132. löggjafarþing — 78. fundur.
varamenn taka þingsæti.

[13:35]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseta hefur í dag borist bréf frá Guðjóni Ólafi Jónssyni:

„Þar sem ég dvelst erlendis næstu vikur við framhaldsnám og get því ekki sótt þingfund óska ég eftir því, með vísun til 2. mgr. 53. gr. þingskapa, að 1. varamaður á lista Framsóknarflokksins í Reykv. n., Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, taki sæti mitt á Alþingi á meðan.“

Sæunn Stefánsdóttir hefur áður tekið sæti á Alþingi og er boðin velkomin til starfa á Alþingi að nýju.



[13:36]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki af þessu tilefni ræða sérstaklega þau pólitísku áhrif sem þessar breytingar á ríkisstjórninni gætu haft í för með sér en vil fyrir hönd Samfylkingarinnar þakka Árna Magnússyni fyrir samstarfið. Þó að okkur hafi oft greint á um stefnu og verk í hans ráðherratíð viljum við senda honum okkar bestu kveðjur og þakklæti fyrir samstarfið og óska honum velfarnaðar í nýju starfi.

Við viljum bjóða Siv Friðleifsdóttur velkomna í ríkisstjórnina og óskum eftir góðu samstarfi við hana sem heilbrigðisráðherra. Við óskum Jóni Kristjánssyni einnig velfarnaðar í nýju ráðuneyti og þökkum fyrir samstarfið í heilbrigðisráðuneytinu.



[13:37]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst hin persónulegu skilaboð, síðan hin pólitísku skilaboð. Persónulega þykir mér eftirsjá að Árna Magnússyni úr stjórnmálum og óska honum alls góðs. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að segja að við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskum öllum hrókeruðum hæstv. ráðherrum og þingmönnum velfarnaðar í starfi og brottförnum að sama skapi.

Ég neita því ekki að ég varð hugsi þegar ég heyrði að fyrrv. hæstv. félagsmálaráðherra verði settur yfir fjárfestingar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, eins og það mun hafa verið kallað, hjá einum af stærstu bönkum á Íslandi. Ég fæ ekki betur skilið en þetta sé annað heiti á raforkugeiranum og vek athygli á því að fyrir Alþingi liggja frumvörp frá ríkisstjórninni um að hlutafélagavæða og einkavæða raforkufyrirtækin í landinu. Þetta er þörf áminning til þingsins um að fjármálaheimurinn bíður spenntur eftir því að geta fengið almannaeignir til ráðstöfunar, almannaeignir sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru í þann mund að færa honum til ráðstöfunar. Það eru hin pólitísku skilaboð.



[13:38]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst það ótrúlega óviðeigandi af hv. þm. Ögmundi Jónassyni að flytja þá ræðu sem hann gerði hér nú. Það sem bíður fráfarandi félagsmálaráðherra í Íslandsbanka varðar allt annað en það sem hv. þingmaður talaði um í sinni ræðu og mér finnst það honum til minnkunar að halda þá ræðu sem hann hélt. (Gripið fram í: Þetta var mjög málefnalegt.)