132. löggjafarþing — 120. fundur.
lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði, 2. umræða.
stjfrv., 520. mál (skipulag löggæslunnar, greiningardeildir). — Þskj. 759, nál. 1242, brtt. 1243.

[18:16]
Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

Eins og fram kemur á þingskjali 1242 hefur nefndin fengið til sín fjölmarga aðila við vinnslu málsins og jafnframt bárust fjölmargar umsagnir.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á umdæmaskipan lögreglu hér á landi og á verkaskiptingu milli einstakra sýslumannsembætta vegna endurskipulagningar löggæslu og varða þær bæði innra og ytra skipulag. Lagt er til að við embætti ríkislögreglustjóra starfi greiningardeild sem rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og leggi mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Lögregluumdæmum verði fækkað úr 26 í 15 og þau stækkuð auk þess sem sérstakar rannsóknardeildir verði starfræktar við sjö embætti. Nýtt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu taki við löggæsluverkefnum lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannanna í Hafnarfirði og Kópavogi.

Á fundum nefndarinnar kom fram að markmiðið með breytingunum væri að bæta og efla löggæslu í landinu og auka öryggi borgaranna. Þannig verða lögregluumdæmin færri og stærri en lögreglustöðvum verður ekki fækkað. Telur nefndin að stækkun embætta feli í sér mikla möguleika á sérhæfingu þar sem gert er ráð fyrir að löggæsla og meðferð ákæruvalds færist frá átta minnstu embættunum til þeirra stærri. Með stofnun nýs embættis á höfuðborgarsvæðinu verður unnt að stuðla að betri nýtingu mannafla, sérhæfingu og nýtingu sérþekkingar. Telur nefndin að með breytingunum muni rannsóknir sakamála verða markvissari. Þá kom fram að það er eitt markmiða frumvarpsins að auka sýnilega löggæslu. Með þeim breytingum sem felast í frumvarpinu verður unnt að halda úti sólarhringsvöktum sem bæta mun löggæslu í landinu og efla öryggi borgaranna.

Nefndin ræddi um hlutverk og heimildir greiningardeildar og lögreglurannsóknadeildar við embætti ríkislögreglustjóra. Ljóst er af upplýsingum þeim sem nefndinni voru veittar að frumvarpinu er ætlað að skjóta stoðum undir þá starfsemi lögreglu sem felst í því að greina hættu á alvarlegri glæpastarfsemi og er nú verkefni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Slík greining þjónar tvennum tilgangi: annars vegar auðveldar hún lögreglu að upplýsa alvarleg afbrot, og hins vegar getur hún komið í veg fyrir að slík afbrot verði fullframin. Er þessi þáttur í störfum lögreglu ekki síst mikilvægur í ljósi þeirrar ógnar sem samfélaginu stafar af skipulagðri glæpastarfsemi svo sem fíkniefnasmygli, mansali og hryðjuverkum. Felst sérstaða slíkra brota m.a. í því að þau sæta sjaldnast almennri kæru. Í störfum nefndarinnar kom fram að slík forvarna- og greiningarvinna væri forsenda þess að hérlend yfirvöld gætu unnið með yfirvöldum í öðrum ríkjum að baráttu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Þess vegna telur nefndin brýnt að skipulag lögreglu taki mið af þessum veruleika.

Í frumvarpinu er ekki aukið við rannsóknarheimildir lögreglu. — Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið um greiningardeildirnar í frumvarpinu, að ekki er aukið við rannsóknarheimildir lögreglu en um þær og greiningarstarf fer eftir lögum um meðferð opinberra mála. Nokkur umræða fór fram um það í nefndinni hvort þörf væri á að koma á lögbundnu eftirliti með rannsóknar- og greiningarstarfi lögreglunnar og þarf það í sjálfu sér ekki að koma á óvart í tengslum við umræðuna um greiningarstarfið en eins og segir í nefndarálitinu telur nefndin mikilvægt að umræða um frekari rannsóknarheimildir lögreglu fari ekki fram án þess að þörf fyrir slíkt eftirlit verði metin og tekið til skoðunar hvernig slíku eftirliti mætti koma við. Þar geta margar leiðir komið til greina, þeirra á meðal aðkoma sérstakrar þingnefndar. En ég vek athygli á því að hér er verið að fjalla um þann möguleika að lögreglan fái víðtækari rannsóknarheimildir en nú er og ég tel að engin ástæða sé til að útiloka þörfina fyrir slíkt. Sú umræða þarf að eiga sér stað að yfirveguðu máli og að teknu tilliti til hins nýja veruleika sem lögreglan starfar í í dag en frumvarpið fjallar ekki um þörfina fyrir slíkar auknar rannsóknarheimildir. Hins vegar er það samdóma álit nefndarmanna að fari slík umræða af stað ætti hún ekki að eiga sér stað án þess að jafnframt verði rætt um hvernig við munum þá útfæra eftirlit með eftirlitinu, ef svo má að orði komast. Þar kemur margt til greina eins og ég hef áður vikið að.

Það er enn fremur lagt til í frumvarpinu að ráðherra verði heimilt að ákveða að við einstök embætti lögreglustjóra starfi, undir eftirliti ríkislögreglustjóra, greiningardeildir til að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Það er nauðsynlegt að unnt verði að stofna slíkar deildir við einstök embætti og þá sér í lagi þau sem eru í nálægð við alþjóðlega umferð um landið.

Nefndin ræddi töluvert á fundum sínum þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á stöðu stjórnenda í lögreglunni og almennum hæfisskilyrðum til skipunar í embætti. Í frumvarpinu er lagt til að ríkislögreglustjóri, aðstoðarríkislögreglustjórar og lögreglustjórar skuli fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og sýslumenn til skipunar í embætti. Um aðstoðarlögreglustjóra gilda sérstakar menntunar- og starfsreynslukröfur, en að öðru leyti sömu hæfisskilyrði og til skipunar í embætti lögreglustjóra.

Samkvæmt lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði skal staðgengill sýslumanns fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í sýslumannsembætti. Með vísan til þessa segir í greinargerð með frumvarpinu að með sama hætti skuli sá aðstoðarlögreglustjóri sem gegnir hlutverki staðgengils lögreglustjóra fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í embætti lögreglustjóra. Telur nefndin rétt að þessi áskilnaður komi skýrt fram í texta frumvarpsins og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis.

Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að breyting á menntunarskilyrðum aðstoðarlögreglustjóra væri varhugaverð. Í því samhengi var einkum rætt um almennar starfsskyldur aðstoðarlögreglustjóra og hve mjög geti reynt á lögfræðilega menntun við úrlausn verkefna í því embætti, en samkvæmt núgildandi lögum er lögfræðimenntun skilyrði skipunar í embætti varalögreglustjóra. Þrátt fyrir að sjónarmið um gildi lögfræðimenntunar fyrir störf aðstoðarlögreglustjóra hafi átt mjög góðan hljómgrunn innan nefndarinnar er það engu að síður afstaða nefndarinnar að mikilvægt sé jafnframt að vel menntaðir og reyndir lögreglumenn geti sóst eftir æðstu stjórnunarstöðum innan lögreglunnar. Í störfum nefndarinnar kom fram að þessi leið hefði m.a. verið farin annars staðar á Norðurlöndum. Við nánari skoðun fékk nefndin ekki séð að efnisrök lægju að baki þeim greinarmun sem gerður er á embættum aðstoðarlögreglustjóra og aðstoðarríkislögreglustjóra í þessu tilliti þó að þess beri að geta að samkvæmt gildandi lögum er sá munur á þessum tveimur embættum að 30 ára aldursskilyrði er fyrir skipan í embætti vararíkislögreglustjóra, en af frumvarpinu leiðir hins vegar að það aldursskilyrði fellur brott. Eftir að hafa skoðað þessi atriði telur nefndin eðlilegt að gerðar verði sömu hæfiskröfur til skipunar í embætti aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis. Þetta felur í sér að rýmkaðir eru möguleikar lögreglumanna til að sækjast eftir embætti vararíkislögreglustjóra. Síðan leiðir það af sjálfu sér að sá aðstoðarríkislögreglustjóri sem gegnir starfi staðgengils ríkislögreglustjóra mun í samræmi við það sem ég hef áður sagt þurfa að fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í embætti ríkislögreglustjóra.

Aðrar breytingar sem nefndin leggur til tel ég að skýri sig sjálfar og vísa ég til nefndarálitsins um þær.

Í lokin leggur nefndin til breytingar á gildistökuákvæðinu og hún eins og aðrar breytingartillögur ættu að skýra sig sjálfar fyrir utan það sem ég hef nú þegar gert grein fyrir.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem ég hef getið fyrr og finna má á þingskjali 1243.

Hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Björgvin G. Sigurðsson, Sigurjón Þórðarson og Guðrún Ögmundsdóttir skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.



[18:25]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt, við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í allsherjarnefnd skrifuðum undir álitið með fyrirvara um stuðning við hina svokölluðu greiningardeild sem nokkuð hefur verið deilt um og fóru fram töluverðar umræður við 1. umr. um málið og í allsherjarnefnd um greiningardeildina almennt, þörfina fyrir hana, umfang hennar og heimildir þær sem hún hefði og er að finna í lögum nú, en boðað er að síðar komi frumvarp þar sem kveður á um frekari heimildir til greiningardeildarinnar og ræddum við heilmikið um það sem kannski mestu máli skiptir í sambandi við slíka leyniþjónustustarfsemi eða öryggislögreglu, sem er eftirlit með starfseminni. Eins var heilmikið rætt um hvort mikil þörf væri á að halda úti leyniþjónustustarfsemi til að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins o.s.frv.

Það sem upp úr stendur er að við sem skrifum undir þetta með fyrirvara teljum að mikil þörf sé á að sett verði á stofn eftirlit með slíkri starfsemi nú þegar. Það er í rauninni boðað í frumvarpinu að það komi til umræðu þegar frekari heimildir koma fram til handa greiningardeildinni eða leyniþjónustunni, öryggislögreglunni eða hvað við köllum þetta. Fordæmin sem við kölluðum eftir frá öðrum Norðurlöndum eru með þeim hætti að það er alltaf til staðar einhvers konar lýðræðislegt eftirlitsapparat, lýðræðislegt eftirlit með slíkri starfsemi, hvort sem við köllum það leyniþjónustustarfsemi, greiningarstarfsemi eða öryggiseftirlitshlutverk einhvers konar, það skiptir ekki öllu máli en menn eru eitthvað viðkvæmir fyrir því að kalla þetta leyniþjónustustarfsemi. En hún þarf að sjálfsögðu án nokkurs efa að eiga sér stað innan lögreglunnar og líklega er langbest að koma henni þannig fyrir að hún sé í sérstakri deild, eins og hér er lagt til, greiningardeild.

Um leið og stofnsett er slík sérstök greiningardeild utan um þessa starfsemi, þessa sérstöku starfsemi sem án efa þarf að halda úti og eiga sér stað og jafnvel kannski að efla með einhverjum hætti, þá er algjört grundvallaratriði að til komi formlegt lýðræðislegt eftirlit, eins og til að mynda var rætt í allsherjarnefnd en í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Nokkur umræða fór fram um það hvort þörf væri á því að koma á lögbundnu eftirliti með rannsóknar- og greiningarstarfi lögreglunnar. Telur nefndin mikilvægt að umræða um frekari rannsóknarheimildir lögreglu fari ekki fram án þess að þörf fyrir slíkt eftirlit verði metin og tekið til skoðunar hvernig slíku eftirliti mætti koma við. Margar leiðir geta komið til greina í því sambandi, þeirra á meðal aðkoma sérstakrar þingnefndar.“

Það er sá háttur sem oft er hafður á, að sérstök eiðbundin þingnefnd hafi það hlutverk að hafa eftirlit með starfsemi leyniþjónustu, öryggislögreglu og greiningardeilda og þeirri starfsemi sem þar er stunduð og kannski er það langfarsælasta leiðin, enda ekki einboðið hvernig slíku eftirliti skuli háttað. Við sem undir þetta ritum af hálfu stjórnarandstöðunnar leggjum mikla áherslu á að það fari fram hið fyrsta og tillaga fylgi þá boðuðu frumvarpi um frekari heimildir til handa greiningardeildinni um lýðræðislegt eftirlit, að um leið og frekari rannsóknarheimildir til lögreglu er skoðuð og þörfin á henni metin sé það skoðað sérstaklega hvernig slíku lýðræðislegu, lögbundnu eftirliti með rannsóknar- og greiningarstarfinu sé best háttað. Umræðan um þetta er nokkuð uppi núna þessa dagana í samhengi og sambandi við uppljóstranir um hleranir stjórnvalda fyrr á tímum og starfsemi sem því tengist, símhlerunum á að því er virðist pólitískum andstæðingum, fjölmiðlum og verkalýðsleiðtogum þess tíma og varpar það ágætu ljósi á hvað það er mikilvægt að eftirliti með slíkri starfsemi sé vel og haganlega fyrir komið þannig að það blandist engum blandist hugur um að þar sé allt með felldu og það sé eðlilegt og sanngjarnt eftirlit með slíkri starfsemi.

Á þetta leggjum við mjög ríka áherslu, að um leið og greiningardeildin er stofnuð, leyniþjónustan, komi til eftirlitsstofnun með starfseminni. Það skiptir mjög miklu máli, sérstaklega þar sem hvers konar eftirlit með borgurunum færist verulega í vöxt í einni og annarri mynd. Það eru myndavélar út um borg og bý sem gegna bæði öryggishlutverki í umferðinni og því að vakta staði sem mannlífið er með þeim hætti að þar á sér oft stað einhvers konar glæpastarfsemi eða mikið skemmtanalíf er staðsett á. Því er nauðsynlegt að um leið og eftirlit með borgurunum eykst fari fram gagnger umræða um hvernig lýðræðislegu eftirliti með njósnastarfseminni og eftirlitsiðnaðinum öllum á vegum stjórnvalda sé háttað því að eftirlitsiðnaður stjórnvalda úti um víða veröld er að færast í vöxt. Og sérstaklega í kjölfar þeirrar hryðjuverkaógnar sem uppi er og hefur átt sér stað í heiminum á síðustu árum hefur eftirlitsiðnaðurinn vaðið uppi á kostnað friðhelgi einkalífs hins almenna borgara. Um það er engum blöðum að fletta og þar hafa menn gengið lengst í Bandaríkjunum og töluvert langt í Bretlandi líka.

Þó er engin ástæða til að efast um að þörf sé á að bregðast hratt og jafnvel harkalega við hryðjuverkaógnunum með ýmsum hætti og ekki kannski síst með hvers konar upplýsingaöflun, leynilegri upplýsingaöflun til að geta brugðist við ógninni fyrir fram og jafnvel afstýrt henni með einhverjum hætti. Það ber ekki að draga það í efa og ég dreg heldur ekkert í efa að fram þarf að fara upplýst umræða um hvað þessi ógn er mikil og að hve miklu leyti við þurfum að bregðast við henni. Erum við kannski mjög vanbúin því að fylgjast með einhvers konar hryðjuverkaógn og því sem hér er lagt til til að leggja mat á hryðjuverkastarfsemi auk annarrar skipulagðrar glæpastarfsemi? Það ber ekki að ræða það af neinni léttúð eða draga neitt úr því að heilmikil þörf geti verið á því. En það er algjört grundvallaratriði að þá sé á fót komið lögbundnu lýðræðislegu eftirliti með þeirri starfsemi. Það er algjört grundvallaratriði og gæti afstýrt því sem oft hefur miður farið í slíkri leyniþjónustu og upplýsingaöflunarstarfi stjórnvalda hér og þar. Því er hið lýðræðislega eftirlit algjört grundvallaratriði. Við það setjum við fyrirvarann um stuðning við málið sem annars inniheldur margt sem til framfara horfir og er ágætt og við styðjum heils hugar, en skrifum undir álitið með fyrirvara um greiningardeildina þar sem því miður er ekki lögð fram tillaga um hvernig hinu lýðræðislega lögbundna eftirliti með leyniþjónustustarfseminni verði háttað.



[18:34]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það frumvarp sem er hér til 2. umr. er til breytinga á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Ég vil víkja að nokkrum atriðum í frumvarpinu.

Í fyrsta lagi vil ég leggja áherslu á það sjónarmið mitt hvað varðar löggæslu að hún sé fyrst og fremst þjónustustarfsemi. Starfsemi lögreglu og sýslumanna er fyrst og fremst einn mikilvægasti þáttur í almannaþjónustu. Þessi embætti eru þjónustustofnanir, eru oft einu umboðsaðilar ríkisins í héraði auk þess að fara með lögreglustjórn. Þessi nærþjónusta skiptir því íbúana verulega miklu máli. Starfsemi lögreglumanna tengist ekki einungis löggæslumálum, því að elta uppi þjófa og þá sem brjóta umferðarlögin. Mér finnst þetta frumvarp taka allt of mikið mið af því enda er eitt af markmiðum frumvarpsins að efla löggæslu en ekki endilega þjónustu. Það þarf ekki alltaf að fara saman, þó að gæslan geti verið hluti af þjónustunni þá er önnur nálgun sem ég vil setja ofar þegar verið er að tala um þessa þjónustu. Hér er þetta lagt upp eins og meginmarkmiðið sé að elta uppi þjófa og afbrotamenn frekar en að veita íbúum almenna þjónustu.

Síðan eru það þau atriði sem ég vil gera athugasemdir við. Það er um skiptingu landsins í lögregluumdæmi sem hér er verið að breyta. Lögreglan er einn af mikilvægustu þáttum í almannaþjónustu viðkomandi byggðarlaga, ég tala nú ekki um á strjálbýlum svæðum þar sem langt er á milli þjónustustöðva, og því skiptir miklu máli að þessi löggæsla sé til staðar. Hér er jú áfram gert ráð fyrir óbreyttri stöðu hvað varðar sýslumennina en sú breyting verður t.d. á að sýslumaðurinn í Borgarnesi fer með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins í Búðardal og sýslumaðurinn á Ísafirði fer með lögreglustjórn í umdæmum sýslumanna á Patreksfirði, Bolungarvík og Hólmavík. Mér finnst þetta fáránleg ráðstöfun. Lögreglan í Búðardal hefur jú heyrt undir sýslumanninn í Búðardal og hvers vegna má það ekki vera áfram? Það hefði þá frekar átt að huga að byggðum eins og Reykhólum, að Reykhólar heyri undir lögregluna í Búðardal frekar en að Reykhólar og Patreksfjörður eigi að vera hluti af lögregluumdæmi Ísafjarðar og sömuleiðis Hólmavík. Þarna eru fleiri hundruð kílómetrar á milli og erfitt í vetrarfærð. Það hefði verið nær að styrkja stöðu þessara embætta, þessara dreifbýlisþjónustustöðva, frekar en að gera þjónustuna mun erfiðari með því að færa yfirstjórn hennar til í mörg hundruð kílómetra fjarlægð. Ég tel þetta rangt og þetta sýnir ekki mikinn hlýhug til þessara dreifðu byggða.

Ég vil líka vekja athygli á því hve lítið tillit er tekið til athugasemda og óska heimamanna. Ég er t.d. hér með afrit af undirskriftum 222 íbúa Dalasýslu, meginþorra íbúa, þar sem þeir mótmæla því að yfirstjórn lögreglunnar í Dalasýslu sé færð til Borgarness og vilja sjá aðra skipan á. Þeir hafa ekki fengið neitt svar annað en það sem birtist hér í þessu frumvarpi til laga. Ekki kom framsögumaður allsherjarnefndar, sem kynnti málið, inn á það að borist hefði slíkt undirskriftarskjal. Mér finnst þetta ekki sýna virðingu við íbúa landsbyggðarinnar, íbúa þessa svæðis. Ekki er drepið einu einasta orði á athugasemdir nánast allra íbúa þar. Ég kalla þetta virðingarleysi.

Ég hef líka ályktun frá Hólmavíkurhreppi þar sem þeir lýsa sömu áhyggjum yfir því skilningsleysi sem hér er á ferðinni, að færa yfirstjórn lögreglumála í mörg hundruð kílómetra fjarlægð og auk þess í þá átt sem þeir eiga kannski sjaldnast leið um, þ.e. inn til Ísafjarðar. Sú skipan mála sem hér er verið að leggja til — ég tel að vinnubrögðin í kringum þetta séu ekki til sóma og sýni lítinn skilning á þjónustuhlutverki þessara embætta. Það ætti frekar að styrkja þau í sinni heimabyggð en að vera að færa yfirstjórn þeirra langt burt.

Síðan hafa það verið þau rök, eins og við höfum heyrt hér áður, að í stað þess að styrkja lögregluembættin sjálf sé verið að stilla upp sérsveitum, sérsveitum í Reykjavík, sérsveitum á Akureyri, sem eru síðan sendar heim í byggðirnar þegar eitthvað meira liggur við. Friðsama, skemmtilega og góða Laufskálaréttin í Skagafirði — þangað þótti sérstök ástæða til þess að senda sérsveitir lögreglunnar til að fylgjast með í staðinn fyrir að leyfa lögreglunni í heimabyggð að sjá um það. Ég tel þessa nálgun mála ekki vera farsæla, verð bara að segja það. (Gripið fram í.) Þetta er peningaplokk, já. Í staðinn fyrir að styrkja þjónustu lögreglumanna í heimabyggð er verið að fara þessa miðstýrðu leið með ofurtrú á það að koma upp sérsveitum sem síðan eru sendar þangað sem menn telja að aukinnar löggæslu þurfi við án þess að sú sveit þekki þar nokkuð til.

Það sama á við um lögreglurannsóknirnar. Þar er líka verið að búa til allt annað landslag en verið hefur. Til dæmis á lögreglurannsóknarstaðan fyrir Norðurland að vera á Akureyri, fyrir Húnavatnssýslur og Skagafjörð. Í sjálfu sér er ekkert við Akureyri að athuga annað en það að þetta er í öfugri leið við það sem venjulegast er um ferðir fólks. Auk þess hefði verið miklu nær að byggja þetta starf upp, rannsóknarlögreglustarfið, annaðhvort á Sauðárkróki eða á Blönduósi fyrir svæði sem á samleið hvað varðar samgöngur og félagsmál, samleið sem það á ekki með Akureyri. Sú árátta að færa verkefnin frá íbúunum inn í miðstýrðar stöðvar finnst mér vera röng. Og þessi skilgreining, að skilgreina einhverjar landshlutamiðstöðvar sem eru síðan notaðar til þess að draga verkefnin frá byggðunum inn á stöðvarnar, finnst mér vera röng. Réttlæting fyrir að byggja upp Akureyri sem eitthvert mótvægi við höfuðborgina er að færa störf eða verkefni frá öðrum stöðum. Til þess að byggja Ísafjörð upp er stjórnsýslan færð frá Hólmavík, Patreksfirði eða Reykhólum. Mér finnst þetta röng nálgun og get ekki stutt hana.

Hitt er svo annað mál að það sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur verið að gera með því að færa önnur verkefni til sýslumannsembættanna, eins og skráningar og skrifstofu- og úrvinnslustörf sem tengjast málefnum lögreglu eða dómsmála, finnst mér lofsvert. Það er allt annar hlutur og tengist þessum málum í sjálfu sér ekki beint. Ég get alveg hælt hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þær aðgerðir og vona að hann geri sem mest af slíku. Mér finnst hann þar vera að stíga ágæt skref. Það er rétt að geta þess sem vel er gert.

Herra forseti. Þessum atriðum vildi ég koma að. Ég tel að sú skipan lögreglumála sem hér er verið að leggja til varðandi strjálbýlustu svæðin sé ekki rétt. Það á að styrkja lögregluþjónustuna í þessum byggðarlögum frekar en að fletja hana út. Ég minni á það aftur að ég er með undirskriftarskjal sem var afhent hæstv. dómsmálaráðherra, að ég best veit, og öllum þingmönnum kjördæmisins. Ég hélt líka að hv. allsherjarnefnd hefði fengið það, ósk um aðra skipan.

Fyrir hverja er lögreglan, fyrir hverja er þessi þjónusta? Jú, hún er fyrir íbúana. Hún er ekki fyrir ríkislögreglustjóra, hún er ekki fyrir dómsmálaráðherra, hún er fyrir íbúa á viðkomandi svæðum, þessi þjónusta er fyrir þá. Þess vegna eigum við að byggja hana upp út frá því sjónarhorni, hlusta á óskir heimafólks og vinna úr þeim í staðinn fyrir að gera lítið eða ekkert með þær.

Herra forseti. Ég get rakið fleiri athugasemdir frá hinum ýmsu héruðum á landinu sem finna að þessari skipan en læt hér við sitja. Ég lýsi því yfir að ég get ekki stutt þá tilhögun sem hér er verið að leggja til, breytingar og skerðingu á forsjá lögreglunnar í dreifbýlinu.



[18:46]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum. Ég hef áður gert grein fyrir sjónarmiðum mínum og viðhorfum til þessara lagabreytinga.

Í fyrsta lagi vil ég leggja áherslu á að við umfangsmiklar breytingar á stjórnsýslu innan lögreglunnar verði haft gott samstarf og samráð við Landssamband lögreglumanna, að það sé gert í góðu samkomulagi. Það er staðreynd, þegar embættismönnum hefur verið skákað til í starfi í tengslum við stjórnsýslubreytingar, að farið hefur verið út á ystu nöf hvað varðar lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ég legg áherslu á að þetta verði haft í huga þegar stjórnsýslubreytingunum verður hrint í framkvæmd.

Annað sem ég hef vakið athygli á í tengslum við þessi lög og þessar lagabreytingar er áherslan sem hér er lögð á svokallaðar greiningardeildir innan lögreglunnar og lögregluembætta. Fyrir þessu er gerð grein í samantekt sem fylgir frumvarpinu. Þar er aftur og ítrekað vísað í vaxandi hættu af hryðjuverkum. Það er nokkuð sem kom til umræðu á þinginu í dag í tengslum við lagafrumvarp sem hér var samþykkt, a.m.k. í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr., um peningaþvætti og hryðjuverk. Þar vakti ég athygli á ýmsum hættum sem leynast í lagasetningu sem að þessu lýtur.

Sú grundvallarbreyting sem hér er gerð felst í raun ekki í lagalegum heimildum sem lögreglunni eru veittar heldur í breyttri hugsun og aðkomu. Í stað þess að leita uppi glæpamann eða meintan glæpamann, eftir að glæpurinn hefur verið framinn, er lögð meiri áhersla á fyrirbyggjandi starf, að grafast fyrir um hver sé líklegur til þess að fremja glæp, í þessu tilviki hryðjuverk. Þar erum við komin inn á svæði sem vandratað er um og ég legg áherslu á að eftir því sem við göngum lengra inn á þetta svæði förum við nær því að njósna um fólk, fylgjast með fólki. Þá er þörf á sterku lýðræðislegu aðhaldi.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta við þessa umræðu. Ég gerði ítarlega grein fyrir sjónarmiðum mínum við 1. umr. um málið. Ég mun styðja þetta frumvarp en legg áherslu á þau sjónarmið sem ég hef áður nefnt.