139. löggjafarþing — 77. fundur
 23. feb. 2011.
samkeppnislög, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 131. mál (aukið aðhald og eftirlit). — Þskj. 705, frhnál. 793 og 874.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:44]

Frv.  samþ. með 28:12 atkv. og sögðu

  já:  AtlG,  ÁI,  ÁPÁ,  ÁsmD,  ÁRJ,  BVG,  EyH,  GStein,  JóhS,  KaJúl,  KLM,  LRM,  LMós,  MSch,  MT,  MÁ,  OH,  ÓGunn,  SER,  SII,  SkH,  SJS,  VBj,  ÞSa,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ,  ÖS.
nei:  ÁJ,  ÁsbÓ,  BÁ,  BjarnB,  EKG,  JónG,  KÞJ,  ÓN,  REÁ,  RR,  SKK,  TÞH.
1 þm. (VigH) greiddi ekki atkv.
22 þm. (ÁÞS,  BirgJ,  BJJ,  BjörgvS,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HHj,  HöskÞ,  JBjarn,  JRG,  KJak,  ÓÞ,  PHB,  RM,  SDG,  SIJ,  SF,  SSv,  UBK,  ÞKG,  ÞSveinb) fjarstaddir.
7 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[14:36]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Allar þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu á samkeppnislögunum eru íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu. Lengst gengur sú tillaga að heimila Samkeppniseftirlitinu að brjóta upp fyrirtæki í landinu án þess að þau hafi gerst brotleg við samkeppnislög, önnur lög eða yfir höfuð gert nokkurn skapaðan hlut af sér. Færustu sérfræðingar landsins á sviði samkeppnisréttar hafa við meðferð málsins gefið þessu frumvarpi þá einkunn að það séu verulegar líkur á því að ákvæði þess brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár, þar sé um að ræða óheimilt framsal valds til Samkeppniseftirlitsins, uppbrotsheimildin sé matskennd, óljós og óskýr og frumvarpið ekki til bóta. Þegar (Forseti hringir.) frumvarp eins og þetta hefur fengið slíka falleinkunn hljóta alþingismenn að hafa manndóm og burði til að sjá að þetta frumvarp (Forseti hringir.) verður að fella þannig að þingmenn Sjálfstæðisflokksins munu segja nei í þessari atkvæðagreiðslu.



[14:37]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er fest í lög heimild til handa Samkeppniseftirlitinu til að brjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki ef ástæða þykir til. Það liggur ljóst fyrir að þeirri heimild verður beitt af hófsemi enda um að ræða íþyngjandi ákvörðun og algjörlega ljóst að Samkeppniseftirlitið mun þurfa að rökstyðja slíkar ákvarðanir. Löggjöfin á sér fyrirmynd í löggjöf nágrannalanda okkar og í landi eins og Íslandi þar sem fákeppni er almennt ráðandi á flestum mörkuðum á hún meira erindi en í flestum öðrum löndum (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og það er engin vörn fyrir atvinnulíf í landinu að vera ofurselt fákeppni, þvert á móti er samkeppni lykill að framförum.



[14:38]
Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það hefur komið mjög vel fram í nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna þessa máls hvað það er sem við í Sjálfstæðisflokknum erum einkum ósátt við. Það er hið frjálsa mat Samkeppniseftirlitsins með samkeppnishindrunum og þær víðtæku heimildir sem eftirlitið hefur til þess m.a. að brjóta upp fyrirtæki án þess að héðan frá þinginu fylgi nein skýr fyrirmæli eða sérstök viðmið um það í hvaða tilvikum slíkt ætti að koma til greina. Þetta setur rekstur fyrirtækja í mikla óvissu. Ég er á engan hátt ósammála hæstv. viðskiptaráðherra um að við eigum að reyna að efla samkeppni í landinu en við eigum líka að reyna að efla vissu og treysta almennt rekstraröryggi fyrirtækjanna og fyrirsjáanleika (Forseti hringir.) um framtíð þeirra þannig að menn séu tilbúnir til að taka áhættu og leggja sitthvað á sig án þess að eiga von á inngripum frá stjórnvöldum. (Gripið fram í.)



[14:40]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er verið að gefa Samkeppniseftirlitinu heimild til að skipta upp fyrirtækjum ef staða þeirra felur í sér alvarlega röskun á samkeppni. Hagsmunir neytenda liggja þar ætíð til grundvallar, fyrirtækjunum verður ekki skipt upp ef það er til hagsbóta fyrir neytendur að fyrirtækin séu stór og geti þannig notið stærðarhagkvæmni, t.d. í innkaupum eða rekstri. Það er hins vegar einkennilegt, það stöðumat sem birtist í nefndaráliti sjálfstæðismanna sem segja stóran hluta íslenskra fyrirtækja þurfa að óttast þessa löggjöf. (SKK: Þetta er rangt.) Það eru ótrúleg skilaboð frá íhaldsflokknum vegna þess að um leið er verið að segja að stór hluti íslenskra fyrirtækja njóti í dag einokunarhagnaðar, að þau innbyrði hagnað á kostnað neytenda, á kostnað virkrar samkeppni. (SKK: Túlka þú bara þínar eigin skoðanir, ekki annarra.) Ef þetta er rétt mat hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins vil ég segja þetta: Röksemdir þeirra gegn frumvarpinu eru bestu hugsanlegu rök fyrir frumvarpinu. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsal.)



[14:41]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla um skoðanir hv. þm. Magnúsar Orra Schrams í þessari stuttu atkvæðaskýringu. Ég verð þó bara að segja að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum í þessari umræðu reynt að nálgast málið málefnalega, fara í efnisatriði þess og sneiða hjá þeim innantómu frösum sem hafa einkennt málflutning sumra annarra flokka í þessari umræðu þar sem menn hafa sneitt hjá því að ræða hin eiginlegu efnisatriði og skreytt sig stöðugt með yfirlýsingum um að þeir vilji hagsmuni neytenda án þess að geta útskýrt hvernig þessar lagareglur eiga að virka í því skyni. Það sem málið snýst um er að hér eru lagðar til afar víðtækar heimildir samkeppnisyfirvalda til inngripa, ekki í tilvikum þar sem fyrirtækin hafa brotið lög, ekki í þeim tilvikum þar sem þau hafa misbeitt markaðsráðandi stöðu sinni eða annað sem bannað er samkvæmt samkeppnislögum. Nei, fyrirtækin eiga von á íþyngjandi aðgerðum af hálfu samkeppnisyfirvalda, verði þetta frumvarp að lögum, þrátt fyrir að þau hafi ekkert brotið af sér. (Forseti hringir.)



[14:42]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta eru vissulega víðtækar heimildir sem Samkeppniseftirlitinu verða veittar. Það mun farið með þær af þeirri hófsemi sem sagt er í nefndaráliti að eigi að gilda um það. Ég hef álit á þeim sem reka fyrirtæki hér á landi og ég tel að þeim verði enginn vandi að starfa innan þess ramma sem þarna er settur. (Gripið fram í.)

Þar fyrir utan er samkeppni besti vinur neytendanna þannig að í þessu tilfelli er enginn vafi í mínum huga um að segja já.



[14:43]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Að mínu mati takmarkast eignarrétturinn við það þegar hann er farinn að valda öðrum tjóni. Það er nákvæmlega það sem þetta ákvæði gengur út á og er það sem hefur verið mest umdeilt innan nefndarinnar, þ.e. ef fyrirtæki verða uppvís að því að stunda þannig starfshætti að þau valdi almenningi tjóni.

Þess vegna verð ég að segja í atkvæðaskýringu minni að ég stoppa við það þegar fulltrúar ákveðinna stjórnmálaafla fóru í ræðustól fyrr í dag og töluðu fjálglega um lærdóminn sem við eigum að draga af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar — og greiða síðan atkvæði gegn þessu máli. Í skýrslunni var einmitt lögð (Gripið fram í.) mikil áhersla á það að eftirlitsstofnanir væru ekki að festa sig endilega bara við lagabókstafinn heldur hefðu heimildir til að fylgja eftir (Forseti hringir.) anda laganna. Það er ætlunin með þessum lögum. [Kliður í þingsal.]



[14:44]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill geta þess að það er ekki umræða í gangi heldur atkvæðaskýringar.