135. löggjafarþing — 22. fundur.
sértryggð skuldabréf, 1. umræða.
stjfrv., 196. mál (heildarlög). — Þskj. 211.

[17:27]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sértryggð skuldabréf. Frumvarpið er 196. mál þingsins, á þskj. 211. Á síðari árum hefur orðið mikil breyting á skuldabréfamarkaðnum í Evrópu. Hefur hennar einkum gætt í stóraukinni útgáfu sértryggðra skuldabréfa. Þannig er talið að í árslok 2005 hafi útistandandi sértryggð skuldabréf í Evrópu numið um 1.800 milljörðum evra.

Með aukinni útgáfu sértryggðra skuldabréfa hefur þörfin fyrir setningu laga um útgáfu þeirra aukist verulega. Í mars 2006 höfðu öll ríki Vestur- og Mið-Evrópu, utan Íslands, Bretlands, Hollands, Belgíu, Hvíta-Rússlands, Eistlands og ríkja sem áður tilheyrðu Júgóslavíu, sett löggjöf um sértryggð skuldabréf. Unnið hefur verið að setningu löggjafar í Eistlandi, Hollandi, Bretlandi og Slóveníu. Frumvarp þetta er að hluta til byggt á nýlegum sænskum lögum um sama efni.

Í stuttu máli er sértryggt skuldabréf fjármálagerningur sem ber öll helstu einkenni skuldabréfs, þ.e. er skrifleg, einhliða og óskilyrt skuldarviðurkenning, með öðrum orðum loforð um að greiða tiltekna peningafjárhæð á einum eða fleiri gjalddögum. Sama lýsing á við um önnur skuldabréf. Skuldabréf eru ýmist með eða án trygginga. Algengustu tryggingar skuldabréfa eru veð eða ábyrgðir einstaklinga eða lögaðila. Sértryggð skuldabréf eru hins vegar ekki tryggð með eiginlegu veði og heldur ekki með sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu þriðja manns, þriðja aðila. Sértryggð skuldabréf njóta sérstaks tryggingaréttar í tryggingasafni. Sá réttur, verði frumvarp þetta að lögum, fullnægir skilgreiningu á veðrétti samkvæmt 1. tölulið 1. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997. Þar sem útgefandi hins sértryggða skuldabréfs hefur sjálfur vörslur tryggingasafnsins svipar sértryggðu skuldabréfi, sem hefur sérstakan tryggingar- og fullnusturétt í tryggingasafni, til skuldabréfs sem tryggt er með sjálfsvörsluveði í lausafé, sbr. III. kafla laga um samningsveð.

Í frumvarpi þessu er þó lagt til að ýmsar efnisreglur í lögum um samningsveð gildi einnig um sértryggð skuldabréf. Í frumvarpinu er einnig lagt til að sérstakar reglur gildi um vörslur og skráningu tryggingasafns þess, sem er til tryggingar og fullnustu sértryggðum skuldabréfum. Þá er lagt til að réttindum þeim, sem sértryggt skuldabréf hefur í tryggingasafni, þurfi ekki að þinglýsa.

Lagt er til í frumvarpi þessu að lögfestar verði sérstakar reglur um greiðslur af sértryggðu skuldabréfi ef útgefandi fær greiðslustöðvun og jafnframt að tryggingasafn og greiðslur úr því af sértryggðu skuldabréfi séu undanþegnar riftunarreglum í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og að ýmsar sérreglur gildi um tryggingasafnið og greiðslur úr því ef til gjaldþrots útgefanda sértryggðs skuldabréfs kemur.

Allt er þetta háð því að sérstakt leyfi Fjármálaeftirlitsins fáist til útgáfu sértryggðs skuldabréfs og að sá er um það sækir uppfylli tilteknar kröfur um fjárhagsstöðu og fleira. Þá þarf útgefandi að halda skrá um eignir í tryggingasafni og hann þarf að sæta eftirliti sjálfstæðs skoðunarmanns sem Fjármálaeftirlitið skipar. Hinn sjálfstæði skoðunarmaður á bæði að fylgjast með að eignir þær sem standa að veði fyrir skuldabréfum í tryggingasafni og svonefndar staðgöngutryggingar uppfylli tilteknar kröfur. Á tryggingasafnið því að vera tryggilega afmarkað frá öðrum eignum útgefandans. Fjármálaeftirlitið hefur svo samkvæmt tillögum frumvarpsins heildareftirlit með þessum þætti í starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja eins og hverri annarri starfsemi þeirra.

Útgefandi, sem getur verið viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, getur haft ríka hagsmuni af því að fá leyfi til að gefa út sértryggð skuldabréf. Fasteignaveðlán eru almennt veitt til langs tíma, allt að 40 ára. Fjármögnun þeirra af hálfu viðskiptabanka, sparisjóða eða lánafyrirtækja hefur þó til þessa að miklu leyti farið fram á skammtímamarkaði. Það er því mikilvægt fyrir útgefandann að geta jafnað og dregið úr vaxtaáhættu sinni til lengri tíma litið með útgáfu sértryggðra skuldabréfa, jafnvel þótt sú útgáfa sé ekki til jafnlangs tíma og tryggingasafn það sem stendur til tryggingar og fullnustu á skuldabréfinu.

Verði frumvarpið að lögum ættu því að vera forsendur fyrir því af hálfu þeirra sem veita langtímalán að lækka vexti lánanna.

Sértryggð skuldabréf auka enn fremur valkosti fjárfesta til lengri tíma, svo sem ýmissa stofnanafjárfesta, lífeyrissjóða og líftryggingafélaga. Sértryggð skuldabréf yrðu því, ef frumvarp þetta verður að lögum, nýr og öruggur valkostur sem að öllu jöfnu getur fengið sjálfstætt mat matsfyrirtækja.

Þess vegna er mjög mikilvægt að frumvarpið verði afgreitt og verði að lögum af því að þetta bætir stöðu banka og lánastofnana til að fjármagna sig til að endurlána, t.d. til húsnæðislána þar sem nú er mikið rætt um þá vaxtahækkun sem þar hefur átt sér stað. Þetta ætti að bæta stöðu bankanna til að bjóða upp á lán á lægri vöxtum til lengri tíma.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.



[17:33]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög athyglisvert frumvarp sem gerir lánamarkaðinn og fjármálamarkaðinn skilvirkari en verið hefur. Það er hlutverk fjármálamarkaðar að flytja peninga frá sparifjáreigendum, í grunninn, til lántakenda þannig að lántakendur ráði við stærri framkvæmdir en ella væri mögulegt. Margar af stærstu framkvæmdum mannkynsins væru gjörsamlega óhugsandi án virks og öflugs lánamarkaðar.

Það er mikilvægt að lánamarkaðurinn vinni skilvirkt. Til að útrýma algengum misskilningi vil ég benda á að bankar eru yfirleitt ekki sparifjáreigendur. Þeir taka í rauninni ekki vextina heldur eingöngu vaxtamun. Það er einmitt sá vaxtamunur sem menn geta lækkað með því að koma inn með nýja tækni á lánamarkaðinn sem gerir lánveitingarnar síður áhættusamar því stór hluti af vaxtamun og vöxtum yfirleitt er fyrir áhættu, ekki sem leiga á fjármagni. Það eru eiginlega grunnvextirnir, vextir ríkisskuldabréfa, sem eru grunnurinn að áhættulausum fjárfestingum.

Fyrirkomulagið sem hér er talað um, um sértryggð skuldabréf, er nýtt tæki sem er reyndar hefur verið notað en án lagastuðnings á Íslandi. Það gerir lánamarkaðinn enn skilvirkari, lækkar vaxtamun en það er sá kostnaður sem bankarnir taka af sparisjóðseigendum eða lántakendum eftir atvikum og menn ættu að skoða það. Ég reikna með því að vaxtamunurinn í sértækum skuldabréfum geti orðið afskaplega lágur.



[17:35]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir túlkun hv. þingmanns á frumvarpi þessu. Ég held að það mundi skipta heilmiklu máli upp á lánamarkaðinn. Eins og hv. þingmaður sagði á það að geta lækkað vaxtamuninn og mikilvægt er að útgefandinn, eins og ég gat um áðan, geti jafnað og dregið úr sinni vaxtaáhættu til lengri tíma. Útgáfa á sértryggðum skuldabréfum verður svo sannarlega til þess með þeim afleiðingum að slík langtímalán og vextir af þeim ættu að geta lækkað umtalsvert. Þess vegna er þetta mikið framfaramál og vonandi að það nái í gegn á sama tíma og umræðan í samfélaginu er hávær um að vextir á langtímalán og húsnæðislán séu að hækka.

Ég er sannfærður um að gangi þetta frumvarp í gegn og verði að lögum þá bæti það verulega stöðu banka og lánastofnana til að verða sér úti um fjármagn til að fjármagna starfsemi sína og endurlána viðskiptavinum sínum á lægri vöxtum en ella.

Þannig getur þetta frumvarp unnið gegn þeirri þróun sem verið hefur uppi á íslenskum húsnæðislánamarkaði á allra síðustu vikum, að vextir hafa hækkað verulega frá því að bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn árið 2004, þegar þeir buðu ódýrt lánsfé á rúmlega 4% vöxtum. Nú er lánsfé bankanna almennt komið yfir 6% vexti þannig að hækkunin er veruleg. Þetta frumvarp getur bætt stöðu lánastofnana til að bjóða hagstæðari lán til lengri tíma.



[17:37]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nú eiginlega ekki andsvar. Þetta var meðsvar ef eitthvað er. En ég hjó eftir því að hæstv. viðskiptaráðherra talaði um að bankarnir gætu veitt ódýrari lán. Það er ekki bara hlutverk fjármálamarkaðarins að veita ódýr lán til lántakenda. Honum er einnig ætlað að borga háa vexti til sparifjáreigenda. Það er hin hliðin á peningnum.

Þegar Seðlabankinn hækkar vexti í landinu er hann í rauninni að hvetja menn til að hætta að taka lán og fara að spara, verða sparifjáreigendur. Það er meginmarkmiðið, að draga úr neyslu með þeim hætti að í staðinn fyrir að kaupa flatskjá, jeppa eða fara í utanlandsferð, þá leggi menn peningana fyrir og nýti sér háu vextina hjá lánastofnuninni. Það er ekki bara hlutverk bankanna að veita ódýr lán heldur líka að borga háa innlánsvexti, þ.e. taka lítinn vaxtamun.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til viðskn.