138. löggjafarþing — 119. fundur
 7. maí 2010.
efling græna hagkerfisins, fyrri umræða.
þáltill. SkH o.fl., 520. mál. — Þskj. 909.

[15:17]
Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um eflingu græna hagkerfisins. Þessi tillaga er flutt af 19 þingmönnum allra flokka á Alþingi og er efni hennar það að hefja skuli undirbúning að eflingu græna hagkerfisins á Íslandi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þessi tillaga felur í sér að Alþingi kjósi níu manna nefnd, fulltrúa allra þingflokka, sem takist á hendur það verkefni að rannsaka og greina sóknarfæri íslensks atvinnulífs á sviði umhverfisvænnar atvinnusköpunar. Verkefni nefndarinnar verður m.a. gera tillögur um aðgerðir á vegum stjórnvalda til að ýta undir vöxt græna hagkerfisins og úrbætur á stuðningskerfi atvinnulífsins sem þjónað getur þessu markmiði. Sérstaklega verður skoðað hvernig bæta má alþjóðlega samkeppnishæfni Íslendinga á sviði grænnar atvinnustarfsemi. Nefndinni er ætlað að gera tillögur um breytingar á lögum sem þjóna fyrrnefndum markmiðum auk þess að setja fram mælanleg markmið um fjölgun grænna starfa á Íslandi. Þess skal gætt að samþætta tillögur nefndarinnar við opinberar áætlanir svo sem Velferð til framtíðar, Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, 20/20 Sóknaráætlun og Byggðaáætlun. Því til viðbótar vil ég bæta að við hljótum jafnframt að hafa til hliðsjónar stefnumörkun stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um a.m.k. 15% á árinu 2020 miðað við árið 1990. Ég fullyrði það hér að við munum ekki ná þessum árangri að óbreyttri atvinnustefnu. Við þurfum að styrkja grænu áherslurnar í atvinnulífi okkar með heildstæðri nálgun sem hefur það markmið að laða fram og efla vistvænar áherslur í öllum atvinnugreinum.

Tillagan gerir ráð fyrir því að nefndin verði skipuð fulltrúum Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar auk þess sem Þráinn Bertelsson verði áheyrnaraðili. Við það er miðað að nefndin skili af sér tillögum 1. desember nk.

Græna hagkerfið hefur verið skilgreint sem það hagkerfi sem kemst á með grænni hagstjórn og felur í sér skipulega aðferðafræði við stefnumótun þar sem sjónarmið umhverfisverndar og náttúruverndar auk sjálfbærrar auðlindastjórnunar eru samofin allri ákvarðanatöku í opinberri stjórnsýslu. Í grænu hagkerfi eru mannvit og mannauður virkjuð til nýsköpunar og framþróunar og hefðbundnar framleiðslugreinar endurnýja sig með sjálfbærni að leiðarljósi. Grænt hagkerfi byggir á virðingu fyrir náttúrunni og gæðum hennar sem eru sameign þjóðarinnar í nútíð og framtíð og leiðarstef þess er að umgangast beri náttúruna af hófsemi með hliðsjón af hagsmunum afkomenda okkar. Grænt hagkerfi svarar því kröfunni um jafnræði og jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingar, milli einstakra atvinnugreina og milli kynslóða

Í nýlegri skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna eru græn störf skilgreind sem þau störf í landbúnaði, iðnaði, þjónustugreinum og stjórnsýslu sem stuðla að varðveislu eða endurheimt umhverfisgæða. Græn störf draga úr ágengni atvinnulífsins gagnvart náttúru og umhverfi og eru til þess fallin að auka sjálfbærni hagkerfisins. Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru grundvallarforsendur græna hagkerfisins en sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun er mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóðar til þess að mæta þörfum sínum. Hér á landi er hugtakið nátengt nýtingu náttúruauðlinda og felur þá í sér að náttúruauðlindir séu nýttar á hófsaman hátt þannig að þær ná að endurnýja sig. Í öðru lagi að nýting auðlindanna sé með þeim hætti að mengun sé haldið í lágmarki þannig að umhverfið spillist ekki að óþörfu.

Græn störf finnast í fjölmörgum geirum atvinnulífsins. Þau eiga það sammerkt að stuðla að samdrætti í orkunotkun, hráefnanotkun og vatnsnotkun með hagkvæmum aðferðum, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sóun og mengun, en styðja við endurreisn vistkerfa og líffræðilega fjölbreytni. Græn störf eiga þannig þátt í að rjúfa þau bönd sem verið hafa milli hagvaxtar annars vegar og neikvæðra umhverfisáhrifa hins vegar. Markmið grænnar hagstjórnar er að græn störf séu jafnframt mannsæmandi í þeim skilningi að þau feli ekki í sér heilsuspillandi verkferla eða séu í einhverjum skilningi niðurlægjandi fyrir einstaklinginn.

Virðulegi forseti. Hvers vegna er nauðsynlegt að efla græna hagkerfið? Fyrir því eru nokkrar ástæður, sumar hnattrænar, aðrar hér innan lands. Á rúmri öld hefur jarðarbúum fjölgað úr tæplega 2 milljörðum í tæplega 7 milljarða manna. Sumar mannfjöldaspár gera ráð fyrir að jarðarbúar verði 9 milljarðar árið 2050. Þessi gríðarlegi mannfjöldi þarf að lifa af gæðum jarðar þannig að allir fái þrifist. Um 20% mannkyns taka til sín 80% af orkunni og auðæfum heimsins og losa langmest af gróðurhúsalofttegundum. Ef allir jarðarbúar leyfðu sér orkueyðslu Vesturlandabúa að óbreyttu tæknistigi væri framtíð mannkyns stefnt í voða. Eina haldbæra leið þjóða til að koma í veg fyrir loftslagsvá og orkuskort er að þróa hagkerfi sem byggist á sjálfbærri orkunotkun og lágmarka sem kostur er nýtingu jarðefnaeldsneytis. Þetta er stærsta og líklega mikilvægasta verkefni mannkyns á þessari öld. Brýnt er að gera sér grein fyrir því að græna hagkerfið stillir sér ekki upp sem andstæðu við hefðbundinn atvinnurekstur eða hafnar hagvexti. Öðrum þræði byggir það á fjölbreyttu atvinnulífi sem er stutt breiðri þekkingu og fjölbreyttri menntun. Slíkur atvinnurekstur reynir ávallt að skilja eftir sig sem minnst neikvæð áhrif á umhverfisgæði og leggur sig fram um að gera eigin úrgang eða annarra að hráefni til verðmætasköpunar. Líkur eru á að staðfest yfirlýsing stjórnvalda á Íslandi um að atvinnuuppbygging skuli samræmast græna hagkerfinu muni auka áhuga erlendra aðila á fjárfestingum hér á landi. Það leggur vitaskuld þær skyldur á herðar stjórnvalda að athafnir fylgi orðum.

Á Íslandi eru um 82% allrar orku sem notuð er í landinu endurnýjanleg og á upptök sín í virkjun vatnsafls eða jarðvarma. Það var af mikilli framsýni sem ráðist var í fjárfestingar í hitaveitu víða um land á áttunda áratug síðustu aldar. Í dag sparar það milljarða króna á ári hverju fyrir heimili og fyrirtæki. En þrátt fyrir einstaka stöðu á þessu sviði er losun gróðurhúsalofttegunda frá hverju mannsbarni á Íslandi með því mesta í heiminum eða um 17 tonn á ári. Þetta má að stærstum hluta rekja til umfangs áliðnaðarins hér á landi auk losunar frá vegasamgöngum og skipaflota. Á Íslandi eru samt mikil tækifæri til þess að þróa vistvæna orkugjafa sem smám saman gætu tekið við sem aðalorkugjafar ökutækja og skipa. Líta ber á útskiptingu innfluttra orkugjafa fyrir innlenda sem tækifæri til atvinnuuppbyggingar frekar en að einblína á neikvæð áhrif af hækkandi verði jarðefnaeldsneytis. Um leið og olíuverð hækkar verður flutningur um langar leiðir óhagkvæmari og hagur innlends iðnaðar og orkuframleiðslu vænkast.

Græn atvinnustarfsemi á Íslandi nær yfir vítt svið atvinnulífsins. Þar er m.a. um að ræða grænan iðnað sem er háður orkunýtingu, ýmiss konar hátækniiðnað, ferðaþjónustu, landbúnað, sjávarútveg og skapandi greinar, svo eitthvað sé nefnt. Áhugi erlendra aðila á að taka þátt í uppbyggingu verkefna á þessum sviðum fer vaxandi og skýrist m.a. af góðu aðgengi að endurnýjanlegri orku á samkeppnishæfu verði og háu almennu menntunarstigi í landinu. Vísbendingar um græna vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi er víða að finna.

Eitt þeirra sviða sem kalla má ótvírætt sóknarfæri fyrir hið græna hagkerfi á Íslandi er innlend framleiðsla á vistvænu eldsneyti. Spara mætti gjaldeyri fyrir á annan tug milljarða króna á hverju ári yrði Ísland sjálfbært hvað varðar orkuöflun. Á Íslandi eru mörg tækifæri til að skapa störf sem tengjast framleiðslu á vistvænu eldsneyti. Þar má nefna framleiðslu þar sem notast er við rafmagn, lífmassa, vetni, metan og metanól, svo eitthvað sé nefnt. Í þessu sambandi er minnisstæð og athyglisverð greining dansks atvinnuráðgjafa, Leos Christensens, sem hélt því fram á sl. ári að Ísland hefði einstaka möguleika á að ná alþjóðlegri forustu í framleiðslu á vistvænu eldsneyti úr lífmassa sem framleiddur er með ræktun sjávarþörunga. Christensen hélt því fram að í hafinu umhverfis Ísland væri að finna hina mestu útbreiðslu sjávarþörunga í heiminum. Auk þess njótum við ódýrrar orku sem er ótrúlega mikilvæg og í þriðja lagi er í hverunum okkar einstakt lífríki ríkt af örverum sem vísindamenn um allan heim sækjast eftir að vinna með í tengslum við líftækni. Annað dæmi sem þessi nefnd um græna hagkerfið mætti skoða er hvernig efla megi framleiðslu og notkun rafbíla og annarra hreinorkubíla á Íslandi, t.d. með því að opinberir aðilar noti slík farartæki fremur en hefðbundin ökutæki sem nýta jarðefnaeldsneyti.

Áhugi erlendra aðila á Íslandi sem ákjósanlegum fjárfestingarvettvangi fyrir græna atvinnustarfsemi hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Aukinn áhuga má m.a. rekja til hærra eldsneytisverðs á alþjóðamörkuðum sem horfur eru á að muni halda áfram að hækka. Jafnframt hefur áhrif að fyrirhuguð álagning kolefnisgjalda mun í fyrsta lagi hækka orkuverðið enn frekar í nágrannalöndum okkar og raunar í Evrópu allri og í öðru lagi auka þrýsting á orkufyrirtæki að færa sig úr kolefnaeldsneyti yfir í græna orku. Hvort tveggja eykur samkeppnishæfni grænnar orku frá Íslandi til notkunar í kolefnislausum iðnaði. Fjölmörg verkefni hafa verið til skoðunar sem tengjast fjárfestingu erlendra aðila í grænum orkuháðum iðnaði og vil ég nefna nokkur dæmi um slík verkefni.

Í fyrsta lagi má nefna framleiðslu á sólarkísil en mörg fyrirtæki í kísilframleiðslu fyrir sólarorkuiðnað hafa litið til Íslands sem mögulegs vettvangs fyrir starfsemi sína. Í öðru lagi nefni ég gagnaver en alþjóðleg samanburðarrannsókn ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey gefur til kynna að Ísland sé eitt fjögurra landa í heiminum sem hentar best fyrir slíka starfsemi. Í þriðja lagi hafa íslenskir og erlendir aðilar hug á því að setja upp allt að 100.000 m² gróðurhús til ræktunar á grænmeti til útflutnings. Í fjórða lagi er unnið að greiningu á samkeppnishæfni grænna iðngarða sem nýta orkustrauma frá jarðvarmaveitum. Slíkir garðar gætu orðið upphafið að myndun sérstaks klasa þar sem beitt væri aðferðum iðnaðarvistfræðinnar. Í samhengi við græna iðngarða er rétt að nefna framleiðslu á umhverfisvænu metanóli þar sem vetni kæmi út úr framleiðsluferlinu sem aukaafurð.

Virðulegi forseti. Ferðaþjónustan er ein mikilvægasta tekjulind þjóðarinnar og jafnframt þýðingarmikil fyrir hinar dreifðu byggðir landsins því að hún skapar störf um land allt. Framtíð ferðaþjónustunnar hvílir ekki síst á því að borin verði virðing fyrir menningu og náttúru landsins. Ferðaþjónustu á Íslandi er hagur af að áherslum á gæði umfram magn verði beitt. Þannig fer náttúruvernd og arðsemi vel saman. Ferðamenn gera sífellt auknar kröfur til þess að ferðaþjónusta sé umhverfisvæn. Í þeirri þróun liggur sóknarfæri fyrir íslenska ferðaþjónustu að því tilskildu að henni verði sett stefna og unnið eftir henni. Nota má umhverfisvænar áherslur mun meira í kynningu Íslands sem ferðamannalands. Staðsetning landsins miðja vegu milli Evrópu og Norður-Ameríku þýðir minni notkun eldsneytis við ferðir til og frá okkar landi en til ýmissa annarra staða sem laða til sín fjölda ferðamanna. Ég tel að nefndin um græna hagkerfið eigi m.a. að leggja mat á það hvort Ísland eigi að sækjast eftir umhverfisvottun m.a. í þeim tilgangi að styrkja græna ímynd landsins.

Á sama hátt eru skýrir snertifletir milli landbúnaðar og sjálfbærrar þróunar. Grænn landbúnaður er umhverfisvænn og að mestu lífrænn. Sóknarfæri liggja m.a. í trausti og vaxandi kröfum neytenda um hollar og góðar landbúnaðarafurðir sem framleiddar eru á sjálfbæran hátt.

Á sama hátt eru grænar áherslur í sjávarútvegi sem miða að sjálfbærri nýtingu fiskstofna, sjávarmassa og sjávarbotns kringum landið í þeirri merkingu að stofnar séu nógu sterkir til að skila hámarksafla til ókominna kynslóða en jafnframt að nota sem minnst af jarðefnaeldsneyti til að knýja fiskveiðiflotann. Íslenski fiskiskipaflotinn losaði um 17% þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losaðar voru hérlendis á árinu 2007. Brýnt er að draga úr þessari losun til að sjávarútvegur Íslendinga geti talist grænn.

Hér á Íslandi hafa um áratugaskeið staðið harðvítugar deilur um orkumál og nýtingu náttúruauðlinda en sú orka sem ekki kallar á fórnir náttúrugæða er skapandi orka frumkvöðla og listamanna í hinum ýmsu sköpunargreinum. Í nýlegri skýrslu frá Nýsköpunarmiðstöð Norðurlanda kemur fram það mat að hagvöxtur á næstu árum verði mestur í skapandi greinum. Mikilvægt er að efla að mun gagnasöfnun og hagskýrslugerð um hlutdeild skapandi greina í verðmætasköpun á Íslandi en margar vísbendingar eru um verulegan vöxt í þessum geira.

Ég hef hér að framan rakið nokkur sóknarfæri í einstökum atvinnugreinum út frá sjónarhóli græns hagkerfis. Það verður eitt af viðfangsefnum nefndarinnar að kortleggja þessi sóknarfæri nánar en jafnframt að leggja mat á hið opinbera stoðkerfi atvinnulífsins og hvernig bæta megi það til að ýta undir uppbyggingu græna hagkerfisins. Sérstaklega verði hugað að breytingum á lagaumhverfi fyrirtækja, skattumhverfi grænna fyrirtækja, hvötum til grænnar atvinnusköpunar o.s.frv. Mikilvæg forsenda græns hagkerfis á Íslandi er sjálfbær orkunýtingarstefna sem hefur að markmiði fjölbreytni í atvinnulífinu og efnahagslega áhættudreifingu. Slík stefna hvílir á því að næg orka sé til staðar til að nýta í þágu grænnar atvinnustarfsemi og þar þurfa stjórnvöld að hafa hugrekki til þess að velja og hafna og láta græna atvinnustarfsemi þar og framtíðarhagsmuni þjóðarinnar njóta vafans.

Sjálfbær þróun stendur og fellur með því að þjóðin sé meðvituð um ábyrgð sína sem vörsluaðili náttúrugæða landsins. Sjálfbær þróun verður ekki að veruleika nema þjóðin sé meðtækileg fyrir boðskapnum um sjálfbærni og þar er hlutur menntakerfisins afar mikilvægur. Nefndin mun því skoða hvernig menntakerfi okkar sinnir umfjöllun um umhverfismál, náttúruvernd og sjálfbæra þróun í námskrám einstakra skólastiga og meta hvernig ýta megi undir nám í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum.

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga byggir á þverpólitískri samstöðu allra stjórnmálaafla hér á Alþingi. Verkefnið felur í sér stefnumótun í atvinnumálum og tillagan er öðrum þræði viðleitni til að styrkjastöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu þegar kemur að grundvallarstefnumótun málaflokka. Hér er ekki um það að ræða að löggjafarvaldið framselji stefnumótunarhlutverk sitt til framkvæmdarvaldsins. Þess í stað munu allir flokkar á þinginu setjast niður og vinna sameiginlega tillögugerð um hvernig skjóta megi nýrri stoð undir atvinnustarfsemina í landinu til hliðar við þær greinar sem nú skapa mestar útflutningstekjur.



[15:33]
Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Skúli Helgason flytur. Það er greinilega mikil sátt um þessa tillögu vegna þess að hátt í þriðjungur þingmanna stendur að henni og er það eðlilegt þar sem málefnið er mjög gott í alla staði.

Umræðan og ræða hv. þingmanns eru í beinu framhaldi af því sem rætt var fyrr í dag í utandagskrárumræðu um umhverfismál þar sem flestir voru sammála um nauðsyn þess að gæta vel að umhverfismálum bæði í atvinnulífi og ekki síður í samgöngumálum til að tryggja að til verði heildstæð stefna í grænu hagkerfi, við megum alls ekki gleyma samgöngunum í því samhengi.

Ég styð heils hugar að nefndin verði sett á laggirnar og fagna sérstaklega því hlutverki hennar sem lagt er til í tillögunni, með leyfi forseta:

„Nefndin skal m.a. gera tillögur um stjórnvaldsaðgerðir og úrbætur á stoðkerfi atvinnulífsins sem ýtt geti undir vöxt græna hagkerfisins auk þess að leita leiða til að samþætta hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar almennri ákvarðanatöku í efnahags- og atvinnumálum.“

Þetta kemur heim og saman við niðurstöður þjóðfunda í landshlutum sem haldnir voru fyrr í vetur undir merkjum Sóknaráætlunar fyrir Ísland. Niðurstaðan eftir þá átta þjóðfundi var sú að almennt er kallað eftir stjórnvaldsaðgerðum til að hægt sé að hrinda í framkvæmd vistvænni og grænni atvinnustarfsemi. Það segir m.a. í niðurstöðum sem kynntar voru á fundi á Akureyri fyrr í vetur að ríkisvaldið þurfi að koma verulega inn í eflingu og viðhald á grunngerð ferðaþjónustu og hlúa að þekkingu, rannsóknarstarfi og sérstaklega að orkunýtingu.

Niðurstöður þessa þjóðfunda leiða í ljós svo að ekki verður um villst að menn binda miklar vonir við það að sóknarfæri Íslendinga séu í hreinni orku, orkunýtingu, þekkingu og öðru sem snýr að því sem kallað hefur verið grænt hagkerfi. Það er reyndar athyglisvert þegar maður skoðar niðurstöðurnar, sem eru aðgengilegar á slóðinni www.island.is, og verður án efa mjög gott innlegg í starf þessarar nefndar, ef af henni verður, að talsvert meiri áhugi er á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu á að efla það sem heitir græn orka, grænar samgöngur og þekkingariðnaður. Úti á landi er megináhersla lögð á að menn líti á helstu sóknarfæri einstakra landshluta í ferðaþjónustu en, eins og hv. þingmaður kom inn á, er ferðaþjónusta mikilvægur liður í því sem skilgreina má sem grænt hagkerfi.

Það vekur einmitt athygli ef maður lítur á þessar niðurstöður að mjög fáir binda vonir við stóriðju. Mjög fáir nefna stóriðju sem helsta sóknarfæri Íslands eða einstakra landshluta í framtíðinni, það er meiri áhersla á það sem við köllum grænt hagkerfi. Þegar talað er um stóriðju er m.a. rætt um sólarkísilframleiðslu sem við flokkum sem stóriðju en við verðum auðvitað að hafa hugfast að stóriðja er ekki það sama og stóriðja og sum stóriðja er beinlínis mjög væn og græn.

Samkeppnishæfni þjóða byggist fyrst og fremst á því hvernig þeim tekst að nýta þær auðlindir sem þær hafa. Við höfum borið gæfu til að nýta auðlindir okkar ágætlega þótt betur megi gera. Ég held að þessi þingsályktunartillaga þar sem lögð er sérstök áhersla á að efla það sem heitir grænt hagkerfi sé mjög skynsamleg viðbót við það sem nú þegar er unnið að á vettvangi sóknaráætlunar og í samræmi við rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða og fleiri áætlanir sem hafa verið ræddar í þinginu undanfarna daga.

Ég styð eindregið þessa hugmynd og vonast til að sjá þessa nefnd verða að veruleika sem fyrst og að þingið muni sammælast um að koma í gegn þeim hugmyndum sem nefndin leggur fram.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til iðnn.