133. löggjafarþing — 46. fundur.
fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, 1. umræða.
frv. GHH o.fl., 435. mál (heildarlög). — Þskj. 536.

[15:44]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Frumvarp þetta er flutt af formönnum stjórnmálaflokkanna sem nú eiga sæti á Alþingi.

Í júlí 2005 skipaði þáverandi forsætisráðherra nefnd fulltrúa allra þingflokka sem var falið að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi á Íslandi. Í nefndinni sátu Sigurður Eyþórsson sem var formaður hennar, Kjartan Gunnarsson sem var varaformaður nefndarinnar, Helgi S. Guðmundsson, Gunnar Ragnars, Gunnar Svavarsson, Margrét S. Björnsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Eyjólfur Ármannsson. Einar K. Guðfinnsson sat í nefndinni í upphafi en Guðlaugur Þór Þórðarson tók sæti hans er Einar varð ráðherra í ríkisstjórninni. Starfsmaður nefndarinnar var Árni Páll Árnason lögmaður. Nefnd þessi skilaði skýrslu sinni til forsætisráðherra 22. nóvember sl.

Nefndin starfaði ötullega í eitt og hálft ár, viðaði að sér miklum gögnum og kannaði margvíslega þætti þessara mála bæði í alþjóðlegum samningum og hvernig farið er með í löggjöf annarra þjóða. Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til við forsætisráðherra að sett yrðu lög um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Jafnframt vakti nefndin athygli á allmörgum þáttum varðandi lagaumhverfi stjórnmálaflokka og umgjörð kosninga sem hún taldi rétt og nauðsynlegt að skipuð yrði sérstök nefnd um til þess að fjalla um og skoða.

Á síðustu stigum starfs nefndarinnar hafði hún samráð og samstarf við formenn stjórnmálaflokkanna og er það frumvarp sem hér liggur fyrir sameiginleg niðurstaða þess starfs og er að langmestu leyti byggt á tillögum og hugmyndum nefndarinnar. Skýrsla nefndarinnar liggur fyrir opinberlega og með frumvarpinu fylgir greinargerð sem samin er af nefndinni.

Eins og þingmenn þekkja hefur oft á undanförnum áratugum verið rætt um hvort ástæða væri til að setja sérstakar reglur um fjármögnun og upplýsingaskyldu stjórnmálaflokka og þeirra sem taka þátt í kosningabaráttu. Slík löggjöf er í gildi í mörgum löndum Vestur-Evrópu, þó ekki öllum, t.d. eru slík lög hvorki í Sviss né Lúxemborg. Þar sem slíkar reglur eru miðast þær almennt að því að tryggja gagnsæi og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og skapa þannig traust. Þessar reglur eru með ýmsum hætti, stundum er kveðið á um upplýsingaskyldu um fjárframlög yfir ákveðnu marki, stundum eru framlög fyrirtækja til stjórnmálabaráttu alfarið bönnuð eða mjög stórlega takmörkuð. Í sumum löndum er stjórnmálaflokkum veittur aðgangur að ókeypis útsendingartíma í ljósvakamiðlum og sums staðar eru þessar reglur ekki settar í lög heldur byggðar á samkomulagi milli flokkanna.

Við setningu löggjafar um stjórnmálaflokka, bæði almennt og sérstaklega um fjármál þeirra, er mikilvægt að missa ekki sjónar á því að flokkarnir eru í rauninni hornsteinar lýðræðis í landinu og forsenda heilbrigðrar og eðlilegrar stjórnmálaumræðu. Stjórnmálasamtök hafa því mjög víðtækar skyldur gagnvart borgurum landsins og miklu varðar að stjórnmálastarfsemi njóti trausts borgaranna með sama hætti og stjórnskipun okkar og hið opinbera kerfi almennt. Rammi sem settur er þessari starfsemi þarf því að treysta möguleika stjórnmálaflokkanna til að sinna hlutverkum sínum samhliða því að girða sem kostur er fyrir mögulega misnotkun á aðstöðu eða spillingu. Það er raunar ánægjulegt eins og þingmenn þekkja að alþjóðlegar kannanir, t.d. síðastliðin sex ár, hafa allar verið einróma um að spilling í stjórnmálalífi og innan stjórnkerfisins þrífist ekki á Íslandi. Þetta hafa ávallt verið gleðilegar fréttir og það er skylda okkar að tryggja að þannig verði það áfram á Íslandi. Þær breytingar sem orðið hafa í þjóðfélaginu á undanförnum áratugum hafa dregið stórlega úr hættu á spillingu tengdri stjórnmálastarfsemi. Viðskiptalífið hefur verið leyst úr viðjum leyfisveitinga, mannréttindaákvæði stjórnarskrár verið endurskoðuð og stjórnsýslulög og upplýsingalög hafa verið sett sem stuðla að meiri virðingu fyrir jafnræði borgaranna og auknu gagnsæi. Stjórnmálamenn hafa því æ færri tækifæri til að beita áhrifum sínum til að mismuna fólki eða fyrirtækjum. Af öllu framansögðu er ljóst að viðfangsefni nefndarinnar um lagalegt umhverfi stjórnmálaflokka var flókið og víðfeðmt og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka nefndinni og starfsmanni hennar fyrir vel unnið starf og þá skýrslu og það frumvarp sem nefndin hefur unnið.

Í skýrslu nefndarinnar til forsætisráðherra segir svo, með leyfi forseta:

„Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til að sett verði lög um fjármögnun stjórnmálastarfsemi og kosningabaráttu og fylgja drög að frumvarpi þess efnis með skýrslu þessari.

Helsta álitamálið í starfi nefndarinnar var hvernig fara skyldi með takmarkanir á framlögum einstaklinga og lögaðila til stjórnmálastarfsemi. Komu þar fram ólík sjónarmið. Ein leið sem rædd var fólst í því að setja engin eða óveruleg bönn við framlögum en kveða þess í stað á um upplýsingaskyldu um framlög umfram tiltekna fjárhæð. Önnur leið sem rædd var fólst í að banna algerlega framlög lögaðila til stjórnmálastarfsemi og leyfa einungis félagsgjöld einstaklinga.

Niðurstaða nefndarinnar varð sú að rétt væri að sníða öllum framlögum þröngan stakk. Ástæða þess er ekki síst sú breyting sem orðið hefur hér á landi á undanförnum árum þar sem sífellt fleiri fyrirtæki og einstaklingar hafa fjárhagslega burði til að kosta stóran hluta baráttu flokka eða einstaklinga. Það var sameiginleg afstaða nefndarmanna að mikilvægt væri að draga úr hættu á tortryggni vegna þessa og skapa gagnsæja umgjörð um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi. Einnig væri eðlilegt að setja rammann frekar þröngt til að freista þess að draga úr kostnaði við kosningabaráttu. Að síðustu væri rétt að taka mið af því grundvallarmarkmiði tilmæla Evrópuráðsins frá 2003 að einstaklingar hefðu möguleika á því að styrkja stjórnmálastarfsemi upp að ákveðnu marki og njóta samt sem áður nafnleyndar.“

Þetta atriði er í mínum huga kjarnaatriði í málinu öllu. Þetta er líka höfuðröksemdin fyrir því að nauðsynlegt er að styrkja starfsemi stjórnmálaflokkanna nokkuð frekar af opinberri hálfu en nú þegar er gert. Nú þegar er það þannig að flokkarnir njóta mjög verulegra fjárframlaga bæði af hálfu ríkissjóðs og einnig af hálfu sveitarsjóða sums staðar í landinu þó að það sé ekki með jafnskipulögðum og kerfisbundnum hætti og framlögin frá ríkissjóði eru.

Um öll þessi sjónarmið hefur náðst góð samstaða bæði innan nefndarinnar eins og gerð hefur verið grein fyrir hér sem og einnig milli formanna flokkanna og stjórnmálaflokkanna almennt. Ég fagna því hversu góð samvinna og samstarf hefur verið um úrvinnslu þessa máls og sem endurspeglast í frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir fyrir hönd formanna allra stjórnmálaflokkanna.

Í skýrslu nefndarinnar kemur einnig fram að rætt hafi verið um upplýsingaskyldu um tekjur og gjafir til kjörinna fulltrúa. Nefndin taldi það ekki beinlínis á verksviði sínu að setja fram ákveðnar tillögur þetta mál en ritaði forseta Alþingis bréf þar sem gerð er grein fyrir störfum nefndarinnar og því beint til forseta að forsætisnefnd þingsins fjalli um setningu siðareglna um þessi mál, þ.e. hugsanlega upplýsingaskyldu þingmanna og ráðherra um helstu atriði er varða tekjur þeirra og gjafir sem þeir hafa þegið.

Í nefndinni komu einnig fram tillögur og hugmyndir um að möguleg upplýsingaskylda af þessu tagi ætti að vera mun víðtækari og ná til fleiri aðila í þjóðfélaginu en alþingismanna, t.d. forustumanna hagsmunasamtaka, dómara, leiðtoga fjölmiðla og annarra þeirra aðila í þjóðfélaginu sem gegna mikilvægum störfum í almannaþágu og nauðsynlegt er að traust ríki um meðal almennings.

Í samtölum formanna stjórnmálaflokkanna um þessi efni var rætt um hugsanlegt samkomulag um einhvers konar takmarkandi ramma varðandi auglýsinga- og kynningarmál í kosningabaráttu, þó þannig að með engum hætti væri skertur lýðræðislegur og sjálfsagður réttur stjórnmálamanna til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en hugsanlega yrði eins og oft hefur verið gert á Íslandi og einnig tíðkað í ýmsum öðrum löndum settar einhverjar sameiginlegar samkomulagstakmarkanir á þá fjármuni sem t.d. væri varið til sjónvarps- og blaðaauglýsinga sem mörgum hafa þótt keyra úr hófi fram í kosningum síðari árin. Það er þó öllum málsaðilum ljóst að mjög vandlega þyrfti að undirbúa slíkt samkomulag og það er vandratað meðalhófið í því að setja eðlilegar reglur sem á sama tíma skerði ekki almennt tjáningarfrelsi og möguleika stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna til að koma upplýsingum og skilaboðum til kjósenda.

Ég hef nú, virðulegi forseti, gert nokkra grein fyrir þeim almennu sjónarmiðum sem að baki þessari fyrirhuguðu lagasetningu liggja en vísa að öðru leyti til ítarlegrar skýrslu nefndarinnar og greinargerðar með frumvarpinu þar sem öllum mikilvægustu þáttum þessa máls er haldið til haga. Ég ítreka það fyrir mína parta að höfuðástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn telur nú brýnt að setja löggjöf af þessu tagi eru þær viðurhlutamiklu breytingar sem orðið hafa á efnahags- og fjármálaumhverfinu á Íslandi sem þó eru í sjálfu sér auðvitað mjög jákvæðar. Við höfum ekki séð nein merki þess í dag að reynt sé með óeðlilegum hætti að hafa áhrif á stjórnmálastarfsemina í landinu af hálfu fjársterkra fyrirtækja eða fjársterkra einstaklinga en við viljum reisa skorður við þeim möguleika áður en slíkt gerði hugsanlega vart við sig og við viljum jafnframt gera flokkunum mögulegt að starfa með öflugum hætti með því að veita þeim eðlilegan stuðning af opinberu fé. Við teljum það nauðsynlegt til þess að flokkarnir geti sinnt því grundvallarlýðræðishlutverki sínu og því sem þeim er ætlað í stjórnskipan landsins. Við teljum nauðsynlegt að verja stjórnmálalífið fyrir þeirri hættu að gerðar verði tilraunir til þess að hafa áhrif á úrslit einstakra mála með óeðlilegum hætti.

Stjórnmálaflokkarnir þurfa jafnframt að vera í stakk búnir til þess að veita málefnalega forustu í ótal málum og í síflóknara þjóðfélagi en ljóst er að þeir þurfa eins og aðrir á meiri sérfræðiþekkingu að halda og meiri og öflugri möguleikum til að geta sett sín mál fram með vel undirbúnum hætti. Stjórnmálaflokkarnir þurfa, hvort sem þeir eru í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu, að standast öflugum hagsmunasamtökum og öflugum fyrirtækjum og öðrum áhrifaaðilum í þjóðfélaginu snúning og það er ófært að þeir þurfi þá á sama tíma að vera háðir þeim aðilum um sitt eigið rekstrarfé.

Þess vegna teljum við sem að þessu frumvarpi stöndum það eðlilega og sjálfsagða skyldu fjárveitingavaldsins bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum að tryggja að stjórnmálstarfsemin í landinu geti verið óháð og frjáls að öðru en því að njóta fyrst og fremst stuðnings eigin flokksmanna. Samkvæmt frumvarpinu hafa flokksbundnir einstaklingar rúmar heimildir til að styðja sína flokka jafnframt því sem ekki er alveg lokað fyrir að lögaðilar geti styrkt flokka í litlum mæli og t.d. eru slík framlög hjá tengdum aðilum takmörkuð þannig að einungis getur verið um að ræða eitt framlag, ef svo mætti segja, frá tengdum aðilum.

Mörg nýmæli eru í frumvarpinu, birtingarskylda bókhalds stjórnmálaflokka og -samtaka, reglur um hámarkskostnað frambjóðenda í prófkjörum svo ég nefni dæmi. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að stjórnarandstöðuþingflokkar fái hærri fjárhæð en þingflokkar stjórnarflokka vegna sérfræðiaðstoðar og þannig er viðurkennt mikilvægi og nauðsyn öflugrar stjórnarandstöðu. Lögð er skylda á sveitarfélög sem verða æ stærri og stjórnmálastarf í þeim æ tímafrekara að styrkja stjórnmálaflokkana í sínum sveitarfélögum. Frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru settir undir svipaðar reglur og aðrir frambjóðendur í persónukjöri, að þurfa að gera grein fyrir fjárreiðum sínum að loknum kosningum en jafnframt er gert ráð fyrir að heimilað verði að ríkissjóður leggi fram nokkurt fé til þess að styrkja frambjóðendur til embættis forseta Íslands eftir nánar tilgreindum reglum.

Ég og aðrir flutningsmenn vonumst til þess að þetta frumvarp verði að lögum og það megi verða til þess að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í stjórnmálastarfi. Eins og segir í 1. gr. frumvarpsins er markmið laganna að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið. Þetta eru háleit markmið sem alþingismenn hljóta allir að geta sameinast um. Það var ljóst bæði í starfi títtnefndrar nefndar og í viðræðum formannanna að um margt voru mismunandi viðhorf og sjónarmið í þessum málum. Það frumvarp sem hér er lagt fram er niðurstaða samkomulags þar sem allir hafa í nokkru hvikað frá ýtrustu hugmyndum sínum en eru jafnframt sammála um það að standa saman um þetta frumvarp og sameinast um það að vinna sem best úr málinu áfram á grundvelli þeirra laga sem vonandi verða sett um þetta viðfangsefni. Af því tilefni er sérstakt endurskoðunarákvæði í frumvarpinu þar sem lögð er sú skylda á forsætisráðherra sem hér verður 30. júlí 2010 að skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að endurskoða lög þessi og framkvæmd þeirra. Auðvitað kemur ekkert í veg fyrir að lögin verði endurskoðuð fyrr en þarna er sú leið farin að tvennar kosningar, þ.e. einar alþingiskosningar a.m.k. og sveitarstjórnarkosningar hafi farið fram áður en endurskoðunin á lögunum fer fram.

Í lagafrumvarpinu er Ríkisendurskoðun falið margvíslegt og mikilvægt verkefni. Ríkisendurskoðun er sá aðili sem allir flokkarnir voru sammála um að væri best til þess fallin að gegna þessum mikilvægu og viðkvæmu verkum sem talin eru upp og gerð er grein fyrir í frumvarpinu. Við samningu þess hafði nefndin samband við Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðandi lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn til að taka að sér þessi verkefni og mundi kappkosta að vinna að þeim í góðri samvinnu við alla málsaðila. Jafnframt átti nefndin samstarf við formann og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga um þátt sveitarfélaganna í þessu og tel ég að málið njóti góðs stuðnings á þeim vettvangi. Til þess að koma nokkuð til móts við væntanlegan kostnað sveitarfélaganna af málinu er lagt til í frumvarpinu að kostnaði við alþingis- og forsetakosningar verði létt af sveitarfélögunum en hann borinn af ríkisstjórninni. Hér er raunar á ferðinni gamalt umræðuefni milli ríkis og sveitarfélaga og í raun eðlilegt að verða við þeirri ósk sveitarfélaganna að létta af þeim þeim kostnaði hvað sem þessu frumvarpi líður.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu á hinu háa Alþingi og geti tekið gildi um áramót eins og gildistökuákvæði þess segir til um og það verði jafnframt til þess að leggja nýjan og farsælan grundvöll að stjórnmálastarfsemi framtíðarinnar á Íslandi. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.



[15:58]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að óhætt sé að fullyrða að frumvarp til laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra sem hér er á ferðinni marki allveruleg tímamót. Frumvarpið markar tímamót vegna þess að ef það verður að lögum, sem ég geri fastlega ráð fyrir, verða þetta fyrstu lögin sem sett eru hér á landi um fjármál stjórnmálasamtaka og upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka, þrátt fyrir að eftir slíkum lögum hafi verið kallað í mörg ár og áratugi, ekki síst af ýmsum sem tilheyra þeim væng stjórnmálanna sem ég er fulltrúi fyrir. Íslenskir jafnaðarmenn hafa lengi haft það sem baráttumál að slík lög væru sett, m.a. hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir verið ötull talsmaður þess og verið 1. flutningsmaður að mörgum málum í þessa veru. Það má því segja að hún hafi hamrað steininn ótt og títt á þinginu með þetta mál og það sannast kannski hið fornkveðna að dropinn holar steininn, ekki vegna þess að hann falli endilega svo þungt til jarðar heldur svo oft. Þingmaðurinn á auðvitað heiður skilinn fyrir að hafa unnið ötullega að þessum málum.

Eins og ég sagði markar þetta frumvarp tímamót og kannski ekki síst fyrir það að full samstaða náðist um það milli stjórnmálaflokkanna á þinginu að standa að flutningi þessa frumvarps. Um innihald frumvarpsins varð góð sátt milli formanna flokkanna og þess fólks sem sat fyrir okkur í þeirri nefnd sem skipuð var til að vinna að þessum málum. Ég er ekki viss um að margir hafi haft trú á því þegar nefndin var skipuð í júlí 2005, nefnd fulltrúa allra þingflokka, að hún næði niðurstöðu í málinu vegna þess að það virtist a.m.k. svo að himinn og haf væri milli sjónarmiða flokkanna í málinu.

Það er stundum þannig að allt hefur sinn tíma og við vorum einfaldlega þangað komin núna í þessum málum að það var forsenda fyrir sátt á milli stjórnmálaflokkanna í viðkvæmu deilumáli sem lengi hefur verið þrætuepli á milli flokka. Þetta segir okkur það, eins og ég hef áður bent á, að mörg mál eru þeirrar gerðar að ef menn einfaldlega setjast niður, útskýra sjónarmið sín og ræða sig í gegnum þau þá er sáttin kannski oft nær en menn vilja vera láta. Vísa ég í því sambandi til fjölmiðlamálsins árið 2004 og ætla ég líka að vísa í Ríkisútvarpið sem liggur fyrir þinginu.

Í þessu frumvarpi er kveðið á um fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi. Það er tilgangur þeirra að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gegnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auki að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræði. Þetta stendur í 1. gr. frumvarpsins, markmiðsgreininni. Ég tel einmitt mjög mikilvægt þetta gegnsæi sem kemst þarna í fjárreiður stjórnmálaflokkanna, sem ég er sannfærð um að er til þess fallið að auka traust á stjórnmálastarfseminni ef vel tekst til sem allar forsendur eru fyrir.

Samfylkingin hefur lengi verið þeirrar skoðunar að í þessum efnum ætti að ríkja gegnsæi, þ.e. að flokkarnir ættu að vera bókhaldsskyldir og þeir ættu að birta tölur úr bókhaldi sínu opinberlega og m.a. kveða þar á um fjárframlög frá lögaðilum og einstaklingum sem væru yfir ákveðinni upphæð. Við vorum í sjálfu sér ekki þeirrar skoðunar að það ætti endilega að setja bann við fjárframlögum yfir ákveðinni upphæð, aðalatriðið væri gegnsæið þannig að öllum mætti ljóst vera hvort flokkar þæðu fjárframlög frá tilteknum fyrirtækjum eða ekki. Þannig gætu kjósendur og almenningur gert sér grein fyrir því hvort um hugsanlega hagsmunaárekstra væri að ræða í afgreiðslu mála sem koma til kasta flokkanna. Ég gat hins vegar alveg fallist á það að setja þetta þak, 300 þús. kr. þak á fjárframlög, bæði frá lögaðilum og einstaklingum, og ná þannig samstöðu í þessu máli, þó að almennt sé ég ekki mjög fylgjandi bannleiðum heldur fremur því sem lýtur að gegnsæi. Ég tel að það megi öllum ljóst vera að það kaupir sér enginn fylgispekt, hvorki einstaklings né flokks, fyrir upphæð sem er undir 300 þús. kr. Sú upphæð ætti því ekki að bjóða upp á neina hagsmunaárekstra milli fyrirtækja og flokka.

Þá er líka mikilvægt í þessu sambandi að hér er um algert gegnsæi að ræða vegna þess að flokkunum ber að gera grein fyrir og birta lista yfir þá lögaðila sem styrkja þá um einhverjar upphæðir sem eru undir þessari hámarksupphæð sem er 300 þús. kr. Varðandi framlög frá einstaklingum er sama bann í gildi, þ.e. þau framlög mega ekki vera yfir 300 þús. kr. en það er ekki sama birtingarskylda á þeim framlögum og ræður þar auðvitað miklu um réttur einstaklinga til þess að starfa í stjórnmálum og leggja þeim lið með þeim hætti sem þeir helst kjósa. Það er við því að búast að þetta muni hafa áhrif á fjárreiður stjórnmálaflokkanna vegna þess að allir hafa flokkarnir þurft að leita stuðnings hjá fyrirtækjum og einstaklingum til stjórnmálastarfsemi sinnar þó að í mismiklum mæli sé. Þess vegna er mikilvægt að tryggja þeim framlög, þ.e. þingflokkum og stjórnmálaflokkum úr ríkissjóði og sveitarstjórnarflokkum frá sveitarfélögum, til þess að standa við bakið á þessari mikilvægu starfsemi því að stjórnmálaflokkarnir eru auðvitað gríðarlega mikilvæg eining í öllu lýðræðislegu starfi að stjórnmálum.

Ég tel að það séu mjög mikilvægar greinar í þessu frumvarpi sem lúta sérstaklega að reikningsskilum og upplýsingaskyldu og ég er þar að vísa til 9. og 10. gr. þessa frumvarps þar sem kveðið er nákvæmlega á um það hvernig stjórnmálasamtök skuli færa reikninga sína og að þau skuli skila Ríkisendurskoðun árlega reikningum sem áritaðir séu af löggiltum endurskoðendum. Þá er líka kveðið á um það að Ríkisendurskoðun skuli í kjölfarið birta útdrátt úr ársreikningi stjórnmálasamtaka með samræmdum hætti. Þannig verði birtar tilteknar lykiltölur sem verði þær sömu fyrir öll stjórnmálasamtök. Hér segir í frumvarpinu:

„Þar skal greina a.m.k. heildartekjur og heildargjöld. Þá skal flokka tekjur eftir uppruna, þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum, ásamt helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi.“

Svipaðar reglur gilda samkvæmt þessu um frambjóðendur í persónukjöri eða í prófkjörum og það er í 11. og 12. gr. Ég tel ég gríðarlega mikilvægt að reyna að ná utan um það vegna þess að við höfum fylgst með því á undanförnum mánuðum, missirum og árum að svo virðist sem útgjöld til framboðs í prófkjörum fari sífellt vaxandi. Ég held raunar að þar sé kannski meiri hætta á ferðum fyrir stjórnmálastarfsemina en hjá flokkunum sjálfum þegar einstaklingar þurfa að verja verulegum fjárhæðum, milljónum og jafnvel milljónatugum í framboðsbaráttu til Alþingis eða sveitarstjórnar og sækja þá fjármuni til fyrirtækja á markaði.

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt frumvarp sem hér er að líta dagsins ljós. Ég vil þakka sérstaklega því fólki sem sat í nefnd fulltrúa allra þingflokka sem vann að þessu og ég þakka einnig formönnum annarra stjórnmálaflokka fyrir gott samstarf í þessu máli.

Ég vil segja tvennt að lokum, virðulegur forseti. Annars vegar það að ég tel mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um það á næstu vikum með hvaða hætti þeir ætla að reyna að halda aftur af þeim gríðarlega fjáraustri sem nú er samfara auglýsingum í tengslum við kosningar. Mér finnst mikilvægt að flokkarnir sýni ákveðna ráðdeild í þessum efnum og reyni að ná utan um útgjöld sín sem eru samfara auglýsingakostnaði fyrir kosningar.

Annað sem ég vil líka geta um er mikilvægi þess að menn starfi í anda þessara laga, ekki aðeins stjórnmálaflokkarnir heldur ýmsir sem styðja við bakið á stjórnmálaflokkunum, þannig að ekki verði til neins konar neðanjarðarkerfi þar sem hollvinasamtök stjórnmálaflokka eða einhverjir einstaklingar í prívatframtaki taki sér það fyrir hendur að fara að auglýsa flokkana upp eða jafnvel að auglýsa gegn flokkum, eins og tíðkast m.a. í Bandaríkjunum þar sem eru umfangsmikil bönn við fjárframlögum til stjórnmálasamtaka. Þar hafa peningarnir fundið sér farveg í gegnum slík hollvinasamtök sem fyrst og síðast eru með neikvæðar auglýsingar um aðra stjórnmálaflokka og frambjóðendur, sem setur mjög leiðinlegan svip á bandarísk stjórnmál sem menn sáu kannski ekki alveg fyrir. Ég tel mikilvægt að að komi skýrt fram hjá okkur, formönnum stjórnmálaflokkanna, að við teljum það ekki samrýmast anda þessara laga og að við munum ekki með neinum hætti eiga aðild að því að slíkir hlutir gerist eða samþykkja slíkt, þó að það geti verið erfitt fyrir okkur formlega séð að koma í veg fyrir það.

Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegur forseti. Ég tel mikilvægt að þetta mál fari nú til nefndar og þar verði kallaðir til aðilar til að gefa umsögn um það sem eru líklegir til að hafa á því skoðun og allherjarnefnd gefist þannig kostur á því að heyra í fólki sem hefur skoðun á þessum málum og sem mikilvægt er að við þingmenn heyrum núna í meðferð málsins.



[16:10]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og ræðumennirnir á undan mér, hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, fagna því að frumvarp þetta er komið fram og góð samstaða hefur tekist um að brjóta í blað og setja fyrstu, almennu löggjöfina um þetta viðfangsefni, fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, hvað varðar upplýsingaskyldu um þau mál og fleira sem frumvarpið inniheldur.

Að mínu mati er einn megintilgangur þessa frumvarps að fyrirbyggja tortryggni, bæta andrúmsloftið í samskiptum stjórnmálaheimsins og þjóðarinnar þannig að ekki þurfi að vera neikvæð umræða og tortryggni, að mestu vonandi eða jafnvel að öllu leyti tilefnislaus, um að fjármálalegt afl geti haft óæskileg áhrif á stjórnmálin á bak við tjöldin.

Að mínu mati er verið að reisa hér fyrir fram skorður við því sem aðrar þjóðir hafa flestar hverjar fyrir löngu gert, að fjársterkir aðilar geti gert tilraunir til og jafnvel náð því að kaupa sér völd og áhrif með því að veita fjármuni til stjórnmálamanna eða stjórnmálasamtaka gegn greiða á móti. Í ljósi þess mikla ríkidæmis sem víða er orðið að finna og þess að miklir hagsmunir geta stundum verið í húfi þegar einstaka ákvarðanir í stjórnmálum eru teknar þá er öllum fyrir bestu að reyna að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann og grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana af þessu tagi. Ég hygg að einmitt þess vegna sé mikilvægt að þetta frumvarp reynir að taka á málinu heildstætt, tekur til beggja stjórnsýslustiga, tekur til starfsemi stjórnmálasamtaka í heild, til stjórnmálamanna sem einstaklinga og frambjóðenda, t.d. í prófkjörum.

Í raun er miklu ríkari ástæða til að hafa áhyggjur af því þegar einstakir stjórnmálamenn, einstaklingar safna fjármunum til sinnar persónulegu stjórnmálabaráttu eða prófkjörs en til að hafa áhyggjur af starfsemi stjórnmálasamtaka á landsvísu. Sama gildir í raun um sveitarstjórnarmál. Þar er návígið miklu meira og minna innbyggt aðhald í gegnum starfsemina sem slíka en þegar í hlut eiga stjórnmálaflokkar á landsvísu, með sitt félagslega og lýðræðislega aðhald og þá miklu hagsmuni sem í húfi eru.

Ég tel að þær takmarkanir sem hér eru settar á fjárheimildir einstaklinga og lögaðila til að veita fjárframlög til stjórnmálastarfsemi séu í öllum aðalatriðum eðlilegar og viðmiðunarmörkin, þ.e. upphæðirnar ásættanlegar. Auðvitað má lengi ræða um hvað sé hóflegt í þessum efnum, hvort hámarksframlög eigi að vera 300 þús. kr. á ári eða eitthvað meira eða minna. En hér er farin sú leið að setja skýr mörk og jafnframt farin leið upplýsingaskyldu og gagnsæis þannig að öll framlög frá lögaðilum verða hér eftir opinber. Það held ég að sé í raun gott fyrir báða aðila. Nú velta menn því sjálfsagt fyrir sér hvort þetta muni leiða til þess að fyrirtæki muni almennt hverfa frá stuðningi við stjórnmálaflokkana. Það verður auðvitað að koma í ljós.

En skyldu ekki mörg fyrirtæki með stolti sýna að þau leggi þessari bráðnauðsynlegu undirstöðustarfsemi í lýðræðisríkinu lið og geri þar öllum jafnhátt undir höfði og þyki frekar af því sæmd en hitt að slíkt komi fram opinberlega.

Það er rétt að taka fram að þetta mál á langan aðdraganda í þeim skilningi að það hefur verið rætt á Íslandi í áraraðir og áratugi hvort ekki væri nauðsynlegt að setja lög um þetta. Ég hef hreyft þessu máli ítrekað á umliðnum árum í ræðu og riti.

Hér var nefnt frumkvæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er hárrétt, að hún hefur verið iðin við það, eins og mörg önnur mál, að halda þessu á lofti og það er vel. En það hafa vissulega fleiri gert. Ég vil líka nefna í þessu samhengi að að sjálfsögðu hefur það verið hverjum og einum frjálst og opið að setja reglur og fara fram á grundvelli þeirrar hugsunar sem hér er höfð að leiðarljósi, að um þetta skuli gilda skýrar reglur, ákveðin takmörk og flokkar skuli upplýsa um sín mál. Það hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð gert frá upphafi.

Við höfum frá upphafi haft ársreikninga okkar opna. Við höfum látið löggilta endurskoðendur endurskoða þá og leggja starfsheiður sinn við að þar sé allt rétt upp gefið. Við höfum sett okkur reglur frá byrjun um fjármálaleg samskipti við fyrirtæki og haft ákveðið hámark á upphæðum sem við tækjum við án þess að gefandinn væri nafngreindur. Við höfum gengið enn lengra en þetta. Á heimasíðu okkar flokks geta menn fundið, ekki bara ársreikningana heldur líka upplýsingar um persónulegan fjárhag okkar þingmanna og maka okkar, eignir okkar og möguleg hagsmunatengsl.

Veruleikinn er sá, frú forseti, að fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð boðar þetta frumvarp ákaflega litlar breytingar. Við höfum í öllum aðalatriðum þegar gert þær ráðstafanir sem frumvarpið mun gera að almennri reglu. Ég hvet menn til þess, ef þeir hafa áhuga á, að fara inn á heimasíðu okkar, vg.is og skoða þær upplýsingar sem þar er að finna. Það er að sjálfsögðu öllum frjálst og velkomið.

Ég vil í þessu samhengi þakka fulltrúa okkar í nefndinni, sem hér hefur unnið þarft starf, Kristínu Halldórsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fyrrverandi alþingismanni, fyrir hennar góða starf fyrir okkar hönd í nefndarstarfinu.

Að lokum vil ég segja að auðvitað er heilmikil vinna fram undan sem snýr að því að móta reglur í nánari atriðum en lögin mæla fyrir um framkvæmd þessa máls, m.a. um samskiptin við Ríkisendurskoðun. Ég tel þarft að flokkarnir eigi áfram með sér gott samstarf um framhaldið og jafnvel verði áfram starfshópur við lýði með fulltrúum flokkanna sem geta eftir atvikum unnið með Ríkisendurskoðun og öðrum aðilum sem málið varðar. Mér sýnist ljóst að flokkarnir sem slíkir, sem stofnanir, þurfi að vinna talsverða undirbúningsvinnu, sérstaklega hvað það varðar að tengja kjördæmisráð og grunneiningar í starfi flokka með nánari hætti við móðurskipin þannig að þessar reglur nái yfir alla starfsemina eins og þeim er ætlað.

Varðandi einstök efnisatriði þá held ég að ég sleppi því að mestu að nefna þau. Hér er ýmislegt sem mætti velta vöngum yfir eða gera athugasemdir við. Ég vil þó aðeins nefna 5. gr. og það sem snýr að sveitarfélögunum sem er vel að merkja nauðsynlegt að hafa þarna með. Þessi löggjöf á að sjálfsögðu að taka yfir stjórnmálastarfsemi í heild. Það er ekki síður ástæða til að hún taki yfir stjórnmálastarf á sveitarstjórnarstigi en á landsvísu. Það má þó velta því fyrir sér hvort ástæða væri til að líta á ákvæði 5. gr., m.a. með hliðsjón af því að reglunni er ætlað að taka til sveitarfélaga allt niður í 500 íbúa.

Það kann að vera, eins og mér hefur verið bent á, að það geti verkað fullmiðstýringarlegt, að hér sé kannski með óþarflega nákvæmum hætti sagt fyrir um hvernig sveitarfélögin skuli standa að málum. Ef til vill þyrfti að vera meiri sveigjanleiki, t.d. vegna gríðarlega mismunandi stærðar sveitarfélaga. En það og ýmislegt annað af svipuðum toga má að sjálfsögðu skoða betur eftir atvikum að því marki sem þingnefnd hefur tíma til. En það má líka endurskoða komi í ljós að lögin séu einhverjum annmörkum háð hvað þetta eða annað snertir.

Það leiðir mig að því síðasta, frú forseti, sem ég ætla að nefna. Það er ósköp einfaldlega að í ákvæði til bráðabirgða er mælt fyrir um að þessi lög skuli koma til endurskoðunar eigi síðar en 30. júní 2010. Það er hugsað þannig að endurskoðunarstarfið fari í gang í beinu framhaldi af því að lögin hafa gilt um einar kosningar á báðum stjórnsýslustigum, þ.e. alþingiskosningarnar sem í hönd fara í maímánuði næstkomandi og sveitarstjórnarkosningar í maí árið 2010.

Þetta held ég að sé hyggilega ráðið. Það ber að sjálfsögðu ekki að skilja sem svo að komi í ljós, t.d. við útfærslu reglna og framkvæmdina á fyrsta eða öðru ári að eitthvað megi betur fara að þá megi ekki breyta lögunum fyrr ef ástæða verður til. Því held ég að menn eigi að drífa þetta mál fram og gera að lögum, hefja tafarlaust undirbúning að framkvæmd þeirra og líta á það sem mikilvægan og merkan áfanga í þróun okkar löggjafar og okkar lýðræðis- og réttarríkis að þessi mál fari í svipaðan farveg og svipaðan umbúnað hér á landi og gert hefur verið í nánast öllum vestrænum lýðræðis- og þingræðisríkjum sem við berum okkur saman við þótt hæstv. forsætisráðherra hafi að vísu einhvers staðar fundið tvö Evrópuríki, ef ég heyrði rétt, sem hann telur að hafi ekki sett sér slík lög.



[16:23]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég lít svo til að hér séum við að setja merka löggjöf. Við erum að marka stjórnmálastarfseminni í landinu ákveðinn farveg, ákveðnar samskiptareglur sem allir fari eftir og allir þurfi að undirgangast. Ég tel að með þessari skipan mála verði starfsemi stjórnmálaflokkanna almennt aðgengilegri fyrir alla landsmenn sem fái betri sýn á starfsemi flokkanna, bæði hvað varðar fjáröflun þeirra, hvaðan þeir hljóta styrki, sem og sundurgreiningu á því hvaða upphæðir koma frá félagsmönnum sem félagsgjöld, hvaða upphæðir frá einstaklingum sem styrkir sem og það að frá lögaðilum liggi fyrir hverjir þeirra styrki flokkana, styrki þar af leiðandi stjórnmálastarfsemi í landinu og lýðræði einnig. Það er vissulega mikilvægt að efla lýðræðisskipulag þar sem við öll göngumst undir ákveðnar skyldur að þessu leyti.

Við í Frjálslynda flokknum höfum frá upphafi okkar starfs verið með það sem við höfum kallað opið bókhald, bókhald sem er endurskoðað af endurskoðanda. Hann tekur út og stimplar eða skrifar upp á að eðlilega sé fært og eðlilegar reikningsskilavenjur viðhafðar sem og greiningar á tekjum, gjöldum, skuldum, eignum, framlögum o.s.frv. Við höfum sjálf sett okkur ákveðnar reglur til margra ára í því sambandi og höfum núna seinni árin miðað við það að allar upphæðir sem væru yfir 500 þús. til starfsemi stjórnmálaflokka væru gefnar upp og upplýst hver væri gefandinn eða styrkveitandinn.

Í starfsemi okkar höfum við einnig verið með hóp félagsmanna sem greitt hafa svokallað kjölfestugjald til flokksins. Þeir hafa auðvitað verið að stórum hluta burðarás við það að styrkja starfsemi okkar flokks ásamt almennum félagsgjöldum og framlögum frá einstaklingum.

Nú er verið að setja hér sameiginlegar reglur fyrir alla stjórnmálastarfsemina að þessu leyti varðandi upphæðir og frá hverjum þær koma, upplýsingaskyldu um slíkt. Ég tel að þetta plagg sem við erum að ræða, frumvarpið um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, sé þáttur í lýðræðisskipan okkar og verði til þess að hér eigi fólk að hafa betri yfirsýn yfir það hvernig stjórnmálaflokkarnir starfa almennt á landi hér og það liggi þá skýrar fyrir öllum. Það held ég að muni þá einnig draga úr innbyrðis deilum um það að stjórnmálaflokkar hafi misjafnan aðgang að fjármagni og einnig það að ekki sé ákveðinn hópur fyrirtækja eða lögaðila sem styrki einn stjórnmálaflokk frekar en annan. Þetta held ég að sé eðlilegt og nauðsynlegt í nútímaþjóðfélagi. Einnig hefur verið bent á að á seinni árum hafa risið upp hér á landi fyrirtæki og einstaklingar sem eru með það mikið fjármagn að ef þeir vildu beita því til að leggja einum stjórnmálaflokki lið gætu þeir orðið mjög ráðandi með fjárstyrk sínum. Hér eru því settar verulegar skorður og það tel ég að sé til bóta, hæstv. forseti.

Auðvitað hefur margt borið á góma í því nefndarstarfi sem sett var á fót af þáverandi forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni í júlí 2005. Það er ekki eins og að öll þessi umræða um starfsemi stjórnmálaflokkanna hafi legið í einhverju þagnargildi. Það hefur líka verið vilji til að setja slíkri starfsemi einhverjar skorður með lögum og reglum. Vissulega hafa þeir sem í nefndinni störfuðu sem og við sem erum í forustu stjórnmálaflokkanna reynt að gæta ákveðins trúnaðar um það starf sem hefur verið unnið. Það er eðlilegt þegar menn vinna svona starf vegna þess að á einhverjum tímapunkti þurfa auðvitað allir að gefa eftir til að lenda svona máli. Það hafa ekki allir sömu skoðun á þessu máli, hvernig með það eigi að fara.

Ég hygg að nefndin sem var sett í þetta verk hafi unnið ágætt starf og ég þakka fulltrúa okkar frá Frjálslynda flokknum, Eyjólfi Ármannssyni lögmanni, sérstaklega fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt í þetta fyrir hönd okkar í Frjálslynda flokknum. Ég tel að nefndarmenn allir sem í nefndinni störfuðu hafi unnið gott verk og haft víðsýni að leiðarljósi við það að reyna að ná þessum málum saman þó að auðvitað hafi hverjum sýnst sitt þegar menn byrjuðu í þessu nefndarstarfi og allir þurft að víkja kannski eitthvað frá sínum stífustu skoðunum eða meiningum til að lenda þessu saman í þann farveg sem varð svo sá grunnur sem við formenn stjórnmálaflokkanna náðum að sameinast um til að svo mætti fara að inn í Alþingi kæmi til afgreiðslu heildstætt frumvarp um fjármál og starfsemi stjórnmálaflokka.

Þetta mál hefur verið kynnt í þjóðfélaginu og verið til umfjöllunar. Auðvitað sýnist sitt hverjum um það sem hér er lagt til en almennt vil ég segja sem mína skoðun að við erum með þessu lagafrumvarpi að efla lýðræðið og gera stjórnmálastarfsemina opnari fyrir fólki í þjóðfélaginu. Ég tel að þetta muni til framtíðar efla lýðræðisþróun í landinu og fagna því að við séum að ná saman um þetta mál. Það hefur einnig verið kynnt eins og ég gat um áður og hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu þannig að hér er ekki um að ræða mál sem dettur inn í þing þó að það komi reyndar seint til afgreiðslu sem ekki hefur verið til umræðu og menn hafa ekki getað kynnt sér. Það hefur verið til umfjöllunar, menn hafa vitað efni þess og öllum verið það ljóst í meginatriðum, a.m.k. á seinni stigum síðustu vikurnar, um hvað þetta frumvarp snerist og um hvað það mundi snúast.

Þegar slíkar reglur eru settar þurfum við samt ekki að reikna með því að við náum utan um nákvæmlega hvert einasta atriði í starfsemi stjórnmálaflokkanna. Hún er fjölþætt og fjölbreytt og það hefur verið reynt að skilgreina hvað teljast fjármunir í slíku sambandi. Síðan er dregin þessi regla með 300 þús. kr. sem markar hámark fjárframlaga og markar einnig það sem menn mega vera með í gjafir eða styrki, kaffisamsæti og aðra fundi sem oft er gefið til af ýmsum til þess að slíkir fundir megi fara fram sem og það að flokkarnir gefa út blöð. Þau eru oft héraðsbundin og hafa auðvitað verið fjármögnuð með því að aðilar hafa verið með styrktarlínur eða auglýsingar í slíkum blöðum. Það er eðlilegt að slíkt geti haldið áfram en því er samt sem áður settur hér ákveðinn rammi. Ramminn er sá að þar keyri ekki umfram eðlilegan viðmiðunarkostnað og Ríkisendurskoðun verður að skoða hvað flokkarnir hafa notað í slíka útgáfu á undanförnum árum og setja um það reglur þannig að það sé ekki leið sem menn noti þá til fjáröflunar umfram þær reglur sem hér er stefnt að. Ég hygg að vilji allra stjórnmálaflokkanna sé til þess að halda þessar reglur og halda þetta samkomulag sem væntanlega verður lögfest því það byggir mikið á því í framtíðinni að við sem störfum í stjórnmálaflokkunum höfum vilja til þess að láta þessa hluti ganga upp og aðlaga okkur reglum sem við þurfum e.t.v. að kunna að setja á komandi mánuðum og árum til að þessi mál fari í þann farveg sem menn vilja.

Ég vek hins vegar athygli á því að þegar við setjum þessi takmörk setjum við þeim framlögum sem einstaklingar og fyrirtæki hafa getað veitt stjórnmálaflokkum til starfsemi sinnar ákveðin takmörk. Þess vegna liggur í hlutarins eðli að þá komi eitthvað meiri fjármunir frá ríkissjóði til starfsemi stjórnmálaflokkanna enda er þar með einnig verið að gera ljóst hvaða fjármunir fara í þessa starfsemi og menn ættu almennt að vera hlynntir því að vita það.

Aldrei verður það hins vegar svo að við þurfum ekki eitthvað að lagfæra og við getum þurft að takast á við það á komandi árum. Þó að endurskoðunarákvæðið sé ekki hér fyrr en 2010 gætum við þurft að takast á við það að endurskoða einhverjar þeirra reglna og jafnvel laga sem við setjum okkur hér.

Það eru nokkur mál sem ég vil víkja að í lok ræðu minnar, hæstv. forseti, sem snúa að starfsemi stjórnmálaflokka og hafa mikil áhrif á það hvernig við notum fjármuni. Þar sem við erum að undirgangast það að setja okkur þessar takmarkanir sem hér verða væntanlega festar í lög og fáum síðan styrki úr ríkissjóði til starfsemi okkar ber okkur í stjórnmálaflokkunum að setja okkur sjálfum skynsamlegar reglur um það hvernig við nýtum slíka fjármuni. Í því sambandi vil ég sérstaklega víkja að auglýsingakostnaði. Mér finnst ekki mjög góður svipur á því að að settum þessum lögum þar sem ríkissjóður leggur meira til stjórnmálaflokka en áður notum við þá fjármuni í miklum mæli í afar dýrar auglýsingar í komandi alþingiskosningum svo að við tökum dæmi af því sem næst okkur er. Við höfum þá ábyrgð að nýta þá fjármuni sem okkur eru fengnir í hendur og vinna með þá þannig að þegnar í þjóðfélaginu geti ekki sagt: Jú, jú, þeir fengu hér nokkrar milljónir og þær fóru beint í leiknar sjónvarpsauglýsingar og hurfu þar. Mér finnst að við eigum að horfa svolítið til þess, hæstv. forseti, að við í stjórnmálaflokkunum sem erum þar í forustu setjumst nú saman og reynum að búa okkur til sameiginlegar reglur um það hvernig við viljum standa að þeim þætti málsins á komandi mánuðum, sérstaklega vikum kosningabaráttunnar rétt fyrir kjördag.

Ég vil einnig lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að það eigi að færa lok kosningabaráttu fjær kjördeginum en nú er, ef t.d. er kosið á laugardegi ljúki hinni formlegu kosningabaráttu flokkanna á miðvikudegi, þess vegna með einhverjum umræðuþætti sem þjóðin væntanlega öll getur hlustað á. Auðvitað lýkur samt ekki starfseminni sem slíkri. Menn halda áfram að vinna heimavinnuna sína, hringja í kjósendur o.s.frv. en hinni formlega auglýstu stjórnmálabaráttu gæti kannski lokið 2–3 dögum áður en kosið er.

Ég vil velta því hér upp, þótt það gerist kannski ekki fyrir þær alþingiskosningar sem fara í hönd, að skoða hvort við eigum að setja okkur einhverjar reglur um það að skoðanakannanir t.d. birtist ekki síðustu 2–3 dagana fyrir kosningar í stað þess að þær hrúgist inn nánast fjórar, fimm, sex á hverjum einasta degi á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Ég held að kjósandinn þurfi líka næði til að leggja mat á málflutning okkar og vega það og meta hvaða afstöðu hann tekur til atkvæðis síns, hvernig hann vill beita því þegar kemur að kjördegi.

Síðan vil ég nefna, hæstv. forseti, meðferð vafaatkvæða og úrskurð þeirra sem er vikið að í greinargerð nefndarinnar með frumvarpinu og einnig það sem ég hef kallað 17. aldar framkvæmd á því að greiða atkvæði utan kjörfundar þar sem liggur við að hverjum kjósanda sé ætlað að vera með sama fyrirkomulag á að koma atkvæðinu sínu á einhvern eða ferðast jafnvel með það sjálfur til að koma því í ákveðna kjördeild. Framkvæmdin er sú að það er kosið hjá sýslumönnum utan kjörfundar og ég held að með nútímatækni hljóti að vera hægt að koma því svo fyrir að atkvæði verði eftir þar og þaðan sé niðurstöðunni skilað eða hún flokkuð og talin þannig að hver og einn kjósandi þurfi ekki, jafnvel á síðustu klukkustundum síns mögulega tækifæris til að kjósa ef hann er utan heimasveitar sinnar, t.d. sjómenn sem eru í höfn víða á landinu án þess að vera í sinni heimasveit, að standa í sérstökum reddingum við að koma atkvæði sínu til skila. Mér finnst það vera landpóstafyrirkomulag að menn þurfi að ferðast með sitt eigið atkvæði í stað þess að eiga þann rétt að atkvæðið komist tryggilega til skila og niðurstaðan þar með. Það er meginniðurstaða kosningalaga að kjósandinn á að eiga þann rétt að atkvæði hans sé talið með og allur vafi talinn honum í hag um að hann sé að skila af sér atkvæði og koma vilja sínum á framfæri.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, og síðan það að lokum að við talningu í kjördeildum, þ.e. vegna kosningakerfis okkar um uppbótarþingmenn o.s.frv., þarf að athuga að ákveðnar kjördeildir séu ekki búnar að loka og afgreiða málin. Ef mjög litlu munar um það hvernig þingmenn falla á kjördæmi getur þurft að endurtelja vafaatkvæði og úrskurða á nýjan leik og jafnvel endurtelja allt saman ef munurinn er mjög lítill. Þetta finnst mér að við þurfum að skoða í flokkunum og setja okkur um þetta skynsamlegar reglur þannig að þegar falla atkvæði svo að litlu munar sé alveg óumdeilt að það sé skoðað upp á nýtt, endurtalið og allur vafi útilokaður sem framast má verða.



[16:41]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég fagna því og framlagningu þess og lýsi stuðningi framsóknarmanna við þetta frumvarp. Það er merkur áfangi í lýðræðisþróun Íslendinga og stuðlar að jafnræði, gegnsæi og hófsemi í stjórnmálastarfi.

Ég þakka nefndarmönnum störf þeirra að þessu máli og ég þakka öðrum formönnum stjórnmálaflokkanna samstarfið um þetta mál og minnist þess að nú hefur náðst árangur af margra ára umræðum í starfi þeirrar nefndar sem þáverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson lét setja til þess að vinna þær tillögur sem nú eru komnar fram og samstaða hefur náðst um.

Ég tek undir margt það sem fram hefur komið í framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra og ræðum annarra hv. þingmanna við þessa umræðu. Við þurfum að sjálfsögðu að læra af reynslunni sem nú fæst fram undan og það eru einmitt endurskoðunarákvæði í frumvarpinu sem hníga að því að eftir nokkurn tíma verði það tekið til skoðunar í ljósi fenginnar reynslu.

Eitt af því sem þarf sérstaklega að hafa í huga er hvort nú fara að skapast hér svokölluð frjáls samtök utan stjórnmálaflokkanna sem fara að hafa afskipti af stjórnmálabaráttu, t.d. með auglýsingum, með margs konar kostun eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi áðan þar sem t.d. í Bandaríkjunum eru svokallaðar Political Action Committees orðnar mjög umsvifamiklar og hafa mikil áhrif í stjórnmálum, m.a. með svokölluðum neikvæðum auglýsingum. Ég tek undir það líka að það er æskilegt að flokkarnir haldi áfram samstarfi sínu og samtölum um hugsanlega möguleika á því að ná einhvers konar samkomulagi um auglýsingakostnað sem ég held að sé mjög mikilvægt að við reynum til þess að þetta frumvarp, þegar það er orðið að lögum, megi skila þjóðinni og lýðræðisþjóðfélagi okkar sem mestum árangri.

Ég endurtek þakkir til nefndarmanna og lýsi enn á ný stuðningi við þetta frumvarp.



[16:44]
Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Það ber að sjálfsögðu að fagna þessu frumvarpi um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu. Það má kannski segja að það sé svolítið táknrænt að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sé hæstv. forseti yfir þessu máli, hún sem hefur margoft lagt svipað fram á þingi. Umræðan um framlög til stjórnmálaflokka og til stjórnmálamanna almennt hefur aukist í þjóðfélaginu. Almenningur hefur kallað eftir meira gegnsæi og hefur sú krafa ekki síst aukist í kjölfar umræðna um kostnað vegna kosningabaráttu og þá sérstaklega vegna þátttöku einstaklinga í prófkjörum.

Þegar okkur berast upplýsingar um að prófkjörskostnaður geti farið í allt að 14 millj. er eðlilegt að Gróa á Leiti fari af stað og það er nokkuð ljóst að ekki hafa allir aðgang að slíku fé. Mér sýnist að skv. 8. gr. sé einstaklingi bannað að eyða meiru en rúmum 5 millj. og er það vel að setja slíkt þak þótt jafnvel megi spyrja hvort það sé ekki of hátt.

Í 11. og 12. gr. eru ákvæði um reikningsskil frambjóðenda í prófkjörum og upplýsingaskyldu um reikninga eftir kosningabaráttu og er það vel að menn skuli vera skyldaðir til að leggja fram slíkar upplýsingar.

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi þó að alltaf megi spyrja sig hvort gengið sé nógu langt. Það má vera að ef þetta er liður í að stöðva fjáraustur í kosningabaráttu, og þá sérstaklega í prófkjörum, séum við á réttri leið. Við hljótum að þurfa að setja spurningarmerki við það þegar einstaklingur notar um eða yfir 10 millj. íslenskra króna í prófkjörsframboði. Hvað rekur menn áfram til að eyða slíku fjármagni og hverjir greiða í raun þennan kostnað? Ég hef ávallt verið á móti því að fyrirtæki eða eigendur fyrirtækja greiði slíkan kostnað, þ.e. styrki einstaklinga beint í kosningabaráttu sinni, og spyr: Hvaða skilyrði fylgja slíkum styrkjum? Vonandi engin.

Frú forseti. Vonandi nást þau markmið þessa lagafrumvarps að auka traust kjósenda á stjórnmálahreyfingum, stjórnmálaflokkum og að efla lýðræðið. Ég hef þó trú á að við þurfum að endurskoða þessi lög og þá er gott að hafa þetta bráðabirgðaákvæði hér um að það sé ekki endurskoðað seinna en 2010.