138. löggjafarþing — 86. fundur
 4. mars 2010.
olíugjald og kílómetragjald, 1. umræða.
frv. HöskÞ, 333. mál (endurgreiðsla gjalds). — Þskj. 477.

[15:38]
Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tala hér enn á ný fyrir frumvarpi sem ætti kannski að bera nafnið „frumvarp til laga til þess að lækka flutningskostnað, sérstaklega á landsbyggðinni“. Þessu frumvarpi er samt ekki sérstaklega beint að henni en mundi gera það að verkum að flutningskostnaður þeirra fyrirtækja sem starfa úti á landi og þurfa að koma vörum sínum til höfuðborgarsvæðisins meðal annarra svæða mundu njóta mjög góðs af því.

Frumvarp þetta fjallar um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta var lagt fram á 135. löggjafarþingi og aftur á 136. þingi og er nú endurflutt eins og áður sagði. Lagt er til að flutningsaðilar sem stunda farmflutninga í skilningi i- og j-liðar 3. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga skuli fá endurgreidd 50% olíugjalds vegna starfsemi sinnar. I-liður laganna um fólksflutninga og farmflutninga fjallar einmitt um farmflutninga í atvinnuskyni sem eru skilgreindir svo: Flutningur á hvers kyns farmi gegn endurgjaldi þegar flutningsþjónusta er seld sérstaklega og flytjandi starfar við flutningsþjónustu. Í j-lið er fjallað um farmflutninga í eigin þágu og þeir skilgreindir svo:

„Flutningur farms þegar ekki er innheimt sérstakt gjald fyrir flutninginn. Sem dæmi má nefna flutning iðnfyrirtækis á eigin hráefni og/eða aðföngum með merktum bifreiðum, svo sem flutning á gosdrykkjum og flutning með mjólkurbifreiðum. Einnig flutningur verktaka sem starfa við annars konar verktöku en flutningsþjónustu þótt flutningurinn sé hluti af verki, svo sem verktaka við byggingar.“

Ég tel að þetta mál sé gríðarlega mikilvægt. Við sem búum úti á landi vitum hvað flutningskostnaður getur verið hár. Þau framleiðslufyrirtæki sem eru sterk, sérstaklega í Norðausturkjördæmi, hafa hreyft við því að jafnvel gæti það borgað sig fyrir þau að flytja starfsemi sína suður fyrir heiðar þar sem flutningskostnaðurinn er svo gríðarlega mikill. Þetta frumvarp er í rauninni tilraun til þess að fá alþingismenn í hvaða flokki sem er til þess að sameinast um þessa þörf og að hægt sé að ná einhvers konar árangri í því að jafna flutningskostnað úti um allt land.

Eins og svo margt annað er þetta frumvarp ekki gagnrýnislaust og við fyrri flutning málsins kom fram sú gagnrýni að endurgreiðsluleiðin sem lögð er til í frumvarpinu sé flókin, tímafrek og kostnaðarsöm í framkvæmd. Ríkisskattstjóri tók m.a. fram að einfaldara væri að undanþiggja bifreiðar, 10 tonn og yfir, kílómetragjaldi ef vilji stæði til þess. Aðrir bentu á að olíugjald sé markaður tekjustofn til vegagerðar og að hvergi komi fram hvernig bæta megi upp tekjutap sem af frumvarpinu leiddi. Vegagerðin taldi frumvarpið fara gegn því meginsjónarmiði að kostnaður af uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins skuli borinn af notandanum.

Í ljósi framangreindra umsagna má rifja það upp að í maí 2008 skilaði starfshópur á vegum fjármálaráðherra, um heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, skýrslu þar sem fram kemur að gildandi lög og reglugerðir á þessu sviði skattlagningar séu uppfull af sértækum reglum, afslætti og undanþágum, fyrir hina og þessa hagsmunaaðila. Það er einmitt það sem verið er að gera hér, þessu frumvarpi er ætlað að treysta hagsmuni landsbyggðarinnar í formi lægri flutningskostnaðar og þá viðleitni styðja meðal annarra Bændasamtök Íslands.

Vegna þess að ég veit að það eru áhugamenn í öllum flokkum Alþingis um að jafna þennan flutningskostnað hefði ég talið að til að mynda ráðherra samgöngumála hefði komið og skýrt sín sjónarmið. Hann hefur verið ötull talsmaður þess að flutningskostnaðurinn sé jafnaður. Ég tel að það sé tækifæri hér fyrir stjórnarliða að taka þetta mál upp og stuðla að sátt sem ég tel að ríki, að þeir sem búa í hinum dreifðu byggðum landsins þurfi ekki að bera þennan háa flutningskostnað einir.

Fram kemur í 2. mgr. 23. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald að innheimtar tekjur af olíugjaldi, kílómetragjaldi og sérstöku kílómetragjaldi renni til Vegagerðarinnar að frádregnum 0,5% sem renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þessir mörkuðu tekjustofnar Vegagerðarinnar skerðist en eftir sem áður er lögð rík áhersla á að stofnunin fái það tekjutap bætt með framlögum úr ríkissjóði. Ekki þykir sérstakt tilefni til að taka afstöðu til þess með hvaða hætti þær tekjur ættu að fást, hvort heldur með skerðingu útgjalda eða hækkun skatta, en ég held samt að við ættum að hefja þá umræðu og vonaðist til að sú umræða hefði getað farið fram hér í dag. Það er kannski ekki mikið meira að segja um þetta frumvarp.

Ég óska eftir því að frumvarpið fari, eins og áður, til umræðu í efnahags- og skattanefnd, ef ég man rétt, ég held að það eigi frekar heima þar en í samgöngunefnd en ég leyfi forseta að hjálpa mér með þá ákvörðun. Það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir öllu máli er að þetta frumvarp fái umræðu í nefndinni og fái umsagnir. Við munum vonandi sjá að það komi hér inn í þingið í atkvæðagreiðslu.



[15:45]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum að þessu máli og tek heils hugar undir þetta. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur verið mikill og öflugur talsmaður fyrir landsbyggðina. Ég tel að við eigum að líta á þetta sem hluta af byggðapólitík, að tryggja að búið sé úti um allt land en ekki bara hérna á höfuðborgarsvæðinu.

Ef við lítum á dreifinguna, hvar fólk býr, held ég að það megi orðið skilgreina Ísland sem borgríki þar sem svo stórt hlutfall af Íslendingum býr hér á höfuðborgarsvæðinu. Ýmsir sem skiluðu inn umsögnum á fyrri þingum um þetta mál bentu á flækjustigið og hversu tímafrekar og kostnaðarsamar aðgerðir af þessu tagi væru. En ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði áðan, þótt núgildandi lög og reglugerðir um þessa tegund skattlagningar séu uppfull af afslætti og undanþágum fyrir hina og þessa hagsmunaaðila, þó að það þurfi að taka til þar, tel ég að þetta sé eitthvað sem ríkisstjórnin ætti að taka heils hugar undir, að treysta hagsmuni landsbyggðarinnar í formi lægri flutningskostnaðar. Ég bendi á að þau lönd sem hafa verið með virka byggðastefnu, alvöru byggðastefnu, hafa einmitt notað skattkerfið til þess að auðvelda fólki að staðsetja sig og reka heimili sín og fyrirtæki úti á landi.

Ég nefni Noreg sem dæmi þar sem tekjuskattsprósentan er lægri og barnabæturnar hærri ef maður býr norðan við ákveðna gráðu, ég veit að þannig er það alla vega um Tromsø og norðar. Það er ýmislegt sem stjórnvöld víðs vegar hafa gripið til vegna þess að þau telja að það skipti máli að fólk búi úti um allt land. Við á Íslandi höfum margoft lagt fram mjög fallega stefnu, prentaða í litríkum bæklingum, talað fyrir því á hátíðisdögum. Dæmi um þetta má nefna „Störf án staðsetningar“ sem núverandi hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson talaði fjálglega um á sínum tíma þegar hann tók sæti aftur í ríkisstjórn, en svo er lítið um efndir. Fram undan hlýtur að vera heildarendurskoðun hjá hinni svokölluð grænu ríkisstjórn, hinni grænu og norrænu ríkisstjórn, að hún ætli sér að endurskoða skattlagningu ökutækja og eldneytis, vonandi með umhverfissjónarmið í huga. Ég hvet þá viðkomandi flokka til þess að hafa í huga hagsmuni landsbyggðarinnar með því að tryggja lægri flutningskostnað. Ég fagna því að þetta mál sé komið fram og þessari umræðu. Ég tek undir óskir hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar um þetta mál fái efnislega umfjöllun í nefndinni og fari í framkvæmd með þessum hætti eða öðrum sem styður við meginmarkmið frumvarpsins.



[15:49]
Flm. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að taka undir orð mín. Mér láðist að segja frá því að þó að ég sé 1. flutningsmaður að þessu ágæta máli eru aðrir flutningsmenn hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, áðurnefnd Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Það er svo sem ekki miklu að bæta við en þó vil ég geta þess að víða um land á fólk undir högg að sækja vegna þess að atvinnutækifæri eru af skornum skammti. Þau fyrirtæki sem eru til staðar eru samfélaginu gríðarlega mikilvæg. Eins og ég nefndi áðan lenda framleiðslufyrirtækin og sjávarútvegsfyrirtækin t.d. í því að þurfa að bera þennan háa flutningskostnað. Þeir sem leitast við að hagræða hjá sér í rekstri hljóta að horfa í þennan kostnað. Þá spyr ég: Er þá ekki sanngjarnt, úr því að við búum í þessu stóra landi með allar þessar dreifðu byggðir, að við leggjum okkur fram um að jafna flutningskostnað, jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja úti um allt land? Ég held að þessi liður, sérstaklega flutningskostnaðurinn, gæti skipt öllu máli.

Það er aukinn skilningur á því að staðsetning fyrirtækja skiptir ekki öllu máli, húsnæðiskostnaður getur verið ódýrari úti á landi, en menn horfa í flutningskostnaðinn. Þess vegna hef ég lagt fram þetta frumvarp ásamt nokkrum ágætum þingmönnum í Framsóknarflokknum. Ég vonast svo sannarlega til að þetta mál fái umfjöllun og komist hér til atkvæðagreiðslu vegna þess að þá fáum við úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hverjir eru reiðubúnir að leggja sig fram og koma á fót einhvers konar reglum sem miða að því að lækka flutningskostnaðinn eða þá hverjir það eru sem segja að þeir séu til í það en eru ekki reiðubúnir að leggja neitt af mörkum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og skattn.