139. löggjafarþing — 130. fundur
 19. maí 2011.
tannvernd barna.

[10:47]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég beini spurningum til hæstv. velferðarráðherra í tengslum við tannvernd barna en ég hef trú á því að við öll hér inni viljum efla og auka tannvernd barna okkar.

Nú er hins vegar auglýst, m.a. úti á landsbyggðinni, að boðið sé upp á ókeypis tannlæknaþjónustu fyrir börn efnaminni foreldra og er Háskóla Íslands, þ.e. tannlæknadeildinni, ætlað að sjá um það verk. Ég tel um leið og við segjum að það sé gott og gilt að efla tannverndina að þessi leið sé varhugaverð. Ef menn vilja efla Háskóla Íslands og tannlæknadeildina er þetta ekki rétta leiðin til þess og ef menn vilja auka og efla tannvernd barna er þetta ekki heldur rétta leiðin til þess.

Ég vil spyrja ráðherra í fyrsta lagi: Af hverju í ósköpunum var þetta verkefni ekki falið sjálfstætt starfandi tannlæknum og greiðslur síðan tryggðar úr Sjúkratryggingum? Þetta á að vera auðvelt. Nú eru öll þessi málefni undir sama þaki þannig að það ættu að vera hæg heimatökin hjá ráðherra að ákvarða þetta.

Í öðru lagi: Er ráðherra sammála því að senda barn af landsbyggðinni, t.d. frá Ísafirði, frá Akureyri, frá Húsavík, með ærnum tilkostnaði, hugsanlega aukakostnaði upp á allt að 60 þús. kr. vegna fylgdarmanns til Reykjavíkur, til að fá tannlæknaþjónustu? Er ráðherra sáttur við þetta verklag, fyrir utan þá hættu sem það býður heim varðandi einelti í skólum, að taka barn úr skóla t.d. á Ísafirði, á Húsavík og senda það suður af því að það hefur ekki efni á að leita til tannlæknis á heimasvæði?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaðan koma peningarnir? Hvaðan kemur fjármagnið, þær 150 millj. sem þetta á að kosta? Er þetta tekið úr öðrum sjóðum, þ.e. úr öðrum potti sem á að fara til tannlækninga? Bitnar þetta á öðrum eða er um nýtt fjármagn og nýja peninga að ræða?



[10:49]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur komið í ljós á undanförnum missirum og hefur verið í umræðu í nokkur ár að tannvernd barna og tannvernd almennt á Íslandi hefur verið einn veikasti þátturinn í heilbrigðiskerfinu. Ýmsar skýringar eru á því og fyrst og fremst kannski hefur maður haft áhyggjur af því að tannlæknaþjónustan er einkavædd hjá okkur og það hefur gengið illa að ná samningum um með hvaða hætti veita eigi þjónustu af hálfu ríkisins. Menn sögðu sig frá samningi fyrir margt löngu. Svo náðist samkomulag um að vera með forvarnaþjónustu. Ákveðnir aldurshópar hafa fengið ókeypis tannvernd óháð því hvar hún er veitt. Þá náðist samkomulag um hvaða verð ætti að greiða fyrir slíka þjónustu.

Nú er það þannig að 40% hafa sagt sig frá samningi hvað þetta varðar og það er auðvitað mismunandi á hvaða svæðum þeir eru. Þeir hafa ekki einu sinni tekið þátt í því að bjóða upp á fyrirbyggjandi þjónustuna. Þetta er gríðarlegt vandamál og mikið áhyggjuefni að við skulum ekki geta boðið upp á heildarþjónustu. Helst hefði ég viljað sjá að tannlæknaþjónusta barna væri greidd að fullu eins og önnur heilbrigðisþjónusta er greidd að fullu af ríkinu. Þar höfum við haft fjármagn sem hefur numið því að við hefðum getað boðið upp á allt að 75% þátttöku í tannvernd barna, tannheilsu, sem sagt öllum viðgerðum, en vandamálið er eins og ég hef áður komið að í ræðustól að meðan einn býður 10 þús. kr. og annar 15 þús. í sama verk og við erum að reyna að lofa 75% af einhverju þá gengur þetta ekki upp. Ég hef heitið á tannlækna að koma að þessu borði og vinna með okkur í að finna lausn á þessu.

Það er rétt sem hér kemur fram að við höfum brugðist við þessu neyðarástandi, sem ég tel vera, varðandi tannvernd barna og það að fólk hefur ekki efni á að fara til tannlæknis með því að bjóða upp þessa þjónustu. Þetta var að frumkvæði tannlæknadeildar á sínum tíma og hefur verið gert áður. Nú er þetta gert öðru sinni. Það er alveg rétt að það eru vankantar á þessu. Ef til vill hefðum við átt að auglýsa eftir því hvort menn vildu koma og vinna þessa þjónustu á ólíkum stöðum á sama verði og þarna er boðið þar sem menn leggja til tannlæknastólana sem eru til í Tanngarði, auglýsa eftir tannlæknum sem vildu koma og þjónustu okkur. (Forseti hringir.) Til að jafna stöðuna var boðið upp á að endurgreiða ferðakostnaðinn en það er alveg rétt að það er ekki jafnræði þar á milli landshluta. Ég kem kannski betur að því í síðara svari.



[10:51]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég saknaði nú svara við spurningum mínum. En ef þetta er neyðarástand er ekki verið að bregðast við varðandi erfiða tannheilsu barnanna. Það er ekki verið að horfa á börnin heldur kerfið. Hagsmunir kerfisins ganga framar tannheilsu barna og það er hættulegt upp á félagslegt umhverfi að taka börn úr sínu heimasvæði, úr skólum, og þar með bjóða hættunni heim að þau fái þann stimpil að þau séu fátæk eins og rætt er um.

Það kemur mér ekki á óvart að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þessi vinstri stjórn, skuli feta þá braut að ríkisvæða tannlækningar. Og það sem hæstv. ráðherra er að segja hér, að það náist ekki samningar við tannlækna. Hvers konar fullyrðingar eru þetta? Á þá bara að setja allt heila klabbið undir Háskóla Íslands af því að ekki er hægt að semja við tannlækna? Ráðherra ber skylda til að ná bæði samningum við tannlækna en ekki síst að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Þessi lausn er einungis til þess gerð að friðþægja þessa ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Þetta er ekki heildarlausn til framtíðar fyrir tannheilsu barna.



[10:52]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að segja að ég er orðinn þreyttur á því þegar menn nota börn endalaust til að berjast fyrir hagsmunum og kjarabaráttu einstakra starfsstétta. (Gripið fram í.) Ég var skólastjóri í 26 ár og það þarf ekkert að vera að draga það fram að það sé eineltisspursmál að senda börn einhvers staðar í tannlæknaþjónustu utan heimabyggðar, það er bara verið að búa til storm í vatnsglasi. Það þori ég að segja sem uppeldismenntaður skólastjóri sem veit hvað er verið að tala um. Það breytir ekki því að sem landsbyggðarmaður vil ég fá þessa þjónustu út á land. Það breytir heldur ekki því að ég vil ekki þurfa að senda menn til tannlækna … (Gripið fram í.) Ég vil þá fá svör frá þeim sem hér eru: Hvernig stendur á því að það eru tíu ár sem við höfum verið án samninga og við höfum ekki ráðið við þetta? Af hverju þegar góðærið var, þegar við höfðum alla peninga og skilyrðin? (Gripið fram í: Þú ert ráðherra …) Nú er ég með þá og er að vinna í þessu og mun beita mér fyrir því [Frammíköll í þingsal.] af fullum krafti. Ég skora á ykkur að koma með okkur í liðið að berjast fyrir því að tannlæknar komi á samning og við bjóðum upp á þessa þjónustu. Ég hef ekki viljað ríkisvæða tannlækningar, hef sagt það við tannlækna. Ég vil halda óbreyttu kerfi en þá verða þeir að koma í liðið. (Gripið fram í: … peningarnir?) Þeir koma frá okkur sameiginlega og þeir koma af þeim peningum sem eru í Sjúkratryggingum til tannlækninga og fara í það að vinna fyrir börn með miklu ódýrari hætti en annars, fyrir barnahópinn nákvæmlega eins og til var ætlast. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[10:54]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma þess sem er í ræðustól.