133. löggjafarþing — 91. fundur
 16. mars 2007.
almenn hegningarlög, 3. umræða.
stjfrv., 465. mál (aukin refsivernd lögreglu). — Þskj. 644.

[11:51]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Frumvarpið gengur út á það að bæta refsivernd lögreglunnar.

Ég vil lýsa því yfir í upphafi að ég styð frumvarpið mjög eindregið og tek þar undir sjónarmið sem fram hafa komið frá Landssambandi lögreglumanna og heildarsamtökum þeirra einnig. Landssambandið hefur sent Alþingi ítarlega greinargerð til að skýra málstað sinn og vísar til þess í greinargerðinni að í langan tíma hafi Landssamband lögreglumanna barist fyrir því að starfsumhverfi lögreglumanna verði bætt og dregið úr þeirri hættu sem felst í framkvæmd lögreglustarfa.

Í greinargerðinni er vísað í könnun sem framkvæmd var árið 2004 að beiðni Landssambands lögreglumanna, Lögregluskóla ríkisins, ríkislögreglustjóra, Sýslumannafélags Íslands og dómsmálaráðuneytis. Um var að ræða mjög víðtæka rannsókn og var öllum starfandi lögreglumönnum sendur spurningalisti sem varðar málefnið, starfsumhverfið og þá sérstaklega með tilliti til þeirrar hættu sem fylgir þessum störfum.

Markmið rannsóknarinnar var m.a. að kanna viðhorf lögreglumanna til starfsumhverfis síns og viðhorf til ýmissa mála er lúta að starfi þeirra. Ýmsar áhugaverðar niðurstöður komu úr könnuninni, en landssambandið segir að það sem mesta athygli hafi vakið að þeirra dómi hafi verið hve ógnvænlega hátt hlutfall lögreglumanna hefði orðið fyrir hótunum eða ofbeldi í starfi. Fram kom í könnuninni að 64% lögreglumanna höfðu orðið fyrir hótunum sem þeir tóku alvarlega eða að þeir voru áreittir vegna starfs síns. Þá höfðu 54% lögreglumanna orðið fyrir líkamsmeiðingum í starfi sínu. Loks kom fram að í 41% tilvika hafði hótunum eða öðru alvarlegu áreiti verið beint að fjölskyldum lögreglumanna. Ég er ekki alveg viss um að menn geri sér almennt grein fyrir þessum ógnvænlegu tölum, að í 41% tilvika hafði hótunum verið beint að fjölskyldum lögreglumanna, þar sem hótað er alvarlegu áreiti.

Í greinargerðinni segir að Landssamband lögreglumanna hafi farið þess á leit við embætti ríkislögreglustjóra í lok árs 2005 að gerð yrði samantekt um fjölda skráðra mála sem vörðuðu ofbeldi gegn lögreglumönnum og hvernig afgreiðslu málin fengju. Í eftirfarandi samantekt, og hér vísa ég í greinargerð frá Landssambandi lögreglumanna, kemur fram að í miklum meiri hluta mála hafi þeim lokið án ákærumeðferðar og dóms. Samtals voru málin á árinu 2005, óháð málsmeðferð, 60 talsins, 2004 voru þau 78, 2003 voru þau 87, 2002 voru þau 69 og 2001 voru þau 79. Í töflunni kemur fram að í verulegum mæli eru málin ekki til lykta leidd.

Landssambandið sendi hæstv. dómsmálaráðherra skýrslu þar sem gerð var grein fyrir óviðunandi vinnuumhverfi lögreglumanna og óskaði landssambandið eftir að ráðherra beitti sér fyrir að starfsumhverfi þeirra yrði bætt. Landssambandið segist hafa farið þess á leit að skoðað yrði hvort ekki þætti nauðsynlegt að herða refsingar vegna hótana og ofbeldis í garð lögreglumanna auk annarra úrræða sem líkleg væru til að ná árangri. Landssambandið hrósar hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að leggja fram þessar breytingartillögur við almenn hegningarlög sem lúta sérstaklega að vernd lögreglumanna.

Landssambandið tekur djúpt í árinni og segir, með leyfi forseta:

„Nái breytingin fram er ljóst að um mikil tímamót verður að ræða varðandi réttindabaráttu lögreglumanna og miklar líkur á að starfsumhverfi lögreglumanna batni verulega.“

Í athugasemdum við frumvarpið eru síðan reifaðar einstakar greinar þess og gerðar tillögur þar að lútandi sem ég ætla ekki að rekja í þessari stuttu ræðu minni.

Landssamband lögreglumanna hvetur til þess að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Ég ítreka stuðning minn við frumvarpið. Auðvitað hvílir geysileg ábyrgð á herðum lögreglumanna í sínu starfi og að sjálfsögðu þurfa þeir að fara mjög varlega með það vald sem þeim er falið, að það verði aldrei misnotað. Auðvitað þarf að hyggja að vernd þeirra sem taka t.d. þátt í mótmælum, andófi hvers kyns og koma þannig inn á verksvið lögreglunnar, ef við getum orðað það svo. Þarna þarf að sjálfsögðu alltaf að gæta mikillar hófsemi, en ég bendi á að lögreglumenn eru mjög meðvitaðir um þessa ábyrgð sína og minni t.d. á að Landssamband lögreglumanna hefur alltaf haft efasemdir um það, og ég veit ekki til þess að breyting hafi orðið þar á, að lögreglan bæri vopn, svo dæmi sé tekið. Lögreglumenn og samtök þeirra hafa haft efasemdir um slíka þætti.

Hitt er svo annað mál að þegar í ljós kemur í hve ríkum mæli lögreglumenn verða fyrir ofbeldi og áreiti, svo ekki sé á það minnst þegar fjölskyldur þeirra verða fyrir slíku áreiti, þegar haft er í hótunum við þær, þá ber okkur sem samfélagi að veita þeim þá lagavernd sem kostur er. Frumvarpið, þessi breyting á lögunum, hnígur í þá átt.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra um frumvarpið en lýsi yfir stuðningi mínum við það.



[12:01]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum sem eykur refsivernd lögreglumanna. Ég tek það fram í upphafi að við styðjum þetta mál, teljum það jákvætt skref í að auka refsivernd lögreglu sem hefur lengi kallað eftir lagabreytingum í þá átt sem hér er á ferðinni.

Til að byrja með langar mig auðvitað að setja þetta mál í það samhengi og það umhverfi sem lögreglumenn almennt starfa í. Eðli málsins samkvæmt er það hluti af starfi þeirra að setja sig í hættu og það er ólíkt öðrum opinberum starfsmönnum að það er hluti af starfsskyldu þeirra. Við sjáum að álag á lögreglumönnum er mikið. Það kom fram í meðförum nefndarinnar að samkvæmt könnun sem Landssamband lögreglumanna hefur gert er meðallífaldur lögreglumanna 10 árum lægri en annarra einstaklinga í þessu samfélagi. Það kom einnig fram að 1% stéttarinnar hefur svipt sig lífi. Þetta eru vísbendingar um að álag sé mikið á lögreglumenn og þetta er ákall til okkar um að standa okkur betur í að draga úr því álagi og tryggja öryggi þeirra á vettvangi.

Það eru miklir hagsmunir í húfi, bæði fyrir viðkomandi einstaklinga en það má heldur ekki gleyma því að á bak við lögregluvaldið liggja ákveðnir almannahagsmunir og ef ráðist er á lögreglumann er ekki bara verið að ráðast á hann sem einstakling, heldur líka á þessa almannahagsmuni. Þess vegna er það fullkomlega réttlætanlegt og skynsamlegt að þessi stétt búi við sérstaka refsivernd, að það varði þyngri refsingu að ráðast á lögreglumann en á aðrar stéttir. Ég held að slíkt sé til staðar í öllum löndum sem við berum okkur helst saman við. Almannahagsmunir eru hér að baki sem kalla á þessar sérstöku leiðir sem farnar eru í núverandi lögum og í þessu frumvarpi.

Það má heldur ekki gleyma annarri stétt sem verður fyrir ofbeldi, tollvörðum. Það kom fram í meðförum allsherjarnefndar að tollverðir verða fyrir ofbeldi eins og lögreglumenn, og kannski ekki síst fyrir svívirðingum og hótunum. Það var dregið sérstaklega fram í máli fulltrúa þeirra að oft er fjölskyldu tollvarðar hótað. Auðvitað gerist slíkt einnig í tilviki lögreglumanna og hugsanlega í æ meira mæli en áður en þetta finnst mér grafalvarlegt. Við höfum hér tvær stéttir sem sinna grundvallarstarfi í samfélagi okkar sem þurfa að búa við slíkt umhverfi. Kannski er aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir það en í þeim tilvikum sem þetta kemur upp er að mínu mati nauðsynlegt að hart sé brugðist við. Við þurfum að finna einhvers konar úrræði gegn slíkum hótunum í garð fjölskyldna þessara einstaklinga, það er barátta sem við eigum aldrei að gefa eftir í.

Við sjáum líka að í þeim málum sem lúta að ofbeldi í garð lögreglu og hafa þó farið fyrir dómskerfið eru dómarnir skammarlega vægir. Ég hef oft gagnrýnt dómstólana úr þessum ræðustóli og annars staðar, mér finnst dómstólar landsins vera að hunsa ákveðinn löggjafarvilja sem birtist í lögunum. Við erum búin að taka pólitíska ákvörðun um þann refsiramma sem dómstólar ákváðu síðan að hunsa. Þetta er að sjálfsögðu ekki eini málaflokkurinn sem þetta varðar. Skýrasta dæmið er að sjálfsögðu kynferðisafbrotin. Þar eru skammarlega vægir dómar eins og öll þjóðin áttar sig á og sér vikulega. Við þurfum að brjóta þennan vítahring. Það er ekki nóg að ná fram réttlæti, það þarf líka að líta út fyrir að réttlæti hafi verið náð. Ég held að hvorugt þessara skilyrða hafi verið uppfyllt hvað varðar þennan málaflokk og síðan kynferðisafbrotin. Við ræðum vonandi kynferðisafbrotin seinna í dag þar sem sérstakt frumvarp verður til umræðu hvað það varðar, ýmsar góðar réttarbætur þar á ferðinni.

Ef þetta frumvarp verður samþykkt fá dómstólar þau skýru skilaboð frá löggjafanum að taka harðar á því ofbeldi sem beitt er gegn lögreglumönnum. Það er viðurkennt í lögfræðinni að þegar löggjafinn ákveður að hækka hámarksrefsinguna eins og við erum að gera hér eru það skilaboð til dómstólanna um að þyngja refsingar. Það gefur einnig dómstólunum færi og möguleika á að komast upp úr þeim fordæmum sem þeir að sjálfsögðu líta til og eiga að líta til. Af því að fordæmi eftir fordæmi særir réttlætisvitund þjóðarinnar og fer í bága við þann vilja sem hér birtist þurfum við með einhverjum hætti að taka á því. Hér er farin sú leið að hækka einfaldlega hámarksrefsinguna til að koma þessum skilaboðum til dómstólanna.

En þetta eru ekki bara skilaboð til dómstóla, þetta eru líka skilaboð út í samfélagið um að það verði tekið hart á ofbeldi í garð lögreglumanna og tollvarða. Varnaðaráhrif löggjafarinnar geta verið mikil, bæði þau almennu og hin sértæku. Skilaboð löggjafans skipta miklu máli. Við þurfum að senda út þau skilaboð að okkur sé alvara með að bregðast við langvarandi vanda og ákalli lögreglumanna.

Það er einnig mikilvægt að huga að þeirri staðreynd að stór hluti þessara mála er látinn falla niður í meðförum ríkissaksóknara. Þessi mál eiga það einnig sameiginlegt með kynferðisbrotunum að mínu mati að allt of mörg mál sem þó komast til ríkissaksóknara eru látin falla niður. Á þetta bentu lögreglumenn í meðförum þessa máls í nefndinni og við þurfum einhvern veginn að hækka hlutfall þeirra mála sem rata til dómstólanna.

Ég vona að ég fari ekki rangt með en fulltrúar frá ríkislögreglustjóraembættinu bentu á að 90% þeirra mála sem hér er um að ræða eru látin falla niður hjá ríkissaksóknara. (Gripið fram í: Á hendur lögreglunni?) Já, á hendur lögreglunni, 90%. Þetta skrifaði ég a.m.k. eftir honum. Ef þetta er rangt dreg ég það til baka en þetta er auðvitað sláandi hlutfall ef rétt er. Þetta er annar angi af vandamálinu. Auðvitað veit ég að ríkissaksóknari getur verið í erfiðri aðstöðu þegar kemur að því að fara með svona mál til dómstóla en við skulum leyfa dómstólunum að skera úr vafaatriðum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ákæruvaldið er bundið þeirri reglu að fara ekki með mál af stað nema það sé líklegt til sakfellis. Ég átta mig vel á því en ég bendi einnig á að þau brot sem hér er um að ræða eru svokölluð samhverf brot. Hvað þýðir það? Það þýðir að það er ekki áskilið að það sé raunverulegt tjón. Það þarf ekki að sanna að það sé líkamlegt tjón eða tjón á eignum í samhverfum brotum. Þetta skiptir máli því að oft eru mál látin falla niður ef tjónsafleiðingar eru engar. Í málum samhverfra brota á hins vegar að fara af stað.

Þetta hefur líka þau áhrif, bæði hinir vægu dómar sem við sjáum hvað varðar ofbeldi gagnvart lögreglumönnum og síðan þetta háa hlutfall mála sem er látið falla niður hjá ríkissaksóknara, að draga hugsanlega úr hvatningu til lögreglumanna um að standa í málinu. Hugsanlega sjá þeir ekki ástæðu til að standa í því. En það á að sjálfsögðu ekki að þurfa og hér á ákæruvaldið að koma inn.

Ég fer að ljúka máli mínu þar sem ég styð frumvarpið og hef bent á nokkra þætti því til stuðnings. Vonandi mun þetta leiða til þess að ofbeldi í garð lögreglumanna og tollvarða minnki. Það er auðvitað markmiðið. Það eru væntanlega mörg skref sem þarf að taka í því. Hér er verið að taka eitt skref sem er nauðsynlegt að mínu mati. Síðan er það stóra spurningin um að auka almenna virðingu fyrir lögreglumönnum og tollvörðum. Við eigum að hafa það innprentað í vitund okkar og samfélag að sýna lögreglumönnum og tollvörðum tilhlýðilega virðingu. Þetta eru einstaklingar sem vinna afar mikilvægt starf í okkar samfélagi. Það er hluti af starfsskyldu þeirra að setja sig í hættu, og skilaboð okkar úr þessum sal þurfa að vera mjög skýr um að við munum ekki líða að það sé brotið á þessum einstaklingum.



[12:12]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er skemmst frá því að segja að ég styð þetta frumvarp. Það er mikil bót fyrir þá sem hafa lögregluvald með höndum og nær til fleiri en lögreglumanna eins og fram hefur komið, til starfsmanna Tollgæslunnar og Landhelgisgæslunnar og síðan einnig fangavarða. Það er mjög mikilvægt að tryggja réttaröryggi þessara manna og það kemur einfaldlega fram í fylgiskjali með frumvarpinu að það ástand sem hér ríkir er óviðunandi. Það er vitnað í dóma þar sem fram kemur að árásarmaður sem sparkar í andlit lögreglumanns, brýtur gleraugu hans og félagi lögreglumannsins jafnvel bitinn í sömu árás þarf í raun ekki að sæta refsingu. Hann er dæmdur í fangelsi í 90 daga en fullnustu refsingar er frestað skilorðsbundið í tvö ár. Það eru allar líkur til þess að viðkomandi árásarmaður sleppi við að taka afleiðingarnar af svona hrottalegum árásum sem geta haft í för með sér lífshættulegan skaða. Það er óviðunandi og þessu þarf að breyta. Liður í því er að hækka refsirammann og þessi breyting mun þá hafa það í för með sér.

Ég vil hins vegar taka fram að ég er almennt ekki fylgjandi því að við leysum öll okkar þjóðfélagslegu vandamál með því að hækka refsingar og varpa fólki í fangelsi, hvort sem það er fyrir misnotkun fíkniefna eða ýmis önnur brot. Við verðum að leitast við að leysa það sem miður fer með margvíslegum hætti og takast ekki einungis á við vandamál þjóðfélagsins með því að varpa fólki í fangelsi. Samt sem áður verður að líta til þess að það ástand sem ríkir hér, að hægt sé að ráðast á lögreglumenn, tollverði og fangaverði án þess að það hafi einhverjar afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi árásarmenn, er ólíðandi og þess vegna verðum við að breyta þar. Þetta er að mínu viti liður í því.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta frumvarp enda lít ég svo á að það sé nokkuð góð sátt um að þessu þurfi að linna í samfélaginu. Það leiðir auðvitað hugann að því hvernig er með svipuð ofbeldisbrot gegn almenningi. Mig grunar að víða sé pottur brotinn hvað það varðar. Ofbeldismenn virðast því miður komast upp með að ráðast á fólk án þess að það hafi í för með sér afleiðingar fyrir þá. Það er ekki tekið með nægilega skýrum hætti á ofbeldismönnum sem ráðast á fólk, hvort sem það eru lögreglumenn, tollverðir eða hinn almenni borgari. Það er eitt af því sem við eigum ekki að sætta okkur við, ofbeldi og síst gagnvart lögreglumönnum.



[12:16]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil segja nokkur orð um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Ég styð hjartanlega þær breytingar sem verið er að gera til að styrkja lögregluþjóna í sínum mikilvægu störfum. Það er mikilvægt að öryggisgæslan í landinu sé öflug og fagmannlega unnin því að eðli hennar er að stuðla að almannaheill og öryggi þegnanna. Því er mjög alvarlegt ef ráðist er á lögreglumenn, tollþjóna eða fangelsisverði sem eru að sinna störfum sínum af skyldurækni og við því eiga vitaskuld að vera harðari refsiákvæði og viðurlög en við öðrum brotum.

Hæstv. forseti. Það liggur þunnur þráður hvað varðar öryggisgæslu, þ.e. á milli þess að halda aftur af ofbeldismönnum og koma að óeirðum, vera í miðbæ Reykjavíkurborgar um helgar og finna óróa og ógn sem liggur í umhverfinu, og þess að sýna stillingu og bregðast rétt við og hugsanlega að bregðast við á þann hátt að það æsi upp eða efli andspyrnu og óróa og hugsanlega frekari árásir á lögregluna en þyrfti að vera. Þetta er vel þekkt. Sem betur fer höfum við fram undir þetta lifað í þjóðfélagi þar sem við höfum talið okkur geta gengið örugg um göturnar. Við höfum talið okkur örugg í miðbæ höfuðborgarinnar og annars staðar um helgar. En nú er það ekki svo. Ráðist er á blásaklaust fólk að tilefnislausu og það barið til óbóta. Eins verður lögreglan, sem sinnir gæslustörfum, fyrir miklu áreiti og hótunum. Er nú svo komið að lögregluþjónar þurfa að vera tveir á ferð hið minnsta og tilbúnir til þess að bregðast við áreiti sem var ekki hér fyrir fáum árum.

Við erum heldur ekki vön því að almenningur efni til mótmæla eða uppþota. Þau fáu mótmæli og uppþot sem hafa orðið eru skráð í Íslandssöguna, eins og þegar ríkisstjórnin og þingið kom okkur inn í NATO. Það er eitt helsta dæmið sem vitnað er til. En margt breytist, bæði betri vitund þjóðarinnar og vöktun á því sem okkur er kært — er ég þá að tala um umhverfismálin — og síðan sú alþjóðlega hreyfing eða vakning sem hefur verið víða erlendis hjá almenningi, þ.e. að fólk lætur í sér heyra ef því er misboðið. Nýlegustu uppþot eða mótmæli af þessum toga eru nýafstaðin í nágrannalandi okkar Danmörku, í Kaupmannahöfn, þar sem lögreglan stóð allt að því í bardaga hreinlega við hóp fólks sem ætlaði sér að verja þar húsnæði með öllum ráðum. Þar kom til snarpra átaka og í raun var hernaðarástand á ákveðnu svæði í Kaupmannahöfn og lögreglan þurfti meira að segja að kalla til liðsauka frá Svíþjóð. Þetta eru harkaleg viðbrögð við ákveðnum aðgerðum sem við megum búast við að berist hingað til lands. Við höfum reyndar orðið vör við það. Til dæmis hafa Íslendingar mótmælt kröftuglega. Helmingur þjóðarinnar lýsti sig andvígan Kárahnjúkavirkjun. Stór hópur fólks mótmælti á Austurvelli fyrir utan Alþingishúsið heilan vetur. Það mótmælti því að lög um Kárahnjúkavirkjun og stóriðju á Austurlandi yrðu samþykkt á Alþingi. Hópur fólks fór austur á land til að mótmæla virkjunarframkvæmdunum og langstærsti hluti þessa hóps kom til þess að mótmæla friðsamlega. Þau eru teljandi á fingrum annarrar handar atvikin sem segja mætti um að fáir einstaklingar hafi farið út fyrir friðsamlegan ramma. Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að halda því fram — eftir að hafa verið á svæðinu og heyrt frásagnir fólks af viðbrögðum lögreglunnar og öryggissveita á Austurlandi gagnvart þessu fólki sem var að stórum hluta ungt — að viðbrögð lögreglunnar hafi verið allt of harkaleg.

Þarna vil ég að við stöldrum við, hæstv. forseti. Um leið og við viljum vernda lögregluna og öryggisverði og tollverði fyrir ógnunum og hótunum og meiðingum þá er ljóst að staðreyndin er sú að ofbeldi leiðir af sér ofbeldi. Ef of harkalega er brugðist við, ef tekið er á móti þar sem eðlileg mótmæli fara fram á friðsamlegan hátt og engin hætta er á að mótmælendur valdi öðrum líkamlegu tjóni eða skaða, nema þá helst sjálfum sér, þá er mikilvægt að fara með gát. Við þurfum að gæta þess að sú vernd sem við viljum veita lögreglunni verði ekki til þess að styrkja stjórn lögregluembættanna, sýslumannsembættanna, þannig að þessu verði haldið áfram og að viðbrögð við mótmælum verði jafnharkaleg og þau voru gagnvart þessum hópi og einstaklingum fyrir austan. Þá er ég að tala um langstærsta hluta þeirra sem voru að mótmæla.

Hvað varðar vopnaburð þá tek ég undir og hvet til þess að farið verði að þeim vinnureglum sem komið hafa frá lögreglumönnum sjálfum, þ.e. að almennt verði enginn vopnaburður hjá lögreglunni heldur eingöngu hjá sérsveitum og að öllum slíkum æfingum verði haldið í skefjum.

Að þessu vildi ég koma í þessu máli, þ.e. að eins mikilvægt og það er að tryggja öryggi lögreglunnar þá er jafnmikilvægt að tryggja öryggi borgaranna og það að friðsamleg mótmæli séu viðurkennd og að farið sé að málum með virðingu og gát og ekki stuðlað að því að efna til eða æsa til frekari átaka en ástæða er til. Ofbeldi leiðir af sér ofbeldi.

Aðeins um stöðu lögreglunnar: Ég tel að á flestum sviðum þurfi lögregluembættin að fá liðsauka, sérstaklega í götulögregluna og eins til almennra starfa, til að geta sinnt því hlutverki sem þeim ber. Ég get aftur tekið dæmi af Austurlandi og þeim miklu umsvifum sem þar hafa verið undanfarin ár. Lögregluembættið þar hefði þurft að fá miklu meiri liðsstyrk til að sinna almennum eftirlitsstörfum, almennum löggæslustörfum, til þess að fylgjast með þeirri miklu umferð, þeim miklu þungaflutningum og þeim mikla fólksfjölda sem komið hefur inn á svæðið við þær sérstöku aðstæður sem ríkja þegar vinnubúðir eru reistar fyrir mörg þúsund manns. Ég tel að svæðið hefði þurft á miklu fleiri lögregluþjónum að halda einmitt til þess að gæta hagsmuna almennings og stuðla að almennu öryggi borgaranna og sérstaklega umferðarinnar.



[12:27]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil draga fram nokkur önnur atriði í seinni ræðu minni og ítreka stuðning minn við frumvarpið eins og ég gerði í fyrri ræðu minni í morgun og við málið sjálft þegar það var til 1. umr. fyrir nokkrum vikum.

Eins og fólk áttar sig á þá er hér verið að gera tímabærar breytingar sem auka refsivernd tiltekinna stétta hér á landi. Ég minntist sérstaklega á lögreglumenn og tollverði áðan. En það er ástæða til að draga það fram að frumvarpið tekur einnig til fangavarða sem líka búa við lakari refsivernd en sú stétt á skilið. Mér finnst ástæða til að draga það sérstaklega fram og setja það jafnvel í samhengi við þá stöðu sem nú er uppi í fangelsismálum þjóðarinnar. Fangaverðir standa nú í kjarabaráttu sem ástæða er til að huga að. Það er ábyrgðarhluti að leyfa ástandinu að þróast með þeim hætti að fangaverðir telji sig knúna til að ná fram eðlilegum kröfum á þann hátt sem blasir við. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að halda hér uppi frambærilegri, nútímalegri og skilvirkri fangelsisþjónustu þurfum við að gera vel við fangaverði. Sú stétt starfar við mjög erfiðar aðstæður eins og lögreglumenn og tollverðir og starfsmenn Landhelgisgæslunnar, en þetta mál nær að sjálfsögðu til þeirra, þeirra sem fara með lögregluvald eða heimild til líkamlegrar valdbeitingar. En það er ástæða til að draga fangaverðina sérstaklega fram þar sem fangelsismálin eru öll í umræðunni, ekki bara kjarabarátta fangavarða. Ég vil úr þessum ræðustól varpa fram þeirri hvatningu að þau mál verði leyst sem fyrst. Það gengur ekki að horfa hlutlaus á það ástand sem þar er að þróast. Ég ákalla stjórnvöld til að bregðast við með einhverjum hætti hvað þetta varðar. Við þurfum að borga þessari stétt mannsæmandi laun. Hún þarf að fá eðlilegt endurgjald fyrir sína ómetanlegu vinnu. Fáir geta ímyndað sér hvernig það er að starfa innan fangelsismúranna eins og fangaverðir gera. Þeir lenda í alls konar aðstæðum sem fólk á eflaust erfitt með að átta sig á.

Staða fangavarða tengist stöðunni líka almennt í fangelsismálum. Í áratugi hefur verið barist fyrir nýju fangelsi og ekki hefur legið á okkur í Samfylkingunni að tala fyrir nauðsyn þess að svo sannarlega þarf að taka til hendinni hvað það varðar. Við þurfum að bæta fangelsisaðstöðu hér á landi. Sú staða kom upp, að mig minnir síðasta sumar, að fangelsi landsins bókstaflega fylltust. Það er ótækt hjá sjöttu ríkustu þjóð í heimi. Tölur sem ég fékk frá upplýsingaþjónustu Alþingis í sumar sýndu að við verjum minni fjármunum í fangelsismálaflokkinn en aðrar Norðurlandaþjóðir. Það er líka ákveðin áminning um að við þurfum að gera betur í þessum málaflokki. Við þurfum að bæta kjör fangavarða. Við þurfum að hefja uppbyggingu á fangelsum sem fyrst. Við þurfum að huga að innri málefnum fangelsisins, eins og við höfum oft bent á. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur ekki síst verið í fararbroddi þess að bæta meðferðarúrræði innan fangelsa og bæta þau úrræði sem þurfa að vera fyrir hendi innan fangelsa svo að þeir sem fara í fangelsi komi ekki út verri menn eftir að afplánun lýkur. Alltaf þarf að haldast í hendur að kjör fangavarða þurfa að vera í lagi, að við þurfum að fá gott fólk til starfa þar, að þetta þarf að vera spennandi starfskostur með sanngjörnum launum, að við þurfum almennilega aðstöðu hvað varðar byggingarnar, bæði aðstöðu fyrir fanga og fangaverði og fyrir fjölskyldur fanga því ekki á að refsa fjölskyldu fanganna. Þetta þarf allt að vera í lagi. Ég tel að við getum gert það svo sé pólitískur vilji fyrir því.

Ítrekað hefur komið fram hjá öllum að menn vilja byggja nýtt fangelsi. En enn hafa ekki fengist nauðsynlegar fjárveitingar. Ég veit að ráðist hefur verið í ákveðnar endurbætur á þeim fangelsum sem fyrir eru og þau skref sem stigin hafa verið eru að sjálfsögðu jákvæð. Við fögnum þeim. En við þurfum að stíga stærri skref og leysa þessi mál í eitt skipti fyrir öll. Það er nú ein af grunnforsendunum fyrir ríkisvaldinu að hafa öfluga löggæslu og hluti af þeirri löggæslu er að hafa almennilega fangelsisþjónustu. Því miður stöndum við okkur ekki alveg nógu vel hvað það varðar þó að mörg jákvæð skref hafi verið stigin.

Ég vildi í seinni ræðu minni draga þetta sérstaklega fram og nota tækifærið, fyrst við erum að ræða þessi mál, til að beina sjónum manna að baráttu fangavarða þessa dagana. Ég ítreka hvatningu mína til þeirra sem þar ráða að nauðsynlegt er að ná saman og leysa þann vanda svo að allir geti borið höfuðið hátt eftir þær samningaviðræður.



[12:34]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég kem einungis til að lýsa stuðningi við þetta frumvarp og þær breytingar sem verið er að gera. Allt það sem hv. þm. Ágúst Ólafur mælti áðan fyrir hönd Samfylkingarinnar er fullkomlega réttmætt. Frelsi einstaklingsins verður aldrei varið nema með lögum. Réttarríkið sem skiptir okkur svo miklu máli hvílir á sterkum lögum og við þurfum menn til að framfylgja lögunum. Þetta er rammi og umgerð réttarríkisins.

Það hefur komið fram við umfjöllun nefndarinnar um þetta mál að lögreglumenn sæta í vaxandi mæli áreiti og ofbeldi í starfi sínu og reyndar þeir sem gegna skyldum störfum eins og tollverðir. Í starfi sínu lenda þeir líka í margvíslegu umhverfi sem gerir það að verkum að þeir þurfa oft sjálfir að grípa til harðra aðgerða. Þá er oft erfitt að finna það einstigi sem feta verður. Það mæðir mjög og reynir á dómgreind manna. Ég tel að okkur sem felum lögreglumönnum að sinna þessum mikilvægu störfum beri að skapa þeim mjög trygga og trausta refsivernd. Þess vegna styð ég það fullkomlega að verið sé að auka hana með þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Ég er almennt talað, frú forseti, ákaflega ánægður með lögregluliðið. Mér finnst það hafa þróast vel og í vaxandi mæli tekur það þátt í ýmsum samfélagslegum verkefnum. Ég er t.d. ánægður með þær áherslur sem ég hef lesið og heyrt af hendi nýs lögreglustjóra í hinu nýja sameinaða lögregluumdæmi á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að áherslurnar sem hafa komið fram í kjölfar breytingarinnar, sem ég hef reyndar stutt árum saman, séu ákaflega jákvæðar.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson rakti áðan ýmsar upplýsingar sem komu fram við vinnu nefndarinnar sem leiddi til þess að mér brá í brún. Það kemur í ljós að lögreglumenn, tollverðir svo ekki sé nú minnst á fangaverði sem frumvarpið tekur líka til, eru í vaxandi mæli andlag ofbeldis af hálfu þeirra sem þeir þurfa að kljást við í starfi sínu. Áreitið sem þeir verða fyrir og álagið sem fylgir því miður breyttum samfélagsháttum hefur leitt til þess að það sér á andlegri heilsu þeirra. Það kemur t.d. í ljós, sem ég hafði ekki hugmynd um, að lögreglumenn búa að meðaltali við 10 árum skemmri lífaldur en aðrar stéttir og þó ég hafi ekki handbærar tölur yfir tollverði og fangaverði þá ímynda ég mér að það sjái líka á heilsu þeirra manna sökum þess mikilvæga og erfiða starfs sem þeir sinna. Þetta finnst mér vera dæmi sem við hljótum að láta hafa áhrif á okkur og upplýsingar sem hljóta að verða til þess að við verðum að taka höndum saman um að treysta ramma þeirrar umgjarðar sem þessar mikilvægu starfsstéttir starfa innan.

Oft og tíðum er hart deilt á þessa menn vegna þess að þeir þurfa í okkar umboði stundum að beita hörku og krafti og jafnvel valdi til að stilla til friðar og sjá til þess að lögum sé framfylgt. Samfélagið hefur þróast með þeim hætti að ofbeldi fer því miður hvarvetna vaxandi, líka á okkar litla og saklausa landi. Þetta eru þær stéttir sem lenda öðrum stéttum frekar í því að takast á við skipulagða glæpastarfsemi, sem teygir anga sína líka til litla Íslands, í hinu alþjóðlega umhverfi. Fregnirnar sem við lesum í fjölmiðlum bera í vaxandi mæli blæ af þessu breytta umhverfi. Því segi ég það að þegar hér liggur fyrir tillaga um að styrkja umhverfi þeirra með því að efla og auka refsivernd þeirra styð ég það alveg heils hugar og fullkomlega. Þetta eru stéttir sem oft og tíðum njóta ekki sannmælis. Lögregluliðið er einn af grundvallarásunum sem sér til þess að samfélag okkar fari eftir ferlum réttarríkisins og við verðum að hugsa til þeirra manna sem þar eru í framlínunni og oft og tíðum uppskera vanþakklæti og stundum mjög harðar ásakanir sem eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson reifaði áðan eru í fæstum tilvikum á rökum reistar. Það þýðir ekki að þessir ágætu starfsmenn ríkisins verði ekki að gæta sín í hvívetna, en það finnst mér þeir hafa gert. Málsvarar þeirra sem hafa talað máli þeirra hafa gert það af samfélagslegri ábyrgð og mér sýnist sem þróunin á öllu í kringum lögregluliðið hafi verið mjög jákvæð. Þess vegna, frú forseti, lýsi ég eindregnum stuðningi við að þetta mál verði samþykkt og ég tel að Alþingi eigi að efla og glæða skilning sinn á mikilvægi þessara starfa sem því miður liggur oft í láginni.