132. löggjafarþing — 45. fundur.
afleysingar presta.
fsp. AKG, 308. mál. — Þskj. 328.

[15:33]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nýlega kom í ljós að allir starfandi prestar fá aukalega 1,6 mánaðarlaun árlega sem fastar greiðslur fyrir afleysingaþjónsutu og hefur svo verið um eitthvert árabil. Er þeim ætlað að leysa hver annan af á vikulegum frídögum, sumarleyfum og í veikindum eftir því sem ég kemst næst.

Starfsumhverfi presta er mjög mismunandi og skipulagið gamalt og gamaldags. Þörf fyrir prest á tilteknum svæðum hefur ekki verið endurmetið þrátt fyrir miklar búsetubreytingar á Íslandi og ekkert samræmi er í mannfjölda á bak við hvert prestsembætti. Sem dæmi má nefna Skagafjörð þar sem prestar eru fimm og einn biskup í fjögur þúsund manna samfélagi. Einn prestanna þjónar tæplega þrjú þúsund manns af þessari heild en rúmlega þúsund skiptast á fjóra presta. Ég tek fram að samgöngur innan Skagafjarðar eru góðar. Ég geri ráð fyrir að ástandið sé svipað annars staðar.

Í Reykjavík eru aftur á móti tugir þúsunda á bak við hvern prest. Mér er kunnugt um að margir ungir guðfræðingar vígjast og hefja starfsferil sinn með afleysingaþjónustu þegar prestur fer í námsleyfi eða er veikur. Örugglega er víða hentugt að starfandi prestar leysi hver annan af en annars staðar sennilega ekki. Mér er spurn hve almennar afleysingar þeirra séu í raun og hversu vel þetta fyrirkomulag komi til móts við raunverulegar þarfir þeirra sem flestum þjóna.

Þarna stöndum við einnig frammi fyrir spurningu um jafnræði meðal presta ef þessa vinnuframlags presta er þörf sums staðar en annars staðar ekki, ef sumir prestar vinna fyrir þessum launum en aðrir ekki.

Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Hversu margir prestar, sem ekki höfðu fast prestsembætti, sinntu afleysingaþjónustu fyrir starfandi presta sl. fimm ár, skipt eftir árum?

2. Hvernig skiptist afleysingaþjónustan á

a. námsleyfi,

b. veikindaleyfi,

c. annað?

3. Er haldin skrá yfir afleysingar presta hvers fyrir annan? Ef svo er, hver heldur þá skrá?

4. Hvað ræður því hvort sérstakur afleysingaprestur er ráðinn til starfa eða annar starfandi prestur tekur að sér afleysingu, samanber fastar greiðslur til allra presta vegna afleysinga í sumarleyfum og á vikulegum frídögum?



[15:35]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég kýs að svara 1. og 2. spurningu saman. Árið 2001 voru átta prestar við afleysingaþjónustu, þar af einn tvisvar, þrír leystu af vegna ólaunaðs leyfis, tveir vegna námsleyfis, einn vegna fæðingarorlofs, tveir vegna veikinda, einn vegna prestleysis.

Árið 2002 voru átta prestar í afleysingaþjónsutu, þar af einn tvisvar, fjórir leystu af vegna ólaunaðs leyfis, einn vegna veikindaleyfis, tveir vegna námsleyfa og tveir vegna fæðingarorlofs. Einn af þessum prestum leysti einnig af vegna prestleysis.

Árið 2003 voru 12 prestar í afleysingaþjónustu, fimm leystu af vegna ólaunaðs leyfis, tveir vegna námsleyfa, þrír vegna veikindaleyfa, einn vegna fæðingarorlofs og einn vegna orlofs.

Árið 2004 voru 16 prestar í afleysingaþjónsutu. Þrír leystu af vegna ólaunaðs leyfis, tveir vegna námsleyfa, fjórir vegna fæðingarorlofs, fjórir vegna veikindaorlofs, einn vegna orlofs og tveir vegna prestleysis.

Árið 2005 voru 11 prestar í afleysingaþjónustu og þrír voru tvisvar í afleysingu, einn leysti af vegna veikindaorlofs, fjórir vegna námsleyfa, fimm vegna fæðingarorlofs, einn vegna orlofs og þrír vegna prestleysis.

Spurt er í þriðja lagi:

„Er haldin skrá yfir afleysingar presta hvers fyrir annan? Ef svo er, hver heldur þá skrá?“

Biskupsembættið heldur ekki sérstaka skrá fyrir afleysingar presta en í skjalasafni embættisins er unnt að fletta upp öllum afleysingum. Prófastar skipuleggja afleysingar vegna orlofs hver í sínu prófastsdæmi.

Þá er spurt:

„Hvað ræður því hvort sérstakur afleysingaprestur er ráðinn til starfa eða annar starfandi prestur tekur að sér afleysingu, samanber fastar greiðslur til allra presta vegna afleysinga í sumarleyfum og á vikulegum frídögum?“

Launagreiðslur til presta vegna afleysinga í sumarleyfum greidd sem 60% laun og vegna vikulegs frídags greidd sem 100% laun eru ákveðin af kjaranefnd. Á síðasta ári voru þessar sérstöku launagreiðslur afnumdar og teknar inn í launagrunninn. Biskupsstofa setur ekki presta í sumarafleysingum eins og að ofan greinir heldur einungis þegar um er að ræða tilfallandi leyfi, svo sem vegna náms, fæðingar barns, veikinda eða þegar óskað er eftir launalausu leyfi. Fastagreiðslur til presta vegna sumarafleysinga og vikulegs frídags eru ekkert tengdar afleysingum af öðrum sökum.

Það sem fyrst og fremst ræður fyrirkomulagi afleysingar er stærð prestakallsins og síðan lengd afleysingarinnar. Sem dæmi má nefna að þegar prestar fara í níu mánaða námsleyfi eru yfirleitt settir sérstakir prestar í afleysingu hvort sem um er að ræða lítið prestakall eða stórt og oftast er auglýst eftir fólki þegar um níu mánaða námsleyfin er að ræða. Vegna styttri leyfa eru það yfirleitt nágrannaprestar sem sinna þjónustu ásamt eigin kalli ef unnt er að koma því við. Þó þekkist að prestar séu settir sérstaklega í afleysingar vegna styttri leyfa og yfirleitt er settur sérstakur prestur til afleysinga í stóru prestakalli þó að afleysingin sé til skamms tíma.

Þegar prestur er settur til að leysa af annan prest fær hann greidd full laun og embættiskostnað ef hann gegnir ekki jafnframt öðru embætti. Ef prestur leysir af í svokallaðri nágrannaþjónustu fær hann til viðbótar við sín reglulegu laun greidd hálf laun og hálfan embættiskostnað til viðbótar.



[15:39]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fróðlegt og yfirgripsmikið svar. Það leiðir m.a. í ljós að stígandi hefur verið í því að prestar hafi verið ráðnir sérstaklega til afleysinga undanfarin fimm ár, að vísu aðeins lækkað aftur árið 2005 en fram að því hefur verið talsverður stígandi, það eru því nokkrir tugir presta sem hafa verið í afleysingum undanfarin fimm ár.

Þessi fyrirspurn er sett fram vegna þess að mér hefur oft orðið til umhugsunar skipulag prestsembætta á Íslandi. Nú hefur dómsmálaráðherra tekið sér fyrir hendur að endurskipuleggja starfsumhverfi lögregluembætta og skoðun mín er sú að ekki sé síður ástæða til að líta til skipulagsins á prestsembættunum og því hversu margir þegnar eru að baki hverjum presti fyrir sig.