139. löggjafarþing — 96. fundur
 17. mars 2011.
Evrópuráðsþingið 2010, ein umræða.
skýrsla ÍÞER, 605. mál. — Þskj. 1025.

[15:18]
Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2010.

Málaflokkar sem settu mestan svip á starfsemi Evrópuráðsþingsins á árinu voru fólksflutningar og málefni innflytjenda, flóttamenn og þjóðernisminnihlutahópar, aukinn viðgangur öfgastefnu í Evrópu, jafnréttismál og málefni kvenna og að lokum heimskreppan svokallaða.

Af þessum málaflokkum voru málefni innflytjenda, flóttamanna og þjóðernisminnihluta hvað fyrirferðarmest og lýsti þingið þungum áhyggjum af þróun mála í álfunni hvað þessa hópa varðar. Má þar sérstaklega nefna stöðu sígauna en í utandagskrárumræðum í október gagnrýndi Evrópuráðsþingið harðlega brottvísanir franskra yfirvalda á sígaunum. Heimskreppan hefur komið þungt niður á innflytjendum og minnihlutahópum sem oftar en ekki eru fyrstir til að missa atvinnu og verða að auki fyrir auknum fordómum þegar efnahagsástand versnar. Á sama tíma leiðir kreppan til aukinna flutninga fólks frá fátækari ríkjum álfunnar til hinna ríkari í leit að tryggari efnahagslegri framtíð. Í þessu sambandi lýsti þingið sérstökum áhyggjum af aukinni velgengni stjórnmálaflokka sem byggja stefnu sína á lítt duldum kynþáttafordómum og áréttaði að skylda stjórnmálamanna væri að leyfa ekki fordómum að lita stjórnmálaumræðu og gera ekki innflytjendur og aðra minnihlutahópa að blórabögglum. Á sama tíma taldi þingið að einnig þyrfti að leita leiða til að bæta efnahagsástand í fátækari ríkjum álfunnar.

Jafnréttismál og málefni kvenna voru einnig áberandi í starfi Evrópuráðsþingsins á árinu. Lýsti þingið m.a. stuðningi við nýlegar tillögur franskra félagasamtaka þess efnis að réttindi kvenna í Evrópusambandinu öllu miðaðist við framsæknustu löggjöf á sviði jafnréttis kynjanna sem í gildi er hverju sinni innan ríkja sambandsins, og hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að koma á umbótum til að tryggja frekar jafnrétti kynjanna. Einnig áréttaði þingið mikilvægi þess að sporna við svokölluðum „heiðursdrápum“.

Hvað varðar réttindi annarra minnihlutahópa áréttaði Evrópuráðsþingið mikilvægi þess að tryggja möguleika fatlaðra til fullrar atvinnuþátttöku sem og fatlaðra barna til að njóta sömu menntunar og ófötluð börn. Í október ýtti þingið svo úr vör nýrri herferð gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.

Þá ályktaði Evrópuráðsþingið um ýmsa umdeilda atburði sem áttu sér stað í alþjóðasamfélaginu á árinu. Má þar nefna árás Ísraelshers á skipalest sem flytja átti hjálpargögn til Gaza-strandarinnar en þingið komst m.a. að þeirri niðurstöðu að aðgerðir Ísraels hefðu falið í sér brot á alþjóðalögum. Einnig má nefna harðvítug átök milli þjóðernishópa í Fergana-dalnum og deilur um úrslit forsetakosninga í Íran. Í lok árs vakti svo ný skýrsla svissneska þingmannsins Dicks Martys um meinta ómannúðlega meðferð á fólki og smygl á líffærum í Kósóvó mikla athygli. Í skýrslunni er núverandi forsætisráðherra Kósóvó m.a. sakaður um náin tengsl við skipulögð glæpasamtök.

Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins kynnti hugmyndir sínar að umbótum á uppbyggingu og starfsemi stofnunarinnar á árinu en meginmarkmið þeirra er að styrkja pólitísk áhrif Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins og auka skilvirkni hennar og sýnileika. Í því sambandi skipaði Evrópuráðsþingið nefnd til að fylgjast með umbótaferlinu og halda sjónarmiðum þingsins á lofti. Leggur þingið áherslu á að hlutverk þess verði styrkt, m.a. með vísan til hins aukna vægis sem Evrópuþinginu hefur hlotnast eftir gildistöku Lissabon-sáttmálans.

Á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu gekk 14. samningsviðauki við mannréttindasáttmála Evrópu í gildi í júní eftir að Rússland varð 47. og síðasta ríkið til að fullgilda hann. Er búist við að gildistaka viðaukans muni létta á vinnuálagi dómstólsins en um 30% kæra sem berast dómstólnum varða meint brot rússneska ríkisins á ákvæðum sáttmálans.

Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Til þess beitir ráðið sér fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki. Mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök og ber þar hæst mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu.

Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa pólitíska heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.

Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu fastanefndum og 24 undirnefndum þeirra en einnig starfa í þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Stjórnarnefnd kemur saman til fundar á sama tíma og þing eru haldin og á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið er haldið.

Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.

Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:

eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,

hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á, og

vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.

Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða álitum er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin.

Störf Evrópuráðsþingsins hafa bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið, þ.e. þing Evrópusambandsins. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem orðið hefur eftir lok kalda stríðsins. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

Virðulegi forseti. Í upphafi árs 2010 voru aðalmenn Íslandsdeildar sú sem hér stendur og gegndi jafnframt formennsku, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem var varaformaður, og Birkir Jón Jónsson. Varamenn voru Þuríður Backman, Magnús Orri Schram og Eygló Harðardóttir. Þann 27. október 2010 tók Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sæti Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur í nefndinni. Magnea Marinósdóttir var ritari Íslandsdeildar til ágústloka og Kjartan Fjeldsted frá byrjun september.

Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu þar sem þátttaka í þingfundum Evrópuráðsþingsins var undirbúin. Hvað viðvíkur trúnaðarstörfum fyrir þingið gegndi sú sem hér stendur formennsku í Íslandsdeildinni ásamt því að vera í embætti varaforseta líkt og á árinu 2009. Einnig hafði sú sem hér stendur tvívegis orð fyrir flokkahópi sameinaðra evrópskra vinstri manna á þingfundum, í umræðu um starfsemi OECD og um stöðu sígauna í Evrópu.

Þá átti Íslandsdeildin tvíhliða fundi með landsdeildum Norðurlandanna og Þýskalands í janúar til að skýra þeim frá stöðu mála í Icesave-deilunni við Bretland og Holland.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum geta þess að Íslandsdeildin er sammála um nauðsyn þess að bæði aðalmenn og varamenn sæki Evrópuráðsþingið en fram til þessa hafa aðeins aðalmennirnir þrír sótt þing Evrópuráðsþingsins ársfjórðungslega. Ástæðan fyrir því að við teljum nauðsynlegt að héðan fari sex þingmenn á Evrópuráðsþingið en ekki þrír er sú að þeir þrír sem sækja þingið ná ekki að sækja alla þá nefndarfundi sem Íslandsdeildinni ber að sækja á meðan á dvöl hennar í Strassborg stendur. Sú staðreynd dregur verulega úr möguleikum Íslandsdeildarinnar til að hafa stefnumótandi áhrif á þau mál sem eru rædd á þinginu. Við höfum jafnframt komist að því, frú forseti, að við erum sennilega eina landsdeildin sem sendir aðeins aðalmenn á þing Evrópuráðsins. Það er því von okkar sem höfum gegnt embættum aðalmanna Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins að þingið sjái sér fært að senda ekki einungis þrjá aðalmenn heldur jafnframt þrjá varamenn á þing Evrópuráðsins.