135. löggjafarþing — 75. fundur.
Ísland sem alþjóðleg fjármálamiðstöð.
fsp. MS, 443. mál. — Þskj. 706.

[14:14]
Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur verið nokkur umræða um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð. Hér er um afar athyglisvert og mikilvægt mál að ræða en umræðan um þetta mál er ekki að hefjast núna.

Í ræðu á viðskiptaþingi í febrúar 2005 lýsti Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, framtíðarsýn sinni varðandi stöðu Íslands í alþjóðlegum fjármálaheimi. Þar sagði hann m.a., með leyfi forseta:

„Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda, vegna þess mannauðs sem í landinu býr og vegna mikils og góðs stöðugleika, hvort sem er í efnahagslegu eða stjórnmálalegu tilliti.“

Í ræðunni fór Halldór nánar yfir þetta mál og þau tækifæri sem í því felast. Í framhaldi af þessu viðskiptaþingi skipaði hann nefnd undir forustu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, sem fékk það verkefni að fjalla um og skila tillögum sem stefna að því markmiði að Ísland verði alþjóðleg fjármálamiðstöð. Nefndin skilaði þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, skýrslu með tillögum í október 2006. Heiti þeirrar skýrslu er Alþjóðleg fjármálastarfsemi á Íslandi.

Um leið og Geir H. Haarde, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, tók við niðurstöðunum kom fram hjá honum að ríkisstjórnin mundi þegar hefjast handa við að hrinda tillögunum í framkvæmd og vinna að markmiðinu um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð. Síðan það var hefur orðið breyting á ríkisstjórn og margir eru forvitnir um hvort áform hæstv. forsætisráðherra í málinu hafi breyst samhliða því.

Öllum má vera ljóst að þetta er mikið áhugamál okkar framsóknarmanna enda farið af stað með það að okkar frumkvæði. Á málstofu BSRB um lífeyrismál í síðustu viku kom fram hjá Sigurði Einarssyni að tilvalið sé fyrir Ísland að marka sér bás sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Orðrétt sagði hann, með leyfi forseta:

„Hér höfum við reynsluna, menntunarstigið er hátt, fjármálaþjónusta greiðir há laun, afleidd störf eru mörg og eftirsóknarverð. Og staðsetning landsins er ekki hamlandi ólíkt því sem gerist í margs konar öðrum þjónustustörfum. Ég bind enn vonir við að stjórnvöld taki efni skýrslunnar til gaumgæfilegrar athugunar.“ — En þarna vitnaði hann í skýrsluna sem ég nefndi hér áður.

Vegna alls þessa hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra:

Hvernig hefur tillögum nefndar ráðherra um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð verið fylgt eftir?



[14:16]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Frá því að tillögur umræddrar nefndar, sem forveri minn Halldór Ásgrímsson skipaði til að skoða alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi, komu fram, sem var í nóvember 2006, hafa ýmis skref verið stigin í þá átt sem hún leggur til. Fyrst má nefna ný lög um starfstengda lífeyrissjóði. Sú lagasetning er í takt við þá tillögu nefndarinnar að settir yrðu á laggirnar alþjóðlegir lífeyrissjóðir sem uppfylli íslensk lög og reglur en jafnframt Evróputilskipunina í lífeyrismálum. Aðalatriði þessarar hugmyndar er að nýta þá jákvæðu ímynd sem íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur á alþjóðavettvangi vegna sjóðssöfnunar og samspils samtryggingar og séreignar í sjóðunum.

Í öðru lagi má nefna að skattfrelsi hagnaðar af sölu hlutabréfa var ein af megintillögum nefndarinnar en frumvarp þess efnis er nú til meðferðar á Alþingi. Í því frumvarpi er einnig að finna tillögu um að sett verði á fót sérstök stjórnsýslueining sem annist alla skattalega umsýslu og þjónustu við stórfyrirtæki, ekki síst þau sem eru í alþjóðlegum viðskiptum og má einnig líta á þetta sem skref í sömu átt.

Í þriðja lagi vil ég nefna nýlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki úr 18% í 15%, sem vissulega er mikilvægt skref í þessa sömu átt.

Í fjórða lagi hefur einnig markvisst verið unnið að því að draga úr skrifræði og kostnaði í reglusetningum hins opinbera, m.a. undir formerkjum þriggja ára aðgerðaáætlunar sem kallast Einfaldara Ísland. Sú áætlun hefur það að leiðarljósi að skýrar og sanngjarnar leikreglur stuðli að aukinni samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og bættum lífskjörum almennings jafnframt því að auðvelda ríki og sveitarfélögum að sinna verkefnum sínum.

Enn eitt atriði sem hefur verið framkvæmt og er í takt við tillögur nefndarinnar er ákvörðun um að leggja nýjan sæstreng milli Íslands og Evrópu. Það er mikilvægt að fjarskiptasamband Íslands við önnur lönd sé tryggt og öflugt og er það ein af meginforsendum þess að hægt sé að markaðssetja Ísland sem ákjósanlegt land fyrir alþjóðlega fjármálastarfsemi. Örugg og öflug millilandasamskipti er það sem erlend félög skoða fyrst þegar til álita kemur að hefja starfsemi í nýju landi og það á raunar ekki síður við um hagkvæmar og tíðar flug- og skipasamgöngur.

Að öðru leyti er ég sammála því sem segir í tillögu nefndarinnar, að mikilvægt sé að horfa til þess sem langtímamarkmiðs að ganga helst aldrei skemur í umbótum á rekstrarskilyrðum fyrirtækja en viðmiðunarþjóðir okkar gera. Sömuleiðis er nauðsynlegt að markaðsaðilum sé auðveldað að leita til stjórnvalda, t.d. ráðuneyta og skattyfirvalda, með nýjar hugmyndir, fyrirspurnir og álitamál og fá fram opinskáa umræðu um slík mál og skjót svör.

Til skoðunar hafa verið í fjármálaráðuneytinu drög að frumvarpi frá viðskiptaráðuneytinu um svokallaða fjárvörslusjóði, sem á ensku kallast Trusts, en ein af tillögum nefndarinnar var að boðið yrði upp á slíkt félagaform hér á landi. Ýmis álitamál eru þó uppi varðandi það atriði og nauðsynlegt að gæta þess að í engu fái Íslendingar á sig ásakanir um peningaþvætti eða félagaform sem gæti nýst í þeim tilgangi, og þá þarf sérstaklega að gæta að því varðandi þetta form.

Fyrir utan þetta, virðulegi forseti, voru ýmsar aðrar tillögur í þessari skýrslu sem við erum áfram að skoða og það eru fleiri áhugamenn um það en Framsóknarflokkurinn. Þarna voru tillögur m.a. um að gera efnuðum einstaklingum kleift að flytja búsetu sína til Íslands með auðveldari hætti en nú er, það kunna að leynast einhver tækifæri til tekjuöflunar í slíkum ráðstöfunum og sjálfsagt að skoða það mál. Aðrar tillögur frá nefndinni eru kannski síður framkvæmanlegar eða æskilegar, eins og t.d. hugmynd um að hafa mismunandi tekjuskatt á fyrirtækjum eftir fjárhæðum, hafa hann stiglækkandi, og fleira í þeim dúr sem ég hygg að gangi erfiðlega upp í okkar skattkerfi.

Aðalatriðið er það að nefndin vann mjög gott starf og ber að fagna því og þakka öllum þeim sem að nefndarstarfinu stóðu. Hrundið hefur verið í framkvæmd allnokkrum hugmyndum úr því hugmyndasafni sem þarna var að finna og annað er í vinnslu. Jafnframt hafa önnur atriði náð fram að ganga sem hníga í sömu átt eins og ég hef nú rakið í svari mínu, virðulegi forseti.



[14:21]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Margir og kannski flestir í mínum flokki trúa á algildar, rökréttar, einfaldar og almennar reglur um umhverfi fyrirtækja, skatta og eftirlit, og annað umhverfi, eins og skilvirkt velferðarkerfi. Það hefur gefist vel og hefur stóraukið umsvif í íslensku atvinnulífi og alveg sérstaklega í fjármálageiranum, þannig að kannski erum við að stefna í þessa átt.

Því miður voru nokkrar hugmyndir þeirrar nefndar sem Sigurður Einarsson stýrði nokkuð sértækar, sem gengur þvert á þetta, en þegar er farið að vinna að almennu reglunum sem nefnd Sigurðar stakk upp á eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi. Í þá upptalningu vantar reyndar frumvarp um atvinnuréttindi útlendinga, en þar er sérstök áhersla lögð á að auðvelt verði að fá til landsins sérfræðinga á ýmsum sviðum, þar á meðal á fjármálasviði, til þess að setjast hér að og vinna þessi sérfræðistörf. Það er því verið að vinna heilmikið í þessa veru.



[14:22]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að þessi skýrslugerð hafi verið mjög gagnleg, sérstaklega vegna þess að hún greinir að tvær meginhugmyndir í þessu efni. Annars vegar það að hér sé hægt, með því að búa til skilvirkt skattkerfi, einfalt regluverk og góðar aðstæður fyrir fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki, að lyfta veg atvinnugreinarinnar á Íslandi. Hin er frá hugmyndafræðingum yst til hægri á Íslandi, um það að við ættum að gera landið að einhvers konar skattaparadís á borð við þær sem almennar eru í Karíbahafinu og á slíkum slóðum, en það hefði orðið til þess að lækka mjög og rýra gengi Íslands á alþjóðavettvangi — við sjáum hvernig Liechtensteinmönnum gengur núna með sína leynd og sína skattaparadís.

Það vekur hins vegar eftirtekt að þessi umræða fer fram á eftir þeirri snubbóttu umræðu sem áðan fór fram um gjaldmiðilsmál, (Forseti hringir.) en mér kemur ekki til hugar að alþjóðleg fjármálamiðstöð verði að veruleika á Íslandi með íslensku krónuna að (Forseti hringir.) mótor.



[14:24]
Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hans svör hér. Ég veit að það er rétt, sem hann sagði, að það eru fleiri áhugasamir um þetta mál en framsóknarmenn. Mér er það fullkomlega ljóst og ég veit að þar á meðal er hæstv. forsætisráðherra. Hann fór yfir það sem þegar hefur verið gert varðandi þær tillögur sem við ræðum hér, það er eitthvað sem hefur verið í gangi á undanförnum missirum og árum og er vel. En ég held að það sé mjög mikilvægt að áfram verði haldið að fylgja þessum tillögum eftir og ég heyri það á hæstv. ráðherra að hann er áhugasamur um það og það er auðvitað mjög ánægjulegt.

En ég verð að segja það í lokin á þessari umræðu af minni hálfu, hæstv. forseti, að ég vona að sá draumur sem hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, lýsti á viðskiptaþinginu 2005 — og ég fór yfir í framsögu minni — rætist. Ég er viss um að margir fleiri eiga sama draum og nefni ég þar m.a. unga fólkið okkar sem er sífellt að mennta sig meira og meira og hefur látið til sín taka í fjármálageiranum.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til dáða í málinu og lýsi ánægju með þann áhuga sem hann hefur sýnt því og veit að framgangur þessa máls mun verða þjóðinni til framdráttar í framtíðinni. En ég ætla sleppa því, hæstv. forseti, að ræða hér um gjaldmiðilsmál. Það tengist þessu máli, menn hafa mikið rætt það og munu eflaust gera það í framtíðinni.



[14:25]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Ég vil fagna því að Framsóknarflokkurinn hefur ekki skipt um afstöðu í þessu máli. Ég veit að við eigum stuðning hans vísan við það að hrinda í framkvæmd góðum hugmyndum sem snerta nákvæmlega þetta málasvið.



[14:26]Útbýting: