138. löggjafarþing — 45. fundur
 15. desember 2009.
innflutningur dýra, 2. umræða.
stjfrv., 166. mál (djúpfryst svínasæði). — Þskj. 185, nál. 355.

[18:04]
Frsm. sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson og Kristin Hugason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Eirík Blöndal og Gunnar Gunnarsson frá Bændasamtökum Íslands, Halldór Runólfsson yfirdýralækni, Björn Steinbjörnsson, sérgreinadýralækni svína hjá Matvælastofnun, og Hörð Harðarson frá Svínaræktarfélagi Íslands.

Umsagnir bárust frá Svínaræktarfélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Matvælastofnun og Neytendasamtökunum.

Forsaga málsins er sú að þegar lögum um innflutning dýra var breytt með lögum nr. 141/2007 kannaði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sérstaklega tilhögun á innflutningi svína og erfðaefnis þeirra við þinglega meðferð málsins. Í nefndaráliti um málið var lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði starfshóp sérfræðinga til að gera tillögur um leiðir til að efla og auka hagkvæmni í svínarækt. Ráðherra skipaði þriggja manna nefnd til starfans og sátu í nefndinni þeir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og sérfræðingur í veirufræði á Keldum, og Þorsteinn Ólafsson, sérgreinadýralæknir á Matvælastofnun. Frumvarp þetta er byggt á vinnu nefndarinnar og er samstaða um þessar breytingar.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að fullnaðarákvörðun um innflutning á djúpfrystu svínasæði verði flutt til yfirdýralæknis, en að ákvörðun hans megi skjóta til ráðherra. Auk þess mun Matvælastofnun hafa heimild, skv. 3. mgr. 13. gr. laganna, til að leyfa innflutning á djúpfrystu svínasæði beint inn á bú hér á landi, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Nefndin telur að með frumvarpinu sé verið að efla, styrkja og auka svínarækt í landinu. Það er mat nefndarinnar að þessar ráðstafanir séu til þess fallnar að auka möguleika á því að búgreinin verði arðbær og samkeppnisfær við aðrar greinar. Nefndin áréttar þó mikilvægi þess að matvælaöryggi og sjúkdómavarnir séu ávallt nægilega tryggð.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Björn Valur Gíslason og Helgi Hjörvar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins þann 3. desember 2009.

Undir nefndarálitið rita Atli Gíslason, Ólína Þorvarðardóttir, Einar K. Guðfinnsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Jón Gunnarsson, Róbert Marshall og Ögmundur Jónasson.



[18:07]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er kannski ekki mikið að vöxtum en það getur hins vegar vakið upp áhugaverðar prinsippspurningar. Hér er líka um að ræða mjög mikið hagsmunamál fyrir mjög stóra búgrein, stóra kjötframleiðendur í landinu, og hefur þess vegna ekki bara áhrif á afurðir og afkomu þessara búa, svínabúanna, heldur getur líka haft áhrif á kjötmarkaðinn í heild og á verðlag í landinu og þar með á lífskjör landsmanna. Þannig að frumvarpið sem við ræðum hér lætur kannski ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn en getur haft á sér áhugaverða fleti og getur haft heilmikið að segja um ýmsa þætti sem snúa að heildarhagsmunum almennings í landinu. Hér er því um að ræða býsna stórt mál þegar allt kemur til alls.

Eins og rakið er í frumvarpinu á svínaræktin í núgildandi mynd ekki langa sögu, 80 ára samfellda sögu, en hefur hins vegar þróast á þann veg að kjötframleiðsla af svínum hefur aukist ár frá ári. Svínaræktin hefur oft gengið í gegnum erfiða tíma og góða tíma, ekki er mjög langt síðan svínaræktin átti við mjög mikla erfiðleika að stríða. Það ríktu hér óeðlileg undirboð. Það ríkti nánast stríðsástand á mörkuðunum sem gerði það að verkum að mörg fyrirtæki fóru í gegnum gríðarlega mikla erfiðleika eins og marga rekur minni til.

Því er heldur ekki að leyna að um þessar mundir er kjötmarkaðurinn býsna erfiður. Efnahagsaðstæðurnar hafa gert það að verkum að neyslumynstur fólks hefur breyst og eftirspurnin eftir dýrari tegundum hefur minnkað vegna þessa, það hefur haft sín áhrif á stöðu svínaræktarinnar eins og annarrar kjötframleiðslu í landinu. Þess vegna erum við hér að tala um grafalvarlegt mál sem snýr að því með hvaða hætti við getum með almennum reglum reynt að auðvelda kjötframleiðsluna á þessu sviði í landinu og draga úr kostnaði og það er það sem þetta mál snýst um.

Ég stóð frammi fyrir því á árinu 2008, hygg ég, að uppi voru mjög sterk sjónarmið af hálfu svínaframleiðenda að eðlilegt væri að heimila innflutning á ófrosnu svínasæði, erfðaefni, til þess að stuðla að kynbótum í svínarækt hér á landi. Þessar kynbætur þurfa að gerast með þeim hætti vegna smæðar stofnsins hér á landi. Eins og fyrirkomulagið er nú eru lífdýr flutt inn og geymd í einangrunarstöðinni í Hrísey með heilmiklum tilkostnaði. Um tíma var það þannig að svínabændur fengu sérstakan fjárstuðning til að standa undir þeim kostnaði, en úr því hefur dregið og ég hygg að sá kostnaður sé nú að mestu borinn uppi af svínaræktendum sjálfum. Það er þó ekki nema einn hluti þessa máls og er hitt miklu stærra að þetta hefur gert það að verkum að kynbætur, að mati svínaræktenda sjálfra, hafa gerst hægar hér á landi þannig að afurðirnar á hverja fóðureiningu eða hvert dýr eru minni hér en sums staðar annars staðar sem menn bera sig saman við. Að vísu hafa kynbætur verið talsverðar hér á landi sem hefur leitt það af sér að kostnaður á framleidda einingu hefur verið að minnka sem betur fer og ég hygg að raunverð á afurðum svínaræktenda hafi til að mynda verið að lækka og verðið á afurðum svínanna hefur verið að lækka. Það breytir ekki því að menn verða að halda hér áfram. Þess vegna kom upp sú hugmynd eða ósk og krafa svínaræktenda á sínum tíma að fá heimild til að flytja inn ófrosið svínasæði, erfðaefni, til þess að geta stundað kynbætur með eins áhrifaríkum hætti og mögulegt væri.

Mér er kunnugt um að um þessi mál var rætt á þeim tíma í þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis og mikill áhugi er þar á bæ á því að verða við kröfum svínaræktenda. Þessi mál hafa hins vegar á sér aðra hlið, sem eru heilbrigðisástand og það hvort hægt sé að gera það með þeim viðunandi hætti að það skapi enga sjúkdóma. Þess vegna var það mín niðurstaða, eftir að hafa skoðað þetta mál nokkuð rækilega á þeim tíma, að skynsamlegast væri að skoða þessi mál í ljósi nýrra upplýsinga og þeirra óska sem fram höfðu verið settar. Það varð því niðurstaðan að ég skipaði þriggja manna starfshóp, sérfræðinga á þessu viði, sem voru yfirdýralæknir, Halldór Runólfsson, Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og sérfræðingur í veirufræðum á Keldum, og Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, sem er núna sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun. Þeir skoðuðu þessi mál mjög ítarlega. Þeir fóru kynnisferð til Noregs en eins og menn vita hafa kynbæturnar hér á landi byggst á innfluttum svínum frá Noregi þar sem heilbrigðisástand er talið mjög gott og menn standa gríðarlega vel að málum.

Niðurstaðan af ferð nefndarinnar og skoðun og athugun var sú að til greina gætu komið tveir svona kostir sem hægt væri að horfa til. Það er í fyrsta lagi að veita heimild til innflutnings á fersku svínasæði frá Norsvin í Noregi, sem færi eingöngu til notkunar á sérstöku einangrunarbúi, sem yrði rekið af svínaræktarfélaginu eða öðrum þar til bærum aðilum. Sú tillaga fæli í sér að ekki þyrfti að breyta lögum, en þeir lögðu jafnframt fram aðra tillögu, annan valkost getum við sagt, sem er heimild til þess að veita heimild fyrir innflutningi á frosnu svínasæði frá Norsvin í Noregi, sem færi beint inn á svínabú hér á landi að loknum ákveðnum einangrunartíma. Það er í rauninni sú leið sem valin er með frumvarpinu og við sem skipum sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis tökum undir það með stuðningi okkar við þetta mál.

Eins og ég sagði er hér um að ræða gífurlegt hagsmunamál. Núverandi fyrirkomulag er dýrt. Það tefur líka kynbætur og gerir það að verkum að framfarir í svínarækt á Íslandi eru ekki eins hraðar og við kysum að hafa þær. Ég tel því að hér sé um að ræða mikilvægt og gott framfaramál. Gleymum því ekki að í þjóðfélaginu er uppi mikil og vaxandi krafa um lækkandi vöruverð. Sú krafa heyrist á hverjum degi, kemur fram í kröfum neytenda og þeirra sem um eiga að véla, en ekki er endalaust hægt að setja fram slíkar kröfur á hendur landbúnaðinum nema honum sé líka færð í hendur þau tæki sem þarf til þess að geta stuðlað að lækkun á kostnaði. Forsendan fyrir því í þessu tilviki er að hægt sé að stunda kynbætur á öruggan og ódýran máta og þannig að þær skili árangri. Sú leið sem hér er verið að leggja til er liður í því.

Því er ekki að neita að hin ýtrasta krafa svínaframleiðenda sjálfra er sú að hér væri heimild til að flytja inn ófrosið erfðaefni og þeirra hugmynd var sú upphaflega að það yrði gert með þeim hætti að það yrði flutt inn á tiltekin bú sem hefðu þá áður fengið viðurkenningu yfirvalda. Þeirri málaleitan er í rauninni hafnað með frumvarpinu og ákveðið að hafa skrefið heldur styttra, sem er sem sagt það að flytja inn frosið svínasæði frá viðurkenndu búi í Noregi sem menn þekkja og hafa skoðað rækilega og hafa mikla reynslu af, og gera það með þeim hætti sem hér er verið að tala um. Með því móti er talið að um leið sé verið að tryggja þær sjúkdómavarnir sem nauðsynlegar eru í þessum búskap eins og öllum öðrum.

Virðulegi forseti. Þetta mál er kannski nokkuð viðkvæmt að öðru leyti. Menn hafa velt því fyrir sér þegar þessi mál ber á góma hvort þetta veki upp aðra spurningu sem hefur verið miklu viðkvæmari hér á landi sem varðar innflutning á nýju kúakyni. Sú spurning verður stöðugt uppi og hefur oft komið upp, bæði fyrr og síðar, og orðið tilefni til mikillar umræðu hér á Alþingi sem og úti í þjóðfélaginu. Um það mál eru mjög skiptar skoðanir eins og allir vita. Ég tel hins vegar að frumvarpið skapi engin fordæmi í þeim efnum. Þetta er einangrað mál sem snýr eingöngu að svínaræktinni sjálfri. Þetta er svar við þeirri ósk svínaræktenda að reyna að draga úr kostnaði og auka kynbætur og auka þannig afurðir búsins í því skyni að gera þær sem samkeppnisfærastar.

Ég vil vekja máls á þessu vegna þess að mér er það alveg ljóst að hverjar þær breytingar sem gerðar eru á þessum sviðum í landbúnaðinum, í sambandi við erfðaefni í búfé, kalla alltaf á nýjar spurningar. Ég vildi a.m.k. fyrir mína parta svara því alveg skýrt að ég tel að frumvarpið sé einangrað í þeim skilningi að það skapi ekki fordæmi á öðrum sviðum. Svínastofninn okkar er sérstakur. Hann hefur allt aðra forsögu en aðrir búfjárstofnar okkar flestir hverjir, þess vegna hljóta aðrar reglur, önnur viðmið og önnur prinsipp að gilda í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Ég tel að sú niðurstaða sem hér hefur fengist sé mjög vel viðunandi. Hún tryggir í fyrsta lagi sjúkdómaöryggi eins og hægt er. Auðvitað er það þannig að aldrei er hægt að tryggja sjúkdómaöryggi fullkomlega. Það er alltaf til staðar ákveðin áhætta í þeim efnum. Það er líka til staðar áhætta í því fyrirkomulagi sem við höfum núna þar sem verið er að flytja inn lifandi dýr. Þó alls öryggis sé gætt eins og hægt er má segja sem svo að til staðar sé ákveðin áhætta í þeim efnum, en við teljum hins vegar, og það er mat okkar sérfræðinga, að það sé viðunandi áhætta. Hið sama má segja um þetta fyrirkomulag hérna, ekki er hægt að segja að það sé áhættulaust, en sú áhætta sem það felur í sér er örugglega ekki meiri en sú áhætta sem er fólgin í núverandi fyrirkomulagi. Þannig að því leytinu finnst mér það mál vera afgreitt að við erum ekki að auka áhættu en við náum hins vegar öðru, sem skiptir líka mjög miklu máli, og það er arðsemisþátturinn sem þarf að hafa í huga. Við verðum að tryggja að viðunandi arðsemi sé til staðar í svínaræktinni eins og í öðrum atvinnugreinum. Í ljósi þess að stöðugt er verið að gera kröfu til þess að þessi bú sýni arðsemi, stöðugt verið að gera kröfu til þess að þau geti verið samkeppnishæf við innfluttar afurðir sem og innlendar afurðir, er ljóst að við verðum að gefa svínaræktendum tækifæri til að kynbæta stofn sinn til að ná sem mestum árangri.

Ég nefndi hér áðan innflutning á afurðum, svínaafurðum. Það er alveg rétt, eins og menn vita, að í dag heimilum við ekki innflutning á svínakjöti, nema frosnu kjöti. Sá innflutningur er dálítill eins og við neytendur sjáum í verslunum þegar við skoðum okkur þar um. Þess vegna er þetta raunveruleg samkeppni sem svínaræktendur á Íslandi verða fyrir. Á móti kemur að við erum með tolla. Við erum líka núna í þeirri stöðu að gengi krónunnar er lágt þannig að samkeppnin frá innflutningnum er ekki eins grimmileg fyrir vikið. Það eru hins vegar ákveðnar heimildir, tollaheimildir, sem gera það að verkum að menn verða að vera á tánum, eins og það er stundum kallað, varðandi samkeppnina, bæði utan lands frá og hér innan lands, við aðrar kjöttegundir og aðrar matvörur í landinu.

Að öllu samanlögðu þegar þetta er skoðað, annars vegar sjúkdómaþátturinn veginn og metinn og hins vegar sá afrakstur sem við höfum af þessu með því að lækka kostnað og auka kynbætur — þegar þetta er allt saman lagt saman blasir við að þetta er eðlilegt fyrirkomulag, þetta er eðlilegt framfaraskref sem hér er verið að stíga. Ég tel því ástæðu til að við styðjum frumvarpið og veitum því brautargengi þannig að menn geti tekið til við að vinna eftir breyttum lögum til hagsbóta fyrir búgreinina.



[18:21]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið fjöllum við um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum. Hér er fjallað um innflutning á djúpfrystu svínasæði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eins og kom fram í ágætri yfirferð varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, og í góðri yfirferð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þá er þetta vel ígrundað mál og vel hefur verið staðið að verki. Það er gaman að geta komið hér upp trekk í trekk, frú forseti, og sagt að samstaða sé um málið, enginn pólitískur ágreiningur. Allir nefndarmenn í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skrifa undir nefndarálitið án fyrirvara og þær umsagnir sem bárust frá Svínaræktarfélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Matvælastofnun og Neytendasamtökum voru allar samhljóða um að æskilegt og nauðsynlegt væri að samþykkja þetta frumvarp.

Hér kemur líka fram og kom fram í ræðum hv. áðurnefndra þingmanna að nauðsynlegt er að um þetta ríki nokkur sátt og að það séu ekki eingöngu hagsmunaaðilar, þ.e. svínabændur, sem standi að þessu heldur sé þetta samþykkt af þar til bærum yfirvöldum og menn telji að öll áhætta sé ásættanleg, og það þarf líka að vera sátt um þetta á meðal neytenda og þjóðarinnar. Menn þurfa að vera sammála um hvernig standa á að þessu, því að matvælaframleiðsla okkar Íslendinga er á afar háu plani og mikil sátt ríkir um hana meðal þjóðarinnar. Menn vilja gjarnan geta keypt íslenskar afurðir, bæði eru gæði þeirra mjög mikil og matvælaöryggið afar hátt þannig að mjög mikilvægt er að við getum tryggt fæðuöryggi til lengri tíma, m.a. með því að tryggja rekstrargrundvöll svínaræktar. Ein af forsendunum fyrir því er að bændur geti stöðugt sótt sér erfðaefni þar sem framþróunin er alveg gríðarleg.

Ég minnist þess að þegar ég hóf störf sem dýralæknir fyrir tuttugu árum var ekki óalgengt að koma inn á lítil svínabú þar sem grísir gátu orðið sjö, jafnvel átta mánaða gamlir áður en þeir náðu 60 kílóa fallþunga og þætti það afleitt í dag. Með skipulögðum innflutningi sem var heimilaður og fólst í því, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, að flytja lifandi dýr í einangrunarstöð í Hrísey og flytja næstu kynslóð þaðan inn á búin, náðust verulegar erfðaframfarir og í lok þess tíma held ég að megi segja að grísir hafi ekki náð mikið meira en fjögurra mánaða aldri og fallþunginn þá kannski verið 90 kíló. Menn sjá hversu gríðarlegur ávinningur hefur náðst á stuttum tíma. Erlendis er sem sagt stöðugur ávinningur og í samkeppni þurfa menn alltaf að geta boðið upp á hagkvæm matvæli á íslenskum markaði, án þess þó að raska eða taka aukna áhættu með sjúkdóma eða matvælaöryggi, þ.e. ef menn passa upp á það inni á búunum að aðbúnaður dýranna sé góður og þau heilbrigð, þá sé tryggt að maturinn sem úr því kemur verði heilnæmur.

Afar mikilvægt er að að þessu sé staðið með þessum hætti enda kemur í ljós í niðurlagi nefndarálitsins að nefndin telur að með frumvarpinu sé verið að efla, styrkja og auka svínarækt í landinu og að þessar ráðstafanir auki möguleika á því að búgreinin verði arðbær og samkeppnisfær við aðrar greinar og þá annan innflutning á svínakjöti. Jafnframt ítrekar nefndin mikilvægi þess að matvælaöryggi og sjúkdómavarnir séu ævinlega tryggðar.

Í því sambandi er rétt að minnast aðeins á það sem kom reyndar fram í framsögu varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, en ekki síður í yfirferð hv. þingmanns og fyrrverandi landbúnaðarráðherra Einars K. Guðfinnssonar, að unnið hefur verið að þessu í nokkurn tíma. Ástæðan fyrir því er sú að kerfið sem var unnið með áður reyndist svínabændum mjög dýrt og erfitt auk þess að auðvitað fólst ákveðin áhætta í því að flytja lifandi dýr þó að þau væru flutt úr einangrunarstöð af annarri eða þriðju kynslóð. Því var þetta skoðað sérstaklega og farið til annarra landa með sérstaka sérfræðinganefnd, reyndar að undangengnu áliti svokallaðs dýralæknaráðs, sem hefur verið yfirdýralækni til ráðgjafar. Það má segja að allir þessir aðilar hafi verið sammála um þær leiðir sem fara ætti en auðvitað hafa komið upp ýmsir möguleikar og leiðir. Má til að mynda nefna svokölluð SPF-býli í Danmörku eða Specific Pathogen Free býli sem mætti segja að séu laus við sérstök vandamál, sérstaka sjúkdóma. Engu að síður varð niðurstaðan sú og efnisleg rök eru fyrir því að ekki kæmi til greina að ganga lengra en að segja í frumvarpinu að aðeins ætti að flytja erfðaefni inn frá einu býli eða einni tegund býlis, þ.e. Norsvin í Hamri í Noregi, sem gæti fallið undir sérfræðingamatið á því hvað væri ásættanleg áhætta.

Tvær tillögur komu til greina í sérfræðinganefndinni og þær voru báðar reifaðar hér í 1. umr. og aðeins talað um þær. Þær voru auðvitað ræddar í nefndinni og af þeim sérfræðingum sem þangað komu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Bændasamtökunum og ekki síst Matvælastofnun og Svínaræktarfélaginu. Önnur þeirra, sú sem ekki var valin, var að flytja inn ferskt svínasæði sem yrði þá eingöngu til notkunar á sérstöku einangrunarbúi. Þá leið töldu svínabændur vera mjög dýra en ekki hefði þurft að breyta lögum, því það var innan heimilda í 13. gr. laga um innflutning dýra eins og nú er.

Tillaga tvö varð hins vegar fyrir valinu, að heimild yrði veitt fyrir innflutningi á frosnu dýrasæði frá Norsvin í Noregi sem geti farið beint inn á svínabú hér á landi að loknum ákveðnum einangrunartíma, þ.e. til að tryggja sjúkdómavarnirnar yrði sæðið geymt í einhvern tiltekinn tíma þar til sýnt þætti að lágmarks ásættanleg áhætta mundi fylgja notkuninni inni á býlinu og fylgst yrði með lífdýrunum í Noregi í ákveðinn tíma eftir að sæðistakan hefði átt sér stað til að tryggja það.

Ég spurði eftir því í nefndinni hvort þessar tvær tillögur hefðu verið metnar sérstaklega og á þær lagt sérstakt mat, annars vegar á kostnað og hins vegar á sjúkdómaáhættu og það síðan tekið saman. Um það var kannski ekki að ræða en hins vegar var það mat Svínaræktarfélagsins og svínabænda að fyrri tillagan yrði of dýr, þeir höfðu reynslu af því að hún yrði það, og eins þótti sérfræðingunum að innflutningur á frystu sæði mundi minnka áhættuna. Niðurstaðan er því í raun og veru sú að tillaga tvö varð fyrir valinu. Mér fannst mikilvægt að fá álit Neytendasamtakanna á þessu fyrir hönd almennings í landinu því að matvælaframleiðsla er ekkert einkamál framleiðenda, við búum á eylandi og ætlum að reyna að standa undir því að framleiða þann mat sem við viljum nota og tryggja þar með fæðuöryggi. Við viljum líka tryggja það góða matvælaöryggi sem við höfum í dag þannig að ekki má taka áhættu í því. Ég held að það hafi verið tryggt eins og hægt er — auðvitað er áhætta fólgin í öllum innflutningi og bara í sjálfu sér því að vera til — að áhættan sé lítil en ávinningur svínabænda gæti orðið verulegur og hann er auðvitað nauðsynlegur, því eins og ég minntist á fyrr í ræðu minni að ef menn geta ekki stundað erfðaframfarir detta menn ansi hratt aftan úr þeirri samkeppni og þeim erfðaframförum sem eru í öðrum löndum.

Kynbætur í svínarækt eru nokkuð flóknar, það þarf að rækta sérstakar hreinræktaðar móðurlínur og hreinræktaðar galtalínur og blanda þeim síðan saman til að búa til eldissvín. En það er hins vegar ekki úr eldissvínum sem eru tekin dýr til ásetnings heldur þarf að rækta hreinar línur í mismunandi kynjum og blanda þeim síðan saman með ákveðnum hætti til að tryggja að gæði kjötsins verði sem mest og best og fituprósentan ákveðin. Þetta eru því talsverð vísindi sem liggja að baki, sem krefjast í raun og veru ákveðins fjölda af erfðaefni, þ.e. fjölda dýra, og mjög erfitt er að ná því hér á landi þar sem svínarækt er auðvitað ekki eins öflug og víða erlendis. Þess vegna er nauðsynlegt að geta sótt erfðaefni til útlanda.

Ég held að í þessari umfjöllun nefndarinnar og í þeirri vinnu sem hefur verið unnin áður sé, eins og ég sagði áðan, nokkuð tryggt að búið sé að stíga eins varlega til jarðar og hægt er og líklegt að ávinningur geti orðið fyrir bæði svínabændur og þjóðina alla að geta eflt og styrkt svínarækt í landinu með það fyrir augum að tryggja að búgreinin sé arðbær og samkeppnisfær og að matvælaöryggi og fæðuöryggi þjóðarinnar verði þá enn betra en ef ekki kæmi til þessa frumvarps.

Ég vil að lokum endurtaka það sem ég sagði í upphafi, að öll nefndin skrifaði undir þetta án þess að setja nokkurn fyrirvara við og ég ítreka stuðning okkar framsóknarmanna við málið.