138. löggjafarþing — 39. fundur
 5. desember 2009.
þjónustuviðskipti á innri markaði EES, 1. umræða.
stjfrv., 277. mál (EES-reglur, heildarlög). — Þskj. 321.

[17:21]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, sem er mál nr. 277 á þingskjali 321.

Með frumvarpi þessu er verið að innleiða efnisákvæði tilskipunar nr. 2006/123 um þjónustu á innri markaðnum, sem hér eftir er nefnd þjónustutilskipunin eða tilskipunin, en hún var tekin upp í EES-samninginn í júní sl. Tillaga að þjónustutilskipun var fyrst lögð fram í Evrópusambandinu í janúar 2004 og var markmið hennar að greiða fyrir og auka þjónustuviðskipti milli landa. Ástæðan var sú að þrátt fyrir ákvæði um innri markað, voru þá enn þá töluverðar hindranir á frjálsu flæði þjónustu sem komu niður á bæði þjónustuveitendum og neytendum. Tillagan fékk mikla athygli og var afar pólitískt umdeild, sér í lagi vegna ákvæða um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt sem voru upphaflega hluti af tillögunni. Hin svokallaða „upprunalandsregla“ var einnig afar umdeild og óttast var að hún fæli í sér félagsleg undirboð, en samkvæmt henni giltu um þjónustuveitendur reglur þess lands þar sem hann var með staðfestu en ekki þar sem þjónustan var veitt. Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem tillagan hlaut lagði framkvæmdastjórnin fram nýja tillögu þar sem tekin voru út ákvæði um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt og verulegar breytingar gerðar á upprunalandsreglunni og var sú tillaga samþykkt í desember 2006.

Tilskipunin fékk töluverða athygli í Noregi og gerðu Norðmenn ítarlegar úttektir á hinum ýmsu afleiðingum tilskipunarinnar. Að lokum náðist þó samstaða um hana og var hún eins og fyrr segir tekin upp í EES-samninginn í júní sl. Norðmenn og Íslendingar gerðu sams konar fyrirvara við innleiðingu tilskipunarinnar. Með fyrirvörunum voru löndin að skerpa á því að tilskipunin gildir ekki um vinnurétt og að hún hefur ekki áhrif á rétt stjórnvalda til að ákveða hvaða þjónusta veitt er af hinu opinbera og hvernig sú þjónusta er skipulögð og fjármögnuð. Það var mat framkvæmdastjórnarinnar að fyrirvararnir hefðu ekki áhrif á efni hennar og tekur gildissvið frumvarpsins mið af fyrrgreindum fyrirvörum, sbr. 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins.

Frumvarpið skiptist í sjö kafla. Í I. kafla er fjallað um tilgang, gildissvið og skilgreiningar. Er þar í fyrsta skipti verið að leiða í íslensk lög hugtökin „þjónusta í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga“ og „þjónusta í almannaþágu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu“. Hugtökin eru undirhugtök þess sem í daglegu tali mætti kalla „almannaþjónusta“. Þjónusta sem fellur í fyrri flokkinn er undanskilin gildissviði frumvarpsins sem síðari flokkurinn fellur undir. Frumvarpið hefur hins vegar ekki áhrif á rétt ríkisins til að ákvarða hvaða þjónusta fellur í hvorn flokk fyrir sig. Gildissvið frumvarpsins er viðamikið en þó eru stór þjónustusvið undanskilin, svo sem heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og fjármálaþjónusta.

Í II. kafla er fjallað um aðgengi að þjónustu, kröfur til skjala og rétt til upplýsinga. Til að tryggja jafnræði þeirra sem veita þjónustu á EES-svæðinu er í frumvarpinu kveðið á um rafræna málsmeðferð sem felur í sér að þjónustuveitandi á að geta sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína rafrænt og fengið rafræn svör frá leyfisveitendum. Af þeim sökum vinnur forsætisráðuneytið nú að uppbyggingu og uppsetningu vefsvæðis þar sem eyðublöð og upplýsingar um leyfi verða aðgengileg. Leyfisveitanda er samkvæmt frumvarpinu óheimilt að krefjast þess að skjöl frá öðrum EES-ríkjum séu í frumriti, staðfestu endurriti eða löggilt þýðing nema brýnir almannahagsmunir krefjist. Eins verður leyfisveitandi að viðurkenna skjöl frá öðrum EES-ríkjum sem sönnun fyrir því að ákveðin skilyrði séu uppfyllt.

Í III. kafla er fjallað um staðfesturétt þjónustuveitanda og leyfisveitingar. Ef aðgangur að því að veita þjónustu með staðfestu er háður leyfum skulu skilyrði fyrir veitingu leyfa vera án mismununar, nauðsynleg vegna brýnna almannahagsmuna og í samræmi við meðalhóf. Í kaflanum er einnig að finna ítarleg ákvæði um gildistíma leyfa og málsmeðferð við leyfisveitingar. Óheimilt að tímabinda leyfi nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, frestur til að veita leyfi skal fastsettur og birtur fyrir fram og ef svar við leyfisumsókn er ekki veitt innan tímafrests ber að líta svo á að leyfið hafi ekki verið veitt nema kveðið sé á um annað í lögum. Í lok kaflans er svo ákvæði þar sem talin eru upp skilyrði sem óheimilt er að setja fyrir veitingu leyfa.

Í IV. kafla laganna er fjallað um frelsið til að veita þjónustu án staðfestu. Þar er m.a. verið að innleiða 16. gr. tilskipunarinnar, svokallaða „upprunalandsreglu“, en hún felur það í sér að þjónustuveitandi, sem hyggst veita þjónustu án staðfestu, á að meginstefnu til ekki að þurfa að undirgangast nein skilyrði í því ríki þar sem hann hyggst veita þjónustuna heldur eiga að gilda um hann lög og reglur staðfestuaðildarríkis hans. Frá þessu er þó heimilt að víkja með vísan til allsherjarreglu, almannaöryggis, lýðheilsu eða umhverfisverndar.

Í V. kafla er fjallað um viðtakendur þjónustu o.fl. Þar kemur fram að óheimilt er að mismuna viðtakendum á grundvelli þjóðernis eða búsetu og gerð krafa um að þjónustuveitendur hafi töluvert magn upplýsinga aðgengilegt rafrænt fyrir viðtakendur þjónustu. Að auki eiga viðtakendur rétt á ákveðinni aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum við að leita sér upplýsinga um hvaða reglur gilda um þjónustuveitingu í öðrum EES-ríkjum, einkum hvað varðar réttindi neytenda, og mun Neytendastofa taka að sér að veita þjónustuviðtakendum nauðsynlegar upplýsingar. Tilgangurinn er að hvetja og auðvelda viðtakendum þjónustu að velja sér hagkvæmustu þjónustuna óháð því hvaðan þjónustuveitandinn er. Í kaflanum er einnig að finna ákvæði þar sem tekið er fram að óheimilt sé að krefjast þess að starfsábyrgðartrygging þjónustuveitanda sé gefin út af íslensku tryggingafélagi, allsherjarbann við markaðssetningu lögverndaðra starfsstétta er óheimilt, nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, og einnig er kveðið á um að þjónustuveitandi hefur rétt til að stunda þverfaglega starfsemi.

Í VI. kafla er fjallað um samvinnu á sviði stjórnsýslu. Ljóst er að til þess að ákvæði tilskipunarinnar virki sem skyldi er þörf á verulegri samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu. Af þeim sökum hefur Evrópusambandið komið upp sérstöku upplýsingakerfi, IMI, þar sem samskipti stjórnvalda fara fram. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd þessara upplýsingaskipta.

Í VII. kafla er svo fjallað um innleiðingu og gildistöku. Lagt er til að lögin taki gildi 28. desember 2009 en þá á að vera búið að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt.

Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.



[17:28]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði EES. Það er ljóst að þetta frumvarp mun styðja við fjórfrelsið svokallaða, þ.e. að þjónustuviðskipti eiga að verða auðveldari á innri markaði eftir að þessi lög hafa tekið gildi.

Það er eitt sem ég vil kannski minnast á og það er að á grundvelli þjónustutilskipunar var, þó svo að það sé ekki fjallað um það nákvæmlega hérna, hægt að stunda bankastarfsemi yfir landamæri og fjármálastarfsemi yfir landamæri. Hér er annað mál sem er kannski af svipuðum meiði og það er ferðaþjónusta yfir landamæri þar sem við ferðaþjónustu þarf að leggja fram tryggingu til að tryggt sé að ef fyrirtæki fer á hausinn sé einhvers konar trygging fyrir því að hægt sé að flytja fólk til síns heima. Það geta komið upp tilfelli í þessu svipað og var með innlánstryggingarkefið í sambandi við útibú íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis. Við getum tekið dæmi t.d. af ferðaþjónustu þar sem eitthvert ferðaþjónustufyrirtæki — tökum bara eitthvert land sem við vitum að er á aðeins öðru þróunarstigi en Ísland og lönd á Evrópska efnahagssvæðinu, t.d. Rúmenía — segjum sem svo að rúmensk ferðaskrifstofa mundi ákveða að opna útibú á Íslandi, þá verður að vera tryggt að tryggingakerfið sem sú ferðaskrifstofa fer eftir tryggi það ef móðurfélagið, þ.e. móðurfélagið í Rúmeníu, fer á hausinn að hægt sé að flytja ferðalanga til síns heima. Þetta er dæmi sem gæti verið falið í þessari þjónustutilskipun eða frumvarpi um þjónustuviðskipti á innri markaðnum og ég vil vekja athygli hv. viðskiptanefndar á því að huga að svona atriðum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til viðskn.