



[10:37]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Herra forseti. Jarðfræðirannsóknir við Kárahnjúka hófust sumarið 1992 og hafa verið stundaðar öll árin síðan, en frá og með árinu 1999 hafa þær verið unnar í nánu samstarfi við stífluhönnuði. Mun óhætt að fullyrða að þessar jarðfræðirannsóknir séu umfangsmestu undirbúningsrannsóknir vegna mannvirkjagerðar hér á landi. Allt fram til ársins 2002 ríkti enn óvissa um hvort og hvenær af framkvæmdum yrði og var því leitast við að halda öllu jarðvegsraski í lágmarki sem vissulega takmarkaði nokkuð hve langt var unnt að ganga við kortlagningu berggrunns á svæðinu. (Gripið fram í: … umhverfisvernd.)

Í tengslum við mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar sumarið 2001 komu fram athugasemdir frá Grími Björnssyni jarðeðlisfræðingi og Guðmundi heitnum Sigvaldasyni jarðfræðingi sem báðir drógu í efa nægjanlegt öryggi stíflu við Kárahnjúka, m.a. vegna þess hve mikið væri af sprungum á svæðinu og jafnvel hætta á eldsumbrotum. Landsvirkjun óskaði eftir áliti þeirra jarðfræðinga sem staðkunnugastir voru og stundað höfðu rannsóknir á svæðinu í um 10 ár og skiluðu þeir í samvinnu við hönnuði stíflumannvirkja greinargerð þar sem flestar athugasemdir Gríms og Guðmundar voru hraktar. Sérfræðingar á vegum Alcoa yfirfóru einnig þessi gögn og komust að sömu niðurstöðum. Vegna ábendingar Gríms um hugsanlegt landsig af völdum Hálslóns var Freysteini Sigmundssyni jarðeðlisfræðingi falið að leggja mat á sigið og varð niðurstaða hans að landsig gæti numið um 30 sm á nokkrum áratugum. Grímur benti einnig á mikilvægi þess að jarðhiti á svæðinu yrði rannsakaður ásamt tengslum hans við sprungur og leg.

Eftir að jarðlög höfðu verið fjarlægð af stíflusvæði Kárahnjúkastíflu og svæði þar í grennd var auðveldara um vik að greina hugsanlegar bergsprungur. Var þegar hafist handa við nákvæma kortlagningu á jarðfræðistíflu grunnsins og nánasta umhverfis hans árið 2003. Á síðasta ári var samið við Íslenskar orkurannsóknir um að fyrirtækið rannsakaði útbreiðslu jarðhita á Hálslónssvæðinu, tengsl jarðhitans við sprungur og ályktanir sem af því mætti draga. Við þá vinnu fundu sérfræðingar merki um tengsl jarðhita við misgengi sunnarlega á Sauðárdal og mátti rekja misgengið til norðurs inn í námu sem búið var að opna rétt við Sauðá í um 5 km fjarlægð frá Kárahnjúkastíflu þar sem það virtist deyja út. Jarðfræðingarnir telja nú að þetta misgengi sé hluti af austurjaðri sprungusveims eldvirka beltisins sem áður var talið liggja um 12–15 km vestan við Kárahnjúka.

Þegar þessar niðurstöður lágu fyrir var myndaður vinnuhópur vísindamanna frá þeim stofnunum sem sinna rannsóknum á jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum á Íslandi til að yfirfara og endurmeta hönnunarforsendur fyrir stíflurnar þrjár við Hálslón. Hafa þeir nýlega skilað skýrslu um hættumat vegna hugsanlegra jarðskjálfta og misgengis við myndun Hálslóns. Í framhaldi af sérfræðiskýrslu þessari munu verkfræðiráðgjafar yfirfara hönnun á stíflum með hliðsjón af hugsanlegum breytingum á hönnunarforsendum og grípa til viðeigandi ráðstafana eftir því sem ástæða er til. Ekkert hefur enn komið fram sem bendir til verulegra breytinga á stífluhönnun en búast má við ýmsum minni háttar endurbótum og viðbótarvarnaðaraðgerðum.

Jarðfræðiathuganir á sjálfu stíflusvæði Kárahnjúkastíflu hafa á framkvæmdatímanum leitt í ljós fjögur misgengi en aðeins eitt þeirra var þekkt áður en framkvæmdir hófust. Taka ber fram að við hönnun stíflunnar var gert ráð fyrir sprungum og misgengjum sem meðhöndla þyrfti í samræmi við viðurkenndar aðferðir. Hefur hönnun á undirstöðum stíflunnar verið breytt í samræmi við þessar upplýsingar eins og venja er að gera við slíkar aðstæður.

Herra forseti. Ég hef lauslega gert ráð fyrir stöðu rannsókna á jarðfræði við Kárahnjúka og viðbrögðum Landsvirkjunar við nýjum upplýsingum um jarðfræði í næsta nágrenni Hálslóns sem fram hafa komið eftir að framkvæmdir hófust. Rétt er að benda á að jarðfræðilegum rannsóknum við stór mannvirki eins og hér um ræðir lýkur ekki fyrr en byggingu er lokið. Eins og fram kemur að framan er unnið að því að aðlaga hönnun mannvirkja að nýjum jarðfræðiupplýsingum þannig að áhætta verði óbreytt. Slíkt hefur ávallt verið gert við allar stærri virkjanir hér á landi.

Ég hef haldið fund með sérfræðingum Landsvirkjunar, hönnuðum og jarðfræðingum þar sem farið hefur verið ítarlega yfir þessi mál. Vissulega er rétt að misgengiskerfi á svæðinu er viðameira en áður hefur verið talið sem leitt hefur til breyttrar hönnunar á grunni Kárahnjúkavirkjunar og í öðru lagi eru misgengi nokkru yngri en áður hafði verið talið og kunna að geta hreyfst við lónfyllingu eða eldvirkni í nærliggjandi eldstöðvakerfum.



[10:42]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. „Après nous, le déluge“ sagði frægur kóngur í Frakklandi. Eftir okkar dag kemur syndaflóðið, og sá virtist líka vera boðskapur hæstv. ráðherra í ræðu sinni áðan. Það er hins vegar þannig að Guðmundur Sigvaldason jarðfræðingur, Ásta Þorleifsdóttir jarðverkfræðingur og Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur bentu öll á sínum tíma á þá hættu sem gæti falist í stæði stíflu og lóns við Kárahnjúka. En þá var búið að taka ákvörðunina. Ákvörðun var tekin fyrst, síðan var spurt. Fyrst ákvörðun, svo rannsóknir. Ég held að Kárahnjúkavirkjunar verði í framtíðinni minnst fyrir margt, vonandi fyrir það að hún hafi fært Austfirðingum og Íslendingum auð og aukinn kraft í byggðarlagið eystra, einnig fyrir það að þar eru mikil umhverfisspjöll á ferðinni.

Nú bætist það við og hefur raunar lengi verið sýnt að Kárahnjúkavirkjunar verður minnst sem dæmis um það hvernig ekki eigi að taka ákvörðun í mikilsverðum og merkilegum málum.

Forseti. Fyrir þessu þingi, eins og hinu síðasta, liggur frumvarp þar sem endurskoðuð eru lög um umhverfismat. Ég hygg að við það mikla verk sem felst í því að færa þessi lög til betri vegar verði að fara sérstaklega í gegnum þennan feril sem nú liggur fyrir, gegnum það hvaða mark var tekið á ábendingum þessara þriggja jarðvísindamanna, hver þáttur Orkustofnunar í því var, hvernig Landsvirkjun brást við og hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin öll hegðaði sér í þessu máli. Við verðum að búa svo um hnútana að í framtíðinni verði miklar ákvarðanir teknar þannig að menn spyrji áður en þeir skjóta.



[10:44]
Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Miklar jarðfræðirannsóknir hafa staðið yfir á Kárahnjúkasvæðinu í a.m.k. 20 ár, fyrst á vegum Orkustofnunar og síðan á vegum Landsvirkjunar. Þegar skýrslur jarðfræðinga liggja fyrir hanna verkfræðingar mannvirkin á grundvelli þeirra skýrslna og aðlaga þau að jarðfræðilegum aðstæðum.

Í þessu tilfelli er um grjótstíflu að ræða með steyptri kápu og þá er tekið tillit til frágangs í stíflugrunni, styrkingar bergs, lekavatns í jarðlögum móti stíflu, t.d. með grautun. Í upphaflegri hönnun var gert ráð fyrir að misgengjakerfið á Kárahnjúkasvæðinu væri óvirkt, þ.e. engar hreyfingar hefðu átt sér stað á síðustu 10–12 þúsund árum, þ.e. frá síðustu ísöld. Jarðfræðilegar athuganir á byggingartíma eru stöðugt í gangi og hafa leitt í ljós að misgengjakerfið er viðameira en áður var talið og að misgengi í 5 km fjarlægð suður af Kárahnjúkastíflu er talið hafa hreyfst fyrir 3–4 þús. árum.

Sérfræðingar hafa gert skýrslu um málið og þar segir að lítil eða engin jarðskjálftavirkni sé á svæðinu sem sé þó ekki fullkomlega stöðugt til höggunar og jarðskjálfta. Endurskoðun á hönnun stíflnanna er stöðugt í gangi og Landsvirkjun hefur fengið bestu fáanlega ráðgjafa og sérfræðinga í heimi til að fylgjast bæði með hönnun og framkvæmdum enda mikið í húfi. Kostnaður við styrkingu á stíflunum gæti numið 100–150 millj. kr. sem er örlítið brot af byggingarkostnaði. Þess má geta að virkjunarmannvirki á Þjórsársvæðum sem eru mjög virk og mun yngri jarðfræðilega en Kárahnjúkasvæðið eru miklu meiri en á Kárahnjúkasvæðinu.

Ég átta mig ekki á til hvers úrtölur og tortryggnistal stjórnarandstöðunnar er hér í gangi.



[10:46]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Samkvæmt nýlegum fréttum eru verkfræðiráðgjafar að endurmeta hönnunarforsendur stíflumannvirkja að Kárahnjúkum og það er gert í ljósi glænýrra rannsókna. Sem betur fer hefur verið boðað að þetta muni ekki hafa afdrifaríkar afleiðingar hvað varðar kostnað við mannvirkjagerðina, enda má kostnaðurinn ekki fara úr böndunum. Öllum má vera ljóst að þessi virkjun er á mörkum þess að bera sig, virkjun sem kostar um 100 milljarða og tekjurnar árlega verða um 5 milljarðar kr. Þetta er algjörlega á mörkunum að beri sig og þess vegna er mjög nauðsynlegt að umræddur kostnaður fari ekki úr böndunum vegna endurhönnunar.

Þessi kostnaður er mjög sérstæður samanborið við kostnað annarrar virkjunar sem er verið að reisa. Í ágætri heimsókn hjá Orkuveitu Reykjavíkur var okkur kynnt að verið væri að reisa virkjun sem kostaði 12 milljarða að reisa og tekjurnar af henni verða 3 milljarðar árlega. Þetta er mjög sérstakt.

Í þessu máli gefur augaleið að hæstv. iðnaðarráðherra verður að bæta alla upplýsingagjöf um kostnað og um gang mála þarna fyrir austan. Ég spurði hæstv. ráðherra á dögunum, í lok janúar, nokkurra spurninga, m.a.: Hafa verið gerðar aukalega rannsóknir á jarðfræði Kárahnjúkasvæðisins og hafa þær leitt eitthvað nýtt í ljós? Hafa stíflumannvirki verið endurhönnuð og ef svo er, hver var kostnaðurinn við það?

Hæstv. ráðherra sá enga ástæðu til að svara þessu, og það er með ólíkindum.

Ég vil beina þeim orðum til hæstv. forseta þingsins, sem hefur verið duglegur að vanda um við hv. þingmenn, að þeir gæti orða sinna og eitt og annað, að hann fari yfir svör hæstv. iðnaðarráðherra, hversu rýr þau eru, og vandi um við hæstv. ráðherra, að hún geri betur næst, veiti þjóðinni og okkur sem störfum hér sem fulltrúar hennar upplýsingar um gang stærstu framkvæmda Íslandssögunnar.

(Forseti (HBl): Mér er ljúft að lesa ræður iðnaðarráðherra.)



[10:49]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eftir lestur skýrslunnar „Jarðskjálftar og misgengi á Kárahnjúkasvæði“ þykir mér þeim tveimur mínútum sem ég hef hér til umráða best varið með því að vitna beint til orða skýrslunnar.

Þar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Nýlegar jarðfræðirannsóknir benda … til hreyfinga á misgengi í Sauðárdal á nútíma, … Það misgengi liggur að hluta undir lónstæði Hálslóns. Misgengjakerfi við Kárahnjúkastíflu er jafnframt viðameira en áður var talið, og einnig tengist jarðhiti því. Þessar nýju athuganir benda til að svæðið sé ekki fullkomlega stöðugt með tilliti [til] höggunar og jarðskjálfta, og að jarðfræðileg vá sé þar umfangsmeiri en áður hefur verið talið.

Spennu- og aflögunarsvið svæðisins kann að breytast og jarðskjálftar verði þar á ný. Myndun Hálslóns og aukinn vatnsþrýstingur samfara því kann að valda misgengishreyfingum á Kárahnjúkasvæðinu, jafnframt því sem fjarlægir skjálftar geta valdið hreyfingum þar. Þá kann virkni í nærliggjandi eldstöðvakerfum, þar á meðal í Öskju, Kverkfjöllum og Snæfelli, að leiða til misgengishreyfinga við Kárahnjúka.“

Þá segir einnig í skýrslunni að hætta á gleikkun sprungna vegna aukins vatnsþrýstings sé umtalsverð og búast megi við að margar sprungnanna séu mjög lekar.

Hæstv. forseti. Þarf frekari vitnanna við? Deilan um sannleiksgildi varnaðarorða Guðmundar heitins Sigvaldasonar, Ástu Þorleifsdóttur og Gríms Björnssonar er leyst. Þau höfðu einfaldlega rétt fyrir sér. En ætla Landsvirkjun og hæstv. iðnaðarráðherra að halda áfram að berja höfðinu við steininn, sofa rólega og kalla umfangsmikið misgengi undir steypta táveggnum við Kárahnjúkastíflu ótrúlega óheppni?



[10:51]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hrópar upp og gefur í skyn að framkvæmdin sé í hættu vegna þessa misgengis. Til að gera sér grein fyrir heildarmyndinni kostaði um 150 milljónir að bregðast við þessu, sem strax var gert, en framkvæmdin sjálf er upp á 90 milljarða.

Af máli hæstv. iðnaðarráðherra má dæma að öll vinnubrögð varðandi hönnun Kárahnjúkastíflu séu fagleg og vönduð. Vísindamenn hafa gert allar þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru og nú er þetta í því ferli að meta nýjustu tíðindi. Við sjáum af útkomunni að misgengi svæðisins er viðameira en áður var áætlað en við þeim tíðindum hefur verið brugðist með faglegum hætti.

Við skulum ekki gleyma því að sem betur fer eru slík mannvirki hönnuð með mikil öryggissjónarmið að leiðarljósi og á gögnum má lesa að stífla líkt og Kárahnjúkastífla er ekki talin í hættu vegna jarðskjálfta, hún á að þola slíkt. Við gerum að sjálfsögðu þá kröfu að menn hanni og byggi slíkt mannvirki með öryggi í huga, enda um stærstu framkvæmd Íslandssögunnar að ræða. Ég treysti þeim sérfræðingum sem að málinu koma og orðum hæstv. iðnaðarráðherra um að hún sé þess fullviss að engin hætta sé á ferðum.

Svæðið fyrir austan er ekki mjög virkt. Þess vegna er gott til þess að vita að stíflurnar við Hálslón séu hannaðar með það að markmiði að þola sama álag af völdum jarðhræringa og stíflumannvirkin á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu og er það gert þrátt fyrir þá vitneskju að svæðið fyrir austan fjall er margfalt virkara en það sem við ræðum hér. Vonandi mun framkvæmdum ekki seinka við þetta ferli en af öllu er ljóst að Landsvirkjun gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir mikilvægi þeirra mannvirkja sem um ræðir og áhættu þeirri sem blasir við okkur ef ekki er vandað til verka. Af umræðunni liggja fyrir vönduð vinnubrögð og viðbrögð Landsvirkjunar við þessu máli og er það mat mitt að allir aðilar sem að málinu koma hafi það að markmiði að vinnan gangi hratt og vel fyrir sig en fyllsta öryggis sé gætt.



[10:53]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er eðlilegt þegar svo stór mál eru rædd sem hér er gert að menn haldi ró sinni og íhugi og velti fyrir sér bæði sögunni og framtíðinni. Það er okkur auðvitað, sem börðumst fyrir þessum miklu framkvæmdum, afskaplega mikilvægt að vel sé að verki staðið og að allt gangi sem allra best fyrir sig. Við gerum að sjálfsögðu ekki lítið úr því, og höfum aldrei gert, að það er verið að beisla móður náttúru og við ráðum auðvitað ekki að öllu leyti við þau miklu öfl sem þar eru. En þannig er nú í þessu ágæta landi okkar að það er mikil áhætta að búa í því.

Við þekkjum mýmörg dæmi um það að menn hafi tekið áhættu. Tökum Þjórsársvæðið allt saman. Þar er auðvitað jarðskjálftahætta og margs konar önnur hætta og ein af rökunum sem færð voru fyrir því að það væri rétt að fara norður fyrir Vatnajökul voru þau að vera ekki með allar þessar stóru virkjanir á sama svæðinu. En enginn hélt því fram að þetta væri allt gert án nokkurrar áhættu.

Við höfum líka fleiri dæmi. Við munum náttúrlega eftir Kröflu vegna þess að þar var gerð virkjun og þar gerðist ýmislegt sem menn vonuðu að gerðist ekki. Þetta eru staðreyndirnar sem við búum við í þessu landi, og ef við höfum áhuga á því að nýta okkur þá orku sem er til staðar verðum við auðvitað að taka einhverja áhættu. Það hlýtur hins vegar alltaf að vera markmið okkar að gera þessa áhættu eins litla og nokkur kostur er og bregðast við allri þeirri þekkingu sem fyrir liggur á þann besta hátt sem við getum. Það vona ég svo sannarlega að gert sé í þessu máli.

Vegna þess að nú er aðallega rætt um sprungur og misgengi rifjast upp að hér í nágrenni við okkur snerust árið 1982, ef ég man rétt, borgarstjórnarkosningar um að það mætti alls ekki byggja á sprungusvæðum. Ef ég man rétt réðust (Forseti hringir.) úrslitin meira og minna af því, en í ljós hefur komið að þar var verið að mála skrattann á vegginn, eins og ég óttast að sé (Forseti hringir.) svolítið verið að gera í þessu máli.



[10:55]
Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að heyra að hv. 7. þm. Norðaust., Einar Már Sigurðarson, flutti aðra rullu hér en fyrri þingmaður Samfylkingarinnar, hv. 7. þm. Reykv. s., Mörður Árnason, sem er einn af þeim mörgu mönnum innan Samfylkingarinnar, eins og t.d. hv. þm. Helgi Hjörvar, sem hafa mjög amast við Kárahnjúkavirkjun og öðrum mannvirkjum austur þar. (Gripið fram í: Hann er ekki …)

Á hinn bóginn kom mér ekki á óvart að hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, skyldi hefja þessa umræðu. Ef minnst er á álver má segja um hann: Finni hann laufblað fölnað eitt / fordæmir hann skóginn. Mætti kannski segja þegar tekin er áhætta í virkjunum að gömlum alþýðubandalagsmönnum væri nær að hugsa til þeirrar miklu áhættu og litlu rannsókna sem sumir sögðu að hefði verið áður en Magnús Kjartansson, iðnaðarráðherra Alþýðubandalagsins, ákvað að ráðast í Kröfluvirkjun (Gripið fram í.) á árunum 1973–1974. Ég man raunar þann tíma þegar Kröflueldar komu og á lítinn hraunmola sem kom upp um rör á einni borholunni í Bjarnarflagi í Kröflueldum.

Þó svo að við minnumst þessa vitum við Norðlendingar að við verðum að lifa í þessu landi, og einmitt nú erum við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að berjast fyrir því að álver rísi við Húsavík. Við höfum hugsað okkur að nota jarðvarmann frá Bjarnarflagi til þessa álvers, nema ef vera kynni að álverið kæmi við Eyjafjörð, sem ég veit ekki um á þessari stundu. En við Norðlendingar erum ekki hræddir við að taka áhættuna, við teljum að við verðum að nýta kosti landsins. Varðandi Kárahnjúka vitum við að það er minni áhætta að reisa stíflu þar en önnur orkuver sem við höfum (Forseti hringir.) reist á síðustu áratugum og hugsum okkur að reisa nú.



[10:57]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er sérkennilegt að heyra menn bera Kárahnjúkavirkjun, sem ekki er sambærileg við neina aðra framkvæmd sem reist hefur verið á Íslandi, saman við ólíklegustu hluti, virkjanir af allt öðrum toga, svo að ég tali nú ekki um húsbyggingar á höfuðborgarsvæðinu.

Kárahnjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Hún er stærsta jarðvegsstífla sem byggð hefur verið í Evrópu og á bak við hana á að mynda uppistöðulón með 2,4 rúmkílómetrum vatns. Það sýnist okkur sessunautum hér, stærðfræðikennaranum Kristni H. Gunnarssyni og mér, að séu kannski 2,4 milljarðar milljarða tonna af vatni sem þarna á að hlaða ofan á jarðskorpuna bak við stærstu jarðvegsstíflu Evrópu, sem núna hefur þurft að endurhanna jafnóðum og hún er byggð, skipta táveggnum í þrennt, dæla ókjörum af steypu niður í jörðina til að reyna að þétta misgengissprungur sem þar hafa uppgötvast. Og koma menn svo hér og láta eins og þetta sé ekkert til þess að hafa neinar áhyggjur af, það sé bara svartagallsraus að vitna í niðurstöður vísindamanna sem menn eru nú loksins, því miður svo seint, farnir að taka alvarlega.

Það er nefnilega ekki þannig að einhverjir fundir uppi í Landsvirkjun hreki athugasemdir og ábendingar vísindamanna. Það er akkúrat öfugt, varnaðarorð Guðmundar Sigvaldasonar, Gríms Björnssonar, Ástu Þorleifsdóttur o.fl. hafa verið staðfest. Það hafa reynst innstæður fyrir þeim og skömmin er þeirra stjórnvalda, vísindamanna og fyrirtækja sem höfðu þetta að engu, gerðu ekkert með það á þeim tíma sem átti að taka þetta alvarlega og rannsaka frekar.

Auðvitað var hneyksli að vaða af stað með þessa framkvæmd og troða frumvarpi sem heimilaði hana í gegnum Alþingi og þegja um og gera ekkert með þær ábendingar sem þarna lágu fyrir. Þeir sem tala um 150 millj. kr. viðbótarkostnað vita ekki mikið hvað þeir eru að segja. Það liggur þegar fyrir (Forseti hringir.) nokkurra milljarða viðbótarkostnaður vegna aukaframkvæmda, sérstaklega niðri í botni gljúfursins.



[11:00]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tekur ekki rökum og hann ber höfðinu við steininn. Það er svo sem ekki nýtt, hann hefur alltaf verið hræddur við nýjungar og hann er líka hræddur við stórframkvæmdir.

Ég minni á það að ýmsir voru hræddir við Hvalfjarðargöngin hér forðum (Gripið fram í.) en þau hafa nú heldur betur sannað sig. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað hér um misgengi á Kárahnjúkasvæðinu er rétt að benda sérstaklega á eftirfarandi: Allar stíflur á borð við þær er hér um ræðir eru hannaðar til þess að þola hreyfingu og leka. Hönnun Kárahnjúkavirkjunar og stíflumannvirkja er í samræmi við alþjóðlegar vinnuaðferðir og hefur staðist ströngustu gæðastaðla erlendra eftirlitsaðila. Sprungur, sem kunna að opnast eða víkka á botni lónsins langt frá stíflusvæðinu munu ekki valda auknum leka úr lóninu. Það er því rangt sem hefur verið látið í veðri vaka að lónið geti tæmst af þeim sökum.

Stíflurnar við Hálslón eru hannaðar til þess að þola sömu áraun af völdum jarðhræringa og stíflumannvirkin á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu. Þetta er gert þrátt fyrir að Þjórsár-/Tungnaársvæðið sé margfalt virkara hvað jarðhræringar varðar.

Ég hef nú greint frá staðreyndum þessa máls og mitt mat á stöðunni er að þrátt fyrir að frekari sprungur hafi fundist í lónstæðinu við Kárahnjúka hefur verið gripið til aðgerða þannig að þær muni ekki valda vandræðum við framkvæmd eða rekstur virkjunarinnar. Eftir að hafa kynnt mér staðreyndir málsins og með hvaða hætti brugðist er við þessum nýju upplýsingum við hönnun og byggingu stíflnanna er ég þess fullviss að ekki er hætta á ferðum við rekstur Kárahnjúkavirkjunar. Ég hef áður talað í sambandi við óskylt mál um belti og axlabönd. Ég held að í þessu tilfelli sé óhætt að tala um tvenn axlabönd og tvö belti. (Gripið fram í.)